5.3.2009 | 15:00
Liðsmenn Íslands
Kæru vinir. Nú er svo komið að íslenskir stjórnmálamenn njóta ekki lengur trausts almennings. Vissulega er margt gott fólk á þingi og allir flokkar hafa innan sinna vébanda góða og hæfa einstaklinga sem hafa gegnt trúnaðarstörfum af alúð og trúmennsku. Hins vegar hafa aðrir einstaklingar ekki sýnt eins vandaða framkomu gagnvart þjóðinni og fyrir vikið eru þeir rúnir trausti.
Mín skoðun er sú að þeir hafi þar með fyrirgert rétti sínum á því að gera tilkall til þess að setjast inn á löggjafaþing landsins; í bráð að minnsta kosti.
Nú hefur Borgarahreyfingin kynnt til sögunnar nýtt framboð.
Undir listabókstafnum O. x-O í næstu kosningum. O fyrir Borgarahreyfinguna.
Þetta framboð saman stendur af venjulegum borgurum sem hafa sameinast um fá en skýr markmið sem miða að breytingum á stjórnskipulagi Íslands.
Auk þess tökum við að sjálfsögðu skýra afstöðu til annarra mála. Við erum með aðgerðarpakka til bjargar heimilum og viljum skoða hvað er í boði hjá ESB og leyfa síðan þjóðinni að kjósa um það hvort hún vill það sem verður í boði eður ei.
Það væri óskynsamlegt að kjósa um eitthvað sem enginn veit hvað er. Það er augljóst að þjóð sem ekki fær allar upplýsingar upp á borð getur engan veginn tekið upplýsta ákvörðun. Enda er þjóðin að sleikja sárin eftir niðurbrotið undanfarna mánuði.
Í Borgarahreyfingunni er fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Fólk sem stóð vaktina þegar byltingin stóð sem hæst. Fólk sem var vakið og sofið yfir því að krefjast afsagnar ríkisstjórnar Geirs Haarde, stjórnar seðlabankans og fjármálaeftirlits. Og baráttan heldur áfram. Ekki megum við detta inn í doða og sinnuleysi og láta bara fjórflokkinn eyða tímanum og orkunni í að bítast um völdin.
Við viljum meiri umbætur í lýðræðisátt. Við viljum afnema verðtryggingu, kyrrsetja eignir auðmanna, færa náttúruauðlindirnar aftur til þjóðarinnar.
Við viljum algjöra uppstokkun á öllu því kerfi sem virkaði ekki þegar á reyndi. Kerfi sem stóð ekki styrkari fótum en svo að stofnanir þess brugðust algjörlega.
Stjórnmálaflokkarnir bera ekki síst ábyrgð á því hvernig fór. Við sáum öll hvernig Enron málið var vaxið. Það gekk maður undir manns hönd að sannfæra ráðamenn um hversu nauðsynlegt það væri að afnema öll höft og regluverk. Að frelsi til athafna væri grundvöllur þess að hægt væri að stunda arðbær viðskipti með verðbréf, og skúffufyrirtæki. Viðskiptasnillingarnir brenndu allar brýr að baki sér og voru á endanum leiddir brott í handjárnum. Þetta var USA og snillingarnir okkar yfirfærðu módelið á litla Ísland. Módelið varð svo miklu stærra en litla íslenska hagkerfið og þegar það hrundi þá varð hrun þess mikið og fall snillingana hátt en ekki hefur einn einasti þeirra verið kallaður til yfirheyrslu.
Svikamilla íslensku bankanna og útrásarinnar gat aðeins komist á koppinn vegna þess að þeir sem stjórnuðu hér efnahags og peningamálum aðstoðuðu við að plægja jarðveginn sem síðan skapaði hér kjöraðtæður fyrir græðgisfurstana til að leika sér í matador frá morgni til kvölds.
Við vitum hvernig fór. Íslandssagan sem nú er verið að skrifa er með slíkum ólíkindum að frumlegustu rithöfundar þjóðarinnar hefðu vart haft ímyndunarafl til að spinna upp svo lygilega sögu. Rás viðburða hefur verið með þeim hætti að þeir þættu vart boðlegir í Hollívúdd, nema sem efniviður í verulega súrealíkst kvikmyndahandrit. Hæpið samt að nokkur vildi kvikmynda slíkt handrit af ótta við að fólki þætti það ekki nægilega trúverðugt.
Veruleikinn sem blasir við er auðvitað martröð líkastur. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Það eru tækifæri í erfiðleikunum. Það liggja tækifæri ónotuð og við sem þjóð verðum að koma auga á þau og grípa þau.
Í lifinu er það gjarnan svo að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar.
Þjóðin stendur á þröskuldi við opnar dyr. Þjóðin hefur val um það hvort hún stígur til baka og lokar á þessar dyr sem nú standa opnar eða telur í sig kjark til að stíga innfyrir þröskuldinn, inn fyrir dyrnar og leggja upp í nýja vegferð í átt að betri og bjartari framtíð.
Það er ekki svo að það þurfi bara að hjóla í það að redda því sem aflaga fór. Það kallast á góðri íslensku að fara í drullureddingar.
Tækifærið liggur í því að stíga inn um þessar dyr. Það þýðir að við þurfum í sameiningu að endurmeta gildi lífsins. Við þurfum sem þjóð að spyrja okkur ágengra spurninga.
Hvernig viljum við hafa þetta samfélag?
Borgarahreyfingin ætlar að róa að því öllum árum að koma hér á alvöru breytingum. Við sem erum í hreyfingunni höfum engin tengsl við kunningjabandalög eða valdaklíkur hér á landi. Við eigum ekki skyldmenni og venslafólk á réttum stöðum sem geta togað í spotta að vild og farið á svig við lög og reglur eða framið brot á verklagsreglum sem teljast siðferðilega vafasöm. Við viljum innleiða heiðarleika og virðingu í samskiptum þjóðar og þings.
Nú er ekki tími til að keyra áfram kaldhamraða pólitík sem tekur ekkert tillit til tilfinninga fólks eða lætur sér fátt um finnast þótt almenningi blæði fyrir mistök þeirra sem áttu að stjórna landinu.
Fólkið hefur látið tilfinningar sínar í ljósi svo eftir hefur verið tekið allt í kringum okkur. Fólk lét vita af sér og krafa þess er skýr. Breytt hugsun, breytt viðhorf og endurreisn lýðveldisins.
Þið sem viljið taka þátt í breytingunum með okkur og hafa áhrif á það hvort tækifærið sem hér stendur okkur til boða verði nýtt - komið til okkar. Gangið í Borgarahreyfinguna og hreyfum við þjóðinni sem nú situr stjörf í doða yfir því að enn eina ferðina á að bjóða upp á fjórflokkinn án mikilla breytinga.
Í dag er tækifæri. Í dag er annar valkostur í boði.
Viljið þið verðtrygginguna burt ? Já eða nei?
Viljið þið kyrrsetja eigur auðmanna meðan á rannsókn stendur? Já eða nei?
Viljið þið skýra þrískiptingu valdsins? Já eða nei?
Viljið þið breyta kosningalögum og jafna vægi atkvæða? Já eða nei?
Viljið þið stjórnlagaþing í haust? Já eða nei?
Viljið þið að Íslendingar semji sína stjórnarskrá sjálfir? Já eða nei?
Viljið þið taka upp nýjan gjaldmiðil til að leysa okkur undan ónýtri krónu? Já eða nei?
Viljið þið senda nenfd til Brussel í samningaviðræður til að kanna hvað er í boði hjá ESB og leyfa síðan þjóðinni að kjósa um hvort við viljum óska eftir inngöngu eða ekki? Já eða nei?
Viljið þið að almenningur geti veitt þinginu aðhald, að þingið veiti ráðherrum aðhald og ráðherrar standi þingi og þjóð reikningsskil en sitji ekki á þingi? Já eða nei?
Ef svarið við þessum spurningum er já þá eigið þið samleið með okkur.
Bara svo því sé haldið til haga - þá legg ég til að verðtrygging verði afnumin.
Ykkar einlægur
Valgeir Skagfjörð, borgari og frambjóðandi.
e.s. Það er ekki boðlegt að slengja í okkur gamalli tuggu um að eitthvað sé ekki hægt. Ef okkur á að takast að komast heil frá þessu þá verðum við líta svo á að allt sé mögulegt. ´
Viljum við óvenjulegar lausnir til að bregðast við óvenjulegu ástandi fyrir óvenjulega þjóð? Já eða nei?
Athugasemdir
Heyr heyr Valgeir
Baldvin Jónsson, 5.3.2009 kl. 16:27
OOOhh, enn eitt svona nýýýýýýttttt eitthvað? sýnist þetta vera sömu spurningarnar, sömu frasarnir sem fjórflokkurinn setur fram. Nú þarf svona framboð að kynna málefni og hvernig á að framfylgja þeim. Nýtt fellst í nýrri hugsun og nýrri framsetningu. Minn kæri vinur, ég sé það ekki í þessari grein.
Þinn einlægur
Stefán Sturla...
Stefán Sturla (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 17:21
Er ekki búin að lesa alla greinina en Valgeir, ég skrollaði niður. Í guðanna bænum notaðu íslensku. Viljiði= viljið þið?
Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 19:52
Ég er orðin spennt fyrir þessu nýja framboði, og mun ég líklega skrá mig næstu daga. Í dag eru tveir gjaldmiðlar á Íslandi, venjuleg króna sem við fáum í laun og verðtryggð króna sem lánastofnanirnar nota. Mér finnst það ekki í lagi og vil sjá verðtrygginguna burt....
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.3.2009 kl. 01:42
Já
Aðalheiður Ámundadóttir, 6.3.2009 kl. 10:55
Að lokum: JÁ
Kolla (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 13:04
Já
Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.3.2009 kl. 13:09
já
Óskar Þorkelsson, 6.3.2009 kl. 20:56
Ég get sagt hiklaust já við öllum spurningunum sem þú setur fram hér að ofan nema ég hiksta svolítið á þeirri næstsíðustu. En auðvitað á þjóðin að fá að kjósa um það.
Og til hamingju með þetta glæsilega framboð og þessa skýru stefnuskrá sem er svo sannarlega í takt við stöðuna í samfélaginu í dag!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.3.2009 kl. 02:52
Já
Solveig (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 10:28
Að sjálfsögðu. Það þarf allsherjar uppstokkun. Það þarf að nota sögulegt tækifæri til að hreinsa almennilega til og taka upp nýja siði. Það þarf að auka lýðræðið en minnka spillinguna. Það þarf að auka valið og efla aðhaldið. Þótt neyðaraðgerðir standi yfir þarf ekki seinna en núna að taka mikilvægar ákvarðanir um hvert skuli síðan stefna.
Friðrik Þór Guðmundsson, 8.3.2009 kl. 22:33
Svarið er JÁ og ég treysti á Borgarahreyfinguna.
Sigurður Hrellir, 8.3.2009 kl. 23:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.