6.4.2009 | 11:14
Land til sölu
Nú er sannleikurinn smám saman að afhjúpast. Það sem ég var búinn að hafa á tilfinningunni lengi er nú að líta dagsins ljós með áþreifanlegum og grímulausum hætti. Stjórnvöld á Íslandi ásamt fjármálasnillingunum okkar góðu hafa smám saman verið að koma landinu í hendurnar á erlendum stórfyrirtækjum sem hugsa ekki um neitt annað en að komast yfir auðlindir annarra þjóða með óprúttnum hætti.
Það sem við erum að horfa upp á núna er svo skelfilegt að mann langar að annað hvort að skríða undir sæng og gráta af djúpstæðri sorg yfir því hvernig komið er fyrir okkur eða hlaupa upp á næsta hól og hrópa yfir lýðinn: VAKNIÐ! Tröllið er komið! Það guðar á gluggann og segir: ,,pund af holdi! Það var búið að lofa mér pundi af holdi". Það kallar inn veðið. Nú er komið að skuldadögum!
Sefurðu þjóð mín, þegar þú átt að vaka og bjarga barni þínu. (Jóhannes úr Kötlum)
Nú verður að reka taglhnýtinga auðvaldsins út í ystu myrkur. Þeir mega ekki undir neinum kringumstæðum eignast landið. Ennþá eigum við það í sameiningu og ef við förum ekki að vakna til lífsins þá er ekki víst að við verðum lengur sjálfstæð þjóð. Heldur þjóð í ánauð stórfyrirtækja sem nýta sér orkuauðlindir okkar í sína þágu og halda okkur almúganum í fátækt og örbirgð.
Þetta er ekki handrit að bíómynd heldur blákaldur veruleikinn og við verðum að láta í okkur heyra. Við verðum að fylkja liði og láta valdahafana vita af því að þetta gangi ekki lengur. Það einfaldlega gengur ekki lengur.
Sannleikanum er haldið frá okkur af því nú eru að koma kosningar og hætt við að fólk ruglist um of í ríminu. Það veit enginn hvaðan á sig stendur veðrið. Við erum eins og skuldugt smáríki að betla þróunaraðstoð. Þarf frekari vitna við?
Við borgum ekki! Við borgum ekki! Af hverju í veröldinni á almenningur í þessu landi að borga upp skuldir óreiðumanna í útlöndum?
Af hverju í veröldinni á almenningur í landinu að sitja uppi með töpuð útlán bankanna og seðlabankans?
Hvernig stendur á því að þegar stendur til að gera eitthvað fyrir almenning í þessu landi þá fuðra allir upp yfir því hvað það kostar mikið?
Hvernig stendur á því að þegar afskrifa á milljarða á milljarða ofan hjá fyrirtækjum og fjármálastofnunum þá er aldrei talað um hvað það kostar?
Það er alltaf þessi sami almenningur sem þarf að borga brúsann og blæða hvort sem er - ekki satt?
Hvernig stendur á því að stjórnvöld taka einarða afstöðu með fjármagnseigendum en láta almenning lönd og leið? Af hverju er það látið duga að henda upp í okkur einhverri dúsu. Greiðsluaðlögun hvað? Útgreiðsla séreignasparnaðar hvað? Sért er nú hvert útspilið. Ég segi ekki meir.
Við þurfum að fara skríðandi á blóðugum hnjám og sýna fram á að við séum í efnahagslegum dauðateygjum til að fá útrétta hönd hjá hinu opinbera.
Ætlum við að setja íslenska alþýðu á vergang? Er það lausnin?
Þrátt fyrir loforð um annað þá eru í gangi hertar innheimtuaðgerðir hjá innheimtustofnunum. Bankar og fjármálastofnanir ganga sýnu harðar að fólki en áður og hvergi virðist fyrirgreiðslu að hafa. Að semja um skattaskuldir er ógjörningur. Til hvers er ætlast? Að við gefum þeim atkvæðin okkar svo þeir geti haldið áfram að herða á ólunum? HVAÐ ÆTLA ÍSLENDINGAR AÐ GERA?
Kjósa flokkinn og vona það besta?
Það stefnir í óöld og ég hvet svo sannarlega alla landsmenn til að flykkjast út á göturnar þegar búið er að ferma börnin og brjóta páskaeggin og hrópa á valdsmenn og fjármagnseigendur: VIÐ BORGUM EKKI! VIÐ BORGUM EKKI!
Ég stofnaði ekki til þessara skulda. Ég hef alveg nóg með mínar eigin skuldir svo ég fari nú ekki að taka á mig skuldir vitskertra fjárhættuspilara sem breyttu íslenska hagkerfinu í spilavíti.
Trúir því einhver að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að setja þjóðina á vergang? Hvað ætla menn að gera ef unga fólkið fer unnvörpum á fund lánadrottna sinna og afhendir þeim lyklana að húsunum sínum, íbúðum og bílum og segir: gjörið svo vel - þið megið eiga þetta ? Svo yfirgefur það bara þessa eldfjallaeyju. Allt búið. Bless. Kem aldrei aftur!
Við verðum að aflétta vistarbandinu. Við verðum að koma landinu okkar til hjálpar. Gömlu ráðin duga ekki lengur.
Nú verður þjóðin að fara á þing og beita sér fyrir breytingum.
Auðlindirnar til þjóðarinnar.
Nýjan sáttmála milli þjóðarinnar og valdhafanna.
Ítarlega rannsókn á bankahruninu.
Verðtrygginguna burt.
Neyðaraðgerðir fyrir heimilin til að halda fólkinu í landinu.
Skuldaafskriftir í stórum stíl. Byrja með hreint borð.
Sækjum okkur nauðsynlega aðstoð til að koma hér á efnahagslegum stöðugleika. Við erum ekki fær um að hjálpa okkur sjálf.
Þjóðin þarf öll að fara í meðferð til að sigrast á meðvirkni. Til dæmis væri gott að horfast einfaldlega í augu við það að við erum smáþjóð - ekki stórveldi. Þá kannski finnum við til smá auðmýktar.
Finnum verkefni fyrir vinnufúsar hendur. Höldum áfram að mennta fólkið okkar.
Nýtum þann sköpunarkraft sem felst í menningarlífi okkar og fáum hið frábæra og hæfileikaríka listafólk til að skapa okkur góða ímynd á heimsvísu. Þar eigum við sannarlega vannýtta auðlind.
Nú dugar ekki að vola og vorkenna sér þótt illa sé komið fyrir okkur - heldur skulum við berja okkur á brjóst, vera upplitsdjörf þrátt fyrir smæð okkar og niðurlægingu og segja: við eigum þetta fallega land og það skal ekkert tröll voga sér að seilast með krumlu sína hingað og reyna að taka það.
Eignaðist ég ást að fjallabaki
augu hennar blíð sem morgunsól.
Í faðmi hélt ég henni föstu taki
fönnin breiddi yfir hvítan kjól.
Hvert sinn er ég kem að fjallabaki
kyrrðin breiðir faðm sinn móti mér.
Sama hvort ég sef eða hvort ég vaki
seiðir til sín hug minn hvert sem ég fer.
(V.S.)
Lifið heil.
Valgeir Skagfjörð, borgari og frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar.
Minni auk þess á nauðsyn þess að afnema verðtryggingu!
Athugasemdir
Frábært innlegg! Orð að sönnu þótt sorglegt sé...
Melissa (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 11:28
Frábær hvatningarræða, vonandi fer fólk að taka við sér. Áfram Borgarahreyfing X-O
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.4.2009 kl. 12:10
Flottur pistill! Hvaða kjördæmi ertu í framboði?
Héðinn Björnsson, 6.4.2009 kl. 12:30
Nú finnst mér timi til kominn að fara að flykkja sér út á göturnar til að krefjast þess að stjórnlagaþing nái fram að ganga því nú þurfum við að berjast gegn samtryggingu valdastétta og auðmagnshringja hér á landi því þetta hefur verið ein helsta meinsemd lýðræðisins þvínæst þurfum við að snúa okkur að erlendu auðvalds- og valdaklíkunum, neitum að borga skuldir sem við getum auðsjáanlega ekki staðið undir, þeir hafa veitt okkur í skuldanet sem við engjumst um í, slítum öllu sambandi við þá og byrjum upp á nýtt með hreint borð. Mætum sem fyrst út á götu og krefjumst breytinga. Þetta gerist ekki nema við gerum það sjálf. Áfram búsáhaldabyltingin!!!
Alda Arnbardóttir (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 12:59
Ég fæ hreinlega gæsahúð af því að lesa þetta! Takk fyrir frábæran pistill Það er yndislegt að lesa hann og vita að þú hefur boðið þig fram til þings. Það er mikil líkn að eygja von þrátt fyrir allt!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.4.2009 kl. 13:31
Raunveruleikinn er því miður orðinn svo óraunverulegur að fæstir trúa honum. Lausnirnar eru allvega komnar á blað hjá Borgarahreyfinguni. En fátt annað kemur frá öðrum stjórnmálaflokkun en auglýsingar um óágæti annara flokka.
Offari, 6.4.2009 kl. 13:36
Kæri minn.
Enn bíð ég eftir öðru frá þér en slagorðum. Í næsta pisli væri fróðlegt að fá útskýringu á:
Nú verður þjóðin að fara á þing og beita sér fyrir breytingum. -Hver er þjóðin?
Auðlindirnar til þjóðarinnar. -Hver er tillaga XO um að yfirtaka auðlindirnar frá sjómönnum, bændum ect? Hverjir hafa síðan aðgang að auðlindum þjóðarinnar, hver er tillaga XO?
Neyðaraðgerðir fyrir heimilin til að halda fólkinu í landinu. -Hvað fellst í þessu? Neyðaraðgerð er stórt orð sem krefst útskýringar og nákvæmrar verkáætlunnar. Hver er hún hjá XO?
Finnum verkefni fyrir vinnufúsar hendur. Höldum áfram að mennta fólkið okkar. -Hver er tillaga XO með að skapa atvinnutækifæri. Það hlýtur að liggja fyrir aðgerðaáætlun flokksins, hver er hún?
Kveðja og von um að fá að vita meir næst.
Stefán Sturla
SSS (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 15:18
Þjóðin er fólkið í landinu ekki stjórnmálaflokkarnir.
Offari, 6.4.2009 kl. 15:53
Þetta er góður pistill og ég tel þig mjög hæfan frambjóðanda eftir lestur nokkurra greina þinna. Ég tel okkur geta bókað miklar breytingar eftir kosningarnar bæði vegna breyttra áheyrslna gömlu flokkanna og einnig vegna þess að ég trúi því að Borgarahreyfingin muni ná inn á þing og koma góðum hlutum í framkvæmd.
Frekari mótmælum á ég vart von á enda trúi ég á að leiðin liggi upp á við eftir kosningarnar. Maður verður allavega að vera jákvæður og bjartsýnn nú á þessum erfiðustu tímum
Hilmar Gunnlaugsson, 6.4.2009 kl. 17:16
"Pund af holdi"? Ekki trúi ég það sé úr neinni þjóðsögu komið... Það sem maður les milli línanna hjá þér er svo svívirðilegt það eru engin orð yfir það hafandi og þú ættir bara að hundskammast þín ef þú hefur minnsta snefil af samvisku. Ég var að spá í þessum flokki þínum en það gerir útslagið að svona smáborgarar eins og þú séu á framboðslista þarna, ekki áhættuna takandi að kjósa flokkinn með "menn" eins og þig innanborðs.
einhver (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 17:21
Sé ekki alveg hvað er svona svívirðilegt við það sem ég hef skrifað hér og ég þarf ekkert að skammast mín því ég hef góða samvisku. Það sem þú sem ekki vilt láta nafns þíns getið kýst að lesa á milli línanna er á þína ábyrgð.
Það kann vel að vera að ég sé smáborgari ef það er nánari skilgreining á nafnorðinu borgari sem ég nota þegar ég kvitta fyrir bloggfærslur. Já - ég er nefnilega borgari í þessu landi.
Pund af holdi er ekki úr neinni íslenskri þjóðsögu það er rétt - þar er ég að vísa í leikritið Kaupmaður í Feneyjum e. William Shakespeare þar sem kaupmaðurinn tók veð í pundi af holdi viðskiptavinar. Ég blandaði þessum tveimur minnum saman. Það kallast skáldaleyfi. Óska þér alls velfarnaðar að öðru leyti og bið þig náðarsamlegast að sýna mér og öðrum í bloggheimum fyllstu kurteisi og vandað orðaval.
Valgeir Skagfjörð, 6.4.2009 kl. 18:01
Þetta eru ljótar árásir hjá þér "einhver" undir skjóli nafnleyndar. Af hverju setur þú ekki nafn þitt undir níðið?
Hilmar Gunnlaugsson, 6.4.2009 kl. 18:03
Stefán Sturla, kæri vinur, ég vil benda þér á að fara inn á heimasíðuna okkar og lesa þar stefnuskrána okkar sem er ekki mjög langorð og þar ættirðu að geta fundið eitt og annað. xo.is Borgarahreyfingin er ekki stjórnmálaflokkur sem hefur farið í massíva málefnavinnu til þess að sammælast um skoðanir á öllum málum. Góðu heilli þá hefur hver sem er í hreyfingunni frelsi til að hafa hverja þá skoðun á einstaka málum sem hann kýs. Við höfum hins vegar sammælst um að vinna að ákveðnum markmiðum sem fela í sér breytingar á íslenska stjórnkerfinu og áherslum í stórum málum sem varða þjóðarhag eins og t.a.m. Evrópumálin og gjaldeyrismálin svo eitthvað sé nefnt. Ef og þegar við komum okkar fólki inn á löggjafasamkunduna þá munum við eflaust vinna þar að tillögugerð í atvinnumálum, menntamálum, menningarmálum o.s.frv. í samstarfi við aðra flokka. Megintilgangur okkar er að ná fram hinum einföldu markmiðum okkar og þegar þeim er náð þá munum við leggja framboðið niður. Það getur svo sem tekið 50 ár að ná markmiðum okkar en hafðu umburðarlyndi með okkur - því við erum grasrót - hreyfing - ekki sjálfhverfur stjórnmálaflokkur. Við þurftum hins vegar að fara þá leið að stofna ,,stjórnmálaflokk" samkvæmt skilgreiningu laganna til þess að fá tækifæri til að taka þátt í leiknum til þess að við gætum látið raddir okkar heyrast og tekið þátt í að móta nýtt samfélag á Íslandi til framtíðar. Við erum með ákveðnar hugmyndir sem eru útlistaðar í stefnuskránni en um annað munum við taka afstöðu til í fyllingu tímans. Núna erum við að beita okkur fyrir breytingum. Ég vil breytt samfélag og ég vil vera þátttakandi í því að koma breytingum á í þessu landi. Ég er orðinn langþreyttur á gerræði ráðherra og stjórnmálaflokka.
Valgeir Skagfjörð, 6.4.2009 kl. 18:32
Frábær pistill sem hrífur mann með. Já, það er búið að stefna landinu okkar og þjóðinni í þvílíkar ógöngur, og ég er sammála, hvernig eigum við að borga þessar skuldir? Það er bara ekki raunhæft og þar að auki fáránlegt að almenningur eigi að taka skellinn af því sem var búið til af fjárglæframönnum.
Ég held að þessi "einhver" ætti svo að lesa sér eitthvað til í bókmenntum og sleppa því að vera með auvirðilegar árásir undir nafnleynd.
Ingibjörg Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 22:08
Gangi ykkur vel í baráttunni
Guðrún Sæmundsdóttir, 6.4.2009 kl. 22:29
Þakka þér fyrir Guðrún. Leitt að fá ekki að hitta þig oftar á fundum og í viðtölum. Þú ert skelegg og ákveðin kona. Takk fyrir góða viðkynningu og gangi þér vel á þinni pólitísku vegferð. Tek heilshugar undir hugmyndir þínar um að bæta kjör og aðstæður ylræktarbænda. Það er ótækt hvernig við gefum stórfyrirtækjum orkuna okkar sem þeir nýta til að græða sem mest sjálfir á meðan við neytendur fáum að greiða fyrir hana fullu verði að maður tali nú ekki um blessaða bændurna sem ættu nú sem óðast að rækta matvæli fyrir heiminn í gróðurhúsum. Það er meiri þörf fyrir hollt og gott grænmeti og ávexti fyrir heiminn en kannabis. Við sjáum hvað setur með Evrópumálin
Valgeir Skagfjörð, 7.4.2009 kl. 00:25
Mig langar líka til að skríða undir sæng, sofna, vakna aftur og geta sagt að þetta hafi bara verið vondur draumur. Ég vil aðgerðir - NÚNA.
Kolla (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 02:10
Takkkkkkkkkkk
Hólmdís Hjartardóttir, 7.4.2009 kl. 03:31
Takk fyrir Valgeir.
Veitir ekki af ad brýna fólk.
Jóhann (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 09:46
Góður pistill - orð að sönnu
Sigrún Óskars, 7.4.2009 kl. 10:44
Kæri vin!
Einmitt þess vegna hef ég beðið eftir að lesa einhversstaðar um stefnu XO. Finn bara slagorð á heimasíðunni. Við höfum góðu heilli verið sammála um flest í gegnum tíðina og ég veit að hugur okkar er á mjög svipuðu reki hvað varðar pólitík. Hins vegar ef ég á að kjósa nýja "grasrót" hóp fólks með ólíkar skoðanir og aðferðarfræði við að hrinda þeim í framkvæmd, er ég hræddur um að útkoman verði svipuð og hjá frjálslindum. Því miður! Þess vegna spyr ég enn einu sinni -er engin heilstæð framkvæmdarstefna á málefnum í gangi hjá XO?-
-Ef svo er hver er hún t.d. í málefnum heimilanna? (Hvernig sér XO fyrir sér að framkvæma afturförina á verðtryggingunni og á að kippa henni þá um leið úr sambandi?)
-Hver er hún varðandi stóriðjuframkvæmdir?
-Hver er hún varðandi upptöku auðlinda landsins?
-Hver er hún gagnvart stöðu erlendra skuldaeigenda á Íslandi?
SSS (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 20:03
Flottur pisill hjá þér Valgeir.
Magnús Guðjónsson, 8.4.2009 kl. 00:19
Þú færð mitt atkvæði. Eftir að haf horft á fundinn í beinni á RUV í vikunni, þá er enginn efi hjá mér lengur.
Gangi þér vel.
Ásgerður , 10.4.2009 kl. 17:06
Góður pistill!
Áfram Valgeir!
HF (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 21:43
Sæll Valgeir,
Er það á stefnuskrá flokksins að fara að ráðum Perkins og Hudson, og slíta samstarfinu við IMF/ASG ? (kick them out...)
Það er það sem er MEST áríðandi trúi ég, allt annað kemur svo í kjölfarið. Og það er áríðandi að þjóðin átti sig á þeim hryllingi sem er yfirvofandi ef við látum leiða okkur eins og þæg lömb til slátrunar....eða þannig.
Guðbjörg Þ.
Guðbjörg Þórisdóttir (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 16:58
Má ég stela þessari færslu, og setja á mitt blogg. Náttúrulega bara með leyfi þínu? og tilvísun í bloggið þitt??? Ekki veitir af!!!!
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.4.2009 kl. 01:44
Þú þarft ekki að stela henni. Gerðu svo vel.
Valgeir Skagfjörð, 17.4.2009 kl. 12:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.