Davíð og dauðasyndirnar

Góðir landsmenn.
Hroki er ein af dauðasyndunum sjö.Oft er hún nefnd fyrst til. Síðan koma hinar í kjölfarið, öfund, reiði, græðgi (ágirnd) , saurlífi ,leti og ofát. Fáir viti bornir menn vilja hafa þessar syndir ráðandi í lífi sínu. Flestir vilja láta dyggðirnar stjórna lífi sínu. Höfuðdyggðirnar sjö eru stundum nefndar viska, hófsemd, hugrekki, réttlæti, trú, von og kærleikur.

 

Nú skal ég ósagt látið hvort Guð úthluti dyggðunum og Fjandinn syndunum en eitt er víst að Davíð Oddsson hefur fengið dágóðum skammti af hroka úthlutað. Hann hefur af ýmsum verið talinn vitur og sumir hafa gengið svo langt að segja að hann hafi á stundum sýnt stjórnvisku. Hvenær þá? Þegar hann gaf út þá tilskipun að ríkisbankarnir skyldu einkavæddir?Þegar hann setti okkur á lista yfir þjóðir sem studdu innrásina í Írak? Er það stjórnviska að neita að fara að tilmælum forsætisráðherra landsins og sitja sem fastast í Seðlabankanum sem hann er svo gott sem búinn að setja á hausinn? Er það stjórnviska að horfa á þjóðfélagið fara á hliðina og í stað þess að sýna þroska og alvöru visku með því að víkja sæti og bretta upp ermar með okkur hinum til að hefjast handa við enduruppbyggingu þjóðfélagsins þá þykir honum viturlegast að grípa til hrokans og fara í stríð við ríkisistjórnina og þjóðina? Heldur hann að sé svo mikil eftirspurn eftir sér eða lætur hann stjórnast af dauðasyndunum fremur en dyggðunum? Eru ekki næg verkefni að vinna hér í þessu samfélagi svo að herra Davíð Oddsson taki ekki alla neikvæðu athyglina til sín eins og óþekkur krakki til þess eins að fá útrás fyrir gremjuna yfir því að hafa tapað í Ólsen Ólsen?

 

Óþekkir krakkar voru tyftaðir í minni sveit og eftirá fengu þeir að hugsa ráð sitt. Með bættri hegðun lærðist þeim smám saman að betra var láta af óþekktinni og að betra væri að fá sínu fram með því að sýna kurteisi, virðingu, auðmýkt og sveigjanleika. Þetta eru gjarnan eiginleikar sem talið er gott að diplomatar hafi. Dyggðum prýddir menn hafa náð miklu meiri árangiri en þeir sem hafa látið stjórnast af höfuðsyndunum. Það þarf ekki að grufla lengi í sögunni til að komast að því. Hitler náði svo sem árangri í ljósi þeirra markmiða sem hann hafði a.m.k. allt þar til hann tapaði stríðinu, en Mahatma Gandi gerði þó mun meira fyrir heiminn en hann. Því er spurt hvað það er sem Davíð Oddson hefur gert fyrir heiminn? Hver er Davíð Oddson í samanburði við Gandi? Ég þykist viss um að Davíð Oddson sjálfur væri tilbúinn til að viðurkenna að Gandi tekur honum fram. (Eða hvað? )

 

Samt sem áður spyr ég spurningar sem mig langar að fólk velti fyrir sér. Í Ríkarði III. eftir Shakespeare er sena þar sem Ríkarður bróðir konungs ber upp bónorð við Önnu prinsessu yfir volgu líki eiginmanns síns. Ríkarður í leikritinu er ekki mikill fyrir mann að sjá ( þessi kýtta kónguló ... er sagt um hann á einum stað.) Ríkarður segir við mennina sem koma með lík Játvarðar erfðarprins á börum: ..Látið niður líkið, eða ég sver að gera lík úr hverjum þeim sem óhlýðnast" (Þýð. Helgi Hálfd. eftir mínu gloppótta minni) Anna prinsessa segir þá: ,,Hvað - þið glúpnið allir!"

Við hvað eru mennirnir hræddir? Við hvað er þjóðin hrædd? Við hvað eru menn hræddir þegar Davíð Oddsson er annars vegar? Davíð Oddson gott fólk er bara dauðlegur maður eins og við hin. Hann getur misst heilsuna (eins og frægt er orðið) og hann getur gert mistök eins og við hin. Það er nú einu sinni þannig að til þess að ná góðum andlegum þroska þá er gott að láta dyggðirnar vera ráðandi í lífi sínu. Dauðasynd númer eitt er hroki. Hroki er líka birtingarmynd vanmáttar. Einkum og sér í lagi vanmáttar þess sem getur ekki viðurkennt vanmátt sinn. Það er ekkert eins ámátlegt og maður sem lætur stjórnast af hroka af þeirri ástæðu einni að hann getur ekki viðurkennt ósigur.

 

Davíð Oddsson hefur beðið ósigur og það veit hann mætavel. Óþekkur strákur sem tapar í Ólsen Ólsen og bregst við með því að taka spilastokkinn og neita að leyfa hinum að fá spilin. Hann segir: Ég á þessi spil. (Hann á alls ekki spilin. Þau eru almannaeign) Þetta kalla menn vanþroska. Þroskaður einstaklingur sem tapar í Ólsen Ólsen tekur í hönd sigurvegarans og segir takk fyrir splið. Ég vann ekki í þetta sinn en við getum tekið í annað spil seinna og þá skulum við sjá hvernig fer. En Davíð vill eiga öll spilin. Hann vill gefa sjálfum sér alla spaðana og hirða alla slagina. Ef ekki - þá er bara ekkert spilað hér. Ég ræð.

 

Nei takk. Davíð Oddsson ræður ekki og þjóðin má ekki detta inn í einhverja meðvirkni með Davíð Oddssyni. Hér eru þarfari verk að vinna. Við þurfum ekki að óttast Davíð eða reiði hans. Ef hann vill stjórnast af hroka, reiði, öfund, græðgi, eigingirni, sérplægni, hatri á þjóð sinni sem hefur dæmt hann óhæfan þá munu önnur og æðri máttarvöld grípa í taumana. Það þurfa allir að greiða sín gjöld. Það þurfa allir að standa skapara sínum reikningsskil á einn eða annan hátt þegar upp verður staðið. Davíð Oddsson er ekkert undanþegin því. Hvað ætlar hann að gera við allt þetta fólk sem vogar sér að hafa skoðun á honum og hans verkum?

 

Þjóðin er sterkari en svo að hún láti Davíð Oddsson stjórna því hvernig henni líður. Ef hann stendur ekki sjálfviljugur upp úr sætinu og fer þá eru honum allar bjargir bannaðar. Hann er kominn í vonlausa stöðu. Hann sendir allri þjóðinni fingurinn og það skyldu menn varast.

 

Við höfum sýnt það og sannað að við getum knúið fram breytingar. Við þorum að hafa okkar eigin skoðanir og við þorum meira að segja að láta þær í ljósi. Oki þöggunar hefur verið aflétt. Leyfi fyrir óvinsælum skoðunum hefur verið gefið út og það leyfi skulum við nota. Fleiri borgarafundi, fleiri mótmælafundi á Austurvellinum og varðstöðu við Seðlabankann þar til þeir kónar láta sér segjast og koma sér þaðan burt.

 

Okkur tókst að koma ríkisstjórn Geirs Haarde frá, okkur tókst að koma stjórn Fjármálaeftirlitsins frá og okkur skal að mér heilum og lifandi takast að koma Davíð Oddssyni og hans taglhnýtingi í Seðlabankanum frá. Við þurfum að vera fljót að þessu. Því fyrr sem við komum Davíð fyrir einhvers staðar þar sem hann getur ekki valdið skaða, því betra.

 

Ef hann ætlar að láta þjóðina borga sér 70 milljónir fyrir vikið þá verður að hafa það. Hvað eru skitnar sjötíu milljónir í allt milljarðaskuldahafið? Skiptimynt. Það er 70 milljón króna virði að koma óþekka krakkanum fyrir einhver staðar svo hann skaði ekki aðra. Hann er búinn að skaða þessa þjóð alveg nóg. Hugmyndafræði hans og Hannesar Hólmsteins hefur leitt okkur á þennan stað. Það er ekkert flóknara en það. Nú eru bara nýjir tímar framundan og mörg verk að vinna.

 

Neró keisari var uppi í Róm á 6. öld en nú er komið 2009 óg ég geri þá kröfu að menn hafi náð einhverjum andlegum þroska síðan.

Að síðustu legg ég til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin.

 

Valgeir Skagfjörð, borgari

 

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir frábæran pistil. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.2.2009 kl. 11:05

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Velkominn á bloggið. Og takk fyrir góðan pistil - en pældu nú samt í málsgreinaskiptingum og slíku, til að auðvelda lesturinn!

Friðrik Þór Guðmundsson, 10.2.2009 kl. 14:27

3 Smámynd: Óskar Arnórsson

Kvitta.

Óskar Arnórsson, 22.2.2009 kl. 12:33

4 Smámynd: Óskar Arnórsson

Friðrik!

Það eru svona menn eins og þú sem láta útlendinga á íslandi að ekki þora að skrfa á blogginnu! Hafðu skökk fyrir þetta komment! REYNDU EKKI AÐ KENNA NEINUM ÍSLENSKU!

Það er kallað rasismi þar sem ég bý. Andskotans óþverra lýður sem er á þessu skeri!

Veistu annars eitthvað hvað ég er að fara heilalausi hálvitinn þinn?

Óskar Arnórsson, 22.2.2009 kl. 12:50

5 Smámynd: Valgeir Skagfjörð

Kæri Óskar.

Frábið mér allar svívirðingar í athugasemdadálkinum. Friðrik er góður vinur minn og skólabróðir og honum gengur ekki nema gott til. Hann er reyndur skríbent og rannsóknarblaðamaður og verður seint sakaður um rasisma. Þetta var bara vinsamleg ábending frá honum. Hann þarf ekki að kenna mér íslensku. 

Ég lærði íslensku hjá Árna Böðvarssyni og fleirum. Seint verður maður fullnuma í sínu móðurmáli og er það vel því það þarf að fá að þróast, vaxa og dafna og ég held mér við með því að lesa, tala og skrifa.

Kæru bloggvinir - verum grandvör í orðum og verum málefnaleg í gagnrýni okkar á samtíma vorn. Því þessi leikur og tilgangurinn með honum hér á blogginu er líkt og sjónleikir að fornu og nýju: Að halda uppi spegli fyrir mannlífinu, sýna dygðinni svip sjálfrar sín, forsmáninni líkingu sína og tíð vorri og aldarhætti mynd sína og mót. 

Að svo mæltu hvet ég auðvitað fólk til að lesa bloggsíðuna mína. 

Ég er alveg nýr á blogginu og hef fengið gagrýnir fyrir að vera langorður.

Og já - ég get verið langorður af því ég er ekki með ritstjóra yfir mér.

Eins er það að þegar mig grípur löngun að tjá mig skriflega með þessum hætti þá kemur þetta eins og af sjálfu sér og áður en ég veit af renni ég bara lauslega yfir villur og birti síðan á blogginu. 

Kosturinn er hins vegar ótvíræður. Það verður meira lesefni fyrir vikið. 

kv. 

Valgeir Skagfjörð 

Valgeir Skagfjörð, 22.2.2009 kl. 18:08

6 Smámynd: Óskar Arnórsson

Kæri Valgeir!

Ég er skapstór með afbrigðum í vissum málum! Konan mín, sem er útlensk, var í Málaskóla Mímirs og var farin að geta haldið uppi samræðum með góðu móti eftir tæplega 3 ár.

Útlendingum sem sem reyna að blogga er "hent út" af blogginu af einmitt svona kommentum

Ég sjálfur er búin að búa erlendis síðan 1988 og þegar ég kom til Íslands fyrir tæpum þremur árum, var ég mér til mikkilar furðu, varla talandi og illa læs sjálfur.

Eina kommentið sem ég hef séð á MBL bloggi, fyrir utan Múslimaprestinn, er kona sem kom inn einhverstaðar og sagði eitthvað á þessa leið:

"Eg buin vinna 9 ar alla timan. eg kaupa ibuð og allaf borga retta tima enn nu banki buin að taka ibuð og ekki sega afkverju"

Og það var hlegið að henni og gert grín að því hvernig hún skrifaði.  

Ég kommenteraði til baka að íslenskt túngumál ætti heima á þjóðmynjasafninu og hvergi annarstaðar! Og bætti við að Indverjar töluðu ekki sanskrít lengur.

Fékk að sjálfsögðu skít og skömm frá fullt af fólki fyrir þetta komment. Alla vega heimtaði konan mín að við flyttum frá Íslandi vegna dónaskapar í Íslendingum, ekki útlendingum.

Var gert grín að henni fyrir bjagaða íslensku sína sem hún tók mjög nærri sér. Er búin með 1 ár í lögfræði í sínu heimalandi og er flugfær í ensku.

Afsakaðu orðbragðið, enn ég var eiginlega að verja þig með þessari "árás" á Friðrik. Fannst hann vera að ráðast á hvernig þú skrifar sem ég reiddist mjög.

Sorry Friðrik, vissi ekki að þetta væru "kunningjakomment"..

Enn það breytir ekki þeirri staðreynd að útlendingar, illa skrifandi t.d. eins og ég, þora ekki að tjá sig á blogginu, þora stundum ekki að tala við íslendinga vegna "málvöndunarmanna".

Vona að afsökunarbeiðni mín sé tekin til greina ykkur báðum félögum.

Óskar Arnórsson, 23.2.2009 kl. 10:21

7 Smámynd: Óskar Arnórsson

Svo ertu ekkert langorður að mínu mati. Bara með vit og visku sem þarf meira af á Íslandi. Davíð er veikur í höfðinu. Hann veit líklegast ekki af því að við eigu sameiginlegan vin sem hefur stað fest margt af klrítikinni sem er Davíð til ama í dag. Davíð er "týran" sem persónuleiki og trampar á fólki á æðstu stöðu og gerir þá hrædda við sig.

Að ekki sé hægt að henda þessum fársjúka manni út úr þessu embætti, er mér algjörlega óskiljanlegt.

Og svo þessi Hannes Hólmstein, er eins og störuspekingur Hitlers var á sínum tíma. Það er vafamál í mínum augum hver stjórar meira Seðlabankanum, Davíð eða Hannes H.

Óskar Arnórsson, 23.2.2009 kl. 10:36

8 Smámynd: Valgeir Skagfjörð

Sæll Óskar.

Að sjálfsögðu er þetta tekið til greina. Ég er sammála þér hvað varðar útlendinga sem reyna af fremsta megni að tileinka sér þetta forna og skrýtna tungumál sem aðeins 300 þúsund hræður tala. Það er virðingarvert að þeir skuli hafa kjark til að tjá sig. Ég hef sjálfur verið útlengingur í öðru landi og þá talaði ég og tjáði mig eins og tíu ára gamalt barn.

Að nota tungumálið (sem Njörður P. Njarðvík kallar stundum hljóðfæri hugans) þá þarf maður að æfa sig. Eitt tækifæri til að æfa sig er t.d. að blogga og vei þeim bloggurum sem taka slíkum skrifum með lítilsvirðingu.

Þvert á móti þá ættu þeir að hvetja viðkomandi til að skrifa áfram og leiðbeina þeim um hina leyndu stigu tungumálsins okkar svo þeir auki við orðaforða sinn og geti kannski farið að slá um sig með myndlíkingum eða dægurdæmum þegar fram líða stundir.

Tungumálafasismi á ekki að líðast á blogginu.

Þeir sem eru að fikra sig áfram á blogginu ættu að lesa það og kynna sér hvernig mismunandi stílar hafa þróast með þeim sem blogga. Taka sér til fyrirmyndar þá sem eru góðir og forðast ambögur og villur sem aðrir endurtaka stundum.

(Mundu að það er fullt af ,,Íslendingum" sem eru fæddir hér og uppaldir og meira að segja með ágætis menntum sem bæði láta út úr sér ambögur beyginarvillur og stafsetja vitlaust. Það þarf ekki útlendinga til. En ég tek sannarlega ofan fyrir þeim sem stinga sér í djúpu laugina og tala bara með sínum hreim. Það litar menningu okkar og gerir hana ríkari og fjölbreyttari.)

Oftar en ekki er þó um að ræða  saklausar innsláttarvillur - en aðalatriðið hlýtur þó alltaf að vera innihaldið og vonandi einhver ástríða gagnvart því sem maður er að segja og gleði yfir því að deila hugrenningum sínum með öðrum. Blogg er fyrir mér vettvangur fyrir alla sem liggur eitthvað á hjarta.

Hafðu svo þökk fyrir að lesa pistlana mína og hvettu konuna þína til að skrifa áfram. Þótt einhverjir séu með skæting þá skyldi hún ekki láta þá hina sömu stjórna því hvort hún skrifar á bloggið eða ekki. Þeir eru trúi ég fleiri sem virða hana fyrir viðleitnina.

Kv.

Valgeir

Valgeir Skagfjörð, 23.2.2009 kl. 13:40

9 Smámynd: Óskar Arnórsson

Takk fyrir það. Ég er vel meðvitaður um mínar stafsetningarvillur og afsaka mig aldrei fyrir þær.

Ég lærði alla vega nýtt orð núna sem ég hef aldrei áður séð:

Tungumála-fasismi! Mjög gott orð.

Konan mín var búin að öðlast réttindi til að sækja um Íslenskan Ríkisborgararétt, enn ákvað að þyggja hann ekki vegna framkomu íslenskra karla við sig.  

Svo við fluttum til Svíþjóðar þar sem hún er að byrja á öllu upp á nýtt. Og ég líka.

Við þökkum þér bæði fyrir að afsökunarbeiðnin var samþykkt af þér.

Þegar þú finnur ambögur, ásláttarvillur og stafsettningarvillur, vittna ég bara í Laxness.

Óskar Arnórsson, 23.2.2009 kl. 14:53

10 Smámynd: Valgeir Skagfjörð

Vona að Svíarnir séu betri við ykkur en Landinn. Eflaust eiga þeir eftir að fjölmenna til Svíþjóðar á næstu misserum. Lycka till!

Valgeir Skagfjörð, 23.2.2009 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband