18.2.2009 | 01:13
Byltingin er hvergi nærri búin.
Nú hamast Íhaldið við að drepa málum á dreif og reynir á sinn rassborulega hátt að kasta ryki í augu almennings. Þessa sama almennings sem hefur orðið að greiða dýru verði fyrir falska góðærið sem íhaldsmenn töldu sig hafa fundið upp og gumuðu sem mest af þegar þeir fóru með völdin og héldu sjálfir í vellystingavímunni að allt væri í stakasta lagi. Nú væri loksins runnin upp gullöld peninga og gróðahyggjunnar. Hér mundu allir geta lifað eins og arabískir olíufurstar.
Annað kom á daginn eins og allir vita. Góðærið sem sauðsvartur almúginn missti að mestu leyti af var ekkert annað en ofhlaðin leikmynd í leiksýningu sem sett var upp í boði Baugs, Kaupþings, Landsbankans og Gliltnis en ríkið veitti styrkinn til að koma sýningunni á laggirnar. Svo kviknaði bara í leiktjöldunum og við blasti autt sviðið. Leikararnir horfnir út í sortann. Black out! Ljós í sal. Áhorfendur ganga út í kuldann án þess að fá miðann sinn endurgreiddann. Og þessi sýning sem hafði fengið svo frábæra dóma. Gagnrýnendur máttu vart vatni halda og málflytjendur og málafylgjumenn kepptust við að ausa hana lofi við hvert tækifæri. Hún sópaði að sér verðlaunum - en svo var bara ekki neitt. Allt í plati rassagati. Áhorfendur setur hljóða.
Almenningur veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Nei - nú er okkur nóg boðið. Við erum ekki fávitar! Heyriði það - þið þarna sem færðuð okkur þennan sjónleik. Nú tökum við til okkar ráða!
Shit! Hvernig gat þetta gerst?
Nú loks þegar tekist hefur með fulltingi þessa sama almennings að munstra upp vandaða konu til að gegna forsætisráðherraembættinu (um stundarsakir) þá gera þeir sem kalla sig sjálfstæðismenn (en eru ekkert nema svartasta íhald) allt sem í þeirra valdi stendur til að leggja hindranir í veg fyrir hana og samstarfsfólk hennar í þeim eina tilgangi að því er virðist að tefja tímann fram að kosningum svo þeir nái að endurskipuleggja lið sitt. Kosningamaskínan er þegar farin að malla og verst af öllu finnst mér þegar stór hluti þess almennings sem íhaldið hefur nú skilið eftir í rústum íhugar í alvörunni að kjósa þá enn og aftur yfir sig.
Núverandi forsætisráðherra frú Jóhann Sigurðardóttir er þrátt fyrir allt sá stjórnmálamaður sem flestir Íslendingar bera traust til svo menn skyldu alvarlega hugleiða lögmálið um flísina í auga náungans og bjálkann í sínu eigin.
Sjálfstæðisenn eru líklega svona öfundsjúkir af því forystumenn þeirra njóta ekki sams konar trausts.
Styrkur Jóhönnu Sigurðardóttur liggur í því að hún kann að hlusta. Ekki bara á þá sem hagsmuna hafa að gæta innan flokksins heldur almenning í landinu. Áratugum saman hefur Jóhanna haft púlsinn á þjóðinni. Hún kann að setja sig í spor annarra og vill öllum almenningi vel. Hún er einkum málsvari lítilmagnans.
Að íhaldið skuli leyfa sér að kalla hana eyðslukló er svo gjörsamlega út úr öllu korti að tekur engu tali. Slík orð dæma sig sjálf eins og önnur orð sem fráfarandi forætisráðherra hefur látið frá sér fara. Hann hefur á aumlegan hátt rembst við að tileinka sér hótfyndni í stíl við vin sinn og sálufélaga Davíð Oddsson en ekki tekist það. Því miður hefur honum ratast mörg feilnótan á munn. ,,Fara ekki heim með sætustu stelpunni á balinu en bara með eitthvað sem gerir sama gagn" - ,,þessar konur hefðu orðið óléttar hvort eð var" ,,ég hefði kannski átt að ræða við Gordon Brown" - ,,ég biðst afsökunar ef/þegar nefndin sem ég skipaði til að rannsaka hrunið kemst að þeirri niðurstöðu að ég þurfi þess ..." o.s.frv. o.s.frv. Það finnst ekki vottur af virðingu fyrir öðrum. Það er ekki reisn yfir neinu sem þessi maður hefur sagt og gert. ,,Guð blessi Ísland" sagði hann.
Töluð orð og tapaður meydómur verða ekki aftur tekin - segir gamall íslenskur málsháttur.
Já - Guð blessar Ísland og það er ekki fyrir tilstuðlan Geirs Hilmars Haarde heldur birtist það miklu fremur í því að nú er hann farinn frá völdum og ætti að sjá sóma sinn í því að sitja hljóður á þinginu og hlusta.
Bara hlusta. Fyrst á hann að læra að hlusta og síðan að hlusta til að læra. Gera sjálfum sér og öðrum þá þénustu að þegja. Þögn er gulls ígildi. Að þegja er göfugt og í trúarbrögðum heims (öllum - takið eftir - í öllum trúarbrögðum heims) er mikið lagt upp úr því að rækta andann með þögninni.
Landsbyggðinni blæðir vegna þeirrar stefnu sem íhaldið hefur haft að leiðarljósi. Smám saman hafa þeir verið að svipta fólkið lífsviðurværinu, færa burt kvóta í hendur sægreifa sem hverfa á brott með peningana. Atvinnutækifærum hefur fækkað verulega. Ef það væri ekki fyrir hugvit, áræði og sköpunargáfu fólksins sjálfs þá væri stór hluti landsbyggðarinnar í eyði.
Ágætur listamaður og kvikmyndaleikstjóri sem þekktur er fyrir vinskap sinn við fyrrum forsætisráðherra þjóðarinnar og núverandi seðlabankastjóra lýsti því einhvern tíma í Kastljósviðtali að það væri skynsamlegast að allir flyttu á suðvesturhornið og svo yrði landsbyggðin (sem þá væntanlega yrði ekki réttnefni að kalla byggð heldur miklu fremur óbyggðir) bara svona til að heimsækja þegar landinn væri i sumarfríi og svoleiðis.
Þessir ágætu herramenn eins og Davíð og fleiri hans nótar í Sjálfstæðisflokknum hafa stundum haft það á orði að það sé ekki hagkvæmt að halda sumum landssvæðum í byggð. Sumir gengu svo langt að ýja að því að það borgaði sig fyrir þjóðarbúið að flytja t.d. Vestfirðinga hreppaflutningum.
Hvernig dettur góðu heiðarlegu fólki úti á landi til hugar að kjósa stjórnmálaflokk sem hugsar ekki um annað en sína eigin hagsmuni? Ég bara spyr?
Gamli ungmennafélagsandinn lýsti sér í setningunni: Íslandi allt!
En íhaldið segir: Flokkurinn framar öllu! Völd! Meiri völd!
Nú standa þeir í vegi fyrir stjórnlagaþingi af því að þeir kæra sig alls ekkert um breytingar. Þeim finnst þetta fínt eins og þetta er og sjá ekkert athugavert við ástandið. Af því þeir eru ÍHALD!
Þeir vilja halda í gamla flokksveldið. Þeir halda að þeir séu útvaldir af Guði til að stjórna landinu og heilaþvo almenning svo hann fer að trúa því að íhaldið sé eini stjórnmálaflokkurinn sem stýrt geti efnahagsmálum á Íslandi.
Í ÁTJÁN ÁR hafa þeir stýrt efnahags-og peningamálum þessa lands. Hvernig tókst til?
Almenningur, láglaunafólk og þeir sem einarðlega hafa stritað í sveita síns andlits, tekið lán til að koma yfir sig þaki og látið hneppa sig í vistarband verðtryggingar, einokunar, okurvaxta og skattpíningar er látinn taka á sig óyfirstíganlegar skuldir þjóðarbúsins sem taglhnýtingar og viðhlæjendur íhaldsins hafa sökkt okkur í. Og sjá ekki einu sinni hvernig í veröldinni þeir beri ábyrgð á því hvernig komið er. Er nema von að maður fyllist reiði og vonleysi.
Jóhanna Sigurðardóttir verður að halda áfram að hlýða kalli fólksins. Hún hefur gert það fram að þessu og nú þarf hún stuðning þjóðarinnar til að knýja á um stjórnlagaþing svo hægt verði í alvörunni að setja hér á stofn annað lýðveldi. Fólk verður að fá að velja sér fulltrúa á þingið. Valdið kemur frá fólkinu og þeir sem stjórna eru í þjónustu almennings. Við getum ekki umborið það lengur að siðblindingjar sitji að völdum.
Jafnvel þótt Framsóknarflokkurinn sjái nú tækifæri á að rétta hlut sinn og auka fylgi sitt með loforðum um siðbót og sýni fram á endurnýjun í flokknum þá treysti ég flokknum ekki. Framsóknarmenn gætu verið úlfar í sauðagæru sem sjá bara ný sóknarfæri í að setjast að einhverjum kjötkötlum eins og þeirra er siður. Þeir munu væntanlega reyna að tryggja sér nógu mikið fylgi til að koma sér í oddaaðstöðu eins og t.d. núna. Núna geta þeir haldið ríkisstjórn í gíslingu kæri þeir sig um.
Ég óttast Framsóknarflokkinn. Ég óttast að hann muni ekki gera upp fortíðina á trúverðugan hátt þrátt fyrir að vera búinn að troða ungu fólki í framlínuna. Gamlir spilltir refir eru ekki langt undan.
Söngur Sivjar í þingsölum hljómar falskt.
Góðir Íslendingar - við verðum að fá eitthvað annað til að kjósa en það sem er í boði núna.
Að síðustu legg ég til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin.
Valgeir Skagfjörð, borgari
Athugasemdir
Heyr, heyr, mér líst í raun eins á þessa hluti í stórum dráttum. Vil sjá að Ingibjörg Sólrún axli ábyrgð og bjóði ekki upp á annað en alheilbrigðan einstakling í forystuhlutverk flokks og þjóðar. Við höfum fengið nóg af sjúkum og hálfsjúkum valdamönnum. Megi lýðurinn vera í öndvegi. Þessir menn eiga ekki þjóðina heldur eru kosnir sem þjónar hennar og ættu að hegða sér sem slíkir.
Heiða H18 (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 01:36
Sjálfsstæðisflokkurinn hefur selt sjálfstæði okkar og æru fyrir nokkra gullpeninga, til útvaldra. Við erum betlarar á alþjóðavísu í dag. Aldrei aftur sjálfsstæðisflokkinn í stjórn..
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.2.2009 kl. 01:36
Ég trúi ekki þessum könnunum um að sjálfstæðisflokkur sé svona stór. Hverjir eiga og reka þessi könnunarfyrirtæki hvað sem þau heita???
Held að það sé verið með skipulegum hætti að slá ryki í augu almennings. Svo eru spurningarnar oft ansi ruglingslegar og leiðandi. Hef enga trú á þessu fylgi þeirra.
Ína (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 02:11
Vá hvað það er greinilega komið í tísku að froðufella yfir Sjálfstæðisflokknum. Helst öskra á hann öllu því skítkasti sem hægt er að láta sér detta í hug að láta út úr sér.
En fremur ömurlegt er að sjá þá sem helst voru á uppsprengingunni í góðærinu og útrásinni snúast við og gjamma nú í kapp við kommana.
Maður ætti að fylgjast betur með þér og Hallgrími Helgasyni til að sjá hvaða stjórnmálaskoðanir eru í tísku þann daginn.
Kolbeinn (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 02:55
Þakka kjarnyrta og góða grein.
Vona svo sannarlega að Íslendingar kjósi ekki aftur yfir sig sinn Berlosconi.
Ef svo verður er þjóðinni ekki viðbjargandi!
ingad (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 04:28
Góður pistill Valgeir, vona svo sannarlega með þér að kannanir um fylgi Sjálgræðgisflokksins séu stórlega ýktar og gerðar af batteríi í þeirra eign.
Rut Sumarliðadóttir, 18.2.2009 kl. 11:41
lifi byltingin.... og svona til gamans má geta þessa að ég búin að "fylgjast með og heyra stjórnmálaskoðanir" bloggarans í meira en nokkur ár , og þær hafa ekkert með tísku að gera. allaballi..??hvernig er það skrifað? fyrir allan peninginn síðan ég man eftir mér.Höfum það bara á hreinu !!
Erla Skagfjörð (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 14:36
Ég hef fulla trú á því að Ingibjörg Sólrún viti sín takmörk nú orðið vegna heilsu sinnar. Skil hana persónulega mjög vel. Varð mjög veik sjálf fyrir nokkrum árum og þurfti í framhaldinu að skipta um starfsvettvang. Það tók min dálítinn tíma að viðurkenna vanmátt minn gagnvart gamla starfinu, en það tókst.
Ætla reyndar rétt að vona að ISG nái fullri heilsu.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 20.2.2009 kl. 16:57
Kvitta bara til að minna á að ég hef lesið færsluna. 'eg bý erlendis og hélt að engin maður væri til með vit í höfðinu lengur á Íslandi.
Óskar Arnórsson, 22.2.2009 kl. 12:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.