Þjóð í vanda

Sefurðu þjóð mín?

Sefurðu þjóð mín, þegar þú átt að vaka?

Nú hjúfrar sig ljóðbarn að hjarta þínu. (Svona hefjast ljóðlínur Jóhannesar úr Kötlum í ljóðinu ,,Tröllið á glugganum") 

Það er vá fyrir dyrum. Kæru vinir og samlandar. Hugsum. Látum ekki blekkjast af innantómum loforðum gömlu flokkanna. Nú er kapphlaupið um völdin aftur að hefjast. Sundurþykkja, vélabrögð, óheilindi, baknag, skemmdaverk og viðurstyggileg myrkraverk eru í kortunum þessa daga. Það er ekki verið að vinna í að hugga hrellda þjóð. Það er ekki verið að binda um sár þeirra sem hafa orðið fyrir skaða. Það er verið að undirbúa nýja yfirtöku á þrotabúinu Íslandi.

Þú þjóð sem barðist við drauga í þúsund ár þekkirðu ekki drauginn á glugganum? (Jóh.úr K.)

Það er draugur á glugganum hjá okkur. Hann horfir inn um gluggann á börnin okkar og kveður:

,,Djúpan vóð ég Íslands ál

ekki af baki dottinn.

Komdu, komdu, sál og sál

og hjálpa mér um mannakjöt í pottinn. (Jóh. úr. K)

Einu sinni var það svo ég ég hafði á tilfinningunni  og trúði því í einlægni að Íslendingar ættu sameiginlega þetta fagra land. ,,Þetta fagra land hefur fóstrað mig og þig fagra Ísland, Ísland er landið þitt. " (V. S. )  Já, landið var fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar.

Hlíðin er fögur og ég fer ekki rassgat! Ég vil ekki láta flæma mig af landi brott fyrr en í fulla hnefana. Það harðnar á dalnum. Lánin mín hækka. Skuldabyrðin mín vex. Ég eys lekan bátinn á meðan ég lífsanda dreg. En hvert ætla ráðamenn að fara með okkur? Hver er raunverulega við stjóra? Hver gætir að öldunum? Hefur einhver landsýn? Hver er í stafni? Hver er í mastrinu? Hvað er í alvörunni að gerast? Vill einhver vera svo vænn að segja mér það? Plííís!

Eina planið sem ég hef í höndunum er myndasaga frá stjörnuspekingi föst við segul á ísskápnum hjá mér og hún er harla trúverðug þegar farið er að rýna í hana.

Hvar er planið þeirra sem eiga að stjórna núna? Hvert planið þegar kosningar eru afstaðnar? Hver er núna að plotta hvað á bakvið tjöld eða í reykmettuðum samskiptaathvörfum vítt og breitt um borg og bý. Út með sjó og í uppsveitum. Upp til dala og hárra fjalla? 

Hver er að díla við hvern núna? ,,Ef þú gerir þetta og þetta þá skulum við sjá til þess að þú fáir þetta og þetta , en ef þú gerir það ekki þá er ég hræddur um að upplýsingar sem við höfum verði gerðar heyrinkunnar og þá þýðir ekkert elsku mamma neitt. Er þetta þá díll? Ókei. Vertu þá memm! 

Hljómar kunnuglega - ekki satt?

Þetta heldur bara áfram. Að minnsta kosti þá óttast ég það mjög. Enn fremur óttast ég að siðbótin og umbreytingarnar verði settar á hóld og tékkað á því hvort ekki sé unnt að endurhanna kerfið til þess að Íslendingar fái aftur gamla góða gúbbífiskaminnið sem mörgum verður tíðrætt um.

Ég er a.m.k. ekki með gúbbífiskaminni. Ég man og við eigum öll að muna. 

Takið eftir því góðir hálsar að á næstu vikum verður af kappi farið að rifja upp gömul kosningaloforð og svik og trommað upp með enn ný loforð sem koma til með að lúkka helvíti flott á plakati! 

ESB verður látið líta út eins og bjargræði aldarinnar og eina leiðin til að koma hér upp föstu gengi og afnema verðtryggingu er að ganga í tröllahendur vina okkar í Evrópusambandinu.

Vinir okkar í ESB eru ekki í góðgerðarstarfsemi. Þeir eru bisniss og sjá hér tækifærin blasa við. Þeir sjá orkuauðlindirnar okkar, sjávarfangið, hreina loftið, tæra vatnið, náttúruna, kraft vindanna, brimsins, fallaskiptanna, fegurð fjallanna, og allt það hugvit og þá skapandi vitund sem finnst hér á landi.

Nú þegar þjóðin er svo gott sem farin á hausinn þá hugsa þeir gott til glóðarinnar.

Danir ryksuguðu upp allt sem hér var að hafa fyrr á öldum. ,,Kaupmannahöfn er lýst upp með íslenskum grút," sagði Jón Marteinsson í Íslandsklukkunni og já, héðan voru flutt matvæli, fiskur, niðursöltuð rjúpa á tunnum í tonnatali, brennisteinsnámur voru gjörnýttar og á meðan var fleygt í okkur drasli af einokunarkaupmönnum sem ekki einu sinni danskir landsbysidioter mundu hafa fleygt fyrir hundana sína. Enda gulrófurnar sem okkur þykja svo skellandi góðar með slátrinu og saltkjötinu ekkert nema svínafóður hjá Danskinum. Á misjöfnu þrífast börnin best  að minnsta kosti á Íslandi.

Ef við hefðum ekki losnað frá Dönum þá væru þeir sjálfsagt ennþá að moka til sín nema þeir væru búnir að klára allt dæmið. Gjörvöll Kaupmannahöfn og nágrenni væri lýst upp með rafmagni frá Íslandi. Og uppistaðan í dönskum bjór væri hreint íslenskt ölkelduvatn. 

Baráttumál Íslendinga á næstu árum verður baráttan um sjálfstæði þjóðarinnar.  Að velja á milli þess hvort við erum sjálfstæð þjóð eða hvort við verðum smáþjóð í krumlum stærri þjóðar.

Við erum kannski ekki í sem bestri samningsstöðu, þökk sé peningamálastefnu fyrri ríkisstjórna og fyrirgangi auðjöfra á erlendri grundu. En við skulum horfast í augu við stöðuna eins og hún blasir við. 

Þjóðin er í Tröllahöndum og þegar tröllin ná á okkur taki þá fer um smáþjóð eins og Íslendinga að þeir verða eins og smádýr í höndum þursa sem kyrkja þau smátt og smátt í greip sinni þar til þau missa allan mátt. Líf þeirra hangir á bláþræði um stund og síðan gefur það frá sér síðasta andvarpið, augun standa á stilkum og líf þeirra slokknar eins og týra á kertisstubb og ekkert eftir nema útbrunnið skar.

Náttröll eru þeirrar náttúru að þau verða að steini um leið og sólin kemur upp.  Við - þjóðin sem hefur þraukað hér á ísa köldu landi í þúsund ár erum þau einu sem geta kveikt sólarljósið aftur og þegar það kviknar og ný sól Íslands rís við dagsbrún þá verða náttröllin að steini.

Íslandssólin nýja er vonin í brjósti okkar. Vonin ein er það síðasta sem má slokkna í brjóstum okkar.

Ný sól mun rísa þegar okkur tekst með samvinnu góðra manna og kvenna að snúa pólitískri hugsun þjóðarinnar inn á nýjar brautir.  Þegar okkur tekst að reisa nýtt lýðveldi úr rústunum eftir þursana sem hafa troðið niður íslenskan svörð, íslenska vitund og íslenskt þjóðarstolt. Þursana sem hafa fótum troðið góð og göfug gildi og farið fram með slíkum dólgsskap að furðu vekur heims um ból.

Nú máttu þjóð mín ekki sofa heldur vaka á verðinum og koma í veg fyrir að þursarnir sölsi undir sig allt aftur og hneppi okkur í ánauð peningahyggjunnar. Láttu ekki blekkjast af glópagulli auðvaldsins.

Hamingjan felst ekki í því að trúa þeirri blekkingu að við verðum sjálfkrafa innvígð í hóp hinna velmegandi þótt við kjósum aftur strákana í bláu skyrtunum og dökku jakkafötunum. Þeir hafa engan áhuga á því að gera okkur kleift að hafa það betra. Þeir hafa bara áhuga á sjálfum sér.

Þeirra hugmyndafræði er eigingirni, sérplægni, yfirráð, misskipting. Þeir eru ígildi höfðingjana sem Mónarkíið í Kaupinhafn setti yfir okkur á sínum tíma. 

Við erum hin kúguðu og undirokuðu. Svo ég vitni nú í nóbelsskáldið: ,,Feitur þjónn er ekki mikill maður, barinn þræll er mikill maður því að í brjósti hans býr frelsið."  

Kapítalisminn gerir hina ríku ríkari og fátæku fátækari. Það er höfuðtilgangur þeirra ríku að græða peninga og þá skipta aðferðirnar engu máli á meðan tilgangurinn helgar meðalið.

Þjóð mín - nú þarftu að vaka. Nú mátt þú ekki sofna. Þursarnir hafa nefnlega lag á að svæfa okkur og líkar það best þegar við göngum um í dásvefni trúandi því að allt sé svo frábært af því við höfum það betra en fólkið í pappakössunum niðri í Malaví.

Það er kannski þess vegna sem þeir vilja fjölga brennivínsbúðunum. Þá geta allir verið fullir, gleymt sér og hætt að hugsa um pólitík, réttlæti eða landsins gagn og nauðsynjar.

Brennivínið reyndist Dönum afar drjúgt sem meðal til að halda íslenskri alþýðu niðri.  Þeir notuðu það á Grænlendinga og Færeyinga. Ameríkanar notuðu það á Indjánana.

Það er kannski það sem vakir fyrir þeim. Slæva dómgreind okkar og rökhugsun.

Nei - við skulum vera algáð og láta ekki kúga okkur, hvorki með áfengi, verðtryggingu, ótta, okurvöxtum, láglaunastefnu, skattpíningu né neinum af þeim kúgunarmeðulum sem valdsmenn og valdstjórnir hafa yfir að ráða. Við erum valdið. Valdið er okkar. EKKI ÞEIRRA! 

Og hjarta framtíðarinnar skelfur

í hræðilegri þenslu óvissunnar,

- vorelskt, hörpustrengjað hjarta,

með hungur og þorsta lífsins í blóði sínu.

Sefurðu þjóð mín?

Sefurðu þegar þú átt að vaka

og bjarga barni þínu? 

(Jóh. úr K.)  

 

Við eigum þetta land - saman. Við eigum auðlindir þess til lands og sjávar - saman. Við eigum okkur sjálf og hvert annað - saman.  Við erum stolt þjóð og sjálfstæð þjóð saman. Við skulum ganga veginn til framtíðar, í átt að rísandi nýrri Íslandssól, nýju lýðveldi sem við ætlum að stofna - saman. Við ætlum að hlúa að því og sjá til þess að allir hafi það gott - að allir njóti mannlegrar reisnar  - saman.

Þegar sólin er komin á loft og sindrar við bláan sæ og slær geislum sínum á hvíta jökulhettu svarblárra fjalla þá munu sannarlega öll nátttröll verða að steini.

Allt mun fara vel og við munum endurheimta það sem frá okkur var tekið og það sem meira er að við munum gefa áfram það sem okkur hlotnast og til okkar mun verða horft þegar önnur lönd fara að reisa sig úr sínum kreppum. 

Verum bjartsýn þrátt fyrir allt af því annað er tilgangslaust. Við verðum samt að vaka og vinna.

Ykkar einlægur

 

Valgeir Skagfjörð

e.s. Rétt eins og Kató gamli: Svo legg ég auðvitað til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Flottur pistill, mér þykir líka vænt um Jóhannes úr Kötlum.

Hér er eitt gull eftir hann fyrir svefninn:

Hvað er ég? Hvað ert þú? Hvað er hún? Hvað er hann?

Sama hönd, sama önd, sama blóð!

Að slá skjaldborg um réttlætið, maður við mann,

það er menningin, íslenska þjóð.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 24.2.2009 kl. 07:57

2 identicon

Já þér liggur mikið á hjarta Valgeir og ekki að ósekju.

Þú lýsir tímanum fram að kosningum mjög vel og ég spyr "Voru þingmenn að misskilja skilaboð mótmælenda í haust og vetur"?
Voru mótmælendur ekki að biðja um umbyltingu og nýja menn á þingið.
En mér heyrist rokkarnir vera þagnaðir að mestu og vera orðnir ansi hjáróma eftir að ný stjórn var mynduð og það læðist að mér sá grunur að í grunninn hafi mótmælendur verið að biðja um þetta og bara þetta.

Eins og þú segir í pistlinum "Það gerist ekki neitt"
Velbrögðin byrjuðu við formannskosnigar í Framsókn þar sem einn var kosinn og rekinn eftir fimm mínútur í starfi. Manngreyið hafði ekki einusinni tíma til að fagna, í stað hans var settur í embættið sonur fyrrverandi þingmanns framsóknar og ég verð að segja, að eftir þetta show hjá framsókn er ennþá meiri skítalykt af öllu hennar starfi. Ég get bara ekki fyrirgefið þessum mönnum, en hvað um það.

Þú segir að ekkert sé að gerast og það held ég líka það er verið að slá ryki í augu okkar og verið að þæfa málin og við sjáum engin bjargráð til handa heimilinum. Við sjáum ekki afskriftir á verðtryggingu þá svo verið sé að afskrifa milljarða vís til handa fyrirtækjum og eins og Davíð sagði "fjárglæframanna". Og það verður víst nokkuð öruggt að "Við verðum látin borga" 

Já Valgeir,

Það liggur eitthvað líka þungt á mínu hjarta
Logandi sviði um brjóstið heitt.
Ég vona að þetta hverfi um vornóttina bjarta
og vonin brýni  þá stálið beitt.
 

 Bestu kveðjur

Baldvin Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 09:27

3 identicon

Kaerar thakkir fyrir thetta agaeta blogg og vel er ad ordi komist hja ther.

Thokk se Laru Honnu fyrir ad benda a thetta meirihattar blogg sem thu ert med.

Kaerar kvedjur fra gomlum Islending a Florida.

Halldor Hjaltason (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 09:45

4 identicon

Sæll Valgeir.

Góður pistill.

Það er ekki á allra færi að fara úr landi og sem meira er. Aldrei er meiri þörf á hæfu fólki til að taka til í stjórnmálunum.

Margt af því sem hefur komið fram í sambandi við persónukjör og svo framvegis sýnist mér að þurfa bíða.

Tíminn er einfaldlega of stuttur. Og það voru miklar hrókeringar hjá stjórnmálamönnum í sambandi við kjördaginn.

En við verðum að snúa við blöðum í svo mörgu áður en við sjáum Ísland rísa úr sæ í annað sinn.

Baráttukveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 12:50

5 identicon

elsku hjartans valli vinur minn

ég verð svo leiður að lesa svona mikla vitleysu.  ég skil eiginlega ekki hvernig þú kemst að svona einstrengingslegri niðurstöðu.  við eigum að vinna með VINUM sem víða er að finna í útlandinu líka.  þetta einangrunarhjal er svo hræðilegt.  þar er að mínu mati leiðin til glötunar.

með vinarkveðju, felix

felix bergsson (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 14:45

6 Smámynd: Valgeir Skagfjörð

Takk Felix. 

Ekki niðurstaða heldur tilfinning sem ég fæ um leið ég upplifi rás viðburðana allt í kring.

Það væri sannarlega óskandi að við ættum góða vini sem væru til í að aðstoða okkur við að byggja upp. Sumir landa okkar hafa ekki sýnt því mikinn áhuga svo mikið er víst.

Þakklátur yrði ég fyrir stabílan gjaldmiðil (hverju nafni sem hann kann að nefnast) ef hann mætti verða til þess að koma hér á langþráðum stöðugleika í efnahagsmálum.

Ég hef engan áhuga á að einangrast hér norður í ballarhafi en við eigum ekki að selja landið okkar. 

Það er engin skömm að sækja sér aðstoð en ef það teflir sjálfsákvörðunarrétti okkar í minnstu tvísýnu þá set ég stórt spurningarmerki.

Og kallaðu mig hund ef ég reynist ekki sannspár um makkið á þinginu þessa daga. 

Valgeir Skagfjörð, 24.2.2009 kl. 15:26

7 Smámynd: Bergljót Hreinsdóttir

Ótrúlega vel orðaður og hnitmiðaður pistill...við MUNUM vaka...en ekki sofa...við MUNUM gæta landsins okkar SAMAN..og við MUNUM sjá nátttröllin verða að steini...síðasti minnisvarðinn um kapitalismann sem kollvarpaði heilli þjóð...og standa stolt og glöð í skínandi birtu nýrrar Íslandssólar....SAMAN!

Bergljót Hreinsdóttir, 24.2.2009 kl. 21:39

8 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þarna hrærðir þú mitt ljóðahjarta.

Ég býð dúz...

Steingrímur Helgason, 24.2.2009 kl. 22:25

9 identicon

hmmm .... 

"Vinir okkar í ESB eru ekki í góðgerðarstarfsemi. Þeir eru bisniss og sjá hér tækifærin blasa við. Þeir sjá orkuauðlindirnar okkar, sjávarfangið, hreina loftið, tæra vatnið, náttúruna, kraft vindanna, brimsins, fallaskiptanna, fegurð fjallanna, og allt það hugvit og þá skapandi vitund sem finnst hér á landi.

Nú þegar þjóðin er svo gott sem farin á hausinn þá hugsa þeir gott til glóðarinnar."

Valgeir, ætlar ESB að lokka okkur inn og arðræna okkur því þeir eru í bissness?! Stela öllu steini léttara? Þetta eru fordómar. Af hverju ekki að ræða við ESB og sjá hvað við fáum og hvaða skilyrði þeir setja?

Kveðja,

Kiddi

Kiddi (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 01:17

10 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þessi pistill er góð vakningarræða hjá þér, ég fylltist baráttuanda við það að lesa þetta.  Takk fyrir mig.  Hér er smá upprifjun á gömlu myndbandi frá Láru Hönnu.  http://www.youtube.com/watch?v=5egkmJRikKw  

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.2.2009 kl. 01:31

11 identicon

Rosalega flott hjá þér Valgeir - ég tek hattinn af fyrir þér!! Ég vil skora á þig að lesa nýútkomna bók eftir Hall Hallsson sem heitir "Váfugl" og aðra líka mun eldri sem heitir "Tungumál fuglanna" eftir "Tómas Davíðsson" - "Jón Jónsson" eða "Arnald Indriðason"??

Edda (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 02:08

12 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Þú fólk með eymd í arf!

Snautt og þyrst við gnóttir lífsins linda,

Litla þjóð, sem geldur stórra synda,

Reistu í verki

Viljans merki-

Vilji er allt, sem þarf.

Nú er dagur við ský,

heyr hinn dynjandi gný,

nú þarf dáðrakka menn -ekki blundandi þý.

 Það þarf vakandi önd,

það þarf vinnandi hönd

til að velta í rústir og byggja á ný.

Takk Valgeir fyrir þennan þrumupistil - Nú má ekki sofna, og þó margir góðir menn gefi nú kost á sér þá fer byltingin ekki í framboð. Einhver þarf að hafa eftirlit með eftirlitsmönnunum!

Aðalheiður Ámundadóttir, 25.2.2009 kl. 10:44

13 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Takk fyrir frábæra hugvekju.  Ég hefði gjarnan viljað fá svona hvatningarræðu frá þeim er landinu stjórna á einhverjum tímapunkti.  En þeir eru uppteknir við að rífast.   Ég sakna Vigdísar Finnbogadóttur dálítið sem sameiningartákni þjóðarinnar. 

Anna Einarsdóttir, 26.2.2009 kl. 00:21

14 identicon

Heyr, heyr, varðandi verðtrygginguna. Og reyndar allt hitt líka

Solveig (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 02:04

15 identicon

Kærri Valli!

Langar til að leggja orð í belg.  Ísland er smáþjóð meðal stórþjóða. Hagkerfið er örsmátt meðal stórra. Íslendingar eru fáir meðal fjöldans. Og landið er fagurt og flott langt út í ballarhafi. Þessar staðreindir gera það að verkum minn kæri að fáir ef nokkrir hafa nokkurn áhuga á að yfirtaka eitt né neitt. Enþá hefur ekki verið fundin heppileg leið til að flytja orku þessa óralönguleið frá Íslandi til nærsveita. Þess vegna höfum við nánast gefið billjarða glæpafyrirtækjum allt rafmagnið en rukkum mörlandann. Dæmið ætti náttúrulega að vera á haus. Ef við erum ekki samstíga þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við þá verður kalt til frambúðar á Los klakos. Því þurfum við að efla samstarf við aðrar þjóðir til að halda sjálfstæðinu.

Kveðja frá kærum vini Stefán Sturla

Stefán Sturla (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 18:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband