Vonlaust framboð vekur von

Þessa daga er verið að ganga frá framboðslistum Borgarahreyfingarinnar. Undirritaður hefur tekið 2. sæti á lista í Kraganum og leggur af stað í þessa vegferð fullur bjartsýni.

Margir hafa á orði að við séum að taka atkvæði frá öðrum. Það vill svo til að það er ekki ennþá á ísa köldu landi sérstakt eignarhald á atkvæðum kjósenda.

Samkvæmt þeim skoðanakönnunum sem gerðar eru þessa daga kemur í ljós að enn er stór hluti kjósenda í vafa um hvað hann ætlar að kjósa. Enn fremur hafa kannanir sýnt að Borgarahreyfingin fær til sín meira fylgi en aðrir og stefnir hraðbyri í að rjúfa 5% múrinn. Það gefur nýja von.

Von mín fæddist í búsáhaldabyltingunni þegar ég varð þess áskynja að Íslendingar voru þrátt fyrir allt tilbúnir að tjá sig á torgum, fá útrás fyrir reiði sína og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ná fram ætlunum sínum.

Ástríðan og eldmóðurinn sem svall í brjóstum manna og kvenna þessa daga hleypti mér kappi í kinn með svo afgerandi hætti að ég  fór niður í bæ að hrópa af einskærum fögnuði yfir því sem var að gerast. Ég var tilbúinn að berjast með liðinu í þeirri viðleitni að koma á nauðsynlegum breytingum í landinu.

Mig dreymir um að þjóðin fái að skrifa sína eigin stjórnarskrá í þágu sinna eigin hagsmuna.

Mig dreymir um að hér verði virkt lýðræði en ekki einokun og flokksræði.

Mig dreymir um að þjóðin fái að setjast á þing en ekki bara einhverjir útvaldir með flokkskírteini í arf og ættartengsl sem bónus og tryggingu fyrir þingsæti.

Mig dreymir um að hér verði jöfnuður og að valdsmenn verði ekki yfirstétt á Íslandi.

Mig dreymir um að þeir sem þiggja vald sitt frá fólkinu líti á sig sem þjóna og hugsi fyrst og síðast um það að vera þjóðinni að gagni og starfi í þágu þjóðarhagsmuna en ekki eigin-og sérhagsmuna.

Mig dreymir um nýtt Ísland þar sem allir fá notið ávaxtanna af erfiði sínu, þar sem öldruðum er búið áhyggjulaust ævikvöld og þar sem unga fólkinu er gert kleift að koma undir sig fótunum þannig að það geti komið sínum afkomendum til manns í öryggi. Þar sem afkoman er tryggð með fjölbreyttu atvinnulífi og háu menntunarstigi.

Mig dreymir um traust fjármálakerfi þar sem vextir eru sanngjarnir og möguleiki sé á því að höfuðstóll lána lækki eftir því sem lengur og meira er greitt af þeim.

Mig dreymir svo margt og ég hef lært það á langri ævi að draumar manns geta ræst ef maður leggur vinnu og rækt við það að láta þá rætast.

Það ætla ég að gera með því að bjóða mig fram fyrir hönd Borgarahreyfingarinnar því nú hefur sannast að fólk tekur okkur alvarlega og við meinum það sem við segjum.

Það er von til þess að draumar mínir rætist. Kæru vinir, Borgarahreyfingin er kostur fyrir þá sem vilja losna við flokksræðið.

Borgarahreyfingin er kostur fyrir þá sem vilja bætt siðferði.

Borgarahreyfingin er kostur fyrir þá sem vilja réttlátara samfélag.

Borgarahreyfingin er kostur fyrir þá sem vilja lýðræði.

Borgarahreyfingin er kostur fyrir þá sem vilja láta innri sannfæringu stýra því hvar atkvæðið lendir í stað þess að láta óttann stýra því.

Borgarahreyfingin er kostur fyrir þá sem vilja í alvöru breytingar á stjórnskipan á Íslandi.

Borgarahreyfingin er kostur fyrir þá sem vilja uppræta spillingu.

Valgeir Skagfjörð, borgari

E.S.  Að lokum vil ég leggja það til að verðtrygging verði afnumin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: B Ewing

Voruð þið ekki að mælast með nær 5% á landsvísu ?  Og það án þess að framboðslistar væru komnir fram í öllum kjördæmum ?

B Ewing, 1.4.2009 kl. 15:03

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

5% hjá körlum, en nokkru lægra hjá konum. Getur einhver farið og vakið konurnar?

Friðrik Þór Guðmundsson, 1.4.2009 kl. 15:41

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég vona að Borgarahreyfingin fái marga þingmenn, ekki veitir af.  Það er nauðsyn flokksræðinu verði útrýmt.  Áralöng sérhagsmunapólitík hlýtur að vera á undanhaldi eftir brotlendinguna.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.4.2009 kl. 15:51

4 Smámynd: Baldur Hermannsson

Það er full þörf á fleiri stjórnmálaflokkum. Vinstri Grænir eru dæmi um alvöru stjórnmálaflokk sem var stofnaður ekki alls fyrir löngu og er nú þegar kominn í ríkisstjórn. Fleiri nýir flokkar þyrftu að líta dagsins ljós. Það fjölgar valkostum og styrkir lýðræðið. En maður þarf ekki annað en renna yfir málefnalistann og skoða frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar til að sannfærast um að hún er ekki á vetur setjandi.

Baldur Hermannsson, 1.4.2009 kl. 18:01

5 identicon

Nýtt framboð - ný von.

Baldur er í hlekkjum hugarfars sem tilheyrir gamla Íslandi.

Kolla (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 22:16

6 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Fór Baldur öfugu megin fram úr í morgun?

Arinbjörn Kúld, 1.4.2009 kl. 23:14

7 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þakka þér fyrir einlæga og góða grein Valgeir - hlakka til að vinna meira með þér - það var einmitt þessi kraftur í mótmælunum sem ýtti mér útí að taka þátt í að búa til þessa hreyfingu - lít á það sem þjóðþrifaverk hver sem útkoma kosninga verður að viðhalda gneistanum í eldinum sem kviknaði við mótmælin. Fann í fyrsta sinn fyrir alvöru samstöðu meðal þjóðarinnar - því þjóðin studdi mótmælin þó ekki kæmist hún öll út á torg.

Gleymum því ekki að við erum kerfið - við erum þingið:)

Birgitta Jónsdóttir, 1.4.2009 kl. 23:29

8 identicon

Sæll Valgeir.

 Mjög góður pistill um það sem að mörg okkar vona að sjái dagsins ljós.

Takk fyrir.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 12:23

9 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Gangi ykkur vel, frábært framboð og ekki láta draga úr ykkur kjarkinn.  Gef mér að þið náið inn 1-3 þingmönnum, enda góð málefni & áhugaverðir frambjóðendur hjá ykkur.  Nóg til að hæfu fólki hérlendis, það þarf bara að VIRKJA betur okkar frábæra fólk...

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 2.4.2009 kl. 13:40

10 identicon

Sæll kæri minn.

Hef ekki en séð tillögur frá Borgarahreifingunni sem heilla mig. Bara slagorð og drauma. Mitt atkvæði fer til flokks sem hefur raunhæfar aðgerðir á sinni stefnuskrá. Aðgerðir sem eru meira en draumar. Það að vilja afnema verðtrygginguna er gott mál, enda flestir sammála að það verði að gerast jafnhliða öðrum aðgerðum, s.s. að ganga í evrópubandalagið, taka upp evruna og finna leið til að fella niður skuldir heimilanna á þann hátt að bæði skulaeigendur og skuldunautar komi standandi út úr þessari krísu. T.d. getur það alveg gerst að erlendir kröfuhafar í falllítt bankana, sem nóg er af á Íslandi, eignist skuldir heimilanna. Það er alls ekki útilokað, eins og mál standa í dag. Framsókn gerði í buxurnar þegar þeir komu með tillögur sínar til úrbóta. Vona að ég fari að sjá alvöru tillögur, útreikninga og sannfærandi stefnu frá Borgarahreifingunni. Því ég þarf að fara að kjósa hérna úti í Finnlandi.

Stefán Sturla (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 11:30

11 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Borgarahreyfingin á mikið hrós skilið fyrir að hafa aukið lýðræðislega umræðu í samfélaginu og styrkt trú fólks á að breytingar séu mögulegar. Nú mælist fylgið í kringum 3% og tel ég líklegt að það nái yfir 5% á næstunni.

Þetta er ágætis pistill hjá þér og óska ég ykkur hins besta í komandi baráttu.

Hilmar Gunnlaugsson, 5.4.2009 kl. 20:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband