Að loknum landsfundi

Kæru vinir og samherjar.

 Nú er langþráðum landsfundi lokið og lýðræðisleg niðurstaða fengin varðandi ný lög og samþykktir. Stjórnarkjör hefur varið fram og niðurstaða stjórnar um verkaskiptingu var einróma sú að formaður skyldi verða Valgeir Skagfjörð, Heiða B. Heiðarsdóttir varaformaður og Sigurður Hr. Sigurðsson ritari. Aðrir voru Gunnar Sigurðsson, Guðmundur Andri Skúlason, Lilja Skaftadóttir og Ingfríður R. Skúladóttir. 

Lýðræðisleg kosning átti sér stað um tillögur að nýjum lögum en 35% landsfundarmanna vildu kjósa um hina tillöguna sem í boði var. Margt gott var í þeim tillögum sem ég hefði viljað sjá í nýju lögunum og þeir sem aðhylltust þær tillögur hefðu auðveldlega getað tekið þátt í vinnu landsfundar og komið með breytingartillögur í þá átt og þannig hefði verið hægt að sættast á það besta úr báðum tillögunum.

Hluti fundarmanna kaus þess í stað að yfirgefa fundinn og neitaði að taka þátt í stjórnarkjörinu. Þetta þótti mér afar miður og ég verð að segja að ekki er mjög stórmannlegt að rjúka burtu í fússi þegar í ljós kemur að hugmyndir manns lúta í lægra haldi í lýðræðislegum kosningum. 

Það var reiknað með þátttöku 100 manna á landsfundi og töldu flestir það harla gott. Mætingar á félagsfundi hafa verið með miklum ágætum. Nú til dags þætti það saga til næsta bæjar að 30 manns væru að mæta á fundi hálfs mánaðarlega hjá stjórnmálahreyfingu og það um miðjan sumarleyfistímann.

Staðreyndirnar tala sínu máli og málflutningur þingmanna og annarra sem vilja ekki lúta lýðræðislegri niðurstöðu landsfundar er eiginlega hálf barnalegur.

Menn rjúka upp til handa og fóta og tala um smölun og yfirtöku - orð sem alla jafna eru notuð í neikvæðri merkingu. Eina smölunin sem hefur farið fram er sú að félagsmenn almennt hafa verið hvattir til að taka þátt í landsfundinum. Enda í hæsta máta eðlilegt.

Það er líka í hæsta máta eðlilegt að fólk í lýðræðislegri hreyfingu bjóði sig fram til stjórnarsetu og setji mannkosti sína í dóm þeirra sem síðan kjósa. Þannig virkar lýðræði. Þess vegna skýtur það mjög skökku við að félagar okkar í hreyfingunni sem vilja berjast fyrir bættu lýðræði, gagnsærri stjórnsýslu og heiðarleika skuli bregðast svona neikvætt við.

Ég veit að það hefur mætt mikið á þingmönnum okkar við störf sín á alþingi. Já - það er annasamt starf að vera alþingismaður. Ekki síst á erfiðum tímum eins og við erum að upplifa núna. Þeir hafa í hvívetna staðið sig vel og innst í hjarta sínu trúa þeir því að þeir séu að vinna samkvæmt sinni sannfæringu. Það ber að virða. Ég virði það.

En þeir verða að sama skapi að virða það lýðræði sem þeir hyggjast betrumbæta. Landsfundur ályktaði, samþykkti og kaus nýja stjórn til starfa. Nú verða allir að leggja deilur og væringar til hliðar, sameinast  um að efla Borgarahreyfinguna og þær hugsjónir og stefnu sem hún stendur fyrir.

Við þurfum að komast upp á næsta plan þar sem þrenningin virkar: Grasrót -  Stjórn - Þingmenn.  

Tækifærið er núna og ég bið ykkur háttvirtir þingmenn og aðrir félagar í þessari hreyfingu að taka í útrétta sáttahönd. Berum klæði á vopnin og sameinumst um þau meginmarkmið sem við lögðum upp með í byrjun.

Það er afskaplega óvirðulegt að missa sig í hártogunum um merkingu orða.  

Ég veit ekki betur en VG heiti Vinstri hreyfingin grænt framboð. VG er þó skilgreindur sem hefðbundinn stjórnmálaflokkur.

Við heitum Borgarahreyfingin og margir líta á okkur sem stjórnmálaflokk. Við stofnuðum stjórnmálaflokk og buðum fram í öllum kjördæmum. En við höfum kosið að kalla okkur hreyfingu af því við viljum vera lifandi afl.

Við ætlum sannarlega að halda áfram að vera lifandi afl. Við ætlum að hreyfa við hlutunum. Við munum tryggja þingmönnum okkar öflugt bakland. Við munum mynda nefndir og ráð í málaflokkum sem varða stefnuskrá okkar.

Á næstu misserum munum við jafnvel sjá stefnuskrá okkar útfærða betur og við munum koma á skipulagi innan hreyfingarinnar til þess eins að efla hana og styrkja á alla lund.

Við munum ekki verða ,,miðstýrður stjórnmálaflokkur" það er af og frá.

Við verðum lifandi afl áfram. Ég sem formaður ætla að beita mér fyrir því sem ég trúi á hér eftir sem hingað til og ekkert mun breyta því.

Ég ætla að ástunda heiðarleika og gera mitt ýtrasta til að verða samferðafólki mínu að gagni.

Ég ætla ekki að tala illa um nokkurn mann og ég ætla ekki að ástunda baktjaldamakk.

Þessi stjórn hyggst starfa eftir nýjum samþykktum landsfundar og í engu hvika frá stefnu Borgarahreyfingarinnar.

Við munum starfa af fullum heilindum og við munum að mér heilum og lifandi ná Borgarhreyfingunni út úr þeirri krísu sem hún hefur verið í undanfarið.

Við ætlum ekki að kasta skít á bloggi eða munnhöggvast við aðra á opinberum vettvangi. 

Við ætlum að einbeita okkur að því að láta grasrótina vinna, vinna að því að koma á breytingum í hugsun og athöfnum í pólitík svo þjóðin fái í eitt skipti fyrir öll að sjá að hér er fólk sem vill lýðræðinu vel.

Kv. 

Valgeir Skagfjörð, formaður.

 

Ég þarf varla að minna á nauðsyn þess að afnema verðtryggingu. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Til hamingju með fundinn og kjörið Valgeir. Kosningin og þátttakan gefur góð fyrirheit.

Það er hinsvegar erfitt að sjá annað en að umræddir 3 þingmenn séu búnir að koma sér út í horn  með framgöngu sinni á fundinum.

hilmar jónsson, 14.9.2009 kl. 10:58

2 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Amen Valgeir :)

Þingmennirnir verða bara að gera upp hug sinn. Að sjálfsögðu vonum við að þeir ákveði að fylgja hreyfingunni...en ef ekki þá mun hreyfinging halda áfram eftir sem áður.

Heiða B. Heiðars, 14.9.2009 kl. 11:08

3 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Hvað í ósköpunum hefur komið yfir þig Valgeir að fara að binda trúss þitt við þetta ruglulið í Borgarahreyfingunni. Þú varst eitt sinn í Samfylkingunni, kosningastjóri meira að segja í síðustu sveitarstjórnarkosningum sem ég kom að sem borgari í Kópavogi.

Ég held að þú eigir enga samleið, hvorki með Borgarahreyfingunni (eða brotum hennar), Þráni eða Systkinunum frá Bakka.

Velkominn á bloggið mitt: siggigretar.blog.is

Sigurður Grétar Guðmundsson, 14.9.2009 kl. 11:39

4 Smámynd: Baldvin Jónsson

Gangi þér vel Valgeir, ég er afar ánægður með að þú skulir hafa hlotið flest atkvæði og umboð til að leiða stjórnina.

Baldvin Jónsson, 14.9.2009 kl. 11:55

5 Smámynd: Árni Björn Guðjónsson

Til hamingju nýja stjórn.

Árni Björn Guðjónsson, 14.9.2009 kl. 13:37

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Innilegar hamingjuóskir Valgeir. Þetta er allt saman Sigrúnu Guðbrands að þakka...

Friðrik Þór Guðmundsson, 14.9.2009 kl. 13:42

7 identicon

Til hamingju, gangi ykkur sem allra best.

Herbert Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 13:58

8 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Innilega til hamingju Valgeir.  Ég hef tröllatrú á getu þinni.

Jenný Anna Baldursdóttir, 14.9.2009 kl. 15:43

9 Smámynd: Þorvaldur Geirsson

Frábær fundur, líðræðisleg niðurstaða og flott stjórn. Til hamingu.

Til að árétta fyrir þá sem gætu haldið að þetta sé einn halelúja kór þá mun ég vera með haukfrán augu á verkum stjórnar og hvetja hana til dáða þyki mér þau eitthvað vera að slaka á yfirlýstum markmiðum sínum og ég vona að aðrir geri það sama.

Þorvaldur Geirsson, 14.9.2009 kl. 15:57

10 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Gangi þér vel og til hamingju með frábæra kosningu.  Ég sá engan tilgang að mæta á landsfundinn og harma þessar deilur & leiðindi. 

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 14.9.2009 kl. 19:39

11 identicon

Til hamingju og vonandi verður þú það sáttaafl sem þarf til að lægja þar ófriðaröldur og ósætti sem hefur hrjáð Borgarahreyfinguna því hún þarf að takast á við mun brýnni úrlausnarefni heldur en innbyrðis deilur.
Til þess að svo megi verða allir að leggja sitt af mörkum og láta af persónulegum skæruhernaði útaf eh egóflippi. Það á bæði við um þingmenn og aðra félagsmenn. Það hljómar allavega vel í mínum eyrum að grasrótin - stjórnin og þingmennirnir nái saman og geti farið að vinna að upprunalegum stefnumálum hreyfingarinnar.

Ég mun styðja þig heilshugar í því verðuga verkefni.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 20:56

12 Smámynd: Björn Halldór Björnsson

Til hamingju Valgeir. -þú virðist traustvekjandi maður og þú byrjar stjórnarformennskuna afskaplega vel.

Gangi þér vel við þau erfiðu verk sem eru framundan.

Björn Halldór Björnsson, 15.9.2009 kl. 00:43

13 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Flottur Valgeir, þú ert rétti maðurinn í þetta verkefni sem framundan er í BH.

kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 17.9.2009 kl. 22:36

14 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég hugsa, að þú getir orðið ágætur formaður, Valgeir.

Einhvern veginn, þurfa að nást sættir milli stjórnar og þingmanna.

Mikill skaði yrði af því, ef flosnaði upp úr Hreyfingunni ykkar.

Sumir tala digurbarklega, að vel sé hægt að vera án þingmannanna, ef þeir kjósa að fara. En, ég segi að slíkur klofningur myndi veikja mjög þessi baráttusamtök, sem Borgarahreyfingin er. En, eftir allt saman, hafa þingmennirnir einhverja fylgismenn, og geta sennilega ásamt þeim, stofnað aðra hreyfingu.

Síðan er það einnig það fjármagn, sem fylgir þingmönnum, eins og reglurnar virka í dag,,,hvort sem það fyrirkomulag telst sanngjarnt eður ei.

Það er því mikils virði, að hin nýja stjórn, leggi sig fram um að, dekstra ef með þarf, þingmennina til að vera kjura.

----------------------

Þ.e. einfaldlega staðreynd, að þingmenn eru mjög sjálfstæðir. Ekki er mögulegt að reka þingmann, nema að dómur hafi fallið og dómsorð kveði á um að viðkomandi, hafi beðið mannorðsmissi.

Þeir geta því, ef því er að skipta, flakkað á milli flokka eða samtaka, eins og þeim sínist, og í gegnum Lýðveldis-söguna, hefur slíkt margoft gerst.

Ég held, að þ. sé einfaldlega, þ.s. verður að sættast á, að ekki verði náð fram, fullkominni stjórn á þingmönnunum. Að, ekki er nokkur leið, til að knýja þá til að víkja sæti, ef þeir það vilja ekki.

"Reality is what reality is."

---------------------------------

Svo, að hlutir verða sjálfsagt áfram nokkuð "messy". En, samt sem áður, ætti alveg að vera hægt, að forðast að eins hatrammar deilur og hafa sprottið fram, gjósi upp á ný.

En, þá verða þingmenn - og einnig - hreyfingin, að vera til í að sýna sveigjanleika.

Bæði þingmenn og hreyfing, þurfa að skilja, að hvort tveggja er sterkara saman, þannig að þ.e. þess virði, að gefa eftir, þó svo mörgum finnist það blóðugt.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 17.9.2009 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband