Færsluflokkur: Bloggar
24.2.2009 | 03:16
Þjóð í vanda
Sefurðu þjóð mín?
Sefurðu þjóð mín, þegar þú átt að vaka?
Nú hjúfrar sig ljóðbarn að hjarta þínu. (Svona hefjast ljóðlínur Jóhannesar úr Kötlum í ljóðinu ,,Tröllið á glugganum")
Það er vá fyrir dyrum. Kæru vinir og samlandar. Hugsum. Látum ekki blekkjast af innantómum loforðum gömlu flokkanna. Nú er kapphlaupið um völdin aftur að hefjast. Sundurþykkja, vélabrögð, óheilindi, baknag, skemmdaverk og viðurstyggileg myrkraverk eru í kortunum þessa daga. Það er ekki verið að vinna í að hugga hrellda þjóð. Það er ekki verið að binda um sár þeirra sem hafa orðið fyrir skaða. Það er verið að undirbúa nýja yfirtöku á þrotabúinu Íslandi.
Þú þjóð sem barðist við drauga í þúsund ár þekkirðu ekki drauginn á glugganum? (Jóh.úr K.)
Það er draugur á glugganum hjá okkur. Hann horfir inn um gluggann á börnin okkar og kveður:
,,Djúpan vóð ég Íslands ál
ekki af baki dottinn.
Komdu, komdu, sál og sál
og hjálpa mér um mannakjöt í pottinn. (Jóh. úr. K)
Einu sinni var það svo ég ég hafði á tilfinningunni og trúði því í einlægni að Íslendingar ættu sameiginlega þetta fagra land. ,,Þetta fagra land hefur fóstrað mig og þig fagra Ísland, Ísland er landið þitt. " (V. S. ) Já, landið var fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar.
Hlíðin er fögur og ég fer ekki rassgat! Ég vil ekki láta flæma mig af landi brott fyrr en í fulla hnefana. Það harðnar á dalnum. Lánin mín hækka. Skuldabyrðin mín vex. Ég eys lekan bátinn á meðan ég lífsanda dreg. En hvert ætla ráðamenn að fara með okkur? Hver er raunverulega við stjóra? Hver gætir að öldunum? Hefur einhver landsýn? Hver er í stafni? Hver er í mastrinu? Hvað er í alvörunni að gerast? Vill einhver vera svo vænn að segja mér það? Plííís!
Eina planið sem ég hef í höndunum er myndasaga frá stjörnuspekingi föst við segul á ísskápnum hjá mér og hún er harla trúverðug þegar farið er að rýna í hana.
Hvar er planið þeirra sem eiga að stjórna núna? Hvert planið þegar kosningar eru afstaðnar? Hver er núna að plotta hvað á bakvið tjöld eða í reykmettuðum samskiptaathvörfum vítt og breitt um borg og bý. Út með sjó og í uppsveitum. Upp til dala og hárra fjalla?
Hver er að díla við hvern núna? ,,Ef þú gerir þetta og þetta þá skulum við sjá til þess að þú fáir þetta og þetta , en ef þú gerir það ekki þá er ég hræddur um að upplýsingar sem við höfum verði gerðar heyrinkunnar og þá þýðir ekkert elsku mamma neitt. Er þetta þá díll? Ókei. Vertu þá memm!
Hljómar kunnuglega - ekki satt?
Þetta heldur bara áfram. Að minnsta kosti þá óttast ég það mjög. Enn fremur óttast ég að siðbótin og umbreytingarnar verði settar á hóld og tékkað á því hvort ekki sé unnt að endurhanna kerfið til þess að Íslendingar fái aftur gamla góða gúbbífiskaminnið sem mörgum verður tíðrætt um.
Ég er a.m.k. ekki með gúbbífiskaminni. Ég man og við eigum öll að muna.
Takið eftir því góðir hálsar að á næstu vikum verður af kappi farið að rifja upp gömul kosningaloforð og svik og trommað upp með enn ný loforð sem koma til með að lúkka helvíti flott á plakati!
ESB verður látið líta út eins og bjargræði aldarinnar og eina leiðin til að koma hér upp föstu gengi og afnema verðtryggingu er að ganga í tröllahendur vina okkar í Evrópusambandinu.
Vinir okkar í ESB eru ekki í góðgerðarstarfsemi. Þeir eru bisniss og sjá hér tækifærin blasa við. Þeir sjá orkuauðlindirnar okkar, sjávarfangið, hreina loftið, tæra vatnið, náttúruna, kraft vindanna, brimsins, fallaskiptanna, fegurð fjallanna, og allt það hugvit og þá skapandi vitund sem finnst hér á landi.
Nú þegar þjóðin er svo gott sem farin á hausinn þá hugsa þeir gott til glóðarinnar.
Danir ryksuguðu upp allt sem hér var að hafa fyrr á öldum. ,,Kaupmannahöfn er lýst upp með íslenskum grút," sagði Jón Marteinsson í Íslandsklukkunni og já, héðan voru flutt matvæli, fiskur, niðursöltuð rjúpa á tunnum í tonnatali, brennisteinsnámur voru gjörnýttar og á meðan var fleygt í okkur drasli af einokunarkaupmönnum sem ekki einu sinni danskir landsbysidioter mundu hafa fleygt fyrir hundana sína. Enda gulrófurnar sem okkur þykja svo skellandi góðar með slátrinu og saltkjötinu ekkert nema svínafóður hjá Danskinum. Á misjöfnu þrífast börnin best að minnsta kosti á Íslandi.
Ef við hefðum ekki losnað frá Dönum þá væru þeir sjálfsagt ennþá að moka til sín nema þeir væru búnir að klára allt dæmið. Gjörvöll Kaupmannahöfn og nágrenni væri lýst upp með rafmagni frá Íslandi. Og uppistaðan í dönskum bjór væri hreint íslenskt ölkelduvatn.
Baráttumál Íslendinga á næstu árum verður baráttan um sjálfstæði þjóðarinnar. Að velja á milli þess hvort við erum sjálfstæð þjóð eða hvort við verðum smáþjóð í krumlum stærri þjóðar.
Við erum kannski ekki í sem bestri samningsstöðu, þökk sé peningamálastefnu fyrri ríkisstjórna og fyrirgangi auðjöfra á erlendri grundu. En við skulum horfast í augu við stöðuna eins og hún blasir við.
Þjóðin er í Tröllahöndum og þegar tröllin ná á okkur taki þá fer um smáþjóð eins og Íslendinga að þeir verða eins og smádýr í höndum þursa sem kyrkja þau smátt og smátt í greip sinni þar til þau missa allan mátt. Líf þeirra hangir á bláþræði um stund og síðan gefur það frá sér síðasta andvarpið, augun standa á stilkum og líf þeirra slokknar eins og týra á kertisstubb og ekkert eftir nema útbrunnið skar.
Náttröll eru þeirrar náttúru að þau verða að steini um leið og sólin kemur upp. Við - þjóðin sem hefur þraukað hér á ísa köldu landi í þúsund ár erum þau einu sem geta kveikt sólarljósið aftur og þegar það kviknar og ný sól Íslands rís við dagsbrún þá verða náttröllin að steini.
Íslandssólin nýja er vonin í brjósti okkar. Vonin ein er það síðasta sem má slokkna í brjóstum okkar.
Ný sól mun rísa þegar okkur tekst með samvinnu góðra manna og kvenna að snúa pólitískri hugsun þjóðarinnar inn á nýjar brautir. Þegar okkur tekst að reisa nýtt lýðveldi úr rústunum eftir þursana sem hafa troðið niður íslenskan svörð, íslenska vitund og íslenskt þjóðarstolt. Þursana sem hafa fótum troðið góð og göfug gildi og farið fram með slíkum dólgsskap að furðu vekur heims um ból.
Nú máttu þjóð mín ekki sofa heldur vaka á verðinum og koma í veg fyrir að þursarnir sölsi undir sig allt aftur og hneppi okkur í ánauð peningahyggjunnar. Láttu ekki blekkjast af glópagulli auðvaldsins.
Hamingjan felst ekki í því að trúa þeirri blekkingu að við verðum sjálfkrafa innvígð í hóp hinna velmegandi þótt við kjósum aftur strákana í bláu skyrtunum og dökku jakkafötunum. Þeir hafa engan áhuga á því að gera okkur kleift að hafa það betra. Þeir hafa bara áhuga á sjálfum sér.
Þeirra hugmyndafræði er eigingirni, sérplægni, yfirráð, misskipting. Þeir eru ígildi höfðingjana sem Mónarkíið í Kaupinhafn setti yfir okkur á sínum tíma.
Við erum hin kúguðu og undirokuðu. Svo ég vitni nú í nóbelsskáldið: ,,Feitur þjónn er ekki mikill maður, barinn þræll er mikill maður því að í brjósti hans býr frelsið."
Kapítalisminn gerir hina ríku ríkari og fátæku fátækari. Það er höfuðtilgangur þeirra ríku að græða peninga og þá skipta aðferðirnar engu máli á meðan tilgangurinn helgar meðalið.
Þjóð mín - nú þarftu að vaka. Nú mátt þú ekki sofna. Þursarnir hafa nefnlega lag á að svæfa okkur og líkar það best þegar við göngum um í dásvefni trúandi því að allt sé svo frábært af því við höfum það betra en fólkið í pappakössunum niðri í Malaví.
Það er kannski þess vegna sem þeir vilja fjölga brennivínsbúðunum. Þá geta allir verið fullir, gleymt sér og hætt að hugsa um pólitík, réttlæti eða landsins gagn og nauðsynjar.
Brennivínið reyndist Dönum afar drjúgt sem meðal til að halda íslenskri alþýðu niðri. Þeir notuðu það á Grænlendinga og Færeyinga. Ameríkanar notuðu það á Indjánana.
Það er kannski það sem vakir fyrir þeim. Slæva dómgreind okkar og rökhugsun.
Nei - við skulum vera algáð og láta ekki kúga okkur, hvorki með áfengi, verðtryggingu, ótta, okurvöxtum, láglaunastefnu, skattpíningu né neinum af þeim kúgunarmeðulum sem valdsmenn og valdstjórnir hafa yfir að ráða. Við erum valdið. Valdið er okkar. EKKI ÞEIRRA!
Og hjarta framtíðarinnar skelfur
í hræðilegri þenslu óvissunnar,
- vorelskt, hörpustrengjað hjarta,
með hungur og þorsta lífsins í blóði sínu.
Sefurðu þjóð mín?
Sefurðu þegar þú átt að vaka
og bjarga barni þínu?
(Jóh. úr K.)
Við eigum þetta land - saman. Við eigum auðlindir þess til lands og sjávar - saman. Við eigum okkur sjálf og hvert annað - saman. Við erum stolt þjóð og sjálfstæð þjóð saman. Við skulum ganga veginn til framtíðar, í átt að rísandi nýrri Íslandssól, nýju lýðveldi sem við ætlum að stofna - saman. Við ætlum að hlúa að því og sjá til þess að allir hafi það gott - að allir njóti mannlegrar reisnar - saman.
Þegar sólin er komin á loft og sindrar við bláan sæ og slær geislum sínum á hvíta jökulhettu svarblárra fjalla þá munu sannarlega öll nátttröll verða að steini.
Allt mun fara vel og við munum endurheimta það sem frá okkur var tekið og það sem meira er að við munum gefa áfram það sem okkur hlotnast og til okkar mun verða horft þegar önnur lönd fara að reisa sig úr sínum kreppum.
Verum bjartsýn þrátt fyrir allt af því annað er tilgangslaust. Við verðum samt að vaka og vinna.
Ykkar einlægur
Valgeir Skagfjörð
e.s. Rétt eins og Kató gamli: Svo legg ég auðvitað til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin.
Bloggar | Breytt 26.2.2009 kl. 01:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
20.2.2009 | 16:26
Hvað er í boði eiginlega?
Nú keppast allir við að bjóða sig fram í nafni endurnýjunar gömlu flokkanna. Á sama tíma standa margir þingmenn vörð um það gamla kerfi að flokkarnir stýri því sjálfir hvernig raðast á lista í næstu kosningum. Ekkert bólar á því að sýna kjósendum þá virðingu að bjóða þeim upp á að velja sér það fólk sem það trúir á og treystir til þess að vinna að þeim verkefnum sem fram undan eru. En þau eru ærin.
Menn ætla að halda í sætin sín eins og þeir eigi eitthvert guðlegt tilkall til þeirra. ,,Heilagur andi í rólunni" kölluðu krakkarnir í gamla daga og settu grjótmola í róluna til merkis um að hún tilheyrði þeim. Viðkomandi krakki komst upp með það allt þar til einhver með nóga sterka réttlætiskennd og kjark til að benda á að rólan væri í raun almenningseign og ef enginn væri í henni þá mætti hver sem er setjast í hana og róla sér. En þingmennirnir sem hyggja á áframhaldandi setu á þinginu vilja hafa heilagan anda í sætinu og ef einhver á að fá það þá lýtur það lögmálum þess flokks sem hefur unnið sætið.
Hvað varð um þau sjálfsögðu réttindi að fá að kjósa fólk á löggjafasamkunduna?
Ég vil kjósa gott fólk á þing - ekki vonda flokka.
Allir þykjast vera hlynntir persónukjöri en eru samt sammála því að það sé alltof stuttur tími til að gera slíka grundvallarbreytingu á kosningalögum.
Það tók einn sólarhring að setja neyðarlögin þegar bankarnir voru þjóðnýttir.
Það þarf bara góðan vilja til að gera hlutina. Það þarf bara ákvörðun. Það þurfti bara ákvörðun að koma Geir Haarde frá völdum. Það þarf bara ákvörðun til að koma Davíð úr seðlabankanum. Það þarf bara ákvörðun til að afnema eftirlaunaósómann. Þetta snýst bara um að taka þessar ákvarðanir. Það þarf bara að taka ákvörðun um að afnema verðtryggingu húsnæðislána.
Allt annað er bara vinna við tæknilega útfærslu á því að hrinda þeim í framkvæmd.
Tækifærið er núna góðir landsmenn. Það er núna. Það gefst ekki á næstu árum ef þið ætlið að láta það gerast að gömlu flokksmaskínurnar verði áfram að kokka við kjötkatlana. Þá verður ekki á dagskrá að breyta stjórnarskrá, breyta kosningalöggjöf og gera nauðsynlegar breytingar á núverandi kerfi sem gætu varðað okkur veginn inn í nýja tíma.
Það ber ekki vott um mikla siðbót þegar lögfræðingarnir í skilanefndum bankana eru farnir að taka 5 milljónir í laun á mánuði. Það lýsir ekki mikilli siðbót þegar íhaldið neitar að horfast í augu við ábyrgð sína og gerist meðvirkt með gamla formanninum sínum og helsti hugmyndasmiðurinn, sjálfur doktor HHG skundar fram á ritvöllinn og sakar Jóhönnu Sigurðardóttur um vanhæfi.
Það ber ekki siðbótinni fagurt vitni að þora ekki að skera upp kvótakerfið og leyfa handfæraveiðar á landgrunninu sem mundi skapa hér hundruð starfa. Að hvetja fólk til sjálfsbjargar og sjálfbærni ætti að vera leiðarljós dagsins í stað þess að einblína á ESB og stóriðju.
Hvað var með þessi nýju gildi sem átti að innleiða í þjóðfélag okkar? Það lítur út fyrir að hugmyndirnar til lausnar efnahagsvandanum séu svo frumlegar að annað eins hefur ekki litið dagsins ljós síðan vistarbandið var aflagt hér um árið. Mér heyrist helst að menn ætli að redda sér á gömlu aðferðunum eins og að skera niður opinbera þjónustu, pína hina lægst launuðu áfram, selja þrotabú bankana á útsölu til þeirra sem áttu þá í gegnum einhverja leppa, braska áfram með kvótann svo að þeir sem eiga hann geti komið sterkir inn aftur, braskað meira og sett þjóðina aftur á hausinn þegar hún verður búin að slíta sér út á því að rembast við að greiða niður skuldirnar sem braskaraflokkurinn kom okkur í.
Sér eru nú hver frumlegheitin. Það sem á að redda alþýðu manna núna er að stinga að þeim 600 þúsund krónum til að moka í skuldahítina. Margir munu eflaust stökkva til að sækja sér þennan pening og hugsa sig vandlega um hvort þeir tíma að henda sparnaðinum í skuldir eða hvort þeir skella sér bara á djammið og gleyma sér um stund. En það er auðvitað búið að girða fyrir þann möguleika með því að borga ekki út nema í skömmtum. Kannski 25 kall á mánuði eða eitthvað álíka. Húrra!
Svo verðum við að sjálfsögðu pínd til að borga okurvextina áfram, afborganirnar af verðtryggðu lánunum okkar og til að bæta gráu ofan á svart þá hækka þeir skattana, búvöruverðið, bensínið á bíldruslurnar (því nú verður bílaflotinn ekki endurnýjaður á næstunni) færslugjöldin á kortunum og svo framvegis og svo framvegis.
Braskaraflokkurinn er með böggum hildar þessa dagana. Eins og um sé að ræða einhvers lags fráhvarfseinkenni frá valdafíkninni. Fíknin er svo sterk eftir átján ára setu og forystu í stjórn landsmála að það á eftir að taka flokkinn nokkur ár að jafna sig. Hann verður hins vegar fljótur að vekja fíknina aftur til lífs ef hann kemst til valda eftir kosningar.
Þess vegna tel ég affararsælast að leyfa flokknum að jafna sig. Það þarf að renna almennilega af honum og síðan þarf hann nauðsynlega fræðslu til að geta endurnýjað sig, endurskoðað viðhorf sín og lagt stund á nauðsynlega rækt mannsandans. Þá skapast ef til vill nýjar forsendur en þangað til held ég að hann hafi gott af því að vera í stjórnarandstöðu. Æfingin skapar meistarann.
Að síðustu vil ég fá að vita hvað það er sem þjóðin má ekki vita. Hvaða sannleikur er svona hryllilegur að þjóðin fái ekki að heyra hann?
Hvað er verið að fela?
Heldur einhver virkilega eftir allt sem á undan er gengið að við fáum flogakrampa yfir einhverju nýju hneyksli sem flett yrði ofan af?
Versta fréttin yrði líklega sú að landið sé gjaldþrota og fari á nauðungarsölu. Það hafa auðmennirnir okkar og pólitíkusarnir okkar afrekað - að setja landið á brunaútsölu og gert alþýðu manna að beiningarfólki um ókomna framtíð. Ef það er það sem verið er að hlífa okkur við að horfast í augu við þá get ég skilið það. En ég vona svo sannarlega að það sé ekki staðan sem upp er komin, þótt að mér læðist sá grunur því miðað við að yfirfæra stöðu þjóðarbúsins á sjálfan mig þá er þjóðin a.m.k. ,,tæknilega" gjaldþrota".
Þá stendur ekkert eftir nema spurningin um það hver tekur okkur upp í skuld.
Íslandi allt! Og að síðustu vil ég leggja það til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin hið fyrsta.
Valgeir Skagfjörð, borgari
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
18.2.2009 | 01:13
Byltingin er hvergi nærri búin.
Nú hamast Íhaldið við að drepa málum á dreif og reynir á sinn rassborulega hátt að kasta ryki í augu almennings. Þessa sama almennings sem hefur orðið að greiða dýru verði fyrir falska góðærið sem íhaldsmenn töldu sig hafa fundið upp og gumuðu sem mest af þegar þeir fóru með völdin og héldu sjálfir í vellystingavímunni að allt væri í stakasta lagi. Nú væri loksins runnin upp gullöld peninga og gróðahyggjunnar. Hér mundu allir geta lifað eins og arabískir olíufurstar.
Annað kom á daginn eins og allir vita. Góðærið sem sauðsvartur almúginn missti að mestu leyti af var ekkert annað en ofhlaðin leikmynd í leiksýningu sem sett var upp í boði Baugs, Kaupþings, Landsbankans og Gliltnis en ríkið veitti styrkinn til að koma sýningunni á laggirnar. Svo kviknaði bara í leiktjöldunum og við blasti autt sviðið. Leikararnir horfnir út í sortann. Black out! Ljós í sal. Áhorfendur ganga út í kuldann án þess að fá miðann sinn endurgreiddann. Og þessi sýning sem hafði fengið svo frábæra dóma. Gagnrýnendur máttu vart vatni halda og málflytjendur og málafylgjumenn kepptust við að ausa hana lofi við hvert tækifæri. Hún sópaði að sér verðlaunum - en svo var bara ekki neitt. Allt í plati rassagati. Áhorfendur setur hljóða.
Almenningur veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Nei - nú er okkur nóg boðið. Við erum ekki fávitar! Heyriði það - þið þarna sem færðuð okkur þennan sjónleik. Nú tökum við til okkar ráða!
Shit! Hvernig gat þetta gerst?
Nú loks þegar tekist hefur með fulltingi þessa sama almennings að munstra upp vandaða konu til að gegna forsætisráðherraembættinu (um stundarsakir) þá gera þeir sem kalla sig sjálfstæðismenn (en eru ekkert nema svartasta íhald) allt sem í þeirra valdi stendur til að leggja hindranir í veg fyrir hana og samstarfsfólk hennar í þeim eina tilgangi að því er virðist að tefja tímann fram að kosningum svo þeir nái að endurskipuleggja lið sitt. Kosningamaskínan er þegar farin að malla og verst af öllu finnst mér þegar stór hluti þess almennings sem íhaldið hefur nú skilið eftir í rústum íhugar í alvörunni að kjósa þá enn og aftur yfir sig.
Núverandi forsætisráðherra frú Jóhann Sigurðardóttir er þrátt fyrir allt sá stjórnmálamaður sem flestir Íslendingar bera traust til svo menn skyldu alvarlega hugleiða lögmálið um flísina í auga náungans og bjálkann í sínu eigin.
Sjálfstæðisenn eru líklega svona öfundsjúkir af því forystumenn þeirra njóta ekki sams konar trausts.
Styrkur Jóhönnu Sigurðardóttur liggur í því að hún kann að hlusta. Ekki bara á þá sem hagsmuna hafa að gæta innan flokksins heldur almenning í landinu. Áratugum saman hefur Jóhanna haft púlsinn á þjóðinni. Hún kann að setja sig í spor annarra og vill öllum almenningi vel. Hún er einkum málsvari lítilmagnans.
Að íhaldið skuli leyfa sér að kalla hana eyðslukló er svo gjörsamlega út úr öllu korti að tekur engu tali. Slík orð dæma sig sjálf eins og önnur orð sem fráfarandi forætisráðherra hefur látið frá sér fara. Hann hefur á aumlegan hátt rembst við að tileinka sér hótfyndni í stíl við vin sinn og sálufélaga Davíð Oddsson en ekki tekist það. Því miður hefur honum ratast mörg feilnótan á munn. ,,Fara ekki heim með sætustu stelpunni á balinu en bara með eitthvað sem gerir sama gagn" - ,,þessar konur hefðu orðið óléttar hvort eð var" ,,ég hefði kannski átt að ræða við Gordon Brown" - ,,ég biðst afsökunar ef/þegar nefndin sem ég skipaði til að rannsaka hrunið kemst að þeirri niðurstöðu að ég þurfi þess ..." o.s.frv. o.s.frv. Það finnst ekki vottur af virðingu fyrir öðrum. Það er ekki reisn yfir neinu sem þessi maður hefur sagt og gert. ,,Guð blessi Ísland" sagði hann.
Töluð orð og tapaður meydómur verða ekki aftur tekin - segir gamall íslenskur málsháttur.
Já - Guð blessar Ísland og það er ekki fyrir tilstuðlan Geirs Hilmars Haarde heldur birtist það miklu fremur í því að nú er hann farinn frá völdum og ætti að sjá sóma sinn í því að sitja hljóður á þinginu og hlusta.
Bara hlusta. Fyrst á hann að læra að hlusta og síðan að hlusta til að læra. Gera sjálfum sér og öðrum þá þénustu að þegja. Þögn er gulls ígildi. Að þegja er göfugt og í trúarbrögðum heims (öllum - takið eftir - í öllum trúarbrögðum heims) er mikið lagt upp úr því að rækta andann með þögninni.
Landsbyggðinni blæðir vegna þeirrar stefnu sem íhaldið hefur haft að leiðarljósi. Smám saman hafa þeir verið að svipta fólkið lífsviðurværinu, færa burt kvóta í hendur sægreifa sem hverfa á brott með peningana. Atvinnutækifærum hefur fækkað verulega. Ef það væri ekki fyrir hugvit, áræði og sköpunargáfu fólksins sjálfs þá væri stór hluti landsbyggðarinnar í eyði.
Ágætur listamaður og kvikmyndaleikstjóri sem þekktur er fyrir vinskap sinn við fyrrum forsætisráðherra þjóðarinnar og núverandi seðlabankastjóra lýsti því einhvern tíma í Kastljósviðtali að það væri skynsamlegast að allir flyttu á suðvesturhornið og svo yrði landsbyggðin (sem þá væntanlega yrði ekki réttnefni að kalla byggð heldur miklu fremur óbyggðir) bara svona til að heimsækja þegar landinn væri i sumarfríi og svoleiðis.
Þessir ágætu herramenn eins og Davíð og fleiri hans nótar í Sjálfstæðisflokknum hafa stundum haft það á orði að það sé ekki hagkvæmt að halda sumum landssvæðum í byggð. Sumir gengu svo langt að ýja að því að það borgaði sig fyrir þjóðarbúið að flytja t.d. Vestfirðinga hreppaflutningum.
Hvernig dettur góðu heiðarlegu fólki úti á landi til hugar að kjósa stjórnmálaflokk sem hugsar ekki um annað en sína eigin hagsmuni? Ég bara spyr?
Gamli ungmennafélagsandinn lýsti sér í setningunni: Íslandi allt!
En íhaldið segir: Flokkurinn framar öllu! Völd! Meiri völd!
Nú standa þeir í vegi fyrir stjórnlagaþingi af því að þeir kæra sig alls ekkert um breytingar. Þeim finnst þetta fínt eins og þetta er og sjá ekkert athugavert við ástandið. Af því þeir eru ÍHALD!
Þeir vilja halda í gamla flokksveldið. Þeir halda að þeir séu útvaldir af Guði til að stjórna landinu og heilaþvo almenning svo hann fer að trúa því að íhaldið sé eini stjórnmálaflokkurinn sem stýrt geti efnahagsmálum á Íslandi.
Í ÁTJÁN ÁR hafa þeir stýrt efnahags-og peningamálum þessa lands. Hvernig tókst til?
Almenningur, láglaunafólk og þeir sem einarðlega hafa stritað í sveita síns andlits, tekið lán til að koma yfir sig þaki og látið hneppa sig í vistarband verðtryggingar, einokunar, okurvaxta og skattpíningar er látinn taka á sig óyfirstíganlegar skuldir þjóðarbúsins sem taglhnýtingar og viðhlæjendur íhaldsins hafa sökkt okkur í. Og sjá ekki einu sinni hvernig í veröldinni þeir beri ábyrgð á því hvernig komið er. Er nema von að maður fyllist reiði og vonleysi.
Jóhanna Sigurðardóttir verður að halda áfram að hlýða kalli fólksins. Hún hefur gert það fram að þessu og nú þarf hún stuðning þjóðarinnar til að knýja á um stjórnlagaþing svo hægt verði í alvörunni að setja hér á stofn annað lýðveldi. Fólk verður að fá að velja sér fulltrúa á þingið. Valdið kemur frá fólkinu og þeir sem stjórna eru í þjónustu almennings. Við getum ekki umborið það lengur að siðblindingjar sitji að völdum.
Jafnvel þótt Framsóknarflokkurinn sjái nú tækifæri á að rétta hlut sinn og auka fylgi sitt með loforðum um siðbót og sýni fram á endurnýjun í flokknum þá treysti ég flokknum ekki. Framsóknarmenn gætu verið úlfar í sauðagæru sem sjá bara ný sóknarfæri í að setjast að einhverjum kjötkötlum eins og þeirra er siður. Þeir munu væntanlega reyna að tryggja sér nógu mikið fylgi til að koma sér í oddaaðstöðu eins og t.d. núna. Núna geta þeir haldið ríkisstjórn í gíslingu kæri þeir sig um.
Ég óttast Framsóknarflokkinn. Ég óttast að hann muni ekki gera upp fortíðina á trúverðugan hátt þrátt fyrir að vera búinn að troða ungu fólki í framlínuna. Gamlir spilltir refir eru ekki langt undan.
Söngur Sivjar í þingsölum hljómar falskt.
Góðir Íslendingar - við verðum að fá eitthvað annað til að kjósa en það sem er í boði núna.
Að síðustu legg ég til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin.
Valgeir Skagfjörð, borgari
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.2.2009 | 10:37
Sama vínið á sömu belgjunum
Erum við að tala um að pólitíkusar á Íslandi sýni enga tilburði í þá átt að læra nokkurn skapaðan hlut af því sem gerðist hérna hjá okkur? Er sumum gjörsamlega fyrirmunað að líta í eigin barm og skoða sjálfan sig með gagnrýnum huga?
Ef menn ætla að þroskast þá þurfa þeir að temja sér sjálfsgagnrýni. Sjálfgagnrýni felst að hluta til í því að þekkja styrk sinn og veikleika jafnt. Þekkja vitjunartíma sinn. Vita hvenær á að sækja og hvenær á að víkja. Að hluta til felst sjálfsgagnrýni í því að viðurkenna vanmátt sinn. Allir geta eitthvað, en enginn getur allt. Þó er eins og alltof margir álíti sig geta allt.
Af því sem maður heyrir núna t.d. af umræðum á alþingi og því sem stjórnmálamenn svona almennt láta frá sér í ræðu og riti, þá er engu líkara en hér á Íslandi hafi bara ekki nokkur maður gert nokkurn skapaðan hlut af sér. Hér gerði enginn mistök - - a.m.k. engin mistök sem ástæða væri til að biðjast afsökunar á.
Hér voru stundaðar markvissar blekkingar og heilaþvottur sem gekk út á það að segja okkur að hér væri allt í stakasta lagi. Að við værum svo miklir snillingar og umheimurinn héldi vart vatni yfir því hvað þessi smáþjóð norður í ballarhafi væri stórhuga, áræðin og laus við minnmáttarkennd.
Síðan er hulunni svipt af blekkingunni í einu vetfangi, en þá er bara enginn sem getur svarað fyrir neitt af því enginn þorir að viðurkenna að hafa tekið þátt í blekkingaleiknum. Svo halda menn bara áfram í honum í þeirri trú að enginn taki eftir því. Reyna af veikum mætti að skrapa yfir skítinn sinn en allir sjá og allir vita. Hvers konar framkoma er þetta við þjóðina?
Enn og aftur á að púkka upp á gamla kerfið. Það er hent í okkur dúsu með loforðum um breytingar, bót og betrun á hinu pólitíska landslagi á Íslandi. Þó fæ ég ekki betur séð en hér verði allir við sama heygarðshornið áfram. Bíða bara eftir því að reiðiöldurnar lægi og svo verður haldið áfram sem fyrr.
Við völd sitja gamaldags stjórnmálaflokkar og innan þeirra stendur sama liðið í biðröðinni eftir að fá að komast á lista og telur nú víst að röðin sé komin að sér. Ég get ekki séð á því hvernig atburðarásin sem nú er að fara í gang leiðir til þeirra breytinga sem við þurfum á að halda hér í samfélagi sem rambar á barmi stjórnleysis og upplausnar.
Ég sé gámana fyrir utan húsin. Íbúðir og hús tæmast. Unga fólkið hverfur af landi brott og heldur á vit nýrra tækifæra.
Eina leiðin til að losna undan vistarbandi okurvaxta, verðtryggingar, fákeppni og verðsamráðs er að yfirgefa landið. Sem þrátt fyrir allt er svo fagurt og frítt og svo gjöfult og gott.
Einmitt þess vegna slást valdasjúkir auðmenn og pólitíkusar um að eignast það. Er það heilbrigt? Ætlum við ekki að komast út úr þessari Sturlungaöld? Hver vill varða okkur veginn? Hver er þess umkominn að varða okkur veginn inn í næsta tímabil sögu vorrar?
Nú er þessum fyllerískafla að ljúka og við þurfum augljóslega að þjást eitthvað tímabundið af timburmönnum. Sumir fá eflaust deleríum tremens en smám saman mun renna af okkur og þegar við förum að sjá veröldina eins og hún er og förum að horfa með opnum gagnrýnum huga á rústirnar eftir fellibyl frjálshyggjunnar þá gæti svo farið að okkur muni fallast hendur.
Þjóðin hefur alið af sé kynslóð sem aldrei hefur liðið skort. Kynslóð sem alltaf hefur haft til hnífs og skeiðar. Hungurvofan hefur ekki ásótt það. Það hefur ekki lifað það að vera í óvissu um hvort það fær að borða næsta dag.
Amma mín lifði tvær heimstyrjaldir, drepsóttir og kreppur en aldrei kom henni nokkru sinni til hugar að yfirgefa landið. Það var bara ekki í boði og enda kannski engin tækifæri til þess á þeirri tíð. Hún elskaði landið sitt þrátt fyrir allt. Það var samofið sögu hennar, sál hennar og tilfinningalífi. Það hafði fóstrað hana, forvera hennar og börnin hennar og fyrir því skyldi hún fremur deyja en yfirgefa landið sitt. Þrátt fyrir að aðrir áar hennar hefðu flutt til Ameríku á öldinni sem leið af sömu ástæðu og þeir sem flýja landið núna. Vistarband.
Verðtrygging, okurvextir, hátt matvælaverð, fákeppni, auðsöfnun fárra útvaldra og stjórnmálamenn sem láta auðveldlega ginnast af gylliboðum auðjöfra er ekki góð uppskrift að fyrirmyndarþjóðfélagi.
Nú er svo komið að alþýða manna er í vistarbandi. Ef ekki verður höggvið á þetta band þá stöndum við frammi fyrir stórbrotnum fólksflutningum héðan. Karlar eins og ég munu þrauka enda kann ég þá list að lifa blankur og hef löngum gert. Ég er með mastersgráðu í basli. Ef ég væri tuttugu árum yngri mundi ég ekki hika við þessar aðstæður.
Hver vill svo sem fara? Það vilja það ekkert endilega allir en fólki eru allar bjargir bannaðar. Kerfi sem hneppir fólk í svona ánauð er dæmt til að springa einn góðan veðurdag. Kommunisminn hrundi, frjálshyggjan hrundi en mannsandinn er ekki hruninn - ekki ennþá.
Nú verður öld mannsandans að ganga í garð. Nú þurfum við að ganga hönd í hönd inn í öld þar sem peningahyggja og neysluhyggja stýra ekki hugsun okkar og gjörðum. Mannkærleikur er það eina sem heldur okkur saman og við þurfum að sameinast um gildi og stefnumið þar sem rúm er fyrir mannkærleika.
Við eigum að reisa hér þjóðfélag sem byggir á einföldum gildum eins og t.d. Almennri heilbrigðri skynsemi.
Ég vil hvetja þá sem á undanförnum vikum og mánuðum hafa verið að tjá sig opinberlega til þess að koma fram - myndum stóra breiðfylkingu fólks sem hefur mannkærleikann sem yfirmarkmið og fylgir stefnu sem heitir: HEILBRIGÐ SKYNSEMI!
Þingmenn og ráðherrar! Hættið þessu karpi þarna inni á þinginu og farið að gera eitthvað fyrir fólkið í landinu. Komið upp úr skotgröfunum, takið höndum saman og farið að vinna þjóðinni gagn. Ekki sjálfum ykkur og ykkar meðhlaupurum. Nú er heilbrigð skynsemi að hafa hagsmuni fólksins að leiðarljósi.
Eins og staðan er, þá langar mig ekki að kjósa neinn af þeim flokkum sem núna eru í boði. En ég væri til í að kjósa margt af þessu ágæta fólki sem er í hinum ýmsu flokkum og svo auglýsi ég eftir nýju fólki. Mig vantar nýtt fólk svo ég geti kosið það. HJÁLP!
Að síðustu legg ég til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin.
Valgeir Skagfjörð, borgari
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.2.2009 | 12:40
Nýtt fólk á þing
mitt þróttleysi og viðnám í senn,
þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá
hún vakir og lifir þó enn"
orti Steinn Steinarr fyrir margt löngu.
og Negus Negusi segir: Búlúlala.
Öllum mönnum sem íhuga málstað ríkisins
finnst unun að heyra Negus Negusi tala.
Og í hreinskilni sagt eru allir óvinir ríkisins
sem ekki hlusta á Negus Negusi tala.
Ég er Negus Negusi, segir Negus Negusi,
ég er Negus Negusi. Búlúlala.
Í þessu ljóði sé ég birtast þá valdsmenn sem því miður hafa skaðað þjóðina varanlega með hugmyndafræði sem svo augljóslega hefur beðið skipbrot. Innantóm orð, heimska, hroki, valdagræðgi, spilling og auðsöfnun í krafti valds er það sem hefur einkennt stjórnarhætti þeirra manna sem hafa aðhyllst þessa hugmyndafræði og látið hana vera leiðarljós við stjórnvölinn á þjóðarskútinni ms Íslandi.
Það er ekkert eins gott fyrir reiðina og fyrirgefning. Þannig getum við öll gert skuldaskil ef vilji er til þess. Það er ekkert í heiminum svo slæmt að ekki sé hægt að laga það. Það hefur sagan kennt okkur. Af hverju ætti það að vera eitthvað öðruvísi núna?
e.s. Að lokum vil ég leggja það til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin.
Valgeir Skagfjörð, borgari.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.2.2009 | 10:45
Davíð og dauðasyndirnar
Góðir landsmenn.
Hroki er ein af dauðasyndunum sjö.Oft er hún nefnd fyrst til. Síðan koma hinar í kjölfarið, öfund, reiði, græðgi (ágirnd) , saurlífi ,leti og ofát. Fáir viti bornir menn vilja hafa þessar syndir ráðandi í lífi sínu. Flestir vilja láta dyggðirnar stjórna lífi sínu. Höfuðdyggðirnar sjö eru stundum nefndar viska, hófsemd, hugrekki, réttlæti, trú, von og kærleikur.
Nú skal ég ósagt látið hvort Guð úthluti dyggðunum og Fjandinn syndunum en eitt er víst að Davíð Oddsson hefur fengið dágóðum skammti af hroka úthlutað. Hann hefur af ýmsum verið talinn vitur og sumir hafa gengið svo langt að segja að hann hafi á stundum sýnt stjórnvisku. Hvenær þá? Þegar hann gaf út þá tilskipun að ríkisbankarnir skyldu einkavæddir?Þegar hann setti okkur á lista yfir þjóðir sem studdu innrásina í Írak? Er það stjórnviska að neita að fara að tilmælum forsætisráðherra landsins og sitja sem fastast í Seðlabankanum sem hann er svo gott sem búinn að setja á hausinn? Er það stjórnviska að horfa á þjóðfélagið fara á hliðina og í stað þess að sýna þroska og alvöru visku með því að víkja sæti og bretta upp ermar með okkur hinum til að hefjast handa við enduruppbyggingu þjóðfélagsins þá þykir honum viturlegast að grípa til hrokans og fara í stríð við ríkisistjórnina og þjóðina? Heldur hann að sé svo mikil eftirspurn eftir sér eða lætur hann stjórnast af dauðasyndunum fremur en dyggðunum? Eru ekki næg verkefni að vinna hér í þessu samfélagi svo að herra Davíð Oddsson taki ekki alla neikvæðu athyglina til sín eins og óþekkur krakki til þess eins að fá útrás fyrir gremjuna yfir því að hafa tapað í Ólsen Ólsen?
Óþekkir krakkar voru tyftaðir í minni sveit og eftirá fengu þeir að hugsa ráð sitt. Með bættri hegðun lærðist þeim smám saman að betra var láta af óþekktinni og að betra væri að fá sínu fram með því að sýna kurteisi, virðingu, auðmýkt og sveigjanleika. Þetta eru gjarnan eiginleikar sem talið er gott að diplomatar hafi. Dyggðum prýddir menn hafa náð miklu meiri árangiri en þeir sem hafa látið stjórnast af höfuðsyndunum. Það þarf ekki að grufla lengi í sögunni til að komast að því. Hitler náði svo sem árangri í ljósi þeirra markmiða sem hann hafði a.m.k. allt þar til hann tapaði stríðinu, en Mahatma Gandi gerði þó mun meira fyrir heiminn en hann. Því er spurt hvað það er sem Davíð Oddson hefur gert fyrir heiminn? Hver er Davíð Oddson í samanburði við Gandi? Ég þykist viss um að Davíð Oddson sjálfur væri tilbúinn til að viðurkenna að Gandi tekur honum fram. (Eða hvað? )
Samt sem áður spyr ég spurningar sem mig langar að fólk velti fyrir sér. Í Ríkarði III. eftir Shakespeare er sena þar sem Ríkarður bróðir konungs ber upp bónorð við Önnu prinsessu yfir volgu líki eiginmanns síns. Ríkarður í leikritinu er ekki mikill fyrir mann að sjá ( þessi kýtta kónguló ... er sagt um hann á einum stað.) Ríkarður segir við mennina sem koma með lík Játvarðar erfðarprins á börum: ..Látið niður líkið, eða ég sver að gera lík úr hverjum þeim sem óhlýðnast" (Þýð. Helgi Hálfd. eftir mínu gloppótta minni) Anna prinsessa segir þá: ,,Hvað - þið glúpnið allir!"
Við hvað eru mennirnir hræddir? Við hvað er þjóðin hrædd? Við hvað eru menn hræddir þegar Davíð Oddsson er annars vegar? Davíð Oddson gott fólk er bara dauðlegur maður eins og við hin. Hann getur misst heilsuna (eins og frægt er orðið) og hann getur gert mistök eins og við hin. Það er nú einu sinni þannig að til þess að ná góðum andlegum þroska þá er gott að láta dyggðirnar vera ráðandi í lífi sínu. Dauðasynd númer eitt er hroki. Hroki er líka birtingarmynd vanmáttar. Einkum og sér í lagi vanmáttar þess sem getur ekki viðurkennt vanmátt sinn. Það er ekkert eins ámátlegt og maður sem lætur stjórnast af hroka af þeirri ástæðu einni að hann getur ekki viðurkennt ósigur.
Davíð Oddsson hefur beðið ósigur og það veit hann mætavel. Óþekkur strákur sem tapar í Ólsen Ólsen og bregst við með því að taka spilastokkinn og neita að leyfa hinum að fá spilin. Hann segir: Ég á þessi spil. (Hann á alls ekki spilin. Þau eru almannaeign) Þetta kalla menn vanþroska. Þroskaður einstaklingur sem tapar í Ólsen Ólsen tekur í hönd sigurvegarans og segir takk fyrir splið. Ég vann ekki í þetta sinn en við getum tekið í annað spil seinna og þá skulum við sjá hvernig fer. En Davíð vill eiga öll spilin. Hann vill gefa sjálfum sér alla spaðana og hirða alla slagina. Ef ekki - þá er bara ekkert spilað hér. Ég ræð.
Nei takk. Davíð Oddsson ræður ekki og þjóðin má ekki detta inn í einhverja meðvirkni með Davíð Oddssyni. Hér eru þarfari verk að vinna. Við þurfum ekki að óttast Davíð eða reiði hans. Ef hann vill stjórnast af hroka, reiði, öfund, græðgi, eigingirni, sérplægni, hatri á þjóð sinni sem hefur dæmt hann óhæfan þá munu önnur og æðri máttarvöld grípa í taumana. Það þurfa allir að greiða sín gjöld. Það þurfa allir að standa skapara sínum reikningsskil á einn eða annan hátt þegar upp verður staðið. Davíð Oddsson er ekkert undanþegin því. Hvað ætlar hann að gera við allt þetta fólk sem vogar sér að hafa skoðun á honum og hans verkum?
Þjóðin er sterkari en svo að hún láti Davíð Oddsson stjórna því hvernig henni líður. Ef hann stendur ekki sjálfviljugur upp úr sætinu og fer þá eru honum allar bjargir bannaðar. Hann er kominn í vonlausa stöðu. Hann sendir allri þjóðinni fingurinn og það skyldu menn varast.
Við höfum sýnt það og sannað að við getum knúið fram breytingar. Við þorum að hafa okkar eigin skoðanir og við þorum meira að segja að láta þær í ljósi. Oki þöggunar hefur verið aflétt. Leyfi fyrir óvinsælum skoðunum hefur verið gefið út og það leyfi skulum við nota. Fleiri borgarafundi, fleiri mótmælafundi á Austurvellinum og varðstöðu við Seðlabankann þar til þeir kónar láta sér segjast og koma sér þaðan burt.
Okkur tókst að koma ríkisstjórn Geirs Haarde frá, okkur tókst að koma stjórn Fjármálaeftirlitsins frá og okkur skal að mér heilum og lifandi takast að koma Davíð Oddssyni og hans taglhnýtingi í Seðlabankanum frá. Við þurfum að vera fljót að þessu. Því fyrr sem við komum Davíð fyrir einhvers staðar þar sem hann getur ekki valdið skaða, því betra.
Ef hann ætlar að láta þjóðina borga sér 70 milljónir fyrir vikið þá verður að hafa það. Hvað eru skitnar sjötíu milljónir í allt milljarðaskuldahafið? Skiptimynt. Það er 70 milljón króna virði að koma óþekka krakkanum fyrir einhver staðar svo hann skaði ekki aðra. Hann er búinn að skaða þessa þjóð alveg nóg. Hugmyndafræði hans og Hannesar Hólmsteins hefur leitt okkur á þennan stað. Það er ekkert flóknara en það. Nú eru bara nýjir tímar framundan og mörg verk að vinna.
Neró keisari var uppi í Róm á 6. öld en nú er komið 2009 óg ég geri þá kröfu að menn hafi náð einhverjum andlegum þroska síðan.
Að síðustu legg ég til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin.
Valgeir Skagfjörð, borgari
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)