Siðferði og samfélag




Í mínum huga stendur samfélag okkar hér á Íslandi á tímamótum. Þjóð hefur beðið skipbrot og er núna smám saman að gera sér grein fyrir skaðanum sem hún hefur orðið fyrir. Hér þarf engar skáldlegar metafórur til að lýsa þeirri vanlíðan sem nú ríður húsum hjá fólki. Hér þarf enga lærða stjórnmálaskýrendur, hagfræðinga eða lögspekinga til að túlka þá atburðarás sem af mannavöldum komu landi og þjóð í þrengingar af þeirri stærðargráðu að það er ofvaxið mínum takmarkaða mannlega skilningi á stundum.

Einkum og sér í lagi þegar ég hlusta á hvern sérfræðinginn á fætur öðrum útskýra stöðuna í fréttatímum og  fréttskýringaþáttum ljósvakamiðla. Ekki greiðist neitt frekar úr flækjunni þegar ég les greinarnar í blöðunum eða bloggið ... mann sundlar og sjálfur er ég ekki frír við að hafa fleygt skoðunum mínum út í loftið í óþökk sumra en þökk annarra. 

Það sem augljóslega hefur gerst á sér aðdraganda og sá aðdragandi hefur lítið sem ekkert með pólitík né hagfræði að gera – heldur hefur einmitt með það að gera sem er til umræðu hjá þjóðinni þessa daga. Siðferði.
Við höfum byggt samfélag okkar upp á grunni kristilegs siðferðis sem aftur á sér rætur í hugmyndum grísku heimspekinganna Sókratesar og Plató.

Við höfum af veikum mætti reynt að stýra mannlegu eðli í farveg sem er markaður af hinum gullna meðalvegi milli dyggðanna og lastanna. Lestirnir hafa stundum verið nefndir dauðasyndir – sjö talsins. Ég ætla að nefna þrjár: hroki, græðgi og leti.  Til mótvægis ætla ég að nefna þrjár höfuðdyggðir – trú, von og kærleik.

Það sem hefur gerst í okkar samfélagi er að við höfum villst af þessum meðalvegi og smám saman tókst að afvegaleiða okkur með því að fara að  líta á græðgina sem dyggð.

Eitt er að ávaxta sitt pund og láta gott af sér leiða fyrir það sem aflað er. Okkur þykja það sjálfsögð mannréttindi að búa í samfélagi þar sem allir fá að njóta ávaxta erfiðis síns. Hver vill það ekki? En við urðum ofurseld græðginni og síðan hrokanum sem lýsti sér meðal annars í því að enginn sá neitt athugavert við það að lifa í græðginni. Síðan gátu sumir í krafti auðs síns lagst í leti og hóglífi og þannig fóru að myndast brestir í þann siðferðislega grunn sem samfélag okkar hefur hingað til  byggst á.

Við létum bjóða okkur upp í dansinn kringum gullkálfinn og gleymdum stað og stund.  Við hentum dyggðunum fyrir róða en létum stjórnast af taumlausri löngun í að eignast allan heiminn. Hvað stoðar það manninn þótt hann eignist allan heiminn ef hann fyrirgerir sálu sinni? Stórt er spurt. 

Það tala allir um hrun – en er það eingöngu efnahagslegt? Nefnilega ekki. Hér hefur nefnilega orðið siðferðislegt hrun.  Menn sváfu á verðinum. Það verður ekki nóg fyrir framtíð Íslands að reisa við efnahag og atvinnulíf. Það þarf að reisa við gildismat. Siðferðismat.

Ef einhvern tíma var þörf á að finna fyrir trúarsannfæringu, að hafa trú á því að hér muni rísa upp nýtt Ísland þá er það núna. Ef einhvern tíma var þörf fyrir að trúa því að Guð sé til og að hann sé algóður og vaki yfir öllu mannkyni, þá er það núna. Hvernig svo sem við skiljum hann og hvað svo sem við köllum hann. 

Ef einhvern tíma var þörf fyrir von – von um að menn geti breytt hugsun sinni, von um að réttlæti nái fram að ganga, von um að góðar hugmyndir leiði til farsældar og að allt fari vel að lokum, þá er það núna.

Ef einhvern tíma var þörf fyrir að standa saman og gefa af okkur sjálfum, vera meðbræðrum okkar að gagni og sýna kærleika í verki þá er það núna. Kærleikurinn fellur nefnilega aldrei úr gildi.

Fyrr á öldum þegar Evrópumenn voru að kanna nýja heiminn, þá gáfu frumbyggjarnir þeim gjarnan heitið: þeir sem taka.
Það var einhvern veginn það sem þeir gerðu. Þeir tóku. Þeir sölsuðu allt undir sig. Þrátt fyrir sterkt kristilegt uppeldi þar sem siðferði kristindómsins var í öndvegi – þá voru þeir alltaf í hlutverki þeirra sem TAKA. 

Þeir voru á valdi græðginnar. Gullgrafarar, olíuleitarmenn, og aðrir sem hafa lagt undir sig lönd og skilið eftir sig sviðinn, blóðugan svörð, rústað heilu samfélögin, kúgað smáþjóðir í þeim tilgangi einum að raka saman auði undir sjálfa sig ... taka ... taka ... gefa ekkert ... taka allt ... fullkomlega á valdi sérplægninnar og eigingirninnar – þeir sem taka hafa ekkert siðferði nema það siðferði sem þeir kjósa sjálfum sér.

Margir vilja kalla þetta frumkvæði, skapandi hugsun, frumkvöðla eðli – frelsi einstaklingsins til athafna, og svo framvegi og svo framvegis.

Flestir menn gera ekki stærri kröfur til lífsins en fá að strita í sveita síns andlits, og njóta uppskerunnar. Við viljum uppskera eins og við sáum.

Samfélag okkar ætti byggja á bjargi trúar, vonar og kærleika, jafnréttis, frelsis og lýðræðis.

Siðferði í samfélagi er ekkert flókið ef við aðeins þekkjum muninn á  réttu og röngu.

Heiðarleiki og traust verða ekki byggð á hroka, hleypidómum, græðgi, misrétti, yfirgangi, kúgun og einokun heldur þvert á móti.

Heiðarleiki og traust skapast við það þegar samskipti okkar einkennast af auðmýkt, hlustun, nærgætni, hófsemd, tillitssemi og virðingu fyrir hvert öðru.

Við erum ekki öll eins en við búum í samfélagi og við viljum búa í samfélagi. Lýðfrjálsu og réttlátu samfélagi sem hefur mikinn siðferðisstyrk.  Það er þess vegna skylda okkar að búa  samfélagi okkar ríka siðferðisvitund.

Það eru óvenjulegir tímar og það þarf að standa þjóðinni reikningsskil. Í nafni  réttlætis bið ég þess að Íslendingar beri gæfu til þess að setja sér nýjan sáttmála milli þjóðarinnar og þeirra sem hún velur til að fara með það vald, sem þeim er trúað fyrir. Oft var þörf er nú er nauðsyn.
       

Valgeir Skagfjörð, borgari.


Að síðustu legg ég til að verðtrygging verði afnumin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll! Sú var tíð að ég kunni ekki við að taka kvittun fyrir greiðslu,fannst það vera vantraust á viðkomandi.  Taldi aldrei peningagreiðslu fyrir framan "borgarann",kom mér aldrei í koll. Lenti 3svar í smá bílaárekstri í rétti,var heitið viðgerð af tjónvalda,það stóðst. Er ekki að mæla með svona fífldirfsku,því í dag er engu treystandi og ég farin að tortryggja,   handsala enga samninga,allt skriflegt sem skiptir peningalegu máli.    Góð grein hjá þér, bið fyrir kveðju til Guðrúnar, blessi ykkur. Helga (mamma Jollu).

Helga Kristjánsdóttir, 24.3.2009 kl. 18:24

2 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Siðferðið er mikilvægt eins og endurreisn fjármálalífsins en eftir allar hremmingarnar trúi ég ekki öðru en að fólk hafi dregið af þeim lærdóm og muni forðast slík mistök framar en þó má alltaf hafa varann á. Margir eru þegar byrjaðir að spara og sætta sig við minna en áður og græðgin virðist hafa minnkað. Nú sem aldrei fyrr ríður á að þjóðin standi saman og að við byggjum hér Nýja Ísland sem fyrst.

Hilmar Gunnlaugsson, 24.3.2009 kl. 21:05

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Frábær hugvekja hjá þér.  Áfram Borgarahreyfing.  Ekki veitir af. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.3.2009 kl. 00:31

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Rétt, það var fleira en fjármálakerfið sem hrundi. Siðferðið var löngu hrunið. Kannski verðum við fljótari að byggja það upp en fjármálakerfið?

Arinbjörn Kúld, 25.3.2009 kl. 02:01

5 identicon

Sæll, Valgeir,

 Fylgist með þér úr fjarska. Kýs á sunnudaginn : ) Þú kemur sterkur inn.

Vona að þér og ykkur gangi vel.

 Kveðja frá Shanghai.

 -Hjalti Þorsteins.

Hjalti Þorsteinsson (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 08:21

6 identicon

Gangi þér vel Valli minn. Ritaðu kallinum skeyti ef þú mátt vera að!

Þinn vin SSS

Stefán Sturla (IP-tala skráð) 28.3.2009 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband