Hvað er í boði eiginlega?

Nú keppast allir við að bjóða sig fram í nafni endurnýjunar gömlu flokkanna. Á sama tíma standa margir þingmenn  vörð um það gamla kerfi að  flokkarnir stýri því sjálfir hvernig raðast á lista í næstu kosningum. Ekkert bólar á því að sýna kjósendum þá virðingu að bjóða þeim upp á að velja sér það fólk sem það trúir á og treystir til þess að vinna að þeim verkefnum sem fram undan eru. En þau eru ærin.

Menn ætla að halda í sætin sín eins og þeir eigi eitthvert guðlegt tilkall til þeirra. ,,Heilagur andi í rólunni" kölluðu krakkarnir í gamla daga og settu grjótmola í róluna til merkis um að hún tilheyrði þeim. Viðkomandi krakki komst upp með það allt þar til einhver með nóga sterka réttlætiskennd og kjark til að benda á að rólan væri í raun almenningseign og ef enginn væri í henni þá mætti hver sem er setjast í hana og róla sér. En þingmennirnir sem hyggja á áframhaldandi setu á þinginu vilja hafa heilagan anda í sætinu og ef einhver á að fá það þá lýtur það lögmálum þess flokks sem hefur unnið sætið.

Hvað varð um þau sjálfsögðu réttindi að fá að kjósa fólk á löggjafasamkunduna?

Ég vil kjósa gott fólk á þing - ekki vonda flokka. 

Allir þykjast vera hlynntir persónukjöri en eru samt sammála því að það sé alltof stuttur tími til að gera slíka grundvallarbreytingu á kosningalögum.

Það tók einn sólarhring að setja neyðarlögin þegar bankarnir voru þjóðnýttir.  

Það þarf bara góðan vilja til að gera hlutina. Það þarf bara ákvörðun. Það þurfti bara ákvörðun að koma Geir Haarde frá völdum. Það þarf bara ákvörðun til að koma Davíð úr seðlabankanum. Það þarf bara ákvörðun til að afnema eftirlaunaósómann. Þetta snýst bara um að taka þessar ákvarðanir. Það þarf bara að taka ákvörðun um að afnema verðtryggingu húsnæðislána. 

Allt annað er bara vinna við tæknilega útfærslu á því að hrinda þeim í framkvæmd. 

 

Tækifærið er núna góðir landsmenn. Það er núna. Það gefst ekki á næstu árum ef þið ætlið að láta það gerast að gömlu flokksmaskínurnar verði áfram að kokka við kjötkatlana. Þá verður ekki á dagskrá að breyta stjórnarskrá, breyta kosningalöggjöf og gera nauðsynlegar breytingar á núverandi kerfi sem gætu varðað okkur veginn inn í nýja tíma.  

Það ber ekki vott um mikla siðbót þegar lögfræðingarnir í skilanefndum bankana eru farnir að taka 5 milljónir í laun á mánuði. Það lýsir ekki mikilli siðbót þegar íhaldið neitar að horfast í augu við ábyrgð sína og gerist meðvirkt með gamla formanninum sínum og helsti hugmyndasmiðurinn, sjálfur doktor HHG skundar fram á ritvöllinn og sakar Jóhönnu Sigurðardóttur um vanhæfi.

Það ber ekki siðbótinni fagurt vitni að þora ekki að skera upp kvótakerfið og leyfa handfæraveiðar á landgrunninu sem mundi skapa hér hundruð starfa. Að hvetja fólk til sjálfsbjargar og sjálfbærni ætti að vera leiðarljós dagsins í stað þess að einblína á ESB og stóriðju.

Hvað var með þessi nýju gildi sem átti að innleiða í þjóðfélag okkar? Það lítur út fyrir að hugmyndirnar til lausnar efnahagsvandanum séu svo frumlegar að annað eins hefur ekki litið dagsins ljós síðan vistarbandið var aflagt hér um árið. Mér heyrist helst að menn ætli að redda sér á gömlu aðferðunum eins og að skera niður opinbera þjónustu, pína hina lægst launuðu áfram, selja þrotabú bankana á útsölu til þeirra sem áttu þá í gegnum einhverja leppa, braska áfram með kvótann svo að þeir sem „eiga“ hann geti komið sterkir inn aftur, braskað meira og sett þjóðina aftur á hausinn þegar hún verður búin að slíta sér út á því að rembast við að greiða niður skuldirnar sem braskaraflokkurinn kom okkur í.

