Hvað er að gerast á Íslandi?


Kæru landar. Nú er heilt ár liðið frá því Hrunadansinn hófst og hann stendur enn.  Gamla stjórnin hrökklaðist frá völdum og við fengum nýja en hvað hefur breyst?

Harla lítið. Mestur tíminn hefur farið í endalausar umræður um Icesave en í veigamiklum atriðum hefur lítið breyst. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn heldur þjóðinni ennþá í efnahagslegri gíslingu, bankarnir eru ennþá að ljúga að fólki og stjórnvöld sýna endalausa þjónkun við fjármagnseigendur og gömlu nýlenduherrana úti í Evrópu.

Fjölmiðlum er vart treystandi til að vera með hlutlausan og gagnrýninn fréttaflutning heldur mallar áfram eins og heilaþvottavél ríkisstjórnarinnar sem virðist algjörlega vanhæf í að gera nokkuð annað en skera niður þjónustu við almenning og að hækka skatta hvar sem því verður fyrir komið.

Skuldir

Það er útlit fyrir að tugir fjölskyldna verði bornar út á Guð og gaddinn og enginn hreyfir andmælum. Skuldastaða heimilanna er ekki leiðrétt nema að að mjög takmörkuðu leyti sem gagnast hinum verst settu ekki neitt þar sem höfuðstóll lána haggast ekki og verðtryggingarskrímslinu er haldið á lífi með því að halda áfram að næra fjármagnseigendur og að sögn að standa vörð um lífeyrissjóðina.

Skuldir þjóðarbúsins eru ekki ræddar. Sala á auðlindum landsins er ekki rædd. Braskið á skilanefndum gömlu bankanna er ekki rætt. Kvótabraskið er ekki rætt. Orkumálin eru ekki rædd. Hvers vegna er þetta svona? Af því að það ríkir núna sams konar þöggun í samfélaginu eins og ríkti fyrir hrunið.

Kerfisbreytingar

Kerfið okkar er að naga sjálft sig að innan og það þarf að hrynja sjálft til grunna til þess að hægt sé að byggja hér upp aftur. En þau þarna á þinginu og í ríkisstjórninni hagræða sannleikanum eftir eigin geðþótta eða geðþótta landstjóra AGS sem einhverjir virðast álíta að sé vinur okkar.

Íslendingar verða að fara að átta sig á því að það eru síðustu forvöð fyrir þá að standa uppréttir sem sjálfstæð þjóð. Við verðum að endurheimta Ísland. Gamla Ísland er horfið en Nýja Ísland getur orðið mun betra ef við aðeins höfum kjark til að breyta því sem við getum breytt.

Við þurfum að umbylta stjórnkerfinu. Það er gengið sér til húðar. Nú er ekki í tísku að ræða um stjórnlagaþing af því öllum finnst efnahagsmálin skipta mestu núna. Vissulega skipta þau miklu máli en á meðan efnahagsmál snúast um hagsmunagæslu þá er ekki von að vel fari.

Við eigum von ef við förum í allsherjar uppskurð á öllu saman. Lýðræðisumbætur verða að eiga sér stað og þær verða ekki nema við þorum að henda þeim gatslitnu skóm sem við höfum gengið á veginn til glötunnar og fara í nýja. Það er ekki hægt að sóla þessa endalaust.

Hugmyndir

Hér þarf stórar hugmyndir og þær þurfa ekkert endilega að vera nýjar af nálinni. Þær hafa komið fram áður.

Í fyrsta lagi þarf að koma á breyttu skipulagi um það hvernig valið er inn á þjóðþing Íslendinga. Skipulagi sem miðar að því að endurspegla raunverulegan vilja kjósenda.

Í öðru lagi væri skynsamlegt að leggja embætti forseta Íslands niður í núverandi mynd og taka upp þann hátt að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu – hugsanlega í tveimur umferðum til að knýja fram örugg úrslit og tryggja þannig að meirihuti þjóðarinnar sá bak við forsætisráðherrann.

Ríkisstjórn landsins ætti að vera skipuð af fagfólki og ráðherrar ættu ekki að sitja á þingi.

Landið yrði eitt kjördæmi – einn maður – eitt atkvæði.

Með þessu móti væri hægt að tryggja þingræði og þjóðþingið mundi hætta að vera afgreiðslustofnun fyrir ríkissjórnina. Þess í stað yrði ríkisstjórnin framkvæmdastjórn þingsins.

Persónukjör ætti að geta gengið þvert á stjórnmálaflokka og hvetja ætti til þjóðaratkvæðagreiðslna um sérstök mál ef alvarlegar deilur eru uppi sem varða þjóðarhag og/ eða þjóðaröryggi.

Djúpar rætur

Rót vandans á Íslandi er nefnilega stjórnkerfið sjálft sem hefur búið sér til sitt eigið innra eftirlitskerfi og svo þegar allt fer í bál og brand þá fer kerfið að rannsaka sjálft sig og allir vita hvers konar spillingu það býður upp á.

Það er hugsanlegt að íslensk þjóðarsál sé orðin svo samdauna spillingu og fyrirgreiðslupólitík að hún hreinlega hefur ekki kjark til að sleppa tökunum af gömlu hugsuninni um mann sem þekkir mann sem þekkir mann.

Hvað viljum við?

Vinstri og hægri, frjálshyggja, félagshyggja, kapítalismi, kommúnismi eru hugtök sem eru hætt að hafa merkingu fyrir almenningi. Almenningur skilur það einfalda sem að honum snýr og skiptir máli í hans augum. Er hægt að lifa mannsæmandi lífi í landinu? Fá þegnarnir notið ávaxtanna af erfiði sínu? Eru börnin þeirra örugg? Fá allir jafna þjónustu þegar kemur að velferð hins almenna borgara? Hvernig viljum við eiginlega hafa þetta í framtíðinni?  

Ég og mín kynslóð sem hefur stritað hér í þrjátíu ár, við sem höfum alltaf greitt okkar skatta og af okkar lánum samviskusamlega erum nú orðin aðeins eldri og hugsanlegt að við þurfum að fara að nýta okkur t.a.m. heilbrigðisþjónustu af þeirri einföldu ástæðu að sumt af því sem áður var sjálfsagt að væri í lagi er farið að slitna og annað að bila. Hvað gerist þá?

Skyndilega stöndum við frammi fyrir því að við höfum ekki efni á því að verða veik.

Varasjóðir sem við komum okkur upp, a.m.k. sum hver sem sýndu ráðdeild, eru uppurnir vegna hins sérstaka íslenska bankasvindls. Svindl aldarinnar mætti kalla það.  Við horfum fram á það að hugsanlega munum við þurfa að lepja dauðann úr skel þegar líður á ævikvöldið.

Séreignasparnaðurinn farinn. Húsið farið. Fyrirtækið sem við störfuðum hjá er farið á hausinn. Landið er farið á hausinn. Ráðamennirnir áttu ekki annars úrkosta en að selja það brunaútsölu í hendurnar á óprúttnum bröskurum sem skeyta því engu hvort fjallkonan fríð hefur tapað virðingu sinni eður ei. Þeim er alveg sama svo fremi að þeir græði.

Nýja hugsun

Nei – það er kominn tími til að hugsa þetta allt upp á nýtt. Þegar öllu er á botninn hvolft þá dettur engum manni í hug að láta sauma sérstaka vasa á líkklæðin til þess eins að taka seðlabúntin með sér í gröfina. Það eru ávallt hin andlegu verðmæti sem skipta máli þegar upp er staðið.

Við þurfum að gefa hagfræðingunum og lögfræðingunum smá frí. Nú þurfum við að hlusta á heimspekingana, félagsvísindafólkið, hugmyndasmiðina, listamennina, hugvitsfólkið og aðra sem hafa eiginleika til að sjá heildarmyndina fyrir sér.

Fólk sem getur sest niður og búið til nýtt módel af íslensku samfélagi. Þekkingin er til staðar. Skapandi hugsun er til staðar og fólkið er allt í kringum okkur. Við þurfum bara að gefa því tækifæri til að móta nýjar hugmyndir. Við þurfum nýja framtíðarsýn sem byggir á nýrri hugsýn sem hefur hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi en ekki sérhagsmuni.  Það þarf að tryggja það að allir fái jöfn tækifæri.

Afleiðingar kreppunnar

Ástandið núna býður hættunni heim. Glæpum fjölgar. Fíkniefnaneysla eykst. Heimilisofbeldi færist í aukana. Félagsleg vandamál hrannast upp. Það ríkir upplausn ef menn skyldu ekki vera búnir að átta sig á því.

Hvers vegna er t.d. ekki búð að leysa þessi fangelsismál á Íslandi? Það bíða 150 manns eftir því að afplána fangelsisdóma. Það er ekki enn búið að finna húsnæði undir þetta fólk.

Norður í Húnavatnssýslu er t.a.m.a bygging sem heitir Húnavallaskóli sem gæti hýst þessa aðstöðu. Það þarf bara nýja lása á hurðirnar og þarna væri hægt að koma upp alvöru fangelsi þar sem raunveruleg betrun færi fram ef vel væri að málum staðið. Víða annars staðar á landinu eru vannýttar byggingar.

Í upplausnarástandinu  hættir fólk að borga af lánunum sínum af því það breytir engu. Það er bara verið að moka í botnlausa hít. Því meira sem mokað er í hana því stærri verður hún. Á endanum gefst fólk upp og fer. Þetta sáum við fyrir í aðdraganda síðustu kosninga en menn skelltu við skollaeyrum

Ábyrgð okkar

Hvað ætlum við að gera? Ég er ekki að tala um stjórnvöld. Hvað ætlar almenningur í landinu að gera? Það er einsýnt að það virðist alveg saman hvað fólk kýs yfir sig. Það fer bara allt í sama farið aftur.

Hægri stjórn fer frá af því hún setti allt á hausinn. Vinstri stjórn kemur og sópar upp skítinn, en af því hann er svo mikill þá verður þjóðin að borga og þá verður stjórnin ofsalega óvinsæl og ekki líður löngu þar til önnur hægri stjórn kemst til valda. Hún einkavæðir það sem búið var að þjóðnýta og setur allt á hausinn aftur og svo koll af kolli.

Þetta hættir ekki fyrr en við losnum út úr þessum vítahring.

Að lokum

Þjóð mín – ekki sofa á verðinum. Nú þarftu að vaka og sjá til þess að tröllið á glugganum nái ekki að læsa krumlu sinni í börnin þín. Nú þarftu að gæta þess að verða ekki að mannakjötsúpu í pottinum hjá þeim sem eru að brugga vélráð á bakvið tjöldin. Vaknaðu þjóð mín. Opnaðu augun. Láttu ekki blekkjast af fagurgalanum. Þú skynjar raunveruleikann best sjálf. Taktu málin í þínar hendur. Láttu ekki hafa af þér það sem þér var fengið í arf. Til þess er hann alltof dýr.

Valgeir Skagfjörð, formaður Borgarahreyfingarinnar.

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Erla Sumarliðadóttir

Góð lesning!

Þjóðin virðist vera " STOPP ".

Hvar er fólkið nú,sem var á Austurvelli fyrir rúmu ári síðan ?

Það er skorið niður stórum hjá Fólkinu sem byggði þetta land, um þriðjung.

Merkilegt,síðan er einungis skorið niður um 0.5% hjá Forsetaembættinu.

Stórmerkilegt í mínum huga.

Kv.Gerlas

Guðrún Erla Sumarliðadóttir, 9.11.2009 kl. 03:15

2 identicon

Sæll,

 Þakka góða grein, þetta er nákvæmlega málið.

Hins vegar hafa "þingmenn Borgarahreyfinarinnar" gjörsamlega brugðist líka.

Við erum að vinna að lausnarmiðuðum hugmyndum það er hins vegar erfitt, þar sem að allt kerfið hringsnýst um hagsmunagæslu f.v. stjórnvalda. Það er búið að hlaða inn emæbttismönnum, sem vinna ekki eftir reglum heldur vinna eftir hagsmunum þeirra sem réðu þá pólitískt.

Núverandi ríkisstjórn virðist vera skársti kosturinn, hins vegar þá þarf að taka á málum heimilana. Þetta er auðvitað algjörlega óviðunandi staða.

Erlingur Þorsteinsson (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 09:46

3 identicon

Frábær skrif Valgeir, get ekki verið meira sammála þér. Mér líst vel á hugmyndir þínar varðandi fangelsismálin. Ég var að koma frá Austfjörðum, þar stendur heilt þorp til sölu á Reyðarfirði sem er færanlegt það væri hægt að koma því fyrir upp á hálendinu og hefja alvöru betrun á fólki með því að láta það glíma við fjöllin og náttúruna. Við eigum svo frábært og fallegt land, það er svo margt hægt að gera, t.d varðandi heilbrigðismálin þá væri hægt að fyrirbyggja marga sjúkdóma með því að ganga á fjöll. Látum svo þessa fræðimenn og farísea (þ.e lögfræðinga og hagfræðinga) rífast um þessar kerfisrústir sem þeir eru að reyna halda lífi í, við hin skulum fara og byggja upp nýtt Ísland með meiri áherslur á hin raunverulegu verðmæti. Munum að það besta í lífinu er ókeypis.

Jón Sigurður Norðkvist (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 10:05

4 Smámynd: Valgeir Skagfjörð

Hárrétt hjá þér Jón Norðkvist. Við förum bara með allt liðið á fjöllin og leyfum því að finna hvers konar næring er í íslensku fjöllunum. Þetta þurfum við að gera helst áður en einhverjum dettur í hug að selja þau :)

Valgeir Skagfjörð, 9.11.2009 kl. 11:15

5 identicon

Sæll Valgeir,

Telur þú að Borgarahreyfingin sé ekki dáin?

Ef svo er ekki þá láttu mig vita......Þú ert náttúrlega öðlingur, sem er treystandi......

Það er meira en hægt er að segja um marga þingmenn okkar því miður.

Ég er með hugmynd!

erlingurt@gmail.com

Erlingur Þorsteinsson (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 11:50

6 Smámynd:  Birgir Viðar Halldórsson

Góð samantekt.

Birgir Viðar Halldórsson, 9.11.2009 kl. 12:07

7 identicon

já Valgeir minn ,þetta er  erfið  staðan hjá okkur,,en hvað getur maður gert

Ólöf Jónsdóttir (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 14:51

8 identicon

Orð í tíma töluð.

Sigurður Þórðarson (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 15:42

9 identicon

Frábær grein og svo sönn.

Verst að ekki skuli vera hægt að

klóna þig. Kæmi sér vel ef þjóðin ætti nokkur

þúsund eintök af þér.

Dagný (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 18:04

10 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Mjög góð grein...lol...!  Stjórnmálakerfið okkar er meingallað & auðvitað fer rosalega orka hjá KERFINU í að verja "status quo...lol...!"  Íslensk stjórnmál snúast því miður um ásókn í "völd & peninga" að komast á ríkisspennan og hafa út úr því mikinn pening.  Kannski bara mannleg hegðun, en okkar samfélag er svo vant siðblindu að við erum bara DOFIN, en vonandi erum við að vakna til lífsins.  Keisarinn (stjórnmálamenn okkar) eru naktir apar...!  Þetta apaspil þeirra gengur ekki upp - við mótmælum ÖLL..!

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson, 9.11.2009 kl. 18:07

11 Smámynd: Sigurður Hrellir

Fín grein Valgeir. Maður veltir því fyrir sér hvað varð af öllu hugsjónafólkinu sem mótmælti með svo áhrifamiklum hætti sl. vetur. Sum hafa flúið land, það er víst. Mörg þeirra voru harðir stuðningsmenn VG og hafa því hljótt um sig núna. Einhver erum við bara dofin yfir þessu ástandi og getuleysi okkar.
    
Það er eitthvað sem segir mér að það sé lífsnauðsynlegt að fólk standi upp og krefjist þess að þjóðfélagið fari í endurnýjun lífdaga. Nú er að duga eða drepast fyrir þá sem ætla að búa hér áfram. Það þarf einfaldlega að gefa upp á nýtt.

Krefjumst þess að fá stjórnlagaþing óháð Alþingi og stjórnmálaflokkunum. Ég skrifaði pistil um það fyrir nokkrum dögum, sjá hér.

Sigurður Hrellir, 9.11.2009 kl. 20:58

12 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Fín grein Valgeir. Þú segir: Kerfið okkar er að naga sjálft sig að innan og það þarf að hrynja sjálft til grunna til þess að hægt sé að byggja hér upp aftur.

Tilfinning mín er sú að þetta sé rétt hjá þér. Það verður engin uppbygging hér fyrr en hrun 2 er afstaðið. Það kemur þegar stjórnmálamenn landsins viðurkenna loks að þjóðin ræður ekki við skuldir sínar. Það gerist líklega þegar velferðakerfið hrynur vegna ógnargreiðslna af erlendum skuldum. Þangað til verða landar okkar í pínu afneitun.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 9.11.2009 kl. 21:59

13 identicon

Takk Valgeir. Sammála! Ég held að allir séu að bíða eftir að einhver byrji, og unglingarnir í Hafnafirði byrja á morgunn! Síðan verðum við að halda áfram og standa upp með og fyrir börnin okkar og framtíðina. Tíminn er peningur og við höfum ekki meiri tíma til að vera eins og parið í Spaugstofunni.

anna (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 22:08

14 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Valgeir, ég lagði mitt af mörkum, og kom með helling af hugmyndum og leiðum til að framkvæma þær. En svona er þetta bara með pólitíkina, og kjósendur kusu þetta yfir sig því skulum við ekki gleyma.

Guðrún Sæmundsdóttir, 9.11.2009 kl. 22:59

15 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Góð grein Valgeir, vonandi ertu stór flís af þverskurðinum sem mætir á boðaðan Þjóðfund um næstu helgi.  Það verður spennandi að fylgjast með niðurstöðum frá þeim fundi.

Veit ekki hvort það er fjarlægðin eða fjöllin, en mér finnst þessi dægrin,  eins og mjög margir landar okkar séu komnir í hár saman, út af smjörklípum.

Kannski nennir fólk varla lengur að garga sig hása í tóma tunnu, sem gerir ekkert nema að bergmála vonleysið.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 10.11.2009 kl. 01:31

16 Smámynd: SeeingRed

Takk fyrir frábæran pistil, fólkið verður að varpa þessu oki af sér sjálft, það gerir það enginn fyrir það, við getum aðeins sjálf endurheimt landið okkur úr ræningjahöndum. Stærstu aljóðlegu bankaþjófarnir voma nú yfir Fróni, gildran virkaði eins og til var ætlast, þessi þjóð var ginkeypt fyrir gulli og vellystingum og auðteymd fram á brúnina, enn er þó tími til að snúa við, en það verður ekki undir forsjá þeirra glæpamanna sem ginntu okkur hingað né þeirra sem létu það viðgangast vegna eigin ágirndar eða flónsku.

SeeingRed, 10.11.2009 kl. 02:19

17 identicon

Alltaf jafn mikið vit í skrifum þínum! Takk fyrir góða grein.

Kv. Jóhann

Jóhann Gunnar (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 12:10

18 identicon

Takk fyri það Jóhann Gunnar - það er hins vegar ekkert vit í því sem ríkisstjórnin er að gera - því miður. Skilaboðin sem hún sendir frá sér eru stöðnun, þöggun, bölmóður,örbirð þeirra sem skulda og ömurlegar skattahækkanir ofan á allt annað sem þýðir ekkert annað en að atvinnulíf stöðvast og fólk missir hvatann til að vinna og sjá sér farborða - til hvers að leggja á sig meira erfiði til að þéna meira til að gera mokað í skuldahítina? Til þess að skattmann geti hirt það sem umfram verður?

Þetta eru ömurleg skilaboð frá stjórnmálaflokkum sem lofðuðu því fyrir kosningar að koma á Norrænu velferðarsamfélagi. Brandari aldrarinnar.

valgeir Skagfjord (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband