27.4.2009 | 18:13
Að loknum kosningum
Kæru bloggvinir, og landsmenn allir til sjávar og sveita. Hið ótrúlega hefur gerst að nýtt fárra vikna gamalt framboð hefur fengið 4 menn inn á þing. Hver hefði trúað þessu?
Þessi vegferð sem hófst hjá mér með saklausu bloggi í kjölfar mótmælanna á Austurvelli s.l. haust hefur verið með hreinum ólíkindum. Í kjölfar bloggsins flutti ég ræðu á Austurvelli, daginn eftir mættur í Silfur Egils og fáeinum dögum síðar kominn í framboð fyrir nýtt óþekkt stjórnmálaafl sem hafði það eitt að leiðarljósi að koma á breytingum í samfélaginu, krefjast siðferðislegra reikningskila, bjarga heimilum sem eru að komast á vonarvöl og reisa nýtt lýðveldi á Íslandi úr öskustó kerfishrunsins.
Þessi markmið hæfðu mig í hjartastað og í stað þess að nota lýðræðislegan rétt minn til að kjósa þá bætti ég um betur og fór sjálfur í framboð vegna þess að mitt framlag til heimsins er síst lakara en annarra. Að kjósa einhvern af gömlu flokkunum hugnaðist mér engan veginn.
Mér þótti fálátt mannval á þingi og þá var ekki nema um eitt að gera og það var að fylgja orðatiltæki sem móðir mín notaði stundum: ,,Ef þú vilt fá eitthvað gert, þá gerðu það sjálfur.
Ég áttaði mig á því að ég gat haft áhrif og beitt mér ef ég vildi og það fann ég þegar ég gekk til liðs við Borgarahreyfinguna. Þarna er gegnheilt og gott fólk sem vill bæta heiminn, ástunda mannkærleika, heiðarleika og gagnsæi í stjórn landsins og ætlar sér í raun og sannleika að þjóna almenningi í landinu.
Þetta er það sem fólk hefur fundið hjá okkur - þrátt fyrir að við höfum ekki verið að eyða skattfé samborgara okkar í að búa til rándýrar kosningaloforða-auglýsingar sem færa fólki ekkert nema lygi eða hálfsannleik tókst okkur að koma stefnu og hugsjónum hreyfingarinnar á framfæri við nægilega marga til að tryggja okkur ,,ódýrustu þingsætin" á kjörtímabilinu.
Borgararnir hafa séð í gegnum blekkingarvefinn og fylgið til okkar síðustu dagana fyrir kjördag var gríðarlegt. Það var að minnsta kosti mín tilfinning.
Mig langar að þakka öllum sem hafa lagt svo gjörva hönd á plóg við að hjálpa okkur. Þetta hefur verið ævintýri líkast. Hefði skoðanakönnun sýnt einn mann þá hefði það verið sigur. Hver einasti maður framyfir það er ekkert annað en stórsigur.
Fólk þurfti alvarlega að velta því fyrir sér hvort það ætlaði að treysta þeim sem settu hér allt á hvolf til það reisa okkur við aftur eða hvort það ætlaði að hafa kjark til að hleypa nýju fólki að.
Fólki sem er ekki bara laust við hagsmunatengsl og spillingu heldur fólki sem þorir, getur og vill þrýsta á um alvöru breytingar á samfélagi okkar.
Úrslit kosninganna tala sínu máli og ef við verðum ekki búin að ná markmiðum okkar áður en þetta kjörtímabil er á enda þá er ég sannfærður um að í næstu kosningum munum við bæta við okkur enn fleiri þingmönnum.
En þangað til þurfum við að vera virk í hreyfingunni. Við þurfum að hafa lifandi flæði hugmynda á milli okkar, styðja við þingmenninga okkar með ráðum og dáð og ekki láta segja okkur hvernig hlutirnir eru og fara í leikritið að segja það sem við teljum að fólk vilji heyra.
Við skulum alltaf hafa markmið okkar í augsýn og hvergi víkja frá þeirri leið sem við höfum ákveðið að fara.
Erfiðasta verkefnið sem framundan er verður að skapa trúverðugleika því víst er að þessi smái þingflