13.2.2009 | 10:37
Sama vínið á sömu belgjunum
Erum við að tala um að pólitíkusar á Íslandi sýni enga tilburði í þá átt að læra nokkurn skapaðan hlut af því sem gerðist hérna hjá okkur? Er sumum gjörsamlega fyrirmunað að líta í eigin barm og skoða sjálfan sig með gagnrýnum huga?
Ef menn ætla að þroskast þá þurfa þeir að temja sér sjálfsgagnrýni. Sjálfgagnrýni felst að hluta til í því að þekkja styrk sinn og veikleika jafnt. Þekkja vitjunartíma sinn. Vita hvenær á að sækja og hvenær á að víkja. Að hluta til felst sjálfsgagnrýni í því að viðurkenna vanmátt sinn. Allir geta eitthvað, en enginn getur allt. Þó er eins og alltof margir álíti sig geta allt.
Af því sem maður heyrir núna t.d. af umræðum á alþingi og því sem stjórnmálamenn svona almennt láta frá sér í ræðu og riti, þá er engu líkara en hér á Íslandi hafi bara ekki nokkur maður gert nokkurn skapaðan hlut af sér. Hér gerði enginn mistök - - a.m.k. engin mistök sem ástæða væri til að biðjast afsökunar á.
Hér voru stundaðar markvissar blekkingar og heilaþvottur sem gekk út á það að segja okkur að hér væri allt í stakasta lagi. Að við værum svo miklir snillingar og umheimurinn héldi vart vatni yfir því hvað þessi smáþjóð norður í ballarhafi væri stórhuga, áræðin og laus við minnmáttarkennd.
Síðan er hulunni svipt af blekkingunni í einu vetfangi, en þá er bara enginn sem getur svarað fyrir neitt af því enginn þorir að viðurkenna að hafa tekið þátt í blekkingaleiknum. Svo halda menn bara áfram í honum í þeirri trú að enginn taki eftir því. Reyna af veikum mætti að skrapa yfir skítinn sinn en allir sjá og allir vita. Hvers konar framkoma er þetta við þjóðina?
Enn og aftur á að púkka upp á gamla kerfið. Það er hent í okkur dúsu með loforðum um breytingar, bót og betrun á hinu pólitíska landslagi á Íslandi. Þó fæ ég ekki betur séð en hér verði allir við sama heygarðshornið áfram. Bíða bara eftir því að reiðiöldurnar lægi og svo verður haldið áfram sem fyrr.
Við völd sitja gamaldags stjórnmálaflokkar og innan þeirra stendur sama liðið í biðröðinni eftir að fá að komast á lista og telur nú víst að röðin sé komin að sér. Ég get ekki séð á því hvernig atburðarásin sem nú er að fara í gang leiðir til þeirra breytinga sem við þurfum á að halda hér í samfélagi sem rambar á barmi stjórnleysis og upplausnar.
Ég sé gámana fyrir utan húsin. Íbúðir og hús tæmast. Unga fólkið hverfur af landi brott og heldur á vit nýrra tækifæra.
Eina leiðin til að losna undan vistarbandi okurvaxta, verðtryggingar, fákeppni og verðsamráðs er að yfirgefa landið. Sem þrátt fyrir allt er svo fagurt og frítt og svo gjöfult og gott.
Einmitt þess vegna slást valdasjúkir auðmenn og pólitíkusar um að eignast það. Er það heilbrigt? Ætlum við ekki að komast út úr þessari Sturlungaöld? Hver vill varða okkur veginn? Hver er þess umkominn að varða okkur veginn inn í næsta tímabil sögu vorrar?
Nú er þessum fyllerískafla að ljúka og við þurfum augljóslega að þjást eitthvað tímabundið af timburmönnum. Sumir fá eflaust deleríum tremens en smám saman mun renna af okkur og þegar við förum að sjá veröldina eins og hún er og förum að horfa með opnum gagnrýnum huga á rústirnar eftir fellibyl frjálshyggjunnar þá gæti svo farið að okkur muni fallast hendur.
Þjóðin hefur alið af sé kynslóð sem aldrei hefur liðið skort. Kynslóð sem alltaf hefur haft til hnífs og skeiðar. Hungurvofan hefur ekki ásótt það. Það hefur ekki lifað það að vera í óvissu um hvort það fær að borða næsta dag.
Amma mín lifði tvær heimstyrjaldir, drepsóttir og kreppur en aldrei kom henni nokkru sinni til hugar að yfirgefa landið. Það var bara ekki í boði og enda kannski engin tækifæri til þess á þeirri tíð. Hún elskaði landið sitt þrátt fyrir allt. Það var samofið sögu hennar, sál hennar og tilfinningalífi. Það hafði fóstrað hana, forvera hennar og börnin hennar og fyrir því skyldi hún fremur deyja en yfirgefa landið sitt. Þrátt fyrir að aðrir áar hennar hefðu flutt til Ameríku á öldinni sem leið af sömu ástæðu og þeir sem flýja landið núna. Vistarband.
Verðtrygging, okurvextir, hátt matvælaverð, fákeppni, auðsöfnun fárra útvaldra og stjórnmálamenn sem láta auðveldlega ginnast af gylliboðum auðjöfra er ekki góð uppskrift að fyrirmyndarþjóðfélagi.
Nú er svo komið að alþýða manna er í vistarbandi. Ef ekki verður höggvið á þetta band þá stöndum við frammi fyrir stórbrotnum fólksflutningum héðan. Karlar eins og ég munu þrauka enda kann ég þá list að lifa blankur og hef löngum gert. Ég er með mastersgráðu í basli. Ef ég væri tuttugu árum yngri mundi ég ekki hika við þessar aðstæður.
Hver vill svo sem fara? Það vilja það ekkert endilega allir en fólki eru allar bjargir bannaðar. Kerfi sem hneppir fólk í svona ánauð er dæmt til að springa einn góðan veðurdag. Kommunisminn hrundi, frjálshyggjan hrundi en mannsandinn er ekki hruninn - ekki ennþá.
Nú verður öld mannsandans að ganga í garð. Nú þurfum við að ganga hönd í hönd inn í öld þar sem peningahyggja og neysluhyggja stýra ekki hugsun okkar og gjörðum. Mannkærleikur er það eina sem heldur okkur saman og við þurfum að sameinast um gildi og stefnumið þar sem rúm er fyrir mannkærleika.
Við eigum að reisa hér þjóðfélag sem byggir á einföldum gildum eins og t.d. Almennri heilbrigðri skynsemi.
Ég vil hvetja þá sem á undanförnum vikum og mánuðum hafa verið að tjá sig opinberlega til þess að koma fram - myndum stóra breiðfylkingu fólks sem hefur mannkærleikann sem yfirmarkmið og fylgir stefnu sem heitir: HEILBRIGÐ SKYNSEMI!
Þingmenn og ráðherrar! Hættið þessu karpi þarna inni á þinginu og farið að gera eitthvað fyrir fólkið í landinu. Komið upp úr skotgröfunum, takið höndum saman og farið að vinna þjóðinni gagn. Ekki sjálfum ykkur og ykkar meðhlaupurum. Nú er heilbrigð skynsemi að hafa hagsmuni fólksins að leiðarljósi.
Eins og staðan er, þá langar mig ekki að kjósa neinn af þeim flokkum sem núna eru í boði. En ég væri til í að kjósa margt af þessu ágæta fólki sem er í hinum ýmsu flokkum og svo auglýsi ég eftir nýju fólki. Mig vantar nýtt fólk svo ég geti kosið það. HJÁLP!
Að síðustu legg ég til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin.
Valgeir Skagfjörð, borgari
Athugasemdir
Þessi pistill er eins og samantekt á því sem fór fram í hausnum á mér á leiðinni í vinnu í morgun.
Pólitíkusarnir eru ekki að gera neitt fyrir okkur ...nema þá helst þvælast fyrir. Ég átti svo sem aldrei von á að þeir myndu rísa upp allir sem einn í baráttuhug fyrir þjóðina sína.... En ég átti klárlega von á að nú fengjum við að sjá hverjir væru alvöru. Þeir myndu rísa upp og með framgöngu sinni gnæfa yfir alla hina og færa þjóðinni von með baráttuanda og hugsjónum sínum........ Bjartsýn kona.
Ég fer ekki fet. Ég á þetta land og ég læt ekki flæma mig í burtu.
En mig vantar hetju sem leiðir okkur hetjurnar af stað í uppbyggingu. Við höfum séð marga taka þátt í þjóðfélagsumræðunni undanfarið sem eiga fullt erindi í stjórnsýsluna og mig er farið að lengja eftir því fólki.
Heiða B. Heiðars, 13.2.2009 kl. 11:05
Mikið er ég sammála þér mig vantar líka nýtrt fólk til að kjósa pleeeees gefið ykkur framm sómi Íslanda sverð og skjöldur.
Kristín (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 17:31
eins og talað út úr mínum huga
Gunna-Polly, 14.2.2009 kl. 00:41
Mikið er ég sammála þér. Var að skoða fasteignasíðu mbl fyrir nokkrum dögum og fékk nú bara vægt áfall þegar ég sá hvað lánin á húsnæðunum höfðu hækkað mikið útaf verðtryggingu og fleiru sem klínt eru á lánin! Hrikalegt að sjá þetta og hvernig á fólk að geta greitt af þessum lánum? Það verður að gera eitthvað róttækt og það strax!
Eigðu góða helgi.
Nína Margrét (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 03:31
Kvitta.
Óskar Arnórsson, 22.2.2009 kl. 12:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.