Sér eru nú hver frumlegheitin. Það sem á að redda alþýðu manna núna er að stinga að þeim 600 þúsund krónum til að moka í skuldahítina. Margir munu eflaust stökkva til að sækja sér þennan pening og hugsa sig vandlega um hvort þeir tíma að henda sparnaðinum í skuldir eða hvort þeir skella sér bara á djammið og gleyma sér um stund. En það er auðvitað búið að girða fyrir þann möguleika með því að borga ekki út nema í skömmtum. Kannski 25 kall á mánuði eða eitthvað álíka. Húrra!

Svo verðum við að sjálfsögðu pínd til að borga okurvextina áfram, afborganirnar af verðtryggðu lánunum okkar og til að bæta gráu ofan á svart þá hækka þeir skattana, búvöruverðið, bensínið á bíldruslurnar (því nú verður bílaflotinn ekki endurnýjaður á næstunni) færslugjöldin á kortunum og svo framvegis og svo framvegis. 

Braskaraflokkurinn er með böggum hildar þessa dagana. Eins og um sé að ræða einhvers lags fráhvarfseinkenni frá valdafíkninni. Fíknin er svo sterk eftir átján ára setu og forystu í stjórn landsmála að það á eftir að taka flokkinn nokkur ár að jafna sig. Hann verður hins vegar fljótur að vekja fíknina aftur til lífs ef hann kemst til valda eftir kosningar.

Þess vegna tel ég affararsælast að leyfa flokknum að jafna sig. Það þarf að renna almennilega af honum og síðan þarf hann nauðsynlega fræðslu til að geta endurnýjað sig, endurskoðað viðhorf sín og lagt stund á nauðsynlega rækt mannsandans. Þá skapast ef til vill nýjar forsendur en þangað til held ég að hann hafi gott af því að vera í stjórnarandstöðu. Æfingin skapar meistarann.

Að síðustu vil ég fá að vita hvað það er sem þjóðin má ekki vita. Hvaða sannleikur er svona hryllilegur að þjóðin fái ekki að heyra hann?

Hvað er verið að fela?

Heldur einhver virkilega eftir allt sem á undan er gengið að við fáum flogakrampa yfir einhverju nýju hneyksli sem flett yrði ofan af?  

Versta fréttin yrði líklega sú að landið sé gjaldþrota og fari á nauðungarsölu.  Það hafa auðmennirnir okkar og pólitíkusarnir okkar afrekað - að setja landið á brunaútsölu og gert alþýðu manna að beiningarfólki um ókomna framtíð. Ef það er það sem verið er að hlífa okkur við að horfast í  augu við þá get ég skilið það. En ég vona svo sannarlega að það sé ekki staðan sem upp er komin, þótt að mér læðist sá grunur því miðað við að yfirfæra stöðu þjóðarbúsins á sjálfan mig þá er þjóðin a.m.k. ,,tæknilega" gjaldþrota". 

Þá stendur ekkert eftir nema spurningin um það hver tekur okkur upp í skuld. 

 

Íslandi allt! Og að síðustu vil ég leggja það til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin hið fyrsta. 

Valgeir Skagfjörð, borgari 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er svo margt sem leynist og við megum ekki sjá. Íhaldið er skelfingu lostið og reynir að fela það með alls kyns lögfræðituði um þau mál sem liggja fyrir þinginu. Endurnýjun á andlitum er svo sem ágæt, en við viljum lýðræði.

Skorum á stjórnvöld að efna til stjórnlagaþings um endurskoðun stjórnarskrár og kosningareglna. Burt með gamaldags flokkaveldi.

Nýtt lýðveldi  - skrifa undir áskorun  HÉR 

Hólmfríður Bjarnadóttir, 20.2.2009 kl. 16:51

2 Smámynd: Valgeir Skagfjörð

Löngu búinn að skrifa undir það plagg.  Ég hvet alla til hins sama.

Kv.

Valgeir  

Valgeir Skagfjörð, 20.2.2009 kl. 18:46

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þöggunin er ennþá í fullu gildi.  Ég er sammála, að við erum tæknilega gjaldþrota.  Öll atburðarásin frá hruninu er með ólíkindum, maður hugsar oft hvað næst.  Hvaða spillingu verður flett ofan af.  Það eru bara svo ótrúlega margir sem hafa haft bitlinga, og verið á spenanum.  Þeirra hagsmunir eru þöggun. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.2.2009 kl. 22:48

4 Smámynd: TARA

Ég vil bara heyra sannleikann óþveginn, rétt eins og hann er...þoli ekki að láta ljúga að mér, ekki að neinu leyti. Ég vil vita sannleikann hver sem hann er og mér finnst það óvirðing að bjóða okkur upp á orð eins og þessi; Það er ekkert hægt að segja á þessu stigi málsins...ég vil ekki tjá mig um það á þessu stigi...við munum leita allra leiða...það er bara verið að skoða hlutina...og svo framvegis....orð sem segja manni akkúrat ekkert.

TARA, 22.2.2009 kl. 04:19

5 identicon

Samstaða hyggst bjóða fram til Alþingis og gera Atlögu að flokksræðinu.

Helstu stefnumál eru:

1. Gripið verði til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja.

2. Landsmenn semji sína eigin stjórnarskrá.

3. Trúverðug rannsókn undir stjórn og á ábyrgð óháðra
    erlendra sérfræðinga á íslenska efnahagshruninu verði
    hrundið af stað og fari fram fyrir opnum tjöldum.
    Við viljum frysta eignir auðmanna nú þegar á meðan
    rannsókn stendur.

4. Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla.

5. Lýðræðisumbætur STRAX.

- Stjórnlagaþing í haust.
- Persónukjör.
- Jafn stuðningur til allra framboða.
- Öll framboð fái jafnan aðgang að fjölmiðlum


- Nánari upplýsingar má finna á
http://www.facebook.com/ Samstaða - bandalag grasrótarhópa
http://www.lydveldisbyltingin.is
http://www.nyirtimar.is
http://www.nyttlydveldi.is

Óskað er eftir þátttöku sem flestra sem vilja vinna að þessum markmiðum.

Samstaða er afl sem ekkert fær staðist!

Email:
 

Sigurlaug (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 08:53

6 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það var ljóst frá fyrsta degi að eitthvað svo undur ljótt hefði gerst sem varð til þess að ísland hrundi. Svo ljótt að það má helst ekki upplýsa almening um það fyrr en eftir ca 25 ár eða svo.

Og landið er gjaldþrota. Á því er engin vafi. Kíktu á þessa færslu ef og þegar þú hefur tíma og berðu saman ísland og dæmið sem nefnt er: http://arikuld.blog.is/blog/arikuld/entry/801140/ 

Arinbjörn Kúld, 22.2.2009 kl. 09:44

7 Smámynd: Gerður Pálma

´Það ber ekki vott um mikla siðbót þegar lögfræðingarnir í skilanefndum bankana eru farnir að taka 5 milljónir í laun á mánuði.´
Hver semur um þessi laun? .
Hvernig má þetta vera á sama tíma og verið er að fækka starfsmönnum og skera niður starfsemi í heilbrigðisstettinni.
Þessi laun hljóta að vera samþykkt af launagreiðanda, er launagreiðandinn í þessu tilfelli ekki fólkið í landinu? 
Nýji fjármálaráðherran verður að setja stopp á ofur-launagreiðslur, og það strax.
Þeim aðilum innan þjóðfélagsins sem þiggja þvílíkar launagreiðslur ætti að renna blóðið til skyldunnar og fara fram á launalækkun og eða opinberlega styrkja mánaðarlega verkefni í þágu þjóðarinnar. 
Það er ekkert jafnvægi í slíkum ofurlaunum og launum almennings í landinu. Er þetta lið gjörsneytt sjálfsvirðingu og samkennd? Hvernig væri að FRJÁLS VERSLUN gerði núna lista yfir 500 hæst launuðustu menn landsins til þess að við getum áttað okkur á hverjir þeir eru og hvað þeir fá og fyrir hvað.
Fólk sem þiggur slík ofurlaun meðan landinu blæðir geta hvorki haft sjálfsvirðingu eða samkennd, er slíku fólki treystandi í abyrgðarstöður sem snerta hag landsmanna allra?

Gerður Pálma, 22.2.2009 kl. 09:49

8 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Stjórnvöld hafa ekki burði til að laga neitt því kerfið er ónýtt. Plástrar ofaná óhreinsuð og blæðandi sár. En allt ber að sama brunni: Almenningur skal borga brúsann.

Margrét Sigurðardóttir, 22.2.2009 kl. 10:12

9 Smámynd: Óskar Arnórsson

Algjörlega snilldarpistlar allir saman! Það vantar svona fólk eins og þig að stjórna þessi landi!

Þessi gjöreyðingarflokkur er að verða eins og Breiðavíkurdæmið. (Sjálfstæðisflokkurinn) Tók 50 ár að "skoða" það og svo voru boðnir smápeningar í skaðabætur.

Tók þessa samlíkingu til að benda á "hugmyndafræði" ráðamanna. Gamla flokkakerfið er algjörlega úrelt og best heima á þjóðmynjasafninu eins og verðtrygging, ofurlaun og margt fleira.

Takk fyrir að gera mig alveg agndofa yfir heiðarlegri og aldeilis bestu færslu sem ég hef séð hingað til um stjórnmál á Íslandi!

Þú færð mitt atkvæði ef þú býður þig fram sem þingmaður án flokkakerfis!

Óskar Arnórsson, 22.2.2009 kl. 12:20

10 identicon

Takk fyrir góðan pistil.  Á eftir að lesa restina.  Hins vegar langar mig að tjá mig um þessa blessuðu verðtryggingu sem þú minnist á.  Þessi verðtrygging er algjör djöfull að draga fyrir ungt fólk og vafalaust fleiri sem hafa of-fjárfest.  Þetta er ekki fólki bjóðandi lengur.  Ef ekki er hægt að afnema verðtryggingu er þá ekki málið að byggja upp eins konar fasteignafélög eða efla búsetafélög og bjóða fólki íbúðir til leigu til lengri tíma.  Það er ekkert annað í boði.   Þetta tíðkast víða í Evrópu og virðist virka vel.  Manni svíður í hjarta að vita af svo mörgu ungu fólki sem ræður ekki við aðstæður eins og þær eru í dag og fá enga aðstoð. 

Hin Laran (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 12:43

11 Smámynd: Valgeir Skagfjörð

Þetta er ein leið sem hefur nokkuð verið í umræðunni en einhvern veginn tekst alltaf að beina athyglinni eitthvert annað. Auðvitað á að skpa hér annars konar húsnæðisúrræði til samræmis við það sem gerist í kringum okkur. Ég átti heima í Svíþjóð fyrir margt löngu og þar tíðkaðist almennt ekki að fólk ,,eignaðst" íbúðir. Það hafði húsnæði á svokölluðum fyrstu handar samningi og hafði þá tryggt húsnæði á meðan það vildi eða þar til það vildi hugsanlega stækka við sig eða minnka og gat gert það innan kerfisins. En hér er öllum sagt að það sé bráðnauðsynlegt að eiga húsnæðið þótt allir viti að fólk í dag endist ekki aldur til að greiða af íbúðum sínum og eignast þær að fullu.

Að sjálfsögðu ber að endurskoða allt húsnæðislánakerfið og í landi þar sem meira er til af húsnæði en fólki þá mun  það vart gerast að fólk lendi á vergangi og að við eigum eftir að sjá hér förumenn og förukerlingar eins og fyrr á öldum. Þetta er bara spurning um gera hlutinn. Það sem oftast stendur í vegi fyrir félagslegum umbótum er röksemd frjálshyggjumanna um að þær kosti svo mikið og af því peningamenn komast ekki með puttana í þær til að geta grætt á öllu saman þá er ekki gengið í málin. Hingað til hefur allt hér á Íslandi snúist um hagsmuni einhverra verktaka og flokksgæðinga. 

Valgeir Skagfjörð, 22.2.2009 kl. 13:12

12 Smámynd: Sævar Helgason

Ef verðtryggin yrði afnumin - núna.   Yrði vaxtastigið þá ekki um 25% ?  Þeir fáu sem eiga sparifé vilja tæpast gefa það ... Ég vildi svo sannalega að afnám verðtryggingar kæmist í gagnið - strax.  Aðlild að stóru efnahagssvæði sópaði allri verðtryggingu út í hafsauga. Það eru stjórnmálaklíkur á Íslandi óbreytt ástand....það er okkar ógæfa.

Sævar Helgason, 22.2.2009 kl. 13:48

13 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég bregð bara fyrir mig forneskjunni og segi: Mæl þú manna heilastur!

María Kristjánsdóttir, 22.2.2009 kl. 15:03

14 Smámynd: Bjarni Benedikt Gunnarsson

Eins og ég er sammála þér að það þurfi að breyta kosningalgögunum á einhvern hátt til að gera þau persónulegri og lýðræðislegri þá get ég ekki verið sammála því að það sé rétt að gera það svo stuttu fyrir kosningar. Þú talar um að það þurfi bara að taka ákvörðunina, og svo þarf bara að hrinda tæknilegu útfærslunum í framkvæmd. En það eru þær sem eru tímafrekar og það eru þær sem myndu gefa niðurstöður um hvernig fyrirkomulagið yrði og það kæmi væntanlega í ljós örfáum vikum eða jafnvel dögum fyrir kosningar ef vinnan þar á bak við væri almennileg.

Þessvegna er of stuttur tími til stefnu, því svona kerfi getur ekki verið annað en eitthvað sem maður þarf virkilega að pæla í til í að skilja því þetta er ekki einfalt að útfæra þetta. Og setja svoleiðis kerfi á þegar allir flokkar eru búnir að raða á lista, og fólk í þann mund að fara að kjósa myndi einfaldlega ekki auka á lýðræðið- í það minnsta ekki í komandi kosningum, því fólk fengi engan tíma til að vera með reglurnar á hreinu.

Aftur á móti er ég ekki jafn svartsýnn og þú á horfur okkar Íslendinga og ég er sannfærður um að við stöndum betur að vígi en flestar vestrænar þjóðir í dag, því annarsstaðar er ballið ekki byrjað, hér er hrunið komið vel af stað. Hvort ég hef rétt fyrir mér eða þú leiðir tíminn einn í ljós, en ég hvet fólk til að fylgjast með gagnrýnum fréttum utan úr heimi- þó ekki væri nema til að sjá að við sitjum ekki ein í súpunni. Nýjustu fréttir eru að Svissneska bankakerfið rambar á barmi hruns - Traustasta bankakerfi í heimi?

Bestu kveðjur

Bjarni Benedikt Gunnarsson, 22.2.2009 kl. 16:15

15 identicon

Kæri Bjarni.

Íslendingar eru sérfræðingar í að koma hlutunum hratt í gang. Þeir eru þekktir um allan heim fyrir að vera ,,hvatvísir áhlaupamenn" og með góðum vilja gæti góður hópur fólks úr öllum flokkum og þjóðfélagshópum myndað þverpóltíska samstöðu um nýtt kosningamódel sem yrði virkt a.m.k. fyrir þar næstu kosningar. En þá verður það stjórnmálafl sem ætlar sér að hafa það á stefnuskrá sinni að sýna fram á trúverðleika og að það ætli sér í raun og sannleika að fara í uppskurð á núverandi kerfi.

Mér sýnist ansi margir vilja viðhalda gamla flokksræðinu og óttast að missa spón úr aski sínum verði í alvörunni farið að vinna að nauðsynlegum breytingum.

Ekki er annað að sjá en auðmennirnir bíði átekta eftir því að geta komið aftur með peninga inn í landið með því að kaupa upp eigin þrotabú á spottprís. Allt sem við vorum að fabúlera með fyrir nokkrum árum er nú komið á daginn.

Lög sem heimiluðu frjálsa fjármagnsflutninga til og frá landinu hafa gert fjárglæframönnum kleift að braska með almannafé og skjóta milljörðum með tilfærslukúnstum undan okkur inn á reikninga á undarlegustu stöðum. Þar munu þeir væntanlega ávaxta sig á meðan landinu blæðir. 

Við höfum svo sem séð það svartara en það breytir ekki þeirri staðreynd að ef við ætlum að lifa hér sem þjóð með einhverja lágmarks reisn og sjálfsmynd þá þarf hér nýja hugsun. Það þarf að hugsa þetta allt upp á nýtt.

Alltaf þegar ég heyri einhvern segja: þetta er ekki hægt - þá fyrst verður gaman í mínum bekk. Það er allt hægt. Við erum að spila leik þar sem allt getur gerst. Hvað sem er getur gerst.

Ég trúi því í einlægni að allt fari vel að lokum en við þurfum að hafa kjark til að gerast eigin gæfusmiðir og það gerum við ekki nema með því að kanna alla möguleika með opnum huga. 

Þess vegna held ég að tími sé til kominn að segja sannleikann - því aðeins sannleikurinn mun gera okkur frjálsa, eins og trésmiðurinn frá Nasaret sagði fyrir mjög löngu. Fátt merkilegra hefur verið hugsað síðan en okkur gengur merkilega illa að þokast áleiðis í andlegum þroska, svona ef mið er tekið af því sem er að gerast hérna hjá okkur og auðvitað víða annars staðar líka. Það sem frjálshyggjan gleymdi að taka með í reikninginn er einmitt þetta: Mannlegt eðli.! 

Yðar einlægur

Valgeir Skagfjörð

Valgeir Skagfjörð (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 17:32

16 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sæll Valgeir!

Takk fyrir síðast þó það hafi nú verið fyrir allmörgum árum í saumastofunni í Borgarfirði. Þetta er ágætis pistill og allgott að minna mann á að vilji og skýrar ákvarðanir er allt sem þarf.

Anna Karlsdóttir, 23.2.2009 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband