29.4.2009 | 10:19
Láta hendur standa fram úr ermum
Hvar eru nú hvatvísu áhlaupamennirnir? Hvar eru nú allir sem vettlingi geta valdið? Hvernig stendur á því að nú þegar kosningar eru afstaðnar þá ætla menn bara að setjast niður í rólegheitum og kjafta sig gegnum hlutina á meðan atvinnulífið er við það að lamast og heimilum landsmanna blæðir smám saman til ólífis?
Það er eins og það sé brýnast af öllu að snúa einum stjórnmálaflokki frá villu síns vegar í Evrópumálum í stað þess að senda út skýr skilaboð til þjóðarinnar um að nú muni allt verða sett í gang til að koma hjólum atvinnulífsins í gang og hrinda í framkvæmd neyðaraðgerðum fyrir heimilin.
Hvar eru skilaboð þess efnis að lækka stýrivexti? Hér eru allir tilbúnir að sveifla haka, rækta nýjan skóg, spúla dekkin, moka flórinn, sópa frá útidyrum til að takast á við þá nýju tíma sem framundan eru.
Nei - þess í stað segjast stjórnarflokkarnir ætla að taka sér nægan tíma í viðræðurnar til að ná að lenda Evrópumálinu.
Þetta má ekki ganga svona mjög lengi. Sumarþing verður að taka til starfa sem fyrst svo hægt sé að fara að vinna. Lóan er komin, að kenna okkur að vaka og vinna og nú þýðir bara ekkert að setja allan fókus á ESB það eru brýnni mál uppi á borðinu sem þarf að leysa.
Það færi vel á því að Borgarahreyfingin, nýja aflið á alþingi setti fram þá tillögu að stytta sumarfrí þingmanna svo þeir geti farið í það strax að vinna með fólkinu að því að reisa landið við.
Það er ekki boðlegt að láta þjóðina bíða eftir því að Jóhönnu og Steingrími J. þóknist náðarsamlegast að láta okkur vita af því að búið sé að finna lendingu í ESB málinu. Þótt það mál sé ef til vill mikilvægt upp á framtíðaráform að gera en það verður að grípa til aðgerða hérna heima eigi síðar en STRAX!
Þjóðin hefur þurft að sætta sig við yfirgengilega hrokafulla framkomu í tíð fráfarandi ríkisstjórnar og ég hélt satt að segja að nú væri loksins að hilla undir að við fengjum stjórn sem kæmi fram við almenning af virðingu, en ég sé ekki betur en að sami leikurinn sé að fara í gang.
Sannleikurinn settur á bið. ESB gert að aðalatriði á meðan atvinnulífið og almenningur sekkur hægt og bítandi ofan í kviksyndið. Krónan verður áfram jafn eftirsótt og vígt vatn í helvíti. Fjármagnseigendum hlíft eins og kostur er. Skuldirnar hlaðast upp. Almenningur veit ekki sitt rjúkandi ráð og við sjáum stefna í örvæntingu fólks sem er að missa allt sitt og er tilbúið til að gera hvað sem er til að bjarga sér eða það hreinlega gefst upp.
Nú verða þeir sem hafa lifað hér í vellystingum praktuglega árum og áratugum saman að taka þátt í þessu samfélagi okkar. Auðjöfrarnir sem léku sér með fjármagnið eins og spilapeninga verða að sjá sóma sinn í að hjálpa við endurreisnina og hætta að leika fórnarlömb. Allt upp á borð. Við fyrirgefum ef sýnd er iðrun og yfirbót. Nú er ekki tíminn til að leggjast í skotgrafir og benda á hina.
Aldrei var meiri þörf en núna fyrir að hætta í leiknum ,,ég hef rétt fyrir mér - þú hefur rangt fyrir þér".
Nú auglýsi ég eftir góðum hugmyndum. Almenningur þarf að stofna hugmyndaráðuneyti og svo felum við þingi og ríkisstjórn að hrinda bestu hugmyndunum í framkvæmd.
Þetta reddast ekki fyrir Evruna og ESB þetta mun reddast þrátt fyrir Evruna og ESB. Núna verður að koma almenningi til bjargar.
HRAÐAR HENDUR! ÞAÐ ER VERK AÐ VINNA!
Valgeir Skagfjörð, borgari.
e.s. Verðtrygginguna burt. NÚNA!
Athugasemdir
Ég gæti ekki verið meira sammála. Það fer rosalega í taugarnar á mér að horfa upp á vinstriflokkana tvo karpa meðan heimilum og fyrirtækjum blæðir út.
Það er ekkert að gerast í þessu landi varðandi fjármálin.
Verst standa sig þó fjölmiðlarnir sem gera enga kröfu á pólítíkusana sem nýbúið er að kjósa á þing. Ekkert er að gerast og ekkert er framundan.
Baldvin Björgvinsson, 29.4.2009 kl. 11:11
Verkin eru fyrir hendi og Borgarahreyfingin þarf ekki að bíða eftir stjórnarmyndun. Þú auglýsir eftir góðum hugmyndum og hér er þrjár:
Héðinn Björnsson, 29.4.2009 kl. 14:15
Af hverju mæta ekki þessir 4 þingmenn frá ykkur ekki í alþingishúsið og byrja þing.
Það yrði flott uppákoma sem myndi kannski kveikja í þessum heilalausa meiruihluta.
S. Lúther Gestsson, 29.4.2009 kl. 14:56
Mig langar að þakka Héðni fyrir hugmyndirnar, en má til með að geta þess að smíði lagafrumvarpa (og annarra þingmálategunda) er þegar hafin. Afkomumál heimilanna (í víðum skilningi) eru efst á blaði, en stjórnskipunarmál skammt undan. Líka verður frá byrjun vandlega fylgst með meðhöndlun mála vegna orsaka og afleiðinga hrunsins. Svo nokkuð sé nefnt.
Friðrik Þór Guðmundsson, 29.4.2009 kl. 14:56
Ég leyfði mér að líta svo á að þessir tveir stjórnmálaflokkar hefðu gengið til viðræðna með skýr markmið en eitthvað ólíkar áherslur. Þetta er hefðbundið orðalag sem flestir kunna utanað. Það var á allra vitorði að annar hópurinn vildi ganga tafarlaust til viðræðna við ESB klúbbinn en hinn var því andvígur. Nú hefur það komið fram að hálfu talsmanna klúbbsins að okkur bjóðast engar undankomuleiðir hvað varðar yfirstjórn fiskistofna og yfirráð. Þetta finnst mér að nú standi upp úr. En nú sýnist mér svo komið að ekki verði undan því vikist að senda einhverja gapuxa til þessara viðræðna og fá úr því skorið hvað eigi að bjóða íslensku þjóðinni að taka ákvörðun um. Sjálfur er ég þeirrar trúar að svarið muni líkjast því sem "kaupmaður segir við lélegan kaupunaut að hér fáist enginn dúkur utan sá eini dúkur sem kenndur er við snillínginn Hessían" svo vitnað sé til bóndans á Gljúfrasteini og eftir brigðulu minni. En nú sýnist mér að ekki sé tími til mikilla rólegheita því það eru reyndar önnur verkefni fyrir þessa ríkisstjórnarflokka en að karpa um það hvor eigi að gefa eftir fyrir hinum.
Reyndar segir nú hann Bjarni Har. kaupmaður á Króknum alltaf að rólegheitin séu bestu heitin.
Árni Gunnarsson, 29.4.2009 kl. 15:02
Margir góðir punktar í þessu hjá þér. Mig langar samt að benda þér á að Hugmyndaráðuneytið hefur þegar verið stofnað af almenningi í sjálfboðastarfi. Hugmyndaráðuneytið er flottur félagsskapur vegna þess að hann leitar að framtíðarsýn en veltir sér ekki upp úr fortíðinni og allir eru velkomnir á vikulega fundi.
Ég mæli með þessum tveimur myndböndum sem skýra hugmyndir hópsins (dáldið langt en VEL ÞESS VIRÐI að gefa sér tíma til að horfa)
http://www.hugmyndaraduneytid.is/?p=771
Þetta þýðir samt ekki að FLEIRI hugmyndaráðuneyti ættu að taka til starfa hið allra fyrsta. Margar hendur vinna létt verk!
Kristrún (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 15:21
-"Sannleikurinn settur á bið. ESB gert að aðalatriði á meðan atvinnulífið og almenningur sekkur hægt og bítandi ofan í kviksyndið."-
Velkominn í pólitík, Valgeir. Ertu að segja að ESB sé aukaatriði? Sérðu ekki að lausnirnar eru þar? Misminnir mig varðandi stefnu BHr? Hvaða skoðun hefurðu á stóra heiðurslaunamálinu? Er bara Brigitta með skoðun?
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 21:02
Ég held að það væri verra ef allt snerist í kringum stjórnarsáttmála. Mér er því rórra við að heyra að í því máli séu ákveðnir fulltrúar flokkanna sem ætli ekkert að vera að hamast heldur taka sér góðan tíma.
Því að þá er kannski meiri von til að hinum krefjandi úrlausnarmál hvers dags og hverrar viku verði sinnt á fullu án þess að stjórnarsáttmáli sé að trufla það.
Ómar Ragnarsson, 29.4.2009 kl. 23:23
Ég legg til að við fyrsta tækifæri verði sett ný lög sem hindra svona fjármálaspillingu, loka fyrir útrásarbarónana. Banna þeim öll viðskipti með hlutabréf. Setja seðlabankanum og hinum bönkunum skýrar reglur, sem banna skuldsetningu umfram eignir. Og svo banna verðtrygginguna.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 30.4.2009 kl. 01:42
Fullkomlega sammála Valgeir. Þessir háu (ráð)herrar verða að fara að koma með varanlegar lausnir fyrir fyrirtæki og heimili. Ég þekki óhugnanlega marga sem eru fluttir eða eru að flytja úr landi.
ESB er ekki að fara að bjarga okkur Íslendingum. Sem betur fer sjá það flestir.
Guðmundur St Ragnarsson, 30.4.2009 kl. 04:48
Til hamingju með árangur FLOKKSINS Valli minn. Nú er það þolinmæði sem skiptir mestu máli. Það er ríkisstjórn við völd. Sú sama og er að vinna að nýjum sáttmála. Þessi ríkisstjórn þarf ekki lengur að dansa eftir duttlungum Framsóknarflokksins og er því að vinna að framgangi ýmisa þarfamála án undarlegra hugmyndafræði XB. Góður og traustur stjórnarsáttmáli er mikils virði fyrir Íslandinga í dag. Styrkur góðrar stjórnarandstöðu er að skipuleggja sig. Það á hvergi að fúska eða flana að framgangi alvöru mála.
Kær kveðja Stefán Sturla
Stefán Sturla (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 22:22
Sæll Valgeir .
Mjög góð grein hjá þér, sem ég, get allveg kvittað undir.
Ég þoli ekki þetta aðgerðarleysi, Eru Jóhanna og Steingrímur að reyna á langlundargeð Búsáhaldarhreyfingarinnar.... mér er spurn ?
Kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 03:06
Mikið rétt Valgeir. Nú tökum við til hendinni og förum að tala við þjóðina.
Arinbjörn Kúld, 2.5.2009 kl. 11:35
Er nema von að þú spyrjir eftir hverju sé að bíða. Fín grein hjá þér.
Magnús Guðjónsson, 4.5.2009 kl. 13:15
þú segir ; "e.s. Verðtrygginguna burt. NÚNA! "
Ég spyr þá, hvernig er það hægt með Ísl. krónuna ?
Ég er ekki hagfræðimenntuð, tek því fram, enn hvernig færi þá með t.d. Íbúðarlánasjóð, LÍN og fl. ?
Heiður (IP-tala skráð) 12.5.2009 kl. 10:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.