27.6.2009 | 12:01
Þingmaður í eina viku
Nú hef ég verið þingmaður í eina viku og verð þingmaður út næstu viku. Það er skemmst frá því að segja að höfuðið er orðið yfirfullt af upplýsingum og vinnsluminnið á harða snúningi við að skrá allt það sem fram fer umhverfis. Engin smá mál. Bandormurinn og Icesave. Borgarahreyfingin flutti líka sitt fyrsta frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur og var það sannarlega ánægjulegt að geta flutt jómfrúarræðuna í því augnamiði að tala fyrir því ágæta frumvarpi.
Ég á bágt með að ímynda mér að Steingrímur J. eigi sjö dagana sæla um þessar mundir. Enda lítur helst út fyrir að hann sofi lítið og borði þeim mun minna. Það kann ekki góðri lukku að stýra því eins og allir vita þá geta svefnleysi og næringarskortur haft alvarleg áhrif á dómgreind manna.
Ekki þar fyrir að frúnni í hvíta jakkanum sé eitthvað rórra jafnvel þótt henni hafi tekist að fá frammámenn þjóðarinnar að samningaborðinu til að undirrita sáttmála um að taka það rólega á meðan reynt er að finna lausnir við íslenska vandanum.
Íslenski vandinn á líklega eftir að verða kennsluefni í hagfæði, stjórnsýslufræðum og stjórnamálafræðum í háskólum í framtíðinni. The Icelandic Trauma.
Það er alveg magnað að hugsa til þess sem hefur gerst og þess sem gerðist og þess sem við vitum að á eftir að gerast nema við finnum einhverja nýja lausn á íslenska vandanum.
Það er grátlegt til þess að hugsa þegar maður skannar lauslega yfir það í huganum hvað hefur áunnist síðan hafist var handa um að hreinsa til eftir hrunið.
Í gær var samþykkt frumvarp ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum sem gengur í aðalatriðum út á það að hækka skatta og álögur á fólk og fyrirtæki. Næsta mál verður líklega að samþykkja Icesave samninginn sem Íslendingar munu ekki geta staðið við. Það er búið að negla okkur upp að vegg og í fljótu bragði engin útgönguleið sjáanleg.
Sjávarútvegurinn skuldsettur upp í topp og stærstu orkufyrirtækin að komast í þrot vegna erlendra skulda. Skuldir íslensks almenning vegna húsnæðiskaupa og annarra fjárfestinga koma svo ofan á allt þetta. Allar þessar skuldir eru síðan annað hvort verðtryggðar eða gjaldeyristryggðar svo það ætti að vera lýðum ljóst að dýpra verður vart sokkið. Skuldafenið umlykur okkur og við troðum marvaðann.
Hér erum við að horfa upp á landið okkar í sporum sjúklings sem liggur slasaður á skurðstofu með alvarlega áverka á öllum líkamanum en læknarnir (í þessu tilfelli þeir sem eiga að stjórna landinu) standa hringinn i kringum skurðarborðið og deila um það hvaða tvinna væri best að nota til að sauma saman sárin sem blæða.
Ég veit að þetta hljómar alls ekki vel og þessi úttekt er afar bölsýn í sjálfri sér en mér er spurn hvort ekki sé tími til kominn að við viðurkennum vanmátt okkar og horfumst í augu við það að við erum að verða gjaldþrota og gerum ráðastafanir í samræmi við það.
Það er ekki öll nótt úti. Við eigum landið okkar ennþá og það er ríkt af auðlindum. Þær eru ekki að fara neitt (vona ég) svo við ættum að geta byggt okkur upp innan frá.
Við getum verið sjálfbær, framleitt mat, grænmeti, tæki og tól til iðnaðar, við eigum orku og vatn og ef að fiskurinn í sjónum flýr ekki undan ströndinni þá getum við blessunarlega haldið áfram fiskveiðum. Þess utan búum við yfir mikilli þekkingu og hingað er hægt að moka túristum í tonnavís.
Margar hugmyndir eru á sveimi og margar hafa þegar komið til framkvæmda. Ég nefni bara sem dæmi detoxið hennar Jónínu Ben sem annar vart eftirspurn. Til hennar leitar fólk sem þjáist af vestrænum menningar og neyslusjúkdómum sem hægt er að vinna bót á í heilnæmu umhverfi í umsjá færustu sérfræðinga.
Eins nefni ég hugmyndina um að nýta vel tækjum búnar skurðstofur þar sem hægt væri að bjóða upp á aðgerðir hjá færustu læknum.
Nú er tími fyrir óvenjulegar lausnir á óvenjulegum tímum. Úti í Evrópu eru Íslendingar að horfa heim og sjá möguleika Íslands í að markaðssetja sérstaka menningu okkar.
Álfar, huldufólk, tröll og forynjur og ýmsir stórhuga menn hafa verið að vinna með gríðarlegar hugmyndir um Goðheima. Svo auðvitað allt hitt, víkingasetur, landnámssetur, draugasetur o.s.frv. Allar þessar hugmyndir eiga rætur að rekja til þess að fólk fær hugmyndir.
Eyjan Havaí hefur t.a.m. megnið af tekjum sínum af því að sýna ferðamönnum eldfjöll. Á Íslandi er nóg af eldfjöllum og útlendingar eru mjög áhugasamir um slík náttúrufyrirbrigði.
Það hringdi í mig maður um daginn sem hafði frétt af því að ég væri kominn á þing. Hann spurði mig einfaldlega þessarar spurningar: ,,Er ekki fleira verðmæti en peningar? Þurfa alltaf einhverjir peningaverkfræðingar að koma með lausnirnar handa okkur? Þeir eru ekki að skapa neitt, þeir eru ekki að framleiða neitt. Er ekki vatnið okkar miklu dýrmætara en peningar? Þurfa ekki Bretar og Hollendingar að drekka vatn? Hvað er með allt þetta ál sem við erum að framleiða? Hér renna tærar bergvatnsár til sjávar í þúsundum rúmmetra á degi hverjum. Getum við ekki búið til vatnstanka úr þessu áli sem við erum að búa til fyllt þá af vatni og siglt með það þangað sem þörfin er mest fyrir það? Svo geta menn tekið þessa tanka og brætt þá aftur og gert eitthvað annað úr þeim ...." og svona hélt þessi ágæti maður að ryðja út úr sér hugmyndunum sem hann vildi koma á framfæri.
Hvað með að skoða svona hugmyndir? Núna vantar okkur nýjar hugmyndir, nýjar lausnir. Þær hagfræðilegu lausnir sem hingað til hefur verið gripið til hafa ekki virkað. Hér þarf innspýtingu og hér þarf að skapa og framleiða.
Við þurfum kjark til að segja bless við AGS og kjark til að segja nei við Icesave og biðja Breta og Hollendinga um að setjast aftur að samningaborðinu.
Við þurfum að ræða við þá hjá EB og kynna okkar málstað. Síðan þurfum við að skipta um gjaldmiðil og fara svo að framleiða og skapa. Tökum stefnuna á sjálfbært Ísland.
Hvað varðar gjaldmiðilsskipti þá nefni ég hugmynd sem enginn hefur þorað að nefna.
Gætum við tekið upp sænska krónu og orðið síðan Svíum samferða inn í evruna þegar þeir taka hana upp hjá sér?
Ég er að hugsa um að spyrja Svíana.
Lifið heil.
Valgeir Skagfjörð
e.s. Í Svíþjóð er ekki verðtrygging svo þetta gæti líka verið leið til að losna við verðtrygginguna sem er nauðsynlegt fyrir okkur.
Sem dæmi um áhrif verðtryggingar þá er ég með verðtryggt íbúðalán hjá banka eins og margir aðrir Íslendingar. Frá áramótum er ég búinn að greiða samviskusamlega af láninu síðan um áramót um það bil sjöhundruðþúsund krónur en höfuðstóll lánsins hefur hækkað um fjórar milljónir.
Það sér það hver heilvita maður að þetta er ekkert annað en rugl!
Verðtrygginguna burt!
Athugasemdir
Þú hlýtur að vera með myntkörfulán útrásarinnar.
Mín lífeyrissjóðslán og húsnæðislán hafa lækkað frá áramótum og borga ég samt 90 þúsund á mánuði en þau eru nú bara í íslenskum krónum.
Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 12:50
Svíar gætu verið á leiðinni á hausinn, strax í haust.
Doddi D (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 13:45
Ég þekki vel uppbyggingu sprotafyrirtækja og að laða erlenda fjárfestingu inn í nýsköpunarverkefni. Ég get sagt þér að það er erfitt núna en verður að mínu mati óvinnandi vegur ef við hættum samstarfi við AGS og stöndum ekki við EES skuldbindingar okkar um innistæðutryggingar. Þeir sem telja að það sé hægt að reka blómlegt atvinnulíf á landinu undir þeim kringumstæðum hljóta að hafa takmarkaðan skilning á atvinnurekstri. Lifa kannski og hrærast í öðrum brönsum, t.d. leikhúsum. Og halda e.t.v. að peningar spretti sjálfkrafa frá ríkinu og/eða vaxi á trjánum, og kannski líka að fyrirtæki verði til með einhverjum "hugmyndum" manna úti í bæ sem þurfi að ræða á Alþingi, og reka á opinberum fjárveitingum - eins og leikhús?
Á meðan, á jörðu niðri, eru einhverjir aðrir að gera sitt besta til að byggja upp alvöru atvinnulíf, í þeirri von að mestu vitleysingarnir á Alþingi sprengi það ekki í loft upp.
P.S. Þú sórst eið að stjórnarskrá lýðveldisins þegar þú tókst sæti á Alþingi. Afturvirkt einhliða afnám samningsbundinnar verðtryggingar fjárskuldbindinga fer í bága við eignarréttarákvæði þessarar sömu stjórnarskrár, auk þess sem lög geta ekki verið afturvirk skv. sömu stjórnarskrá. Þú verður því að útskýra betur hvað þú átt við með "verðtrygginguna burt!" En ein (framvirk) leið til þess er að stefna að upptöku evru.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 27.6.2009 kl. 14:49
Nú þegar er að blómgast alls konar starfssemi í kreppuni sem átti undir högg að sækja áður en hún skall á og það án þess að nokkuð sérstakt hafi verið að gert. Það er auðvitað fullt af tækifærum í mörgum atvinnugreinum og ég hef ekki trú að að eitthvað sé óvinnandi vegur þótt AGS sé ekki inni í myndinni. Hvað varðar EES og EB þá skulum við bara sjá hvað setur þegar öll gögn Icesavemálsins koma upp á borðið. Ég verð að viðurkenna það að ég vissi ekki að afnám verðtryggingar bryta í bága við stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Ég má þá lílega ekki segja verðtryggingua burt inni á þingi en ég er frjáls maður í frjálsu landi þegar ég blogga hér heima og nú vandast málið að greina á milli þingmannsins og borgarans.
Þeim mun meiri ástæða til að hraða stjórnlagaþingi og gefa þjóðinni tækifæri til að skrifa nýja stjórnarskrá.
Jón Óskarsson hlýtur að vera á góðum díl því hvað sem mínum lánum líður þá hækka þau - sama hvað ég borga. Í íslenskum krónum. Ég þarf greinilega að hringja í bankann.
Góðar stundir.
Valgeir Skagfjörð, 27.6.2009 kl. 15:05
Velkominn á þing Valgeir.
Eg er fegin að Borgarahreyfingin heur tekið afstöðu gegn Icesave samningnum því það er ósiðlegt að skrifa undir samning og vita um leið að það eru sáralitlar líkur á að hægt sé að standa við hann. Það myndi maður ekki gera prívat og það á ekki að gera í nafni þjóðar.
Ég heyrði í morgun Tryggva Herberts segja að Alþingi ætti að setja inn í samninginn hámark á ábyrgð ríkisins og það er strax betra. Ég vil að við finnum dómstól til að taka þetta mál upp og tel að það sé nauðsynlegt að fá dómsniðurstöðu um hvar ábyrgð aðila liggur.
Ég neita því að íslenskur almenningur sé ábyrgur.
Þið eruð dugleg að benda ríkisstjórninni á að hennar vinnubrögð eru strax farin að líkjast um of vinnubrögðum fyrri rikisstjórna þrátt fyrir loforð um annað. Nú verður að hlusta á alla og skoða allar tillögur, jafnvel þó þær komi frá "óvininum". Margir þingmenn úr öllum flokkum tala af skynsemi , áhuga og ábyrgð en þeir eru samt alltof margir sem enn eru í skotgröfum og skemmta sér við hártoganir og að slíta orð annarra úr samhengi, eða tyggja sömu tuggurnar upp aftur og aftur.
Við munum bjarga okkur út úr þessu ástandi ekki vegna snilli stjórnmálamanna, heldur vegna þess að við erum þjóð sem nennir að vinna. Þess vegna er svo mikilvægt að stjórnvöld vinni með þjóðinni en ekki gegn henni.
Hrönn (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 15:44
Þú ætlar sem sagt að berjast fyrir því að samþykkt verði ný stjórnarskrá þar sem eignarréttarákvæðið verði afnumið eða veikt? Og þar sem lög geta verið afturvirk?
Mæli með því að leitað verði til Kim Jong-Il, Hugo Chavez og Roberts Mugabe varðandi ráðgjöf, þeir ættu að geta gefið þingflokki Borgarahreyfingarinnar góð ráð um þetta. Því miður er Erich Honecker ekki lengur meðal vor, né Jósef Djúgasvíli (Stalín), þeir þekktu uppbyggingu svona ríkja eins og þig langar í mjög vel.
Hvernig væri annars að þingflokkurinn fengi einhvern traustan sérfræðing í grundvallaratriðum réttarríkisins og lexíum sögunnar á því sviði, til að halda eins og eitt kvöldnámskeið? Þar mætti t.d. ræða af hverju ekki er sniðugt að framkvæmdavaldið geti krukkað í ráðningu eða brottrekstri saksóknara að geðþótta. Það grundvallaratriði hefur eitthvað skolast til hjá ykkar ágæta flokki.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 27.6.2009 kl. 15:48
Ég hitti hér um daginn tvo svía sem voru á ferðalagi um landið. Þetta voru feðgar, ca. 40 og 70 ára gamlir. Sá eldri sem var bóndi, bað mig um að berjast með öllum mætti gegn ESB þar sem sambandið fari að öllum líkindum á hausinn eftir 2 ár og Alþjóðabankinn sömuleiðis.
Ég horfði á bóndann og sá hvað honum var mikið niðri fyrir. Hann sagði að eftir að svíar fóru inn í ESB hafi landbúnaðurinn hrunið, svíar fengju að öllu jöfnu aldrei að ákveða neitt heldur væru roðnr eins og afgreiðslumiðstöð fyrir kóngana í Brussel sem að segðu þeim fyrir verkum.
Þú stendur þig vel á Alþingi, Valgeir!
Þá sagði hann að lokum við mig," þeir vilja orkuna ykkar, landbúnaðinn, fiskinn, olíusvæðið á Drekasvæðinu og þið hafið tvo möguleika. Annar er sá að taka skellinn og byggja upp þjóðina ykkar sjálf, skila henni síðan í góðu lagi til afkomenda ykkar. Hinn kosturinn er að gefa eftir AGS og ESB. Skila afkomendum ykkar og landinu öllu í höndum Alþjóðaauðvaldsins sem munu láta gera afkomendur ykkar að þrælum sínum."
Ég gleymi seint þessum sænska bónda og heillaráðum hans.
Sigurlaug (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 16:26
Kæri Vilhjálmur - nú ert þú að gera mér upp skoðanir og leggja mér orð í munn. Þótt ég vilji breyta stjórnarskránni þá er ekki þar með sagt að ég styðji gerræðisvald eins og þú nefnir í þinni athugasemd. Heldur er það þvert á móti í stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar að aðskilja með miklu meira afgerandi hætti framkvæmdavaldið, dómsvaldið og löggjafavaldið.
Við munum sækja þá sérfræðinga sem við þurfum til að upplýsa okkur um það sem þekking okkar nær ekki til og við höfum verið óhrædd við að leita okkur aðstoðar í mikilvægum málum. Skárra væri það að nú að við teldum okkur vita alla skapaða hluti eins og sumir.
Dóttir mín var átta ára gömul þegar hún sagði: ,,Pabbi mig langar ekki að vita allt í heiminum því gæti ég ekki lært neitt nýtt." Hún var átta ára. Taktu eftir því ungi maður. Það er engin goðgá þótt stjórnmálamenn eða alþingismenn eða aðrir hafi vit á öllu milli himins og jarðar. Þegar upp kemur sú staða að mann skortir þekkingu til að geta tekið upplýsa ákvörðun eða til að móta sér upplýsta skoðun þá leitar maður álits annarra sem þá þekkingu hafa.
Ég leitast við að hafa dómgreind sjálfs mín að leiðbeinanda en þegar hún bregst mér þá fá ég lánað dómgreind hjá einhverjum sem ég treysti og það hefur reynst mér vel í lífinu til þessa.
Samfylkingarfólk ætti að þroska með sér gagnrýna hugsun en ekki láta leiðtoga teyma sig út á brothættan ís hversu góður sem sá leiðtogi kann annars að vera.
Að síðustu: Það hafa engin grundvallaratriði skolast til í okkar ágætu hreyfingu við höfum skýr markmið að stefna að og þau ganga út á það eitt að bæta samfélagið, kalla á réttlæti og lýðræði og standa vörð um fullveldi þjóðarinnar.
Valgeir Skagfjörð, 27.6.2009 kl. 17:09
Leiðrétti innsláttarvillu sem gæti annars misskilist. í fjórðu málsgrein neðan frá en þar á að standa:
,,Það er engin goðgá þótt sjórnmálamenn, alþingismenn eða aðrir hafi ekki vit á ölli milli himins og jarðar."
Valgeir Skagfjörð, 27.6.2009 kl. 17:12
'Eg vissi nú ekki að verðtryggingin væri bundin í stjórnarskrá og flokkaðist undir eignarétt, ef marka má þessi orð Vilhjálms. Kannski er ég að misskilja þetta eitthvað.
Aftur á móti blæs ég á að eignaréttinn og gildi hans í dag. Eins og staðan er, þá hefur og er gróflega verið að brjóta á eignarétti mínum með því að láta á mig taka skuldir þeirra manns sem Vilhjálmur þjónar: Björgúlf Thors, í gegnum IceSave án þess að þeir beri nokkra ábyrgð né þurfi að láta eigur af hendi. Hvað þá þegar Exista gat hirt af mér hlutabréf í Símanum þrátt fyri að ég ætti þau. Nei, þá var eignarétturinn ekki heilagur.
Hversvegna er þeirra eignaréttur mun heilagri en minn? Hversvegna er alltaf eignaréttur og mannréttindi skyndilega eitthvað heilagt þegar kemur að auðmönnum, fyrirtækja-eigendum og þeim sem rústuðu þessu landi?
Eitt er víst, ef IceSave-samningur verður samþykktur(og ég tel að samningsleiðin sé líklegast það sem við endum með), þá verður að taka silkihanskana af, meðhöndla hvern og einn einasta af Björgúlfsfeðgum, stjórnendum Landsbankans og stjórn sem að um efnahagslega Adolf Eichmanns væri að ræða, og ná öllu sem hægt er af þeim, með eignanámi og öllum öðrum tiltækum ráðum.
AK-72, 27.6.2009 kl. 17:33
Frábær pistil hjá þér:o)
Maríanna (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 18:09
Margt gott sem þú segir um möguleika uppbyggingar en ráðlegg þér að varast sænsk stjórnvöld ef þau ætla að ráðleggja Íslandi núna. Hef sagt það áður og segi það enn að þeim getum við ekki treyst núna.
þú getur betur treyst finnskum stjórnvöldum.
Evrópa rambar á barmi gjaldþrots. Allir sem horfa á evrópustöðvar sjónvarps ættu að gera sér grein fyrir því.
Betra að horfast í augu við staðreyndir straks en að færast sofandi að feigðarósi aftur.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 27.6.2009 kl. 20:04
Væri ekki ret að taka þesa menn sem eru bunir að stela ölum okkar peningum
með obeinu samþigi stjornvalda se ju setu þeim reglurnar og gafu þeim obeint
leifi ti að sukka með islenskt manorð og hlaupast nu a brot þegar þeir geta ekki
stolið meiru stjornvöld ætu að skamast til að gera eitkvað i malinu og jafnvel
dæma ta firir landrað ju teta er ekert anað nija rikistjornin lofar öllu fögru firir
heimilin og firirtækin i landinu og aðgerðar aætlun sem a að kvað hjalpa okkur
a hausin nuna strax með skata hækunum og verð hækunum teta er sama og
að þeir hefðu bara skrifaðupa sem abirgðarmenn a lani sem aldrei var ætlunin að borga bara na sem mestu utur tesu kerfi sem var steinsofandi að sjalfsögðu þeir voru a svo goðum launum grein
sigurmar gislason (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 20:35
Þú fyrirgefur, Valgeir, en manni getur orðið heitt í hamsi þegar talað er fullkomlega ábyrgðarlaust um að loka aðgangi landsins að lánsfé og fjárfestingum, eyðileggja trúverðugleika okkar með því að hætta samstarfi við AGS, halda að hægt sé að taka til baka skilmála fjárskuldbindinga með afturvirkri lagasetningu og bótalaust, og virðast ekki skilja ýmsar grundvallarforsendur réttarríkisins - til dæmis um aðskilnað valdþáttanna. Lýðskrumið og óupplýst óraunsæið veður því miður uppi þessa dagana og nær líka inn á Alþingi, illu heilli. Þannig að ég gat ekki orða bundist við þessa færslu þína.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 27.6.2009 kl. 20:38
Til glöggvunar, þá er hér upphaf 72. gr. stjórnarskrárinnar:
72. gr. Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Sömu réttindi eru tryggð í Mannréttindasáttmála Evrópu.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 27.6.2009 kl. 22:02
Til hamingju með þingmennskuna, en hvernig væri að koma með frumvarp til þess að tryggja að hækkanir á áfengis, tóbaks, og bensíngjaldi komi ekki til með að hækka lánin okkar. Að breyta vísitölugrunninum? Er það ekki nauðsynlegt? Ef áfengis og tóbaksgjöldin eiga að hækka um 40-50 % þarf að losna við það út úr vísitölugrunninum. Svo verður náttúrulega að losa okkur við verðtryggðu lánin. Ein vongóð.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.6.2009 kl. 01:54
Góð grein hjá þér og ég óska þér alls hins best á þingi. Löngu kominn tími á "alvöruþingmenn" og Borgarahreyfinguna líka.
Ég tek undir með 5 aflinu, hvers vegna er Vilhjálmur Þ. svona óskaplega "geðillur", ég er ekki viss um að myndin af honum sem textanum fylgir sé í takt við útlit hans þegar hann ritar textann. Mér finnst hann nú annars kóróna "bullið" í sér, þessi "bráðgáfaði" strákur, að ég held, þegar hann bendir Borgarahreyfingunni á mögulega ráðgjafa, getur verið að hann hafi sótt á "svipaðar slóðir" eftir ráðgjöf ? Hann hlýtur að tala út frá eigin reynslu.
Kannski "strákurinn" óttist að Valgeir takir af honum "loftbólukrónuhagnað" sem flestir kalla víst því "flotta nafni" verðtryggingu. Það er víst nægilegt að kaffið í Brasilíu hækki svo "loftbólukrónunum" fjölgi á bankabókum þeirra sem þær eiga og voru með einu pennastriki "ríkistryggðar" langt um fram þær 3 milljónir sem "lög sögðu til um að ætti að vera" og margir lögfræðingar draga í efa að standist lög. Var Vilhjálmur kannski einn af þeim "heppnu" þar ? Óttast hann kannski að nú ætli Valgeir að afnema verðtryggðu bankabókina úr kerfinu og greiða honum "aðeins" venjulega vexti, líkt og gerist í siðuðum þjóðfélögum ? Hvers konar "verðmætasköpun" er það eiginlega á Íslandi þegar krónunum í bankabókinni fjölgar við það eitt að kaffibændur í Brasilíu fá hærra verð fyrir kaffið, er nokkuð meiri verðmætasköpun á bak við það en "loftbóluævintýri" fyrrum útrásarvíkinga. Á sama tíma er þessi "blessaða" verðtrygging að gera útaf við fjölskyldur sem voru svo "kjánalegar" að halda að þær ættu möguleika á að byggja þak yfir höfuð sér, svona eins og gerist hjá flestum siðuðum þjóðum. Aðstæður í þjóðfélaginu eru fjarri því að teljast eðlilegar og eitt af því sem nauðsynlega þarf að framkvæma er að afnema verðtryggingu strax, mér er nokkuð sama um ábendingar V.Þ. varðandi lagabókstafinn. Það má segja, varðandi verðtryggingu, að þar verður að breyta lögunum strax og ef það ekki dugir, þá verður nauðsyn að brjóta lög.
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 28.6.2009 kl. 03:11
Gangi þér vel. Vil nota tækifærið og minna þig á borgarafundinn á mánudaginn um Icsavedeiluna. Verð fjarri góðu gamni því ég verð í verðtryggingarlausa landinu Svíþjóð. Treysti á þig og vonandi nógu marga góða þingmenn til að gera mig og börnin mín ekki stórskuldug að mér fjarverandi.
Helga Þórðardóttir, 28.6.2009 kl. 03:16
Sæll Valgeir
Þú talar um sjálfbæra framleiðslu. Liggur ekki svarið við því hjá stjórnvöldum í gegnum t.d. Landsvirkjun? Með breytingu á gjaldskrá landsvirkjunar þar sem matvælaframleiðsla ásamt annarri orkufrekri framleiðslu fengi raforkuverð eitthvað í áttina að því sem að álverin eru að fá mundi einkaframtakið sjá um restina. Þetta mundi einnig auðvitað skapa störf.
Guðný Ragna Jónsdóttir (IP-tala skráð) 28.6.2009 kl. 09:46
Ég hef bent á það áður að nauðsynlegt er að upplýsa þjóðina um það á hvaða verði raforkan er seld til erlendra stórfyrirtækja og mikilvægi þess að íslenskir framleiðendur sitji við sama borð hvað það varðar.
Það væri fróðlegt að láta gera útreikninga á því hvað það kostar okkur að lækka raforkuverð til bænda og annarra framleiðenda á móti því hvað fæst þegar upp er staðið. Bæði fjölgun starfa, aukin framleiðsla og þar af leiðandi meiri skatttekjur fyrir ríkissjóð fyrir nú utan alla aðra möguleika á orkusölu til þeirra sem hyggja á annars konar orkufrekann iðnað annan en álframleiðslu.
Ég hygg að slík leiðrétting mundi virka sem góð innspýting fyrir atvinnulífið.
Ég óttast miðað við núverandi ráðstafanir ríkisstjórnarinnar að þá stækki neðanjarðarhagkerfið til muna og á næstu mánuðum eigum við eftir að sjá mörg smærri fyrirtæki rúlla og fjölda fólks flytja af landi brott. Því miður. Bandormur ríkisstjórnarinnar olli mér töluverðum vonbrigðum.
Valgeir Skagfjörð (IP-tala skráð) 28.6.2009 kl. 13:05
Páll, þú áttar þig kannski ekki á því að stærstu eigendur verðtryggðra eigna eru lífeyrissjóðirnir. Ég vil mjög gjarnan geta hætt verðtryggingu en hún virðist óhjákvæmilegur fylgifiskur krónunnar. Það vilja afar fáir lána krónur til langs tíma nema með verðtryggingu, enda hræða sporin. Lausnin er að stefna í evruna og út úr þeirri óstöðugu hagstjórn sem hér hefur verið allar götur að íslenska krónan var skilin frá þeirri dönsku fyrir 90 árum (og hefur rýrnað niður í 1/2400 af fyrrum systur sinni síðan).
Annars þakka ég fyrir það hvað menn hér álíta mig ungan, myndin er greinilega svona góð. En ég er ekki meiri strákur en svo að ég er á fimmtugsaldri.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.6.2009 kl. 19:10
Vilhjálmur, ég tek undir með þér varðandi Evru og hefði reyndar viljað taka hana upp fyrir mörgum árum og inngöngu í ESB, með þeim fyrirvara að ég verði sáttur við útkomuna úr aðildarviðræðunum. Varðandi lífeyrissjóðina, þá vildi ég gjarnan vita hve mikið af eignum þeirra liggur í "verðtryggðum eignum", varla eru eignir þeirra erlendis verðtryggðar. Tap lífeyrissjóða vegna hlutabréfakaupa er ekki hægt að fyrirgefa. Ég sé fyrir mér einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, þar mætti spara háar upphæðir. Vitanlega færu eftirlaunagreiðslur hvers og eins eftir innborgun þeirra á lífsleiðinni. Ég gæti vel hugsað mér að ávöxtun lífeyrissjóða færi að mestu í gegnum "verðtryggð" ríkisskuldabréf.
Varðandi "strákinn", vertu bara sáttur við að vera ungur í anda og strákslegur.
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 28.6.2009 kl. 22:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.