Nýtt fólk á þing

Ekki laust við spennufall eftir byltinguna. Takturinn, söngurinn, ástríðan, þessi íslenska þjáning sem gaf okkur sameiginlegan kraft til að berjast gegn siðleysinu og óréttlætinu. Þessi neisti sem kviknaði, þessi von.
  
,,Ísland minn draumur mín þjáning mín þrá,
mitt þróttleysi og viðnám í senn,
þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá
hún vakir og lifir þó enn"
orti Steinn Steinarr fyrir margt löngu.
Ég finn til með okkur og öll þjóðin finnur til. Við erum máske beygð en ekki brotin. Við getum borið höfuðið hátt og verið stolt af því að vera Íslendingar. Við höfum flest gert landinu gagn og leitast við að vernda börnin okkar og eigur okkar sem best við kunnum og fæst tókum við þátt í sukkinu. Við stóðum hjá og horfðum á í forundran. Hversu oft spurði ég mig ekki þeirrar spurningar hvort þetta væri í lagi? Bankastjóri með 65 milljónir að meðaltali í tekjur á mánuði? Hversu geðveikislega hljómar þetta? Við sem vorum trillukarlar og kotbændur fyrir ekki svo löngu síðan. Við sem lifðum á landsins gæðum, feng sjávar og smáiðnaði. Við sem fórum í löng verkföll til að koma lámarkslaunum upp fyrir hundraðþúsundkallinn og vorum svo svikin jafnharðan af stjórnvöldum sem stóðu alltaf vörð um atvinnurekendur, heildsala og fjármagnseigendur með því að skella framan í okkur verðhækkunum sem virkaði bara eins og hver annar eldiviður á verðbólgubálið sem logaði glatt. Svo þegar þeim tókst að koma böndum á blessuðu verðbólguna þá skelltu þeir á okkur verðtryggingunni sem nóta bene var bara á skuldunum en launin stóðu í stað.
65 milljónir á mánuði fyrir að stjórna banka sem fór á hausinn. Það þykir kannski ekki svo mikið ef maður skoðar það í ljósi þess að það gæti kostað ríkið 70 milllur að útvega seðlabankastjóra annað djobb. Hvar erum við stödd? Hugsum aðeins um þetta góðir hálsar. Við erum núna að taka á okkur launalækkanir. Í fyrsta sinn í aldalangri sögu verkalýðsbaráttu á Íslandi erum við að taka á okkur launalækkanir vegna einhverra sem með óráðsíu sinni settu landið á hausinn en gátu borgað sér 65 milljónir í laun á mánuði og það kom í ljós að þeir voru ekki að standa sig í vinnunni.
Núna stöndum við hér með okkar - kannski 200 þús kall á mánuði og stöndum okkur aldrei betur í vinnunni af því núna er raunveruleg hætta á því að við höfum ekki þessa vinnu mikið lengur. 65 milljónir á mánuði - það jafngildir mánaðarlaunum 325 manna sem standa og norpa á Austurvellinum. Og við sem fáum þennan hundrað og fimmtíu eða tvöhundruðþúsund kall útborgaðan um hver mánaðamót höldum uppi velferðarkerfinu, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu með skattgreiðslum okkar. Þeir sem reynast hafa 65 milljónir á mánuði reyna svo að skjóta öðrum fjármunum undan skatti með því að færa þá í skattaskjól úti í heimi. Hvað er í gangi hérna hjá okkur? 65 milljónir á mánuði.

 
Sögurnar af sukkpartíunum, utanlandsferðunum, veiðiferðunum, fjármagnsflutningunum og svo mætti lengi áfram telja skiptu tugum og hundruðum. Allan tímann hugsaði ég með sjálfum mér: ,,Nei - þetta hlýtur að taka enda einn daginn. Fólk getur bara ekki hagað sér svona endalaust. Það hlýtur einhver að stoppa þetta af". En ekkert gerðist. Við vorum blekkt og okkur talið trú um að hér væri allt í stakasta lagi og góðærið ætti nú sem óðast að færast til okkar hinna sem náðarsamlegast fengum að hirða upp brauðmolana góðu af allsnægtaborði aðalsins. En ekki bólaði á neinni betrun né bót. Enginn hafði döngun í sér til að stöðva ruglið og handhafar valdsins góndu eins og staðar beljur á misvitra fjárglæframenn flytja þvílíkt fjármagn úr landi að dygði til að standa undir rekstri ríkisins til margra ára. Hvert fóru allir milljarðarnir? Það virðist ekki skipta máli. Við sem spyrjum þessarar spurningar erum bara til ama og leiðinda. Við verðum bara að skilja það að þessir peningar eru farnir og það fæst bara ekkert upp í þetta nema kannski hugsanlega í mesta lagi eitthvað ... bla, bla,bla. Svo ég vitni nú aftur í Stein Steinarr:

 
,,Abbyssiníukeisari heitir Negus Negusi
og Negus Negusi segir: Búlúlala.
Öllum mönnum sem íhuga málstað ríkisins
finnst unun að heyra Negus Negusi tala.
Og í hreinskilni sagt eru allir óvinir ríkisins
sem ekki hlusta á Negus Negusi tala.
Ég er Negus Negusi, segir Negus Negusi,
ég er Negus Negusi. Búlúlala.

Í þessu ljóði sé ég birtast þá valdsmenn sem því miður hafa skaðað þjóðina varanlega með hugmyndafræði sem svo augljóslega hefur beðið skipbrot. Innantóm orð, heimska, hroki, valdagræðgi, spilling og auðsöfnun í krafti valds er það sem hefur einkennt stjórnarhætti þeirra manna sem hafa aðhyllst þessa hugmyndafræði og látið hana vera leiðarljós við stjórnvölinn á þjóðarskútinni ms Íslandi.
Það var ekki fyrr en skáldin létu til sín taka, ekki bara rithöfundarnir, ljóðskáldin og heimspekingarnir heldur athafnaskáldin á götunni, bráðgreint fólk með sterka réttlætiskennd fór að tala á torgum og benda á klæðleysi keisaranna að þeir áttuðu sig á því að þeir voru kannski ekki í neinum fötum þegar allt kom til alls. Samt þráuðust þeir við og vildu sjálfir fá að taka í lurginn á þessum lævísu skröddurum sem sniðu fötin á þá en allt kom fyrir ekki. Almenningur, þessi sofandi risi var nú farinn að rumska. Það var ekki alveg nóg að hella hann fullan og stinga upp í hann dúsu í hvert sinn sem hann ætlaði að mjamta kjafti. Nú var hann farinn að rumska svo rækilega að ekki varð séð hvernig hægt yrði að koma í veg fyrir að hann stæði upp og léti til sín taka.

 
Góðu heilli þá náðist að kveikja sannan byltingaranda í brjóstum sem að geta fundið til og þá er ekki að sökum að spyrja - við getum fært fjöll úr stað. Þeir ráðamenn sem nú eru farnir frá mislásu stöðu sína svo herfilega og spiluðu svo herfilega illa af sér í þessari lönguvitleysu að ég man ekki eftir öðru eins í annan tíma. Hef ég þó fylgst með pólítík á Íslandi frá því 1968 - eða þar um bil.
Það var einmitt snemma morguns að mamma vakti mig og sagði dramatísk: Jæja, nú er skollin á ný heimsstyrjöld" - Rússarnir réðust inn í Tékkóslóvakíu og umbótastefna Dubceks var upprætt og troðin niður af járnuðum stígvélahælum rauða hersins. Vorið í Prag sölnaði. Frá og með þessum morgni, frá og með fréttunum af Jan Palach sem lét lífið undir rússneskum skriðdreka fór réttlætiskennd mín að mótast. Ég hef alltaf haft ímugust á alræði. Ég hef alltaf aðhyllst stefnu sem mótast af lýðfrelsi, jöfnuði, öryggi borgaranna, tækifæri fyrir alla, brautargengi góðra hugmynda, sköpun, menningu, að njóta þeirrar fegurðar sem lífið hefur upp á að bjóða. Menntun fyrir alla, heilsugæsla fyrir alla, velferð og farsæld fyrir alla. Ísland á alla möguleika á að geta orðið fyrirmyndarríki þrátt fyrir efnahagshrunið. Hér búa þó ekki nema rúmlega 300 þúsund hræður og miðað við landgæði, auðlindir sjávar, menntun þjóðarinnar og gríðarlegan mannauð sem er á stundum vanmetinn, eigum við að geta rekið hér samfélag réttlætis, jöfnuðar og bræðralags.
En til þess að stýra nýju fleyi þegar aftur verður ýtt úr vör þá þarf nýjan mannskap um borð.
Nú nenni ég ekki lengur að horfa á sömu þreyttu þungbúnu andlitin þarna inni á þingi sem geispa, gapa og kyrja sama sönginn aftur og aftur. Ekki einasta eins og bilaðar plötur sumir hverjir heldur fóru sumir beinlínis í sama sandkassaleikinn og áður kvöldið sem nýi forsætisráðherrann flutti stefnuræðu sína. Kenna hinum um. Þetta er orðið svo þvælt og þreytt að tekur engu tali. Ég reyndi að búa mér til áhuga á þeim umræðum sem fram fóru en allt kom fyrir ekki.

 
Ég vil fá nýja orðræðu. Ég nenni ekki lengur að hlusta á þetta gjamm um hvað hinir hafi gert af sér og hvað þessir sem nú sitja séu ómögulegir og það sem boðið er upp á núna sé bara bull og viltleysa. Það eru allir að verða eins og Negus Negusi. Tölum um það sem skiptir máli. Tölum um það sem brennur á fólki. Tölum um verðtrygginguna sem er að sliga fólk. Tölum um viðskiptasiðferðið, tölum um pólitíska siðferðið og tölum um náttúruna, tölum um velferð barnanna okkar, gamla fólkið, tölum um auðlindirnar okkar, tölum um framtíðarmöguleikana og tölum um lýðræði, lýðveldi - hver erum við - hvað viljum við - hvert viljum við stefna sem þjóð?
Það verður að uppræta þetta gjörspillta flokkakerfi. Það verður að vera hægt að kalla hæft og gott fólk til góðra verka. Það má ekki gerast að sá kraftur sem varð til í búsáhaldabyltingunni fari ónýttur út í loftið. Við þurfum svo á því að halda að hugsa samfélag okkar upp á nýtt. Andleg verðmæti þurfa að vega þyngra. Við þurfum að finna okkur stað í veröldinni. En hvaða stað? Þetta með að lifa eins og burgeis er fullreynt - við verðum ekki hamingjusamari þótt við getum brunað út úr bænum á stórum jeppa með hjólhýsi aftan í, með flatskjá, fjölvarpi og þráðlausri háhraðatengingu svo við missum nú örugglega ekki af neinu á meðan við erum í fríi.
Nú þurfum við andlegan innblástur. Við þurfum skáldin inn á þing. Við þurfum kennara inn á þing, Við þurfum smiði inn á þing. Við þurfum heimavinnandi húsmæður inn á þing. Við þurfum leikara, rithöfunda, myndlistarmenn, tónlistarmenn, eldri borgara, æskulýðsleiðtoga, presta, lækna, verslunarmenn o.s.frv. við þurfum alls konar fólk inn á þing. Löggjafasamkundan á að vera þverskurður samfélagsins.
Nú sem aldrei fyrr er áríðandi að fylkja liði. Fram - aldrei að víkja. Fram, bæði menn og fljóð. Tengjumst tryggðaböndum, tökum saman höndum. Vinnum þjóð vorri gagn og hugsum um það hvert og eitt að vera öðrum til gagns og aðeins minna um að skara eld að eigin köku. Hugsum um litlu gulu hænuna. Allir vildu jú borða brauðið sem hún bakaði en enginn var tilbúinn að hjálpa til.
Til að spillingaröflin verði fjarlægð þá þarf að rífa meinið upp með rótum. Rótin liggur í hugsuninni. Og til þess að bylting hugarfarsins geti átt sér stað þá verðum við fyrst og síðast að skapa okkur hugsanir sem gagnast okkur og hjálpa síðan hinum við að losna undan hugsunum sem eru skaðlegar.
Taumlaus gróðahyggja er t.d. skaðleg. Að hugsa um að skapa sér farsæld er gagnlegt. Henfdarhugur er skaðlegur. Fyrirgefning er gagnleg. Réttlæti er fallegt og göfugt ef það felur ekki í sér óréttlæti gagnvart einhverjum öðrum. Jafnrétti er sjálfsagt og eðlilegt, misrétti er það ekki. Það felst bara í orðinu ,,misrétti". Hér á landi hefur ríkt alltof mikið misrétti alltof lengi. Ég minni á orð frelsarans sem er að finna í bæninni sem hann kenndi okkur: ,,fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum".

 
Ef þeir sem ollu þjóðinni skaða biðja um fyrirgefningu þá fá þeir hana - skilyrðirlaust.
Það er ekkert eins gott fyrir reiðina og fyrirgefning. Þannig getum við öll gert skuldaskil ef vilji er til þess. Það er ekkert í heiminum svo slæmt að ekki sé hægt að laga það. Það hefur sagan kennt okkur. Af hverju ætti það að vera eitthvað öðruvísi núna?

 
Nýtt fólk á þing! Nýja ásýnd alþingis! Nýja hugsun! Nýir tímar eru framundan og nú er að tryggja það að þessir nýju tímar einkennist af hugsjónum, réttlæti, lýðræði, jöfnuði og farsæld. Reisum nýtt Ísland á nýjum gildum. Við þurfum að byrja núna - það eru jú kosningar framundan.

e.s. Að lokum vil ég leggja það til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin.

Valgeir Skagfjörð, borgari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aldís Gunnarsdóttir

Góður pistill...takk..

Aldís Gunnarsdóttir, 10.2.2009 kl. 19:47

2 identicon

Sæll og blessaður Valgeir.

Sé að þú ert kominn inná bloggið og gangi þér vel að blogga um Kreppuna. Fínn pistill hjá þér og gott að tala um og minna á fyrirgefninguna. Hún skiptir öllu máli fyrir okkur og okkar andlega líðan.  

Takk fyrir góðan pistil,
kær kveðja, Nína Margrét Perry.

Nína Margrét (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 15:35

3 Smámynd: Gerður Pálma

Elsku Valgeir,
Hvar eru þínir líkar? Íslendingar eru ein ríkasta þjóð í heimi, en þar sem hún ekki getur hrist ríkidæmið úr sparigrísnum virðist hún ekki  kunna að nýta og njóta.
Við höfum alla tíð búið við stjórn sjálfshyggju og græðgisstefnu fárra. Eftir öll ár ´sjálfstæðis´örlar ekki á grundvallar atvinnumálastefnu í landinu. Landið er rekid eins og gamalt Kaupfelag sem ég þekkti á árunum áður.  Hveitið og rottueitrið var sent að sunnan, öllu var hlaðið inn á lager, svo voru pokarnir opnaðir og allt afgreitt í lausasölu, viktað og pakkað.  Hvort pokarnir sem lágu opnir næst hvor öðrum gætu skapað stór hættu truflaði ekki nokkurn mann.
Þetta var bara svona, ostarnir komu í stórum stykkjum og lágu á gólfinu, vegna plássleysis voru þeir notaðir sem smá ´tröppur´maður þurrkaði bara skóförin af þegar lagt var á borð. Stjórn landins er á sama gæðastigi, græðgissýking algjör, nýting á sparifé almennings þægilega handbær. Fólk sá ekki þessa tvo ´poka´sem hættumerki, traust til snillinga gróðageirans var algjört, eðlilega.
Ný stjórn?  Ég fékk létt áfall þegar okkar traustasta stoð Jóhanna lýsti yfir stuðningi við Ingibjörgu Sólrúnu sem svikið hefur þjóðina á alvarlegasta hátt mögulegan, en þessi yfirlýsing getur ekki komið frá hjarta Jóhönnu  hlýtur að vera eitthvað flokkshollustu eyðileggingarafl og staðfestir enn og aftur nauðsyn þess að ryðja kerfinu og stofna nýtt lýðveldi með öllum varnaðarráðstöfunum gegn mannlegu spillingareðli.
Eina leið til frambúðar er heiðarleiki, einlægni og ást hvers í annars garð - sama á reyndar við um alheimsástandið sem allt stefnir á botninn, rekið áfram af sömu græðgisveirunni og lagði Ísland í rúst. 

Gerður Pálma, 16.2.2009 kl. 22:58

4 Smámynd: Gerður Pálma

Valgeir minn, gleymdi að þakka þér fyrir FRÁBÆR skrif, algjörlega sammála hverju orði og hverri hugsun.

Gerður Pálma, 16.2.2009 kl. 22:59

5 Smámynd: Óskar Arnórsson

Kvitta til að segja þér að ég er búin að lesa allar færslur sem þú hefur komið með.

Óskar Arnórsson, 22.2.2009 kl. 12:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband