Færsluflokkur: Bloggar

Að loknum kosningum

Kæru bloggvinir, og landsmenn allir til sjávar og sveita. Hið ótrúlega hefur gerst að nýtt fárra vikna gamalt framboð hefur fengið 4 menn inn á þing. Hver hefði trúað þessu?

Þessi vegferð sem hófst hjá mér með saklausu bloggi í kjölfar mótmælanna á Austurvelli s.l. haust hefur verið með hreinum ólíkindum. Í kjölfar bloggsins flutti ég ræðu á Austurvelli, daginn eftir mættur í Silfur Egils og fáeinum dögum síðar kominn í framboð fyrir nýtt óþekkt stjórnmálaafl sem hafði það eitt að leiðarljósi að koma á breytingum í samfélaginu, krefjast siðferðislegra reikningskila, bjarga heimilum sem eru að komast á vonarvöl og reisa nýtt lýðveldi á Íslandi úr öskustó kerfishrunsins.

Þessi markmið hæfðu mig í hjartastað og í stað þess að nota lýðræðislegan rétt minn til að kjósa þá bætti ég um betur og fór sjálfur í framboð vegna þess að mitt framlag til heimsins er síst lakara en annarra. Að kjósa einhvern af gömlu flokkunum hugnaðist mér engan veginn.

Mér þótti fálátt mannval á þingi og þá var ekki nema um eitt að gera og það var að fylgja orðatiltæki sem móðir mín notaði stundum: ,,Ef þú vilt fá eitthvað gert, þá gerðu það sjálfur.

Ég áttaði mig á því að ég gat haft áhrif og beitt mér ef ég vildi og það fann ég þegar ég gekk til liðs við Borgarahreyfinguna. Þarna er gegnheilt og gott fólk sem vill bæta heiminn, ástunda mannkærleika, heiðarleika og gagnsæi í stjórn landsins  og ætlar sér í raun og sannleika að þjóna almenningi í landinu. 

Þetta er það sem fólk hefur fundið hjá okkur - þrátt fyrir að við höfum ekki verið að eyða skattfé samborgara okkar í að búa til rándýrar kosningaloforða-auglýsingar sem færa fólki ekkert nema lygi eða hálfsannleik tókst okkur að koma stefnu og hugsjónum hreyfingarinnar á framfæri við nægilega marga til að tryggja okkur ,,ódýrustu þingsætin" á kjörtímabilinu. 

Borgararnir hafa séð í gegnum blekkingarvefinn og fylgið til okkar síðustu dagana fyrir kjördag var  gríðarlegt. Það var að minnsta kosti mín tilfinning.

Mig langar að þakka öllum sem hafa lagt svo gjörva hönd á plóg við að hjálpa okkur. Þetta hefur verið ævintýri líkast. Hefði skoðanakönnun sýnt einn mann þá hefði það verið sigur. Hver einasti maður framyfir það er ekkert annað en stórsigur. 

Fólk þurfti alvarlega að velta því  fyrir sér hvort það ætlaði að treysta þeim sem settu hér allt á hvolf til það reisa okkur við aftur eða hvort það  ætlaði að hafa kjark til að hleypa nýju fólki að. 

Fólki sem er ekki bara laust við hagsmunatengsl og spillingu heldur fólki sem þorir, getur og vill þrýsta á um alvöru breytingar á samfélagi okkar. 

Úrslit kosninganna tala sínu máli og ef við verðum ekki búin að ná markmiðum okkar áður en þetta kjörtímabil er á enda þá er ég sannfærður um að í næstu kosningum munum við bæta við okkur enn fleiri þingmönnum. 

En þangað til þurfum við að vera virk í hreyfingunni. Við þurfum að hafa lifandi flæði hugmynda á milli okkar, styðja við þingmenninga okkar með ráðum og dáð og ekki láta segja okkur hvernig hlutirnir eru og fara í leikritið að segja það sem við teljum að fólk vilji heyra. 

Við skulum alltaf hafa markmið okkar í augsýn og hvergi víkja frá þeirri leið sem við höfum ákveðið að fara. 

Erfiðasta verkefnið sem framundan er verður að skapa trúverðugleika því víst er að þessi smái þingflokkur sem verður inni á alþingi næstu misseri mun þurfa að leggja miklu meira á sig en hinir til að sanna tilverurétt sinn. 

Þess vegna hvet ég þingmenn okkar og alla í Borgarahreyfingunni til að láta að sér kveða þegar alþingi hefur störf. Vinnum að okkar málum, notum hvert tækifæri til að stíga í pontu til að tjá okkur. 

Gerum okkur sýnileg og látum kjósendur okkar finna  að okkur sé alvara þegar við segjumst líta á okkur sem fólk í þjónustu almennings. 

 

Baráttukveðjur og þakkir fyrir skemmtilegustu kosningabaráttu og kosninganótt sem ég hef upplifað. 

 

Valgeir Skagfjörð, borgari. 

 

Hvet til þess að verðtrygging verði afnumin sem allra fyrst. 

 

 


Siðferðisleg reikningskil

Nú um stundir kemur berlega í ljós hverra hagsmuni Sjálfstæðisflokkur og Samfylking vilja verja. ,,Þangað leitar kötturinn sem honum er klórað," segir málsháttur. Það sama gildir um peninga.

Ekki eru öll kurl komin til grafar varðandi það hverjir moka fé í kosningasjóði S-flokkanna en það dylst engum að ef einhver klórar mér á bakinu þá finn ég mig ómeðvitað knúinn til að klóra einhverjum öðrum á bakinu í staðinn.

Þannig sjáum við glöggt að þessar kosningar snúast ekki um að þessir sömu flokkar ætli að verja almannahagsmuni eða hafi heill þjóðarinnar að leiðarljósi. Þessar kosningar snúast um völd. Ekki völd til að vinna að almannaheill heldur völd til að verja hagsmuni þeirra sem greitt hafa rausnarlega í kosningasjóðina. Þess utan hafa þeir flokkar sem sitja á þingi leyfi sjálfs sín til að úthluta sjálfum sér 14 milljónum til að boða sín fagnaðarerindi.

Þannig er komið í veg fyrir að ný framboð geti kynnt sig eða a.m.k. er þeim það nánast ókleift í ljósi þessara aðstæðna.

 

Borgarahreyfingunni hefur tekist þrátt fyrir erfiðar aðstæður að ná upp í 5% fylgi á landsvísu án þess að hafa til þess nokkurn fjárhagsstuðning að heitið geti. Allir sem að framboðinu standa eru fullir af eldmóði, ástríðu og ást á landinu og gefa þess vegna vinnu sína með glöðu geði. Allt til þess að Borgarahreyfingin geti átt sinn fulltrúa á löggjafaþinginu.  Til að rödd fólksins heyrist. Það er gríðarlega mikilvægt. 

Fylgi okkar getur ekki gert neitt annað en að vaxa. Jafnt og þétt.

Við höfum fengið byr í seglin og þeir sem eru óákveðnir snúast á sveif með okkur enda erum við trúverðug og höfum göfugan málstað að verja. Borgarahreyfingin mun einungis taka afstöðu með einum hagsmunahópi - íslensku þjóðinni.

Hér varð efnahagshrun ef einhver skyldi vera búinn að gleyma því.  Á undan efnahagshruninu varð siðferðishrun. Stjórnmálamenn gerðu sig seka um að missa sjónar á því sem skiptir raunverulegu máli og létu ginnast af glópagulli auðjöfra sem vildu selja landið.

Nú standa þeir eftir, grímulausir með allt niður um sig en það hvarflar ekki að þeim að gera siðferðileg reikningskíl til að kjósendur geti vitað  hvað raunverulega fyrir þeim vakir að loknum kosningum.

Ég ákalla íslenska stjórnmálamenn og krefst þess að þeir geri hreint fyrir sínum dyrum. Það er lágmarkskrafa okkar sem ætlum í lýðræðislegum kosningum að fela fólki völd til að stýra landinu okkar að það sýni okkur svo ekki verði neinum vafa undirorpið að þeir séu heiðarlegir, hafi ekki hagsmuni annarra en þjóðarinnar að leiðarljósi og geti án þess að bera kinnroða  sagt að þeir hyggist hafa dómgreind sjálfs sín að leiðbeinanda og láta eigin sannfæringu og siðferðiskennd ráða för þegar þeir greiða fyrir málum á löggjafaþingi lýðveldisins.

Frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar hafa engin hagsmunatengsl inn í viðskiptalífið, kunningjabandalög kaupahéðna eða valdaklíkur aðrar.

Þeir hafa hafa sýnt að þeir eru venjulegir borgarar sem vilja ganga milli bols og höfuðs á þeirri spillingu sem grasserað hefur hér á landi undanfarin ár.

Frambjóðendur hafa látið birta á vefsíðunni xo.is allar upplýsingar um laun, stjórnarsetu í félögum eða fyrirtækjum til að allt sé uppi á borðinu. Við tölum ekki um gagnsæi - við sýnum gagnsæið í verki.

Borgarahreyfingin er eina framboðið sem boðar í stefnu sinni að þingseta skuli takmarkast við tvö kjörtímabil.

 Fjórar góðar ástæður:

Til að koma í veg fyrir spillingu.

Til að auka  fjölbreytt mannval á löggjafaþingi íslenska lýðveldisins.

Til að tryggja lýðræðið.

 

Siðferðisleg reikningskil - STRAX!

Valgeir Skagfjörð, borgari

 

Minni að síðustu á nauðsyn þess að afnema verðtryggingu. Strax!

 

 


Leyfum fólkinu að ráða

 Jæja góðir landsmenn, senn er mér öllum lokið.

Nú hafa farið fram svokallaðir borgarafundir í nokkrum kjördæmum í beinni útsendingu sjónvarps allra landsmanna. Öll umræðan snýst um einhver aukaatriði og  stjórnmálamenn fara í gömlu skotgrafirnar. Sama gamla karpið sem við erum búin að hlusta á síðan a.m.k. ég man eftir mér og er ég nú eldri en tvævetur.

Stjórnmálamenn virðast haldnir þeirri blekkingu að þeir geti bara boðið upp á allar sömu gömlu lausnirnar og áður. Menn forðast eins og heitan eldinn að ræða stærstu málin. 

Hvar er ástríðan og eldmóðurinn? Hvar er sannfæringin, hugsjónirnar og vonin um betra og réttlátara samfélag í framtíðinni. Hvar er hin mikla pólitíska sýn til næstu ára. Hvert ætla stjórnmálamenn að leiða þjóðina? Viljum við í alvörunni láta leiða okkur eins og lömb til slátrunar?

Við höfum val um það hvort við viljum vera eins og fé í réttum eða hvort við erum sjálfstætt hugsandi einstaklingar með réttlætiskennd og heilbrigt gildismat. Við þurfum nauðsynlega að opna augun og sjá það sem er að gerast. 

Um hvað snúast eiginlega þessar kosningar? Hér varð efnahagslegt og siðferðislegt hrun á meðan tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsins voru á vaktinni. Krafa almennings var að koma vanhæfri ríkisstjórn frá völdum og fá að kjósa upp á nýtt til þess að knýja fram breytingar á því kerfi sem hrundi. 

Lýðræðið sem við höfum hingað til talið okkur hafa hér uppi á ísa köldu landi var fótum troðið. Hér hafa sjálfhverfir stjórnmálaflokkar þóst vera að iðka lýðræðisleg vinnubrögð við stjórn þessa lands en sannleikurinn er sá að við lentum á villigötum vegna spillingar sem hefur grafið um sig innan kerfisins  og skapað það sem er stundum nefnt flokksræði og jafnvel ráðherraræði. Við höfum ekki kunnað með lýðræði að fara og sumir stjórnmálaflokkar hafa beinlínis sent þau skilaboð til almennings að valdinu sé best borgið í þeirra höndum og aðeins fáir útvaldir af Guði og Flokknum séu yfirleitt færir um að stýra landinu. 

Lýðræðið er svo makalaust að nýjum framboðum sem telja sig hafa gott fram að færa og vilja breyta samfélaginu til betri vegar, uppræta spillingu og setja nýjar leikreglur sem miða að því að spilling geti ekki þrifist eins og til að mynda með því að setja því takmörk hve lengi menn geta setið á þingi, er nánast gert ókleift að kynna sig fyrir þjóðinni. En flokkarnir sem eru fyrir á þingi geta úthlutað sér milljónum af skattfé almennings til að standa í kosningabaráttu. Réttlæti?

Lýðræðið er svo stórbrotið að framkvæmdavaldið skipar dómsvaldið eftir flokkslínum og löggjafinn hefur hvorki vilja né döngun í sér til að veita nauðsynlegt aðhald.

Almenningur sem vill hafa eitthvað að segja um einstök mál fær ekki að kjósa um þau sérstaklega en er náðarsamlegast boðið upp á það á fjögurra ára fresti að kjósa flokkslista sem flokkarnir eftir sínu kerfi hafa raðað upp - hvort sem það kallast prófkjör eða uppstillingar. Þá gildir að hafa réttu samböndin, besta tengslanetið og böns af monní. Þannig geta flokksmenn tryggt sér sæti á þingi. Svona er nú lýðræðið. Við höfum engin bein áhrif á það hverjir setjast inn á þing. 

Það var gefinn ádráttur um að innleiða persónukjör en ekkert varð úr því. 

Það átti að koma á stjórnlagaþingi til að koma á breytingum á stjórnskipan - en ekkert varð af því. 

Það átti að ganga frá auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar en sjálfstæðismenn stóðu gegn því. 

Það átti að slá skjaldborg um heimilin en þeir ákváðu að velta skuldum fjárglæframanna á almenning og boðuðu síðan launalækkanir, skattahækkanir og niðurskurð á þjónustu í menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi. 

Enn fáum við ekkert að vita hvað er á bak við þá skilmála sem stjórnin undirgekkst hjá AGS. 

Enn ríkir leynd yfir orkuverðinu til Alcoa Rio Tinto og Century aluminium. 

Enn ríkir leynd yfir því sem var og er að gerast inni í bönkunum og hjá skilanefndum. 

Enn ríkir leynd yfir því hve miklar skuldir þjóðarbúsins eru í raun og veru. 

Enn bólar ekkert á því að einhver sé dreginn til ábyrgðar á stærsta bankaráni sögunnar. 

ENN BÓLAR EKKERT Á SANNLEIKANUM! 

Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er byggð á plaggi sem danskur kóngur lét okkur í té fyrir meira en einni öld og þegar sú krafa rís sem hæst að það gæti verið sniðugt að endurskoða hana þá brjótast menn sem hafa hagsmuna að gæta um á hæl og hnakka til að ekki verði sett ákvæði svo ekki verði nokkrum vafa undirorpið að auðlindir landsins skuli vera sameign þjóðarinnar.  Þeir vilja hafa opinn möguleikann á því að selja þær ef svo ber undir. Það var lýsandi dæmi að leita eftir áliti útlendra álfyrirtækja á orðalagi auðlindaákvæðisins. Halló!

Sjáið þið ekki góðir landsmenn að við erum að missa landið úr höndunum á okkur. Fyrst var fjármunum rænt af okkur, síðan er erlendum skuldum steypt yfir okkur sem nema stjarnfræðilegum upphæðum og nú er keppst við að halda því leyndu fyrir okkur að  þjóðin sé í raun gjaldþrota. 

Undarleg er þöggunin varðandi það sem fram kom í ræðu og riti hjá Michael Hudson og John Perkins. En það er kannski með ummæli þeirra eins og ummæli danska bankamannsins sem sagði að hér væri eitthvað að í bankakerfinu að þá kunnu Danir bara ekki að reka banka. Slíkur er hrokinn og óttinn við að segja þjóðinni satt. 

Við létum ræna okkur um hábjartan dag og í kjölfarið var okkur sagt að þegja, vera þæg og góð og bíða bara þolinmóð eftir að lausnir fyndust. Ekkert gerðist og stjórnin hrökklaðist frá. Söguna og ferlið þekkjum við.

Við fengum kosningarnar sem við kröfðumst en mér sýnist allt benda til þess að við ætlum að kjósa sama liðið yfir okkur aftur. Sama liðið sem var á vaktinni þegar allt hrundi.

Stærsti hluti landsmanna segist ekki treysta stjórnmálamönnum. Stærsti hluti landsmanna segist ekki treysta bönkum og fjármálastofnunum. Hvað ætlum við að gera þegar traustið er farið?  

Kosningarnar núna áttu að snúast um breytt viðhorf, nýjar hugmyndir, nýtt lýðveldi, nýtt Ísland. En hvað er það sem blasir við? Stjórnin tekur afstöðu með fjármagnseigendum og ætlar að velta skuldum yfir á almenning.

Almenningur skrifaði ekki upp á þá víxla sem fjárglæframennirnir lögðu fram sem tryggingu þegar þeir fóru í víking og rændu sparifé af fólki í útlöndum. Ég fyrir mitt leyti skrifaði ekki upp á þessi lán. Ég skrifaði upp á mín eigin lán sem ég sé vart fram á að geta staðið í  skilum með ef svo heldur fram sem horfir. 

Ég hafði miklar efasemdir um einkavinavæðingu tveggja stærstu bankana á sínum tíma en þeir voru seldir á slikk og tvær klíkur skiptu þeim á milli sín. Gott og vel. Þá lít ég svo á að bankinn sé á ábyrgð eigenda sinna og ef þeir klúðra málum - af hverju á ég þá að koma þeim til bjargar? Af hverju á ríkið að hlaupa til og bjarga.  Hver var þá tilgangurinn með einkavæðingunni?  

Ég get þá bara tekið að mér að reka eitt stykki ríkisfyrirtæki, sogið út úr því allt sem ég get þangað til það rúllar á hausinn af því ég veit að ríkið mun hvort sem er koma og bjarga mér. 

Hver borgar partíið? Það er nefnilega alltaf blessaður sauðsvartur almúginn sem má gjöra svo vel að borga. 

Svo bjargar ríkið bönkunum en almenningur má éta það sem úti frýs!

Þetta er dáfalleg sýn sem ég er að draga upp hérna. En við eigum von. Við eigum von í fólkinu sem lifir hér og nú verður að leyfa fólkinu að ráða. Við verðum að innleiða betra lýðræði. Við verðum að búa til lífvænlegt umhverfi fyrir góðar hugmyndir að dafna, ýta peningum af stað, láta þá flæða, til þess eru þeir. Peningar eiga að flæða og ef þeir fá að gera það í heilbrigðu vaxtaumhverfi, þá fer fólkið af stað sjálft.

Lífeyrissjóðirnir eiga líka fullt af peningum. Af hverju geta þeir ekki komið inn og fjárfest í góðum verkefnum? Ég vil miklu frekar taka lán hjá þeim heldur en alþjóða gjaldeyrissjóðnum. 

Af hverju í veröldinni setjum við ekki peninga og kraft í að búa til verðmæti innanlands til að þurfa ekki að  flytja svo mikið inn?

Af hverju í veröldinni setjum við ekki út sprota um allan heim til að laða hingað fólk. Allan ársins hring.

Ísland hefur mikla sérstöðu. Hér eru eldfjöll, jöklar, ævintýraheimur hvert sem litið er. Við eigum álfa og tröll, huldufólk í klettum, furðuverður í hellum, í vötnum. Við getum framleitt heimsins besta og hollasta grænmeti og aðrar matvörur. Við eigum sterkan hreindýrastofn, sögu um landnám, drauga, harðindi, hugmyndaheim sem fólki úti í heimi þykir áhugaverður.

Við verðum að átta okkur á því að Ísland, þessi dásamlegi klettur hér norður í dumbshafi er fjársjóðskista. Það er bara spurning um að koma auga á það. Hætta að leita að stórum patent lausnum. Það er ekki lausn fyrir okkur að láta landið lenda í höndum erlendra stórfyrirtækja og fjármálafursta sem eiga að hafa vit fyrir okkur. Við getum haft vit fyrir okkur sjálf og haldið saman í dásamlegt ævintýraferðalag í átt að sjálfbærni með skapandi hugsun, virkjun hugmynda og mannauðs. Leggjum peninga í smærri fyrirtæki sem eru að gera eitthvað óvenjulegt. Eitthvað sem bætir heiminn. Eitthvað sem gerir umhverfinu gott. Við sitjum á tækifærum og nú verður að taka hausinn upp úr þessari litlu holu og fara líta í kringum sig.

Ef skapandi hugsun nær að fanga þann fjársjóð sem við stöndum á hérna þá hef ég ekki svo ýkja miklar áhyggjur af framtíðinni.  Og nú hef ég, takið eftir, ekki nefnt virkjanir og álver en við eigum fullt af virkjunarmöguleikum þótt við séum ekki endilega að framleiða ál. Því það er dýrt og mengandi og skilar takmörkuðu í þjóðarbúið. 

Hvernig væri ef bændur, fiskvinnslan, ylrækt og aðrir stórir orkunotendur fengju nú orkuna á sambærilegu verði og álrisarnir úti í heimi? 

Hvernig væri að leyfa krókabátum að sækja fisk út á firði sem eru kraumandi af fiski? Skrá aflann og fullvinna í heimabyggð og koma til neytenda hvort heldur sem væri hér innanlands eða í skiptum fyrir eitthvað annað í útlöndum? 

Hvernig væri að  hjálpa hugmyndaríku fólki að láta drauma sína rætast? 

Hvernig væri að hætta þessu karpi um það hvaða flokkur sé best til þess fallinn að stýra þjóðarskútunni og taka höndum saman um að reisa landið við?  Gerum endurreisnina að sameiginlegu verkefni okkar allra.

Verkefni stjórnmálamanna á að vera að þjóna almenningi. Eitt verkefnið er að skapa hér aðstæður til þess að almenningur geti látið til sína taka. Þannig verða til fyrirtæki og störf. Síðan setjum við leikreglur sem miða að réttlæti og lýðræði fyrir alla. Þannig vinnum við okkur út úr krísunni.

En fyrst og síðast. Breytt viðhorf. Breytt hugsun og breytt gildismat.

Göngum hönd í hönd í áttina að betra Íslandi saman. Ekki vera eins og fé í réttum og láta einhverja sem kalla sig leiðtoga teyma okkur eitthvert út í óvissuna.  

Áfram Ísland! 

XO fyrir Borgarahreyfinguna

Valgeir Skagfjörð, borgari. 

 Að síðustu legg ég til að verðtrygging verði afnumin. Strax!

 

 

 


Land til sölu

Nú er sannleikurinn smám saman að afhjúpast. Það sem ég var búinn að hafa á tilfinningunni lengi er nú að líta dagsins ljós með áþreifanlegum og grímulausum hætti. Stjórnvöld á Íslandi ásamt fjármálasnillingunum okkar góðu hafa smám saman verið að koma landinu í hendurnar á erlendum stórfyrirtækjum sem hugsa ekki um neitt annað en að komast yfir auðlindir annarra þjóða með óprúttnum hætti.

Það sem við erum að horfa upp á núna er svo skelfilegt að mann langar að annað hvort að skríða undir sæng og gráta af djúpstæðri sorg yfir því hvernig komið er fyrir okkur eða hlaupa upp á næsta hól og hrópa yfir lýðinn: VAKNIÐ! Tröllið er komið! Það guðar á gluggann og segir: ,,pund af holdi! Það var búið að lofa mér pundi af holdi". Það kallar inn veðið. Nú er komið að skuldadögum!

Sefurðu þjóð mín, þegar þú átt að vaka og bjarga barni þínu. (Jóhannes úr Kötlum)

 Nú verður að reka taglhnýtinga auðvaldsins út í ystu myrkur. Þeir mega ekki undir neinum kringumstæðum eignast landið. Ennþá eigum við það í sameiningu og ef við förum ekki að vakna til lífsins þá er ekki víst að við verðum lengur sjálfstæð þjóð. Heldur þjóð í ánauð stórfyrirtækja sem nýta sér orkuauðlindir okkar í sína þágu og halda okkur almúganum í fátækt og örbirgð.

Þetta er ekki handrit að bíómynd heldur blákaldur veruleikinn og við verðum að láta  í okkur heyra. Við verðum að fylkja liði og láta valdahafana vita af því að þetta gangi ekki lengur. Það einfaldlega gengur ekki lengur.

Sannleikanum er haldið frá okkur af því nú eru að koma kosningar og hætt við að fólk ruglist um of í ríminu. Það veit enginn hvaðan á sig stendur veðrið. Við erum eins og skuldugt smáríki að betla þróunaraðstoð. Þarf frekari vitna við? 

Við borgum ekki! Við borgum ekki! Af hverju í veröldinni á almenningur í þessu landi að borga upp skuldir óreiðumanna í útlöndum? 

Af hverju í veröldinni á almenningur í landinu að sitja uppi með töpuð útlán bankanna og seðlabankans?

Hvernig stendur á því að þegar stendur til að gera eitthvað fyrir almenning í þessu landi þá fuðra allir upp yfir því hvað það kostar mikið?

Hvernig stendur á því að þegar afskrifa á milljarða á milljarða ofan hjá fyrirtækjum og fjármálastofnunum þá er aldrei talað um hvað það kostar?

Það er alltaf þessi sami almenningur sem þarf að borga brúsann og blæða hvort sem er - ekki satt? 

Hvernig stendur á því að stjórnvöld taka einarða afstöðu með fjármagnseigendum en láta almenning lönd og leið? Af hverju er það látið duga að henda upp í okkur einhverri dúsu. Greiðsluaðlögun hvað?  Útgreiðsla séreignasparnaðar hvað? Sért er nú hvert útspilið. Ég segi ekki meir.

Við þurfum að fara skríðandi á blóðugum hnjám og sýna fram á að við séum í efnahagslegum dauðateygjum til að fá útrétta hönd hjá hinu opinbera.

Ætlum við að setja íslenska alþýðu á vergang? Er það lausnin? 

Þrátt fyrir loforð um annað þá eru í gangi hertar innheimtuaðgerðir hjá innheimtustofnunum. Bankar og fjármálastofnanir ganga sýnu harðar að fólki en áður og hvergi virðist fyrirgreiðslu að hafa. Að semja um skattaskuldir er ógjörningur. Til hvers er ætlast? Að við gefum þeim atkvæðin okkar svo þeir geti haldið áfram að herða á ólunum? HVAÐ ÆTLA ÍSLENDINGAR AÐ GERA?

Kjósa flokkinn og vona það besta? 

Það stefnir í óöld og ég hvet svo sannarlega alla landsmenn til að flykkjast út á göturnar þegar búið er að ferma börnin og brjóta páskaeggin og hrópa á valdsmenn og fjármagnseigendur: VIÐ BORGUM EKKI! VIÐ BORGUM EKKI! 

Ég stofnaði ekki til þessara skulda. Ég hef alveg nóg með mínar eigin skuldir svo ég fari nú ekki að taka á mig skuldir vitskertra fjárhættuspilara sem breyttu íslenska hagkerfinu í spilavíti. 

Trúir því einhver að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að setja þjóðina á vergang? Hvað ætla menn að gera ef unga fólkið fer unnvörpum á fund lánadrottna sinna og afhendir þeim lyklana að húsunum sínum, íbúðum og bílum og segir: gjörið svo vel - þið megið eiga þetta ? Svo yfirgefur það bara þessa eldfjallaeyju. Allt búið. Bless. Kem aldrei aftur! 

Við verðum að aflétta vistarbandinu. Við verðum að koma landinu okkar til hjálpar. Gömlu ráðin duga ekki lengur. 

Nú verður þjóðin að fara á þing og beita sér fyrir breytingum. 

Auðlindirnar til þjóðarinnar.

Nýjan sáttmála milli þjóðarinnar og valdhafanna.

Ítarlega rannsókn á bankahruninu.

Verðtrygginguna burt.

Neyðaraðgerðir fyrir heimilin til að halda fólkinu í landinu.

Skuldaafskriftir í stórum stíl. Byrja með hreint borð.

Sækjum okkur nauðsynlega aðstoð til að koma hér á efnahagslegum stöðugleika. Við erum ekki fær um að hjálpa okkur sjálf.

Þjóðin þarf öll að fara í meðferð til að sigrast á meðvirkni. Til dæmis væri gott að horfast einfaldlega í augu við það að við erum smáþjóð - ekki stórveldi.  Þá kannski finnum við til smá auðmýktar.

Finnum verkefni fyrir vinnufúsar hendur. Höldum áfram að mennta fólkið okkar.

Nýtum þann sköpunarkraft sem felst í menningarlífi okkar og fáum hið frábæra og hæfileikaríka listafólk til að skapa okkur góða ímynd á heimsvísu. Þar eigum við sannarlega vannýtta auðlind.

Nú dugar ekki að vola og vorkenna sér þótt illa sé komið fyrir okkur - heldur skulum við berja okkur á brjóst, vera upplitsdjörf þrátt fyrir smæð okkar og niðurlægingu og segja: við eigum þetta fallega land og það skal ekkert tröll voga sér að seilast með krumlu sína hingað og reyna að taka það. 

Eignaðist ég ást að fjallabaki 

augu hennar blíð sem morgunsól.

Í faðmi hélt ég henni föstu taki

fönnin breiddi yfir hvítan kjól.

 

Hvert sinn er ég kem að fjallabaki

kyrrðin breiðir faðm sinn móti mér.

Sama hvort ég sef eða hvort ég vaki

seiðir til sín hug minn hvert sem ég fer.

 (V.S.)

Lifið heil. 

 

Valgeir Skagfjörð, borgari og frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar.

 Minni auk þess á nauðsyn þess að afnema verðtryggingu!

 

 

 

 

 

 

 


Vonlaust framboð vekur von

Þessa daga er verið að ganga frá framboðslistum Borgarahreyfingarinnar. Undirritaður hefur tekið 2. sæti á lista í Kraganum og leggur af stað í þessa vegferð fullur bjartsýni.

Margir hafa á orði að við séum að taka atkvæði frá öðrum. Það vill svo til að það er ekki ennþá á ísa köldu landi sérstakt eignarhald á atkvæðum kjósenda.

Samkvæmt þeim skoðanakönnunum sem gerðar eru þessa daga kemur í ljós að enn er stór hluti kjósenda í vafa um hvað hann ætlar að kjósa. Enn fremur hafa kannanir sýnt að Borgarahreyfingin fær til sín meira fylgi en aðrir og stefnir hraðbyri í að rjúfa 5% múrinn. Það gefur nýja von.

Von mín fæddist í búsáhaldabyltingunni þegar ég varð þess áskynja að Íslendingar voru þrátt fyrir allt tilbúnir að tjá sig á torgum, fá útrás fyrir reiði sína og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ná fram ætlunum sínum.

Ástríðan og eldmóðurinn sem svall í brjóstum manna og kvenna þessa daga hleypti mér kappi í kinn með svo afgerandi hætti að ég  fór niður í bæ að hrópa af einskærum fögnuði yfir því sem var að gerast. Ég var tilbúinn að berjast með liðinu í þeirri viðleitni að koma á nauðsynlegum breytingum í landinu.

Mig dreymir um að þjóðin fái að skrifa sína eigin stjórnarskrá í þágu sinna eigin hagsmuna.

Mig dreymir um að hér verði virkt lýðræði en ekki einokun og flokksræði.

Mig dreymir um að þjóðin fái að setjast á þing en ekki bara einhverjir útvaldir með flokkskírteini í arf og ættartengsl sem bónus og tryggingu fyrir þingsæti.

Mig dreymir um að hér verði jöfnuður og að valdsmenn verði ekki yfirstétt á Íslandi.

Mig dreymir um að þeir sem þiggja vald sitt frá fólkinu líti á sig sem þjóna og hugsi fyrst og síðast um það að vera þjóðinni að gagni og starfi í þágu þjóðarhagsmuna en ekki eigin-og sérhagsmuna.

Mig dreymir um nýtt Ísland þar sem allir fá notið ávaxtanna af erfiði sínu, þar sem öldruðum er búið áhyggjulaust ævikvöld og þar sem unga fólkinu er gert kleift að koma undir sig fótunum þannig að það geti komið sínum afkomendum til manns í öryggi. Þar sem afkoman er tryggð með fjölbreyttu atvinnulífi og háu menntunarstigi.

Mig dreymir um traust fjármálakerfi þar sem vextir eru sanngjarnir og möguleiki sé á því að höfuðstóll lána lækki eftir því sem lengur og meira er greitt af þeim.

Mig dreymir svo margt og ég hef lært það á langri ævi að draumar manns geta ræst ef maður leggur vinnu og rækt við það að láta þá rætast.

Það ætla ég að gera með því að bjóða mig fram fyrir hönd Borgarahreyfingarinnar því nú hefur sannast að fólk tekur okkur alvarlega og við meinum það sem við segjum.

Það er von til þess að draumar mínir rætist. Kæru vinir, Borgarahreyfingin er kostur fyrir þá sem vilja losna við flokksræðið.

Borgarahreyfingin er kostur fyrir þá sem vilja bætt siðferði.

Borgarahreyfingin er kostur fyrir þá sem vilja réttlátara samfélag.

Borgarahreyfingin er kostur fyrir þá sem vilja lýðræði.

Borgarahreyfingin er kostur fyrir þá sem vilja láta innri sannfæringu stýra því hvar atkvæðið lendir í stað þess að láta óttann stýra því.

Borgarahreyfingin er kostur fyrir þá sem vilja í alvöru breytingar á stjórnskipan á Íslandi.

Borgarahreyfingin er kostur fyrir þá sem vilja uppræta spillingu.

Valgeir Skagfjörð, borgari

E.S.  Að lokum vil ég leggja það til að verðtrygging verði afnumin.


Siðferði og samfélag




Í mínum huga stendur samfélag okkar hér á Íslandi á tímamótum. Þjóð hefur beðið skipbrot og er núna smám saman að gera sér grein fyrir skaðanum sem hún hefur orðið fyrir. Hér þarf engar skáldlegar metafórur til að lýsa þeirri vanlíðan sem nú ríður húsum hjá fólki. Hér þarf enga lærða stjórnmálaskýrendur, hagfræðinga eða lögspekinga til að túlka þá atburðarás sem af mannavöldum komu landi og þjóð í þrengingar af þeirri stærðargráðu að það er ofvaxið mínum takmarkaða mannlega skilningi á stundum.

Einkum og sér í lagi þegar ég hlusta á hvern sérfræðinginn á fætur öðrum útskýra stöðuna í fréttatímum og  fréttskýringaþáttum ljósvakamiðla. Ekki greiðist neitt frekar úr flækjunni þegar ég les greinarnar í blöðunum eða bloggið ... mann sundlar og sjálfur er ég ekki frír við að hafa fleygt skoðunum mínum út í loftið í óþökk sumra en þökk annarra. 

Það sem augljóslega hefur gerst á sér aðdraganda og sá aðdragandi hefur lítið sem ekkert með pólitík né hagfræði að gera – heldur hefur einmitt með það að gera sem er til umræðu hjá þjóðinni þessa daga. Siðferði.
Við höfum byggt samfélag okkar upp á grunni kristilegs siðferðis sem aftur á sér rætur í hugmyndum grísku heimspekinganna Sókratesar og Plató.

Við höfum af veikum mætti reynt að stýra mannlegu eðli í farveg sem er markaður af hinum gullna meðalvegi milli dyggðanna og lastanna. Lestirnir hafa stundum verið nefndir dauðasyndir – sjö talsins. Ég ætla að nefna þrjár: hroki, græðgi og leti.  Til mótvægis ætla ég að nefna þrjár höfuðdyggðir – trú, von og kærleik.

Það sem hefur gerst í okkar samfélagi er að við höfum villst af þessum meðalvegi og smám saman tókst að afvegaleiða okkur með því að fara að  líta á græðgina sem dyggð.

Eitt er að ávaxta sitt pund og láta gott af sér leiða fyrir það sem aflað er. Okkur þykja það sjálfsögð mannréttindi að búa í samfélagi þar sem allir fá að njóta ávaxta erfiðis síns. Hver vill það ekki? En við urðum ofurseld græðginni og síðan hrokanum sem lýsti sér meðal annars í því að enginn sá neitt athugavert við það að lifa í græðginni. Síðan gátu sumir í krafti auðs síns lagst í leti og hóglífi og þannig fóru að myndast brestir í þann siðferðislega grunn sem samfélag okkar hefur hingað til  byggst á.

Við létum bjóða okkur upp í dansinn kringum gullkálfinn og gleymdum stað og stund.  Við hentum dyggðunum fyrir róða en létum stjórnast af taumlausri löngun í að eignast allan heiminn. Hvað stoðar það manninn þótt hann eignist allan heiminn ef hann fyrirgerir sálu sinni? Stórt er spurt. 

Það tala allir um hrun – en er það eingöngu efnahagslegt? Nefnilega ekki. Hér hefur nefnilega orðið siðferðislegt hrun.  Menn sváfu á verðinum. Það verður ekki nóg fyrir framtíð Íslands að reisa við efnahag og atvinnulíf. Það þarf að reisa við gildismat. Siðferðismat.

Ef einhvern tíma var þörf á að finna fyrir trúarsannfæringu, að hafa trú á því að hér muni rísa upp nýtt Ísland þá er það núna. Ef einhvern tíma var þörf fyrir að trúa því að Guð sé til og að hann sé algóður og vaki yfir öllu mannkyni, þá er það núna. Hvernig svo sem við skiljum hann og hvað svo sem við köllum hann. 

Ef einhvern tíma var þörf fyrir von – von um að menn geti breytt hugsun sinni, von um að réttlæti nái fram að ganga, von um að góðar hugmyndir leiði til farsældar og að allt fari vel að lokum, þá er það núna.

Ef einhvern tíma var þörf fyrir að standa saman og gefa af okkur sjálfum, vera meðbræðrum okkar að gagni og sýna kærleika í verki þá er það núna. Kærleikurinn fellur nefnilega aldrei úr gildi.

Fyrr á öldum þegar Evrópumenn voru að kanna nýja heiminn, þá gáfu frumbyggjarnir þeim gjarnan heitið: þeir sem taka.
Það var einhvern veginn það sem þeir gerðu. Þeir tóku. Þeir sölsuðu allt undir sig. Þrátt fyrir sterkt kristilegt uppeldi þar sem siðferði kristindómsins var í öndvegi – þá voru þeir alltaf í hlutverki þeirra sem TAKA. 

Þeir voru á valdi græðginnar. Gullgrafarar, olíuleitarmenn, og aðrir sem hafa lagt undir sig lönd og skilið eftir sig sviðinn, blóðugan svörð, rústað heilu samfélögin, kúgað smáþjóðir í þeim tilgangi einum að raka saman auði undir sjálfa sig ... taka ... taka ... gefa ekkert ... taka allt ... fullkomlega á valdi sérplægninnar og eigingirninnar – þeir sem taka hafa ekkert siðferði nema það siðferði sem þeir kjósa sjálfum sér.

Margir vilja kalla þetta frumkvæði, skapandi hugsun, frumkvöðla eðli – frelsi einstaklingsins til athafna, og svo framvegi og svo framvegis.

Flestir menn gera ekki stærri kröfur til lífsins en fá að strita í sveita síns andlits, og njóta uppskerunnar. Við viljum uppskera eins og við sáum.

Samfélag okkar ætti byggja á bjargi trúar, vonar og kærleika, jafnréttis, frelsis og lýðræðis.

Siðferði í samfélagi er ekkert flókið ef við aðeins þekkjum muninn á  réttu og röngu.

Heiðarleiki og traust verða ekki byggð á hroka, hleypidómum, græðgi, misrétti, yfirgangi, kúgun og einokun heldur þvert á móti.

Heiðarleiki og traust skapast við það þegar samskipti okkar einkennast af auðmýkt, hlustun, nærgætni, hófsemd, tillitssemi og virðingu fyrir hvert öðru.

Við erum ekki öll eins en við búum í samfélagi og við viljum búa í samfélagi. Lýðfrjálsu og réttlátu samfélagi sem hefur mikinn siðferðisstyrk.  Það er þess vegna skylda okkar að búa  samfélagi okkar ríka siðferðisvitund.

Það eru óvenjulegir tímar og það þarf að standa þjóðinni reikningsskil. Í nafni  réttlætis bið ég þess að Íslendingar beri gæfu til þess að setja sér nýjan sáttmála milli þjóðarinnar og þeirra sem hún velur til að fara með það vald, sem þeim er trúað fyrir. Oft var þörf er nú er nauðsyn.
       

Valgeir Skagfjörð, borgari.


Að síðustu legg ég til að verðtrygging verði afnumin.


Hvar eruð þið?

Góðir landsmenn nær og fjær.

Hvar eruð þið? Lýðræðinu blæðir og þið látið undir höfuð leggjast að tjá ykkur og láta sjá ykkur.  

Þið sem finnið til þegar vonleysið hellist yfir ykkur, látið ekki hugfallast. Ég fæ það sterklega á tilfinninguna að stór hópur fólks sem blæðir nú til efnahagslegs og félagslegs ólífis sé að missa trúna á að hér á Íslandi verði hægt að byggja upp framtíð. 

Eitt sinn bjó hér þrautseig þjóð sem þreytti daga langa .... 

Við sem  höfum þraukað hér í þúsund ár - ætlum við bara að gefast upp?

 

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga .... en ekki virðast allir hafa trú á því. Svartagallsrausið í þeim sem mala í útvarp og sjónvarp ætlar alla lifandi að drepa. Fréttirnar eru endalausar og ekki eru fréttmenn og viðmælendur þeirra í neinu bjartsýniskasti þessa daga.

Prófkjör fjórflokksins sýnast vera skrípaleikur einn. Eins konar undanrásir í kapphlaupinu að kjötkötlunum. Hollusta þeirra sem stefna á þingsætin liggur hjá flokknum - enda eru þeir búnir að bíða lengi í biðröðinni og þykjast eiga tilkall til sætis núna. Mentorar þeirra hafa kennt þeim vel og þeir munu eflaust halda vel og lengi í sætin sín eftir að rassarnir hafa mótað för sín á seturnar.

Það er hent í okkur sem hrópum á torgum og af húsþökum frösum um að þetta sé nú allt voðalega fallegt og göfugt en því miður þá er valdið í höndum kjörinna fulltrúa og verður það áfram. Enn um sinn að minnsta kosti.

Kjósendur er nauðbeygðir til að merkja við lista sem flokkarnir hafa stillt upp samkvæmt sínu kerfi sem er innilæst í klíkum sem hafa á valdi sínu maskínur sem smala fyrir þá sem eiga mestan pening eða eru duglegastir við að smjaðra fyrir fólki. Ef þetta kerfi heldur áfram að þróast svona þá munu þeir ná völdum sem halda dýrustu og flottustu flugeldasýningarnar. Lítið fer fyrir lýðræðinu.  Þeir réttæta kerfið með því að segja: þetta er það besta sem við höfum samkvæmt núgildandi leikreglum.

Svo geta þeir setið þarna inni á þinginu og úthlutað sjálfum sér hluta af almannafé til að stunda  kosningaáróður! LÝÐRÆÐI HVAÐ?  

Til að smjaðra fyrir kjósendum þá gefa sumir ádrátt um það að persónukjör sé eitthvað sem ætti að stefna að í framtíðinni - en hvenær ætlum við að læra að gera greinamun á glassúrssmurðum kosningaloforðum og þeim raunveruleika sem er praktíseraður eftir kosningar?

Nú ætla þeir að hafa stjórnlagaþingið af okkur. Þeir æmta yfir því hvað það kostar og það svíður kjósendum sem blæða - ekki satt?

Við höfum engin efni á því að hætta við stjórnlagaþing. Það er hægt að hafa annað fyrirkomulag á því en stjórnmálamenn hafa kynnt fyrir þjóðinni. Þjóðin á sjálf að fá að skrifa sína stjórnarskrá - hvað sem það kann að kosta. Það er fjárfesting til framtíðar fyrir þessa þjóð.

Nú auglýsi ég eftir 17.000 atvinnulausum sem gætu lagt orð í belg. 17 þúsund manns sem mig langar til að heyra í. Hvar eruð þið? Þið eruð á kjörskrá og það munar um atkvæði ykkar. Hvað viljið þið gera?

Þjóðin hefur tjáð tilfinningar sínar. Hún hrópar á breytingar. Hún hrópar á heiðarlegt uppgjör við fortíðina. Hún hrópar á réttæti, sannleika, trúverðugleika og traust milli manna.

Ég treysti ekki stjórnmálamönnum sem sitja á þingi núna fyrir því verkefni að rannsaka sjálfir sinn þátt og sína ábyrgð í hruninu mikla undanfarna mánuði.  

Þegar hlutlausir aðilar fara að rannsaka málin þá mun rannsóknin óhjákvæmilega beinast að þeim sem tengjast stjórnmálamönnunum sjálfum með einum eða öðrum hætti. Það liggur í hlutarins eðli að þá verður eins líklegt að rannsókninni verði hætt af einhverjum ástæðum eða verði látin fjara út smám saman uns fólkið verður orðið svo dofið og búið að fá svo mikið upp í kok að því verður farið að standa hjartanlega á sama.

Þ.e.a.s. það fólk sem verður þá eftir hér á landi.

Þjóðin hefur verið rænd og það er ekki í boði að setja hér yfir okkur þá sem höfðu ekki döngun í sér til að stoppa ræningjana eða koma yfir þá böndum.

Það er ekki í boði að hafa af okkur tækifærið til að koma hér á raunverulegum lýðræðisumbótum og stofna hér nýtt lýðveldi sem byggir á samfélagslegum gildum.

Hvar eruð þið?

Þið sem hafið tjáð tilfinningar ykkar svo um munar - þið sem hafið hrópað - ekki láta þagga niður í ykkur þegar við þurfum svo nauðsynlega að heyra í ykkur.

Hvar eruð þið?

Ykkar einlægur

 

Valgeir Skagfjörð, borgari

 

Svo legg ég til að verðtrygging verði afnumin.


Milli skinns og hörunds

Góðir landsmenn.

Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég hugsa til þess á hvaða stað við Íslendingar erum lentir sem þjóð. Við höfum verið mergsogin af fjárglæframönnum af slíkri bíræfni að misbýður siðvitund allra dauðlegra manna.  Nema auðvitað þeirra sem litla eða enga siðvitund hafa.

Hinn siðblindi sér ekki siðleysi sjálfs sín af því hann er blindur. Það felst í orðinu. Hinn siðblindi hefur eitt siðferði fyrir sjálfan sig en annað siðferði fyrir aðra.

Flest venjulegt fólk gerir ekki aðrar kröfur en að fá að lifa mannsæmandi lífi í landi þar sem lágmarks réttlæti ríkir. Það vill starfa við það sem hæfileikar þeirra, geta og áhugi standa til, greiða af skuldum sínum, rækta garðinn sinn, koma afkvæmum sínum á legg og geta átt gæðastundir á milli þess sem það stritar frá birtingu fram í myrkur.

Það er kominn tími til að átta sig á því að við fæðumst ekki inn í réttlátan heim. Réttlæti er eitthvað sem við þurfum að berjast fyrir. Réttlæti hefur birst mannkyninu í ýmsum myndum á ýmsum tímum. Það sem þótti réttlæti einu sinni þykir ekki endilega réttlæti í dag. Við getum tekið dæmi af okkur Íslendingum sjálfum. Vistarbandið þótti réttlátt af ýmsum og að drekkja konum þótti líka réttlæti. Það þótti jafnvel réttlæti að brenna konur á báli fyrir galdra ef þær höfðu til dæmis þau áhrif á menn að vekja með þeim girnd. Hver tími skilgreinir sitt réttlæti sem byggir á ríkjandi gildum og við gerum því skóna að flestir a.m.k. á Íslandi  nútímans viti hvað felst í orðinu réttlæti.

Einhvern tíma var sagt að réttlætið sigraði að lokum. En þá mætti spyrja - réttlæti hvers? Réttlæti siðblindingjans sem réttlætir það að misnota annarra fé sér og sínum til hagsbóta eða réttlæti hins sem er alinn upp við þau gildi að það að taka það sem aðrir eiga sé brot á sjöunda boðorðinu?

Eru ekki annars allir með það á hreinu hver munurinn er á réttu og röngu? 

Þurfum við kannski að senda þotuliðið og pólitíkusana á námskeið í lífsleikni?

Þurfum við að varpa fram spurningunni: Hvað er heiðarleiki? Vita það ekki allir? Vitið þið kæru vinir- ég hef efasemdir um það.

Tökum dæmi af venjulegum manni sem finnur seðlaveski á götunni. Í því eru greiðslukort og talsvert af reiðufé. 200 þúsund krónur. Venjuleg mánaðarlaun hins venjulega manns. Nú hefur þessi maður val um það hvort hann kemur seðlaveskinu í hendur eigandans og hlýtur fundarlaun fyrir vikið. Í því tilfelli getur hann farið sáttur heim að sofa. Hann hefur fullvissu í hjartanu um að hann hafi verið að gera eitthvað gott. Hann varð meðbróður sínum að gagni, var heiðarlegur í hvívetna og tuttuguþúsund krónum ríkari af því eigandi seðlaveskisins varð svo feginn að hann greiddi 10% í fundarlaun. Góð málalok.

Hinn kosturinn er augljós. Hann ákveður að skila ekki veskinu. Hann vantar sárlega 200 þúsund kall til að standa í skilum með reikninga eða kannski langar hann bara að kaupa sér eitthvað sem hann hefur ekki haft efni á að eignast. Hann hugsar með sér: ,,Sá á fund sem finnur. Guð er góður. Hann hefur lagt þetta veski hérna fyrir mig. Sá sem týndi því getur sjálfum sér um kennt fyrir kæruleysið og nú tekur hann út sína refsingu ....." og svona heldur hann áfram að réttlæta gjörðir sínar þar til hann er orðinn sannfærður um að hann eigi þennan fund. Hann hirðir reiðuféð og hendir veskinu með kortunum í næstu ruslatunnu í fullkominni sannfæringu þess sem telur sig eiga rétt á því að hirða það sem er fyrir fótum hans. 

Þetta er veröld þeirra sem leita að réttlætingu misgjörða sinna. Það sem meira er - þeir sjá ekkert athugavert við þessa breytni.

Heiðarleikinn, mannvirðingin, reisn mannlegra gilda á borð við trú von og kærleika eru á undanhaldi og sumar höfuðdyggðir mannfélagsins virðast engjast sundur og saman í dauðateygjunum.

Skyndilega erum við stödd í aðstæðum sem virðast einhvern veginn á mörkum þess að vera raunverulegar og ímyndaðar. Við höfum aldrei staðið frammi fyrir slíkum hremmingum áður. Enginn virðist vita sitt rjúkandi ráð. Hingað til lands kemur kona að nafni Eva Joly sem hefur helgað líf sitt því að koma höndum yfir fjárglæframenn sem einskis svífast og orðið töluvert ágengt í því. Fyrir vikið er hún í lífshættu. Það er haft í hótunum við hana og hún hefur þurft að sæta ofsóknum af hendi þeirra sem rannsóknir beinast að.

Ég verð að viðurkenna að eftir viðtalið við hana í Silfrinu á sunnudag þá hríslaðist óttinn niður eftir bakinu á mér um leið og reiðin kom mér til að kreppa hnefann svo hnúarnir hvítnuðu. Ég blótaði upphátt og var farinn að tala við sjónvarpið. Hvað er að? Af hverju er ekki hjólað í þessa menn? En ég áttaði mig á því að við höfum ekki getu, vilja, né kjark til að fara í málið.

Íslendingar! Vaknið! Þið sem stóðuð á Austurvellinum og börðuð bumbur og búsáhöld hvar eruð þið? Hvaða doði er hlaupinn í ykkur? Eruð þið búnir að missa trúna á það sem þið voruð að gera? 

Við gefumst aldrei upp þótt móti blási .... hvar er baráttan? Hvar er stríðsmaðurinn í ykkur? Var hann drepinn í dróma af kosningaáróðrinum? Eruð þið tilbúin að trúa því að gömlu stjórnmálaflokkarnir ætli sér að taka á þessum landráðamönnum? Viljið þið selja landið ykkar?

Við fórum í stríð við Breta til að verja landhelgi okkar og við sigruðum. Við höfðum góðan málstað að verja og trúðum á hann.

 Nú er svo komið að þjóðin verður að öðlast málstað sem hún trúir á.  Við í einfeldni okkar létum gráðuga kaupsýslumenn hafa okkur að ginningarfíflum.

Við létum vanhæfa stjórnmálamenn draga okkur inn í sjúklegan heim fjárglæfra þar sem menn svífast einskis til að ná markmiðum sínum. Allt í einu er Ísland orðið hluti af glæpsamlegri fjárplógsstarfsemi sem teygir anga sína um allan heim og hendur okkar eru ataðar auri. Næst er það spurningin um hvenær blóð fer að renna.  Ætlum við að bíða eftir því?

Hvaða kjarkleysi er í gangi? Ætlum við að glúpna öll - eða hvað?  Við höfum málstað að trúa á. Við höfum málstað að verja og við skulum - hvernig svo sem við förum að því - við skulum komast að sannleikanum. Það er sá málstaður sem við þurfum að trúa á.

Við sem þjóð eigum heimtingu á því að vita sannleikann í þessu máli. Ef sannleikurinn kemur ekki upp á borðið þá er ekki um það að ræða að hér geti orðið til nýr sáttmáli milli okkar þegnanna og þeirra sem ætla sér að fara með völd hér.  Það er orðið  brýnna en nokkru sinni að gjörbylta hér allri stjórnskipan.

Við verðum að hafa kjark til að sækja þá til ábyrgðar sem hafa með einhverju móti átt þátt í þeirri spillingu sem hér hefur viðgengist allt, allt of lengi.

Eins og Eva Joly útskýrði svo vel fyrir okkur þá verður ekki bara hlaupið til útlanda til að sækja einhverja sérfræðinga hingað til að rannsaka málið - við sjálf þurfum að byrja einhvers staðar.

Það er ekki orðið of seint.  En það skortir kjark. Hvaða aumingjaháttur er þetta?

RÆS! ALLIR UPP Á DEKK! Nú þarf að taka til hendinni.

Auk þess legg ég til að óréttlát verðtrygging verði afnumin

Ykkar einlægur

 Valgeir Skagfjörð, borgari.


Liðsmenn Íslands

Kæru vinir. Nú er svo komið að íslenskir stjórnmálamenn njóta ekki lengur trausts almennings. Vissulega er margt gott fólk á þingi og allir flokkar hafa innan sinna vébanda góða og hæfa einstaklinga sem hafa gegnt trúnaðarstörfum af alúð og trúmennsku. Hins vegar hafa aðrir einstaklingar ekki sýnt eins vandaða framkomu gagnvart þjóðinni og fyrir vikið eru þeir rúnir trausti.
Mín skoðun er sú að þeir hafi þar með fyrirgert rétti sínum á því að gera tilkall til þess að setjast inn á löggjafaþing landsins; í bráð að minnsta kosti.

Nú hefur Borgarahreyfingin kynnt til sögunnar nýtt framboð.

 

Undir listabókstafnum O.  x-O í næstu kosningum. O fyrir Borgarahreyfinguna.

Þetta framboð saman stendur af venjulegum borgurum sem hafa sameinast um fá en skýr markmið sem miða að breytingum á stjórnskipulagi Íslands.

Auk þess tökum við að sjálfsögðu skýra afstöðu til annarra mála. Við erum með aðgerðarpakka til bjargar heimilum og viljum skoða hvað er í boði hjá ESB og leyfa síðan þjóðinni að kjósa um það hvort hún vill það sem verður í boði eður ei.
Það væri óskynsamlegt að kjósa um eitthvað sem enginn veit hvað er. Það er augljóst að þjóð sem ekki fær allar upplýsingar upp á borð getur engan veginn tekið upplýsta ákvörðun. Enda er þjóðin að sleikja sárin eftir niðurbrotið undanfarna mánuði.

Í Borgarahreyfingunni er fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Fólk sem stóð vaktina þegar byltingin stóð sem hæst. Fólk sem var vakið og sofið yfir því að krefjast afsagnar ríkisstjórnar Geirs Haarde, stjórnar seðlabankans og fjármálaeftirlits. Og baráttan heldur áfram. Ekki megum við detta inn í doða og sinnuleysi og láta bara fjórflokkinn eyða tímanum og orkunni í að bítast um völdin.

Við viljum meiri umbætur í lýðræðisátt. Við viljum afnema verðtryggingu, kyrrsetja eignir auðmanna, færa náttúruauðlindirnar aftur til þjóðarinnar.
Við viljum algjöra uppstokkun á öllu því kerfi sem virkaði ekki þegar á reyndi. Kerfi sem stóð ekki styrkari fótum en svo að stofnanir þess brugðust algjörlega.

Stjórnmálaflokkarnir bera ekki síst ábyrgð á því hvernig fór. Við sáum öll hvernig Enron málið var vaxið. Það gekk maður undir manns hönd að sannfæra ráðamenn um hversu nauðsynlegt það væri að afnema öll höft og regluverk. Að frelsi til athafna væri grundvöllur þess að hægt væri að stunda arðbær viðskipti með verðbréf, og skúffufyrirtæki. Viðskiptasnillingarnir brenndu allar brýr að baki sér og voru á endanum leiddir brott í handjárnum. Þetta var USA og snillingarnir okkar yfirfærðu módelið á litla Ísland. Módelið varð svo miklu stærra en litla íslenska hagkerfið og þegar það hrundi þá varð hrun þess mikið og fall snillingana hátt en ekki hefur einn einasti þeirra verið kallaður til yfirheyrslu.

Svikamilla íslensku bankanna og útrásarinnar gat aðeins komist á koppinn vegna þess að þeir sem stjórnuðu hér efnahags og peningamálum aðstoðuðu við að plægja jarðveginn sem síðan skapaði hér kjöraðtæður fyrir græðgisfurstana til að leika sér í matador frá morgni til kvölds.

Við vitum hvernig fór. Íslandssagan sem nú er verið að skrifa er með slíkum ólíkindum að frumlegustu rithöfundar þjóðarinnar hefðu vart haft ímyndunarafl til að spinna upp svo lygilega sögu. Rás viðburða hefur verið með þeim hætti að þeir þættu vart boðlegir í Hollívúdd, nema sem efniviður í verulega súrealíkst kvikmyndahandrit. Hæpið samt að nokkur vildi kvikmynda slíkt handrit af ótta við að fólki þætti það ekki nægilega trúverðugt.

Veruleikinn sem blasir við er auðvitað martröð líkastur. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Það eru tækifæri í erfiðleikunum. Það liggja tækifæri ónotuð og við sem þjóð verðum að koma auga á þau og grípa þau.

Í lifinu er það gjarnan svo að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar.

Þjóðin stendur á þröskuldi við opnar dyr. Þjóðin hefur val um það hvort hún stígur til baka og lokar á þessar dyr sem nú standa opnar eða telur í sig kjark til að stíga innfyrir þröskuldinn, inn fyrir dyrnar og leggja upp í nýja vegferð í átt að betri og bjartari framtíð.
Það er ekki svo að það þurfi bara að hjóla í það að redda því sem aflaga fór. Það kallast á góðri íslensku að fara í drullureddingar.

 

Tækifærið liggur í því að stíga inn um þessar dyr. Það þýðir að við þurfum í sameiningu að endurmeta gildi lífsins. Við þurfum sem þjóð að spyrja okkur ágengra spurninga.
Hvernig viljum við hafa þetta samfélag?

Borgarahreyfingin ætlar að róa að því öllum árum að koma hér á alvöru breytingum. Við sem erum í hreyfingunni höfum engin tengsl við kunningjabandalög eða valdaklíkur hér á landi. Við eigum ekki skyldmenni og venslafólk á réttum stöðum sem geta togað í spotta að vild og farið á svig við lög og reglur eða framið brot á verklagsreglum sem teljast siðferðilega vafasöm. Við viljum innleiða heiðarleika og virðingu í samskiptum þjóðar og þings.

Nú er ekki tími til að keyra áfram kaldhamraða pólitík sem tekur ekkert tillit til tilfinninga fólks eða lætur sér fátt um finnast þótt almenningi blæði fyrir mistök þeirra sem áttu að stjórna landinu.
Fólkið hefur látið tilfinningar sínar í ljósi svo eftir hefur verið tekið allt í kringum okkur. Fólk lét vita af sér og krafa þess er skýr. Breytt hugsun, breytt viðhorf og endurreisn lýðveldisins.

Þið sem viljið taka þátt í breytingunum með okkur og hafa áhrif á það hvort tækifærið sem hér stendur okkur til boða verði nýtt - komið til okkar. Gangið í Borgarahreyfinguna og hreyfum við þjóðinni sem nú situr stjörf í doða yfir því að enn eina ferðina á að bjóða upp á fjórflokkinn án mikilla breytinga.  

Í dag er tækifæri. Í dag er annar valkostur í boði.

Viljið þið verðtrygginguna burt ? Já eða nei?

Viljið þið kyrrsetja eigur auðmanna meðan á rannsókn stendur? Já eða nei?

Viljið þið skýra þrískiptingu valdsins? Já eða nei?

Viljið þið breyta kosningalögum og jafna vægi atkvæða? Já eða nei?

Viljið þið stjórnlagaþing í haust? Já eða nei?

Viljið þið að Íslendingar semji sína stjórnarskrá sjálfir? Já eða nei?

Viljið þið taka upp nýjan gjaldmiðil til að leysa okkur undan ónýtri krónu? Já eða nei?

Viljið þið senda nenfd til Brussel í samningaviðræður til að kanna hvað er í boði hjá ESB og leyfa síðan þjóðinni að kjósa um hvort við viljum óska eftir inngöngu eða ekki? Já eða nei?

Viljið þið  að almenningur geti veitt þinginu aðhald, að þingið veiti ráðherrum aðhald og ráðherrar standi þingi og þjóð reikningsskil en sitji ekki á þingi? Já eða nei?

Ef svarið við þessum spurningum er já þá eigið þið samleið með okkur.

 

Bara svo því sé haldið til haga - þá legg ég til að verðtrygging verði afnumin.

 

Ykkar einlægur

 

Valgeir Skagfjörð, borgari og frambjóðandi.

 

e.s. Það er ekki boðlegt að slengja í okkur gamalli tuggu um að eitthvað sé ekki hægt. Ef okkur á að takast að komast heil frá þessu þá verðum við líta svo á að allt sé mögulegt. ´

Viljum við óvenjulegar lausnir til að bregðast við óvenjulegu ástandi fyrir óvenjulega þjóð? Já eða nei?

 

 

 


Í dag er tækifæri!

Góðir landsmenn! Hér stöndum við  af því við getum ekki annað.  En það má sjá það á öllu að sólin stendur með okkur. Í dag er tækifæri!  Frá því efnahagsfellibylurinn skall á okkur í haust hefur íslenskur almenningur sent mjög skýr skilaboð til ráðamanna og samfélagsins alls. Þau eru einföld: ,,NÚ ER NÓG KOMIÐ!” 
Við létum í okkur heyra – hér voru barðar bumbur, pottar og pönnur , hér var sungið, hér voru kveiktir eldar. Við byrjuðum rólega – sögðum hug okkar. Hrópuðum á torgum um óréttlæti, misskiptingu, valdníðslu, stjórnleysi í peningamálum, við kölluðum á breytingar en stjórnarherrarnir og frúrnar skelltu við skollaeyrum og ætluðu að leika sama gamla leikinn– að bíða óveðrið af sér og treysta því að við yrðum þæg og góð.  Eins og alltaf! Að við mundum einfaldlega snúa heim með skottið á milli lappanna eins og venjulega og bíða þess að þeim þóknaðist að koma með sínar lausnir gegn vandanum. 

En í þetta skiptið varð þeim ekki kápan úr því klæðinu. Okkur tókst hið óvænta – okkur tókst að standa saman. Við létum ekki segja okkur að þegja. Við þorðum loksins eftir margra ára skoðanakúgun og þöggun í þessu landi að koma fram á opinberum vettvangi og tjá okkur. Við þorðum að hafa skoðanir og það sem er mest um vert, við fengum kjark til að tjá skoðanir okkar í ræðu og riti.  Jafnvel þótt vitað væri fyrirfram að þær yrðu óvinsælar - þá létum við samt í okkur heyra. Réttlætiskennd fólks í þessu landi var misboðið. Það sáu allir hvað blasti við.  Þeir sem höfðu aðrar skoðanir en þær sem voru valdhöfunum þóknanlegar var haldið úti í kuldanum samkvæmt venju. En nú hefur átt sér stað söguleg kúvending.  Það má hafa skoðun! Við höfum óskorað leyfi til þess og það leyfi rennur ekki út og það leyfi þarf ekki að endurnýja!




Grímurnar falla núna hver af annarri og réttu andlitin koma í ljós. Hulunni er svipt af hverjum fjármálaskandalnum á fætur öðrum, a.m.k. eitt spillingarmál á viku er afhjúpað og hvert misferlið rekur annað. Þetta virðist engan enda ætla að taka.
Þetta er eins og að moka flór. Við erum rétt að komast niður úr efsta laginu og undir kraumar og bullar illa lyktandi eðjan. Það gengur ekki lengur að sturta óþverranum í þróna. Hún er löngu orðin yfirfull. Það verður að halda áfram alla leið niður úr og stinga út – allt heila klabbið!

Í dag er tækifæri! Okkur tókst með samstöðu, mikilli þrautseigju – ótrúlegri elju og Fítonskrafti að koma stjórn Geirs Haarde frá völdum. Stjórn fjármálaeftirlitsins hefur þurft að víkja og sjálfur höfuðpaurinn á Svörtuloftum  sem hefur haldið um þræðina svo alltof, alltof, lengi hefur orðið að leggja niður skottið.  Bubbi kóngur neyddist til að taka ofan kórónuna, standa upp úr hásætinu – og stíga niður af stallinum. Öllu þessu hefur okkur tekist að koma til leiðar. Með því að mæta hér – láta raddir okkar heyrast og senda valdhöfum þau skilaboð að við séum ekki fífl!  Íslenskur almenningur ætlar ekki að láta bjóða sér hvað sem er! Það hefur hann sýnt og sannað.  

Nú er svo komið að búið er að mynda starfsstjórn fram að kosningum og leiðtogi hennar er vönduð kona sem nýtur trausts. Á því leikur ekki nokkur vafi.  Enginn stjórnmálamaður í dag nýtur jafn mikils trausts. Það ber að hafa hugfast og það ber að virða. 
Hvernig væri þá að leyfa henni að vinna?  Það er til lítils að koma á starfsstjórn ef hún fær ekki að starfa í friði – og vinna að því að koma á þó ekki væri nema vísi að umbótum svo hægt sé að gera sér vonir um áframhaldandi hreingerningu og uppbyggingu að loknum kosningum í vor.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið við völd í átján ár svo er það til of mikils mælst að starfsstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fá frið til að vinna þessar fáu vikur sem eftir eru fram að kosningum? Það sýnir sig svo ekki verður um villst að stjórn hennar er að störfum.  Því var ekki að heilsa hjá þeim vélarvana ryðkláfi sem síðasta ríkisstjórn sýndi sig vera.
Í dag er tækifæri! Laskaður Sjálfstæðisflokkur ólmast  inni á þinginu -  reynir að tefja og skemma sem mest hann getur og Framsóknarflokkurinn sem ætlaði að verja stjórnina hyggur nú á að koma sér þægilega fyrir á þeim stað þar sem hann kann best við sig – í oddastöðu milli fylkinga.
Á þjóðin virkilega enn eina ferðina að eiga allt sitt undir því hvorum megin hryggjar Framsóknarmönnum þóknast að liggja? 
Þeir vilja eigna sér hugmyndina um stjórnalagaþing – það er enginn höfundarréttur á hugmyndinni um stjórnlagaþing og það gerir þjóðinni ekkert gagn að stjórnmálaflokkar séu að togast á um það hverjir hafi átt hugmyndina eða hver hafi fengið hana fyrst.  Það er ekkert nýtt undir sólinni.  Hugmyndin er ævagömul og það að dusta rykið af henni núna er fyrst og síðast vegna þess að fólkið í landinu hefur verið að kalla á breytingar. 
Hér varð bylting ef einhver skyldi vera búinn að gleyma því!

Það verður að skera upp herör gegn samtryggingarkerfi stjórnmálaflokkanna. Burt með geðþóttaræði ráðherra. Það verður að uppræta spillingu hvar sem hún finnst. Það þarf að opna stjórnkerfið og skilgreina hugtökin lýðræði og lýðveldi upp á nýtt. Við viljum  ekki gamla kerfið aftur. Það er gatslitið og úrelt svo ekki sé meira sagt.

Góðir fundarmenn – svona tækifæri gefast ekki á hverjum degi. Það er ekki á hverjum degi sem venjulegum almenningi í þessu landi tekst að knésetja ríkjandi valdhafa.
Tækifærið er núna - og ef við grípum það ekki  - þá gæti orðið bið á því að alvöru breytingar líti dagsins ljós.

Við höfum verið þátttakendur og áhorfendur í leikhúsi fáránleikans undanfarið -  en nú er tækifæri til að skrifa nýtt handrit. Nú er hægt að kalla nýjar persónur til leiks.  Nú er hægt að skapa nýja rás viðburða og hefja endurreisn í leik þar sem allt getur gerst. Hvað sem er getur gerst. Allt er mögulegt. Vilji og löngun er allt sem þarf. 

Við erum að upplifa óvenjulega tíma, óvenjulega atburði og það einfaldlega kallar á óvenjulegar hugmyndir og hver veit nema þær ali af sér óvenjulegar lausnir fyrir óvenjulega þjóð!

Á undanförnum vikum hefur okkur verið tíðrætt um það hverjir beri ábyrgð á efnahagshruninu og í eftirleiknum hafa þeir sem ættu að axla ábyrgð eins og heiðarlegir þjóðfélagsþegnar gert sitt ýtrasta til að firra sig þeirri sömu ábyrgð og farið á handahlaupum í fjölmiðla til að þvo hendur sínar frammi fyrir almenningi sem er ýmist agndofa af hneykslun eða hrifningu eftir því hvar sannfæring þeirra liggur -  ellegar láta sér fátt um finnast. Þessi vítissóda-grænsápu-naglabursta-handþvottur kristallaðist í Kastljóssviðtali við  fráfarandi formann stjórnar seðlabankans nýverið og í kjölfarið var eins og þjóðin hefði skipst í tvær fylkingar – með eða á móti Davíð. Við erum að tala um að stór hluti heillar þjóðar er meðvirkur í ást/haturs-sambandi við Davíð Oddsson.


Við verðum að komast upp úr þessu hjólfari og fara nú að vinna okkur út úr þeim vanda sem blasir við okkur.  Tími Davíðs er liðinn, gott fólk!

Í dag er tækifæri! Við búum við alltof háa vexti. Við búum við alltof hátt vöruverð. Við búum við óréttláta verðtryggingu. Við greiðum háa skatta og til að bæta gráu ofan á svart þá höfum við samþykkt að taka á okkur launalækkanir í fyrsta sinn í langri sögu verkalýðsbaráttu á Íslandi. 

En þrátt fyrir allt – þá stöndum við hér enn. Tilbúin að takast á við vandann.  Við erum jafnvel tilbúin að samþykkja að greiða niður  stjarnfræðilegar skuldir sem við á engan hátt höfum stofnað til. 
Hér hefur orðið brestur. Hér hefur orðið trúnaðarbrestur milli almennings og alþingis.

Nú er svo komið að undirstaða mannlegra samskipta er brostin. Traust milli manna er brostið. Það hættulegasta sem getur komið fyrir litla þjóð er þegar þegnarnir hætta að treysta hverjir öðrum. Við erum farin að tortryggja allt og alla.  Lái okkur hver sem vill.

Af hverju ættum við að treysta stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum sem svíkja okkur ítrekað? Af hverju ættum við að treysta auðmönnum sem hafa farið fram eins og þursar um grundir og skilið eftir sig sviðna jörð? Af hverju ættum við að treysta nokkrum yfir höfuð?  Hverjum getum við eiginlega treyst?  Það er von að maður spyrji.

Þegar traustið er farið þá þarf að byggja upp traust að nýju. Þeir sem urðu rúnir trausti bæði í aðdraganda bankahrunsins og eftir það verða að vinna sér inn traust að nýju.  Þeir verða að sýna þjóðinni að þeir séu traustsins verðir. 

Eitt af því sem gæti skapað traust á stjórnmálamönnum aftur er að þeir fari að viðurkenna mistökin og segi einfaldlega – fyrirgefið það var vitlaust gefið.  Nýtt spil. Gefum upp á nýtt.  Þeim sem iðrast verður fyrirgefið – það er eins satt og ég stend hér.

Við kennum börnunum okkar að það sé engin goðgá að gera mistök. Það er bara mannlegt að gera mistök. Mistök eru hvorki tæknileg, meðvituð eða ómeðvituð. Mistök eru bara mistök – ekkert annað og það geta allir gert mistök og allir gera mistök. Hvað er þá málið? Hvað er svona erfitt?

Stjórnmál – stjórnsýslulög, leikreglur samfélagsins eru mannanna verk. Enginn maður er fullkominn  að mínu viti og því eru mannanna verk jafn ófullkomin og mennirnir sjálfir. 
En við kennum börnum okkar að það sé hreinsandi fyrir sálina að viðurkenna mistök sín, biðjast fyrirgefningar og bæta ráð sitt. Það er leiðin til þroska. Það breytist ekkert þótt við hættum að vera börn.
Hvaða skilaboð er verið að senda út í samfélagið þegar þeir sem stjórna og ráða telja sig yfir það hafna að viðurkenna mistök sín. Segjast ekki gera mistök. Og hvað? Eru þeir þá fullkomnir?  

Í dag er tækifæri. Meira að segja sögulegt tækifæri svo maður taki nú hátíðlega til orða.  Nú þurfum við að vaka og vinna. Verkefnin eru mörg og margvísleg en fyrst verðum við í sameiningu að sjá til þess að komið verði á stjórnlagaþingi sem allra fyrst.
Fara í gagngera endurskoðun á stjórnarskránni og endurreisa lýðræði í þessu landi. Nýtt lýðveldi? Hvernig hljómar það?
Ég ætla að leyfa mér þann ókeypis munað að vera bjartsýnn - af því annað er tilgangslaust.  Nú verðum við að koma auga á tækifærin í erfiðleikunum.
Við eigum hér gott og gjöfult land og hér eiga allir að geta lifað mannsæmandi lífi. Við eigum mikinn auð í jörðu, fallvötnum,  í sjónum umhverfis landið, í kynngimagnaðri náttúrunni,  í fólkinu sem hér lifir og býr yfir svo miklu hyggjuviti, þekkingu, svo uppfullt af hugmyndum, skapandi fólk með jákvæð viðhorf  til lífsins og tilverunnar, sem er í einlægni  tilbúið að takast á við vandann þrátt fyrir allt sem á okkur hefur dunið. 

Við höfum orðið fyrir áfalli!  Öll þjóðin er undirlögð af áfallastreitu í einni eða annarri mynd. Við þurfum að veita hvert öðru áfallahjálp, það er besta meðalið sem við höfum. 

Kæru vinir – oft var þörf, en nú er brýn nauðsyn á því að áratugur mannsandans gangi  í garð og við skulum greiða mannsandanum leið með því að berjast áfram fyrir stjórnlagaþingi og skapa okkur þannig vettvang til að tala saman, innleiða nýjar hugmyndir, nýja stjórnskipan, nýja hugsun, nýtt Ísland. Nýtt lýðveldi! 

Að lokum vil ég leggja það til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin.  Góðar stundir!  

Valgeir Skagfjörð ( Á útifundi á Austurvelli 28. Feb. 2009 ) 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband