Hvar eruð þið?

Góðir landsmenn nær og fjær.

Hvar eruð þið? Lýðræðinu blæðir og þið látið undir höfuð leggjast að tjá ykkur og láta sjá ykkur.  

Þið sem finnið til þegar vonleysið hellist yfir ykkur, látið ekki hugfallast. Ég fæ það sterklega á tilfinninguna að stór hópur fólks sem blæðir nú til efnahagslegs og félagslegs ólífis sé að missa trúna á að hér á Íslandi verði hægt að byggja upp framtíð. 

Eitt sinn bjó hér þrautseig þjóð sem þreytti daga langa .... 

Við sem  höfum þraukað hér í þúsund ár - ætlum við bara að gefast upp?

 

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga .... en ekki virðast allir hafa trú á því. Svartagallsrausið í þeim sem mala í útvarp og sjónvarp ætlar alla lifandi að drepa. Fréttirnar eru endalausar og ekki eru fréttmenn og viðmælendur þeirra í neinu bjartsýniskasti þessa daga.

Prófkjör fjórflokksins sýnast vera skrípaleikur einn. Eins konar undanrásir í kapphlaupinu að kjötkötlunum. Hollusta þeirra sem stefna á þingsætin liggur hjá flokknum - enda eru þeir búnir að bíða lengi í biðröðinni og þykjast eiga tilkall til sætis núna. Mentorar þeirra hafa kennt þeim vel og þeir munu eflaust halda vel og lengi í sætin sín eftir að rassarnir hafa mótað för sín á seturnar.

Það er hent í okkur sem hrópum á torgum og af húsþökum frösum um að þetta sé nú allt voðalega fallegt og göfugt en því miður þá er valdið í höndum kjörinna fulltrúa og verður það áfram. Enn um sinn að minnsta kosti.

Kjósendur er nauðbeygðir til að merkja við lista sem flokkarnir hafa stillt upp samkvæmt sínu kerfi sem er innilæst í klíkum sem hafa á valdi sínu maskínur sem smala fyrir þá sem eiga mestan pening eða eru duglegastir við að smjaðra fyrir fólki. Ef þetta kerfi heldur áfram að þróast svona þá munu þeir ná völdum sem halda dýrustu og flottustu flugeldasýningarnar. Lítið fer fyrir lýðræðinu.  Þeir réttæta kerfið með því að segja: þetta er það besta sem við höfum samkvæmt núgildandi leikreglum.

Svo geta þeir setið þarna inni á þinginu og úthlutað sjálfum sér hluta af almannafé til að stunda  kosningaáróður! LÝÐRÆÐI HVAÐ?  

Til að smjaðra fyrir kjósendum þá gefa sumir ádrátt um það að persónukjör sé eitthvað sem ætti að stefna að í framtíðinni - en hvenær ætlum við að læra að gera greinamun á glassúrssmurðum kosningaloforðum og þeim raunveruleika sem er praktíseraður eftir kosningar?

Nú ætla þeir að hafa stjórnlagaþingið af okkur. Þeir æmta yfir því hvað það kostar og það svíður kjósendum sem blæða - ekki satt?

Við höfum engin efni á því að hætta við stjórnlagaþing. Það er hægt að hafa annað fyrirkomulag á því en stjórnmálamenn hafa kynnt fyrir þjóðinni. Þjóðin á sjálf að fá að skrifa sína stjórnarskrá - hvað sem það kann að kosta. Það er fjárfesting til framtíðar fyrir þessa þjóð.

Nú auglýsi ég eftir 17.000 atvinnulausum sem gætu lagt orð í belg. 17 þúsund manns sem mig langar til að heyra í. Hvar eruð þið? Þið eruð á kjörskrá og það munar um atkvæði ykkar. Hvað viljið þið gera?

Þjóðin hefur tjáð tilfinningar sínar. Hún hrópar á breytingar. Hún hrópar á heiðarlegt uppgjör við fortíðina. Hún hrópar á réttæti, sannleika, trúverðugleika og traust milli manna.

Ég treysti ekki stjórnmálamönnum sem sitja á þingi núna fyrir því verkefni að rannsaka sjálfir sinn þátt og sína ábyrgð í hruninu mikla undanfarna mánuði.  

Þegar hlutlausir aðilar fara að rannsaka málin þá mun rannsóknin óhjákvæmilega beinast að þeim sem tengjast stjórnmálamönnunum sjálfum með einum eða öðrum hætti. Það liggur í hlutarins eðli að þá verður eins líklegt að rannsókninni verði hætt af einhverjum ástæðum eða verði látin fjara út smám saman uns fólkið verður orðið svo dofið og búið að fá svo mikið upp í kok að því verður farið að standa hjartanlega á sama.

Þ.e.a.s. það fólk sem verður þá eftir hér á landi.

Þjóðin hefur verið rænd og það er ekki í boði að setja hér yfir okkur þá sem höfðu ekki döngun í sér til að stoppa ræningjana eða koma yfir þá böndum.

Það er ekki í boði að hafa af okkur tækifærið til að koma hér á raunverulegum lýðræðisumbótum og stofna hér nýtt lýðveldi sem byggir á samfélagslegum gildum.

Hvar eruð þið?

Þið sem hafið tjáð tilfinningar ykkar svo um munar - þið sem hafið hrópað - ekki láta þagga niður í ykkur þegar við þurfum svo nauðsynlega að heyra í ykkur.

Hvar eruð þið?

Ykkar einlægur

 

Valgeir Skagfjörð, borgari

 

Svo legg ég til að verðtrygging verði afnumin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Ég er hér, og fer ekki fet...

Rekstur Alþingis kostar 2 milljarða á ári - og jafnvel þó stjórnlagaþing myndi kosta jafnmikið (sem er allsekki víst) Þá er það klárt að þar yrði þjóðinni gert meira gagn ef Alþingi hefur gert á heilum áratug...

Ég blæs því á allann áróður um kostnað og vísa slíku aftur heim til föðurhúsanna

Ef við fáum ekki stjórnlagaþing, þýðar það ekkert annað en endurupptöku og endurtekningu 20-21 janúar. 

Lifi byltingin

Aðalheiður Ámundadóttir, 18.3.2009 kl. 11:32

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir þennan frábæra pistil. Ég spyr mig líka hvort hópurinn sem er ekki sáttur við núverandi ástand telji virkilega ekki hærra en upp í 50 en það var hópurinn sem mætti á Austurvöll sl. laugardag.

Það er mikilvægt að við sem þjóð höldum vöku okkar og látum kröfur okkar um lýðræðislegar umbætur hljóma áfram. Það hefur nefnilega sáralítið ef nokkuð breyst í raun og það mun allt renna aftur í sama farið ef við styðjum ekki áfram við kröfuna um umbætur í réttlætisátt.

Við þurfum að tryggja það að hér muni ríkja lýðræði í framtíðinni. Eins og komið hefur í ljós þá búum við ekki við slíkt nú. Því verður að breyta og eins og þú bendir á þá eru þeir sem endurnýjuðu umboð sín til að leiða listanna sem sitja nú þegar inni á þingi alls ekki treystandi til þess. Fæstum þeirra a.m.k.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.3.2009 kl. 12:09

3 Smámynd: Magnús Guðjónsson

Flottur pistill hjá þér Valgeir.   Ég er alveg sammála þér um nauðsyn stjórnlagaþingsins og það í sjálfu sér skiptir engu máli hvort það kostar 300 millur eða 2.000  millur ef við fáum nothæfa varanlega stjórnarskrá útúr þessu.  Þessi fáránleiki sjálfstæðsiflokksins um kostnað við stjórnlagaþing er kjánalegur að mínu mati og ég geri ekkert með hann. 

Það sem þessi þjóð hinsvegar þarft fyrst og fremst er VON og TRAUST.  Fólk er því miður vonlítið og það ríkir algert vantraust á allt og alla,  það þurfa allir axlabönd og belti og björgunarvesti osfrv.   Þetta tvennt verður að endurreisa  sem allra allra fyrst. 

Lifðu heill ..

Magnús Guðjónsson, 18.3.2009 kl. 16:24

4 identicon

Ég er hér - atvinnulaus og alles - og mun að sjálfsögðu ekki kjósa fjórflokkana... þannig að þú munt sjá mig Valgeir Skagfjörð eða a.m.k. atkvæði mitt!

Imba sæta (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 20:49

5 identicon

Þörf vakning sem þú hérna setur fram, Valgeir!

Því miður virðist það bara vera þannig að líftíma byltinganna, svona í sögulegu samhengi séð, er frekar skammur.  Misskiljið mig ekki, ég styð heils hugar þá pólitísku vakningu sem hefur átt og er að eiga sér stað. 

Staðreyndin er hins vegar sú, að margir þeirra sem styðja byltingar í upphafi þeirra, verða fljótt ansi þreyttir á því að glamra með pottum og pönnum, sérstaklega þegar nýjabrumið hverfur af og fólk einfaldlega er búið að venjast hávaðanum.  Og er það ekki einmitt vandamálið?  Hingað til hefur byltingin ekki skilað öðru en fullt af hávaða.  Hvað svo?  Eru byltingarsinnar sammála um það?  Er það ekki einmitt gallinn við þessa gerð byltingar, sem á rætur sínar í óánægju fólksins?  Fólk veit hvað það er óánægt með, en hefur enga hugmynd um hvað á að taka við.  Ef Henry Ford hefði á sínum tíma spurt hvað neytendur vildu, hefðu flestir líklega svarað: "Sterkari og fljótari hest", ekki "Automobíl".

Það hefur oft verið sagt að ekkert sé auðveldara en að gagnrýna.  Um leið og gagnrýnandinn svo er spurður hvað á að gera í staðinn, verður oft fátt um svör, eða svörin of mörg og yfirleitt mótsagnir og andstæður.  Það er einmitt þessa vegna sem það er svona bráðnauðsynlegt að stjórnlagaþing komist á laggirnar og það verði hreinlega "hrært og blandað".  Reglurnar samdar upp á nýtt.  Það er einfaldlega eina leiðin til að einhverjar róttækar breytingar eigi sér stað!  Og breytinga er þörf!

(Það er svo annað mál að flokksbundið lýðræði ætti hreinlega að vera óþarft í svo litlu samfélagi sem Ísland er).

Birgir Birgisson (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 07:40

6 Smámynd: Haukur Baukur

Fjórflokkurinn, auðvitað   Var smá stund að tengja við það.  Einn flokkur, fjórar hliðar.

Teldu mig með, kæri vinur!!

Haukur Baukur, 21.3.2009 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband