Ekki lengur í stjórn Borgarahreyfinarinnar

Að að gefnu tilefni og til að fyrirbyggja misskilning þá birti ég hér bréf mitt til stjórnar Borgarahreyfingarinnar sem ég sendi í gærkvöldi frá mér.

Þess misskilnings hefur gætt að ég sé hættur í Borgarahreyfingunni. Það er ekki rétt. Ég hins vegar óskaði eftir því að vera leystur frá störfum í þessari stjórn. Bréfið fylgir hér með.

 Góðar kveðjur.
 

e.s. Svo legg ég auðvitað til að verðtrygging verði afnumin hið allra fyrsta.

 

                                                                        Kópavogi aðfararnótt 14. ágúst 2009 

Sælir kæru félagar.

Af persónulegum ástæðum þá er komið að leiðarlokum hjá mér í þessari stjórn.

Þegar ég hóf störf fyrir Borgarahreyfinguna var það eingöngu fyrir góðan málstað, fagrar hugsjónir og vonir um að reisa nýtt lýðveldi á Íslandi úr öskustó hrunsins.

Ég  öðlaðist trú á að hægt væri að stofna nýtt stjórnálaafl þar sem heiðarleiki, gagnsæi og lýðræði gætu setið í fyrirrúmi og þar sem eini hagsmunahópurinn sem þyrfti að verja væri almenningur í þessu landi.

Við náðum ótrúlegum árangri með samstilltu átaki fólks sem trúði á okkur og uppskárum fjögur þingsæti sem fimm manns hafa nú þegar fengið að verma.  Í dag sitja 4 þingmenn Borgarahreyfingarinnar á þjóðþingi Íslendinga.

Því miður þá eru vonbrigði mín mikil þegar kemur í ljós að þeir sem áttu að berjast fyrir því að koma stefnumálum og hugsjónum Borgarahreyfingarinnar í farveg á þinginu eru mun uppteknari af sjálfum sér en því að vinna að framgangi hreyfingarinnar sem heildar.

Hin ólýðræðislegu vinnubrögð hinna flokkanna hafa verið gagnrýnd harðlega en svo kemur í ljós að hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar Borgarahreyfingarinnar með sínar lýðræðisumbætur að leiðarljósi vilja ekkert af lýðræðinu vita þegar kemur að því að praktísera það í eigin flokki.

Allt í einu sé ég óheiðarleika, óheilindi, samskiptaörðugleika, baktal, slúður, ófrægingarherferð, skítkast og allt það vonda sem við vildum ekki gera en erum samt að gera,  en það góða sem við boðuðum fyrir kosningar á ekki upp á pallborðið núna.

,,Maður kemur ekki í manns stað - það höfum við þegar reynt" segja þingmenn í bréfi til stjórnar. Ég veit vel að ég heiti Valgeir Skagfjörð en ekki Þór Saari og þess vegna gat ég ekki orðið hann  þegar ég sat þarna inni í tvær vikur.

Ég starfaði þó af fullum heilindum í anda stefnuskrár Borgarahreyfingarinnar og tók þátt í öllum þeim nefndarstörfum sem krafist var af mér og tróð mér upp í pontu til að tjá skoðanir mínar sem samrýmdust fullkomlega því sem Borgarahreyfingin hugðist standa fyrir.

Það er sárt að yfirgefa þetta barn sem virðist andvana fætt en því miður virðist mér hreyfingin komin niður á slíkt plan að áhugi minn á að starfa frekar með henni hefur dofnað svo að mig langar ekki að vera þátttakandi.

Ég óska eftir því að vera leystur frá þessari stjórn.

Ég er með erindisbréf frá Landskjörstjórn um að ég sé varaþingmaður SV kjördæmis og ég mun að sjálfsögðu rækja þær skyldur sem því fylgir. Ekki svo að Þór Saari muni  óður og uppvægur leita eftir því að ég leysi hann af, en ef nauðsyn bæri til þá mundi ég að sjálfsögðu taka þingsæti eins og lög gera ráð fyrir.

Gott ef satt er að þessir einstaklingar sem kallast þingmenn skuli vera svona mikil guðsgjöf til Borgarahreyfingarinnar og þjóðarinnar.


Má vera að ég endurskoði afstöðu mína síðar ef sáttanefnd tekst að lægja öldurnar en á meðan allir virðast nærast á neikvæðum tilfinningum og hugsunum þá vil ég ekki taka þátt.

Gangi ykkur allt í haginn.

Ykkar félagi og samherji.

Valgeir Skagfjörð


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Gott bréf Valgeir og ég er sammála hverju orði. 

Jón Kristófer Arnarson, 14.8.2009 kl. 21:00

2 identicon

Eins og talað út úr mínum munni. 

Ágústa Sigrún (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 21:01

3 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll félagi,

ég hreifst mjög af þér í kosningabaráttunni og því sem þú hafðir þar til málanna að leggja og ég hugleiddi alvarlega að skipta um lið vegna þinna orða. Sá maður sem var fremri þér í sæti var mér hins vegar ekki að skapi og því sá ég mér ekki fært að skipta um lið.

Bréf þitt hér að ofan ber þess greinileg merki að þú heldur uppteknum hætti, ert samkvæmur sjálfum þér og trúr sannfæringu þinni. Slíka menn kann ég vel að meta, sama hvar í flokki þeir eru.

Óska ég þér velfarnaðar hvar sem spor þín kunna að liggja.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 14.8.2009 kl. 21:15

4 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Leitt hvernig þetta fór allt saman eins og startið var nú grand. Vona að þú finnir þér góðan stað í pólitíkinni Valgeir og haldir áfram í stjórnmálum þótt ekki verði það innan Borgarahreyfingarinnar.

Kolbrún Baldursdóttir, 14.8.2009 kl. 21:16

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er ekki í BH en fylgdist með þér þegar þú varst inni fyrir ÞS.

Ég vona innilega að þú fáir tækifæri til að koma aftur.

Þú stóðst þig vel svo eftir var tekið.

Jenný Anna Baldursdóttir, 14.8.2009 kl. 22:34

6 Smámynd: Billi bilaði

Ræða sú er þú hélst á alþingi, og ég las var afar góð. Takk fyrir það.

Billi bilaði, 15.8.2009 kl. 02:49

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

þróunin undanfarna daga er sorgleg, það er gott að þú ert ekki hættur í BH...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.8.2009 kl. 02:50

8 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Mannlegt eðli í hnokskurn. við erum öll breisk og í þessu tilfelli er sagan að endurtaka sig. Byltingin át börnin sín og legg ég til að það verði gerð félagsleg rannsókn á því hvernig vald hefur á fólk..

Mér finnst ómaklega ráðist að þráni bertelssyni og finnst hann eiga afsökunarbeðini skilið fyrir þau "ómaklegu kærleiksorð" sem hann hefur setið undir.  

Brynjar Jóhannsson, 15.8.2009 kl. 08:55

9 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Ég er sammála BJ um að byltingin étur börnin sín og sorglegt að það virðist vera útséð með að nokkurn tímann komi raunhæfur kostur á móti fjórflokkunum. Það virðist bara ekki gerast. Ég sé ekki gerast að Þráinn verði beðinn afsökunar enda væri auðveldara að biðja einhvern afsökunar sem gæti gefið eina slíka sjálfur.

Guðmundur St Ragnarsson, 15.8.2009 kl. 13:52

10 identicon

Kæri vinur. Allt þetta BH mál var í upphafi ákaflega falleg hugmyndafræði. Því miður reyndist ég sannspár um afdrif þessarar hugmyndafræði. Stjórnmál eru atvinnugrein. Rétt eins og hver önnur atvinna. Stefna og lög eru til að vinna eftir, vinnuaðferð til að hópur fólks getur unnið saman í sátt og náð árangri. Anarkismi er hugmyndafræði sem hvergi getur funkerað og allra síst í stjórnmálum.

Ástandið í BH er sorglegt en því miður fyrirsjánlegt. Haltu áfram í stjórnmálum, en komdu bara aftur heim í Samfylkinguna.

Þinn vinur í Finnlandi

Stefán Sturla (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 21:02

11 identicon

Kæri Valgeir.

Heiðarlegt og gott að þú óskir þess að vera leystur frá störfum í stjórn BH... vona samt að þú haldir áfram í stjórnmálum!!! við meigum ekki við því að missa heiðarlegt og gott fólk úr stjórnmálunum... Þetta allt með Þráinn Bert....fór með  Borarahreyfinguna  og fynnst mér ..  ásamt fjölmörgum öðrum að Margrét 

eigi að víkja hið fyrsta...!

Gangi þér sem allra best...:)

Anna Jóna Víðisdóttir (IP-tala skráð) 18.8.2009 kl. 04:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband