Framboð til stjórnar Borgarahreyfingarinnar

 

Yfirlýsing

Góðir félagar - samherjar og aðrir.

Ég – Valgeir Skagfjörð, varaþingmaður Borgarahreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi lýsi yfir framboði mínu til stjórnar Borgarahreyfingarinnar sem kosin verður á auka- aðalfundi Borgarahreyfingarinnar n.k. laugardag kl. 13.00 að Borgartúni 3 í Reykjavík.

 Ávarp

 Ég lýsi mig reiðubúinn til að starfa í stjórn Borgarahreyfingarinnar og sinna hvaða því embætti sem mér verður falið af heiðarleika og trúmennsku. Það er trúa mín að innan hreyfingarinnar sé að finna gott, velþenkjandi og heiðarlegt fólk sem vill veg og vanda almennings sem mestan.

Að fortíð skal hyggja

Ég starfaði í annarri stjórnmálahreyfingu um margra ára skeið. Ég gegndi trúnaðarstörfum fyrir fyrir hana, var í framboði til bæjarstjórnar, tók þátt í prófkjöri og var svo gerður að kosningastjóra. Allt væri þetta varla í frásögur færandi nema hvað þessi reynsla mín af því að starfa sem kosningastjóri færði mér heim sanninn um að stjórnmál og heiðarleiki fara ekki alltaf saman.

Lengi má manninn reyna – hugsaði ég með mér þegar þessari kosningabaráttu lauk. Ég gekk til trúnaðarstarfa að loknum kosningum og varð vitni að vinnubrögðum í stjórnsýslu sem ekki eru beinlínis til mikillar fyrirmyndar.

Ég sagði mig frá þessum starfa á sínum tíma og hugsaði með mér að aldrei nokkurn tíma skyldi ég koma nærri pólitík framar.
 
Síðan liðu mörg ár og þegar hrunið átti sér stað í haust varð mér endanlega ljóst að pólitík á Íslandi væri ekki við bjargandi. Hér væru allar hugsjónir löngu foknar út í veður og vind og það sem einkenndi pólitíkina hér hjá okkur var fyrst og síðast valdabrölt – framapot, bitlingadílar, óheiðarleiki, sviksemi, fégræðgi, sérplægni, eigingirni og spilling hvar sem borið var niður.

Þessa framhaldssögu þekkjum við og höfum upplifað saman og hún heldur áfram því enginn endir virðist vera á spillingu og nýjum skandölum. Ein og ein frétt þess efnis að verið sé að rannsaka einstaka mál vekur raunar vonir um að þokist hænufet fram á við. 

Nýjar vonir

Það var þess vegna fagnaðarefni hjá mér þegar ég komst að því að við gætum hugsanlega breytt þessu. Að við gætum hugsanlega vakið þjóðina upp af dásvefni og hvatt hana til dáða með því að trúa á nýjar hugmyndir.

Hugmyndir um stofnun nýs lýðveldis á Íslandi þar sem grunnstoðir samfélagsins yrðu endurbyggðar, grunngildin yrðu endurmetin, stjórnskipan færð í átt til virkara lýðræðis og hugað að réttlæti til handa borgurum þessa lands.

Meira að segja hugmyndir Vilmundar heitins Gylfasonar um að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu (franska leiðin) fóru að eiga upp á pallborðið.

Einhverjir þorðu að vekja þessar hugmyndir til lífs. Ég sjálfur var orðinn úrkula vonar um að íslenskt stjórnmálalíf gæti nokkurn tíma lyft sér upp á hærra plan,  en eftir hrunið mikla fór að hilla undir nýja tíma.

Það varð að koma fram nýtt stjórnmálaafl þvert á vinstri og hægri stefnu. Stjórnmálaafl sem vildi taka afstöðu með almenningi í þessu landi. Borgurunum.


Ný stjórnmálahreyfing

Borgarahreyfingin var það nýja stjórnmálaafl sem spratt upp af þessum hugmyndum og ég hreifst með eins og margir aðrir og gekk svo langt að láta til leiðast að taka þátt í pólitík aftur á grundvelli þess að hugsjónir fengju nú einu sinni brautargengi í kosningum í stað misviturra gamalla lausna sem við höfum séð alltof mikið af í gegnum tíðina.

Kraftaverkið gerðist. Á mettíma tókst með samstilltu átaki fjölmargra einstaklinga með brennandi áhuga og fallega pólitíska hugsýn að fá kjósendur til að velja Borgarahreyfinguna - af  þeirri einföldu ástæðu að stefnumál hennar höfðuðu til þeirra og margir þeirra sem eru orðnir þreyttir á sömu flokkunum og sama fólkinu þar innanborðs höfðu nú loksins raunverulegan valkost.

Fjórir þingmenn inni á löggjafasamkundunni. Árangur sem var framar öllum vonum.

En hvað svo? 

Traust

2/3 hlutar þjóðarinnar vantreystir pólitíkusum. Jafnvel stærri hluti þjóðarinnar treystir ekki alþingi. Við höfum rætt það mikið í aðdraganda kosninganna hve traust er mikilvægt. Traust milli manna er á þrotum víðast hvar út um samfélagið. Þjóðin öll er orðin vænisjúk af allri spillingunni og lái henni hver sem vill.

En það verður samt að skapa traust.

Eitt af verkefnum Borgarahreyfingarinnar er að vinna að því inni á alþingi að skapa traust milli þjóðar og þings og traust milli manna. Byggja brú fyrir þjóðina inn á þing. Það þýðir ekki nema eitt. Allir, bæði  þingmenn og félagsmenn í Borgarahreyfingunni verða að geta treyst hverjir öðrum. Öðruvísi getum við ekki ætlast til þess að kjósendur treysti okkur.

Það er mín skoðum að kjósendur hafi merkt x við O vegna þess að þeir treysta Borgarahreyfingunni til góðra verka. Við verðum þess vegna að róa að því öllum árum að treysta hreyfinguna innbyrðis.

Við verðum að búa okkur skipulag og innri strúktur til að lýðræði,  gagnsæi og heiðarleiki geti orðið stór hluti af þeim grunngildum sem við kjósum að starfa eftir.

Það er ekki boðlegt að fara í flokkadrætti innanbúðar og endurtaka síðan með tilbrigðum sögu Frjálslynda flokksins. Við erum lögð upp í vegferð sem við sjáum ekki fyrir hvert muni leiða okkur en förum bara fetið áður en við hleypum á skeið.

Vegferðin

Við erum með ómálga barn í höndunum og það er á okkar ábyrgð að koma því til manns.

Það eru fleiri verkefni sem bíða okkar. Sveitastjórnarkosningar að ári og víst er að mörg sveitarfélög eru gegnsýrð af spillingu og Borgarahreyfingin gæti vel sett sín lóð á vogarskálarnar þar ef henni byði svo við að horfa.

Ég hef fulla trú á því að við getum verið samstiga og haldið í þessa vegferð saman og í sátt með okkar góðu stefnumið að leiðarljósi. 

Það verður auðvitað alltaf ágreiningur um eitt og annað,  en það er einmitt til marks um þroska félagasamtaka og fólks almennt hvernig það tekst á við ágreininginn og leysir hann.

 Lokaorð

Borgarahreyfingin þarf  að sýna það í verki að hún standi fyrir réttlæti, lýðræði, gagnsæi og heiðarleika. Það er undir okkur öllum komið. Ef mig misminnir ekki þá hugðumst við innleiða hugtakið pólitísk ábyrgð. 

Ég er talsmaður þess að taka hér upp siðferðilega og pólitíska ábyrgð – ekki bara í orði heldur líka á borði.

Ég óska eftir stuðningi ykkar kæru félagar á auka aðalfundinum.

Góðar stundir.

Valgeir Skagfjörð, borgari. 

 

e.s. Svo legg ég til að verðtrygging verði aflögð hið fyrsta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: HR

Og afstaðan til ESB og evru er.............?

HR, 11.6.2009 kl. 01:08

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Til hamingju með framboðið.  Ég er stolt af því að tilheyra Borgarahreyfingunni, þingmennirnir okkar hafa staðið sig vel fram til þessa.  

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.6.2009 kl. 01:17

3 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Flottur Valgeir, mér líst vel á.

Baldvin Björgvinsson, 11.6.2009 kl. 09:31

4 Smámynd: Fannar frá Rifi

gangi þér vel í þessu, en er Borgarahreyfingin orðin að flokki sem þarf yfirbyggingu og miðstýringu? spyr bara af forvitni?

Fannar frá Rifi, 11.6.2009 kl. 14:35

5 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Gott til þess að vita af þér innanborðs hjá Borgarahreyfingunni, því ég veit hvað þú getur afrekað.  Gangi þér allt í haginn,  ég trúi ekki öðru en að þér verði fagnað vel og lengi í stjórn Borgarahreyfingarinnar, og þar munir þú láta verkin tala.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 12.6.2009 kl. 01:05

6 Smámynd: Baldvin Jónsson

Til lukku með kjörið Valgeir, hlakka til að takast á við verkefni uppbyggingar með þér :)

Fannar, Borgarahreyfingin ætlar sér ekki að verða hefðbundinn flokkur ef þú ert að velta því fyrir þér. Við höfum þó alla tíð gert okkur grein fyrir því að stjórn þarf að vera í hreyfingunni til þess að halda utan um daglegt vafstur. Grasrótin er hins vegar kjarni okkar og leiðarljós.

Baldvin Jónsson, 14.6.2009 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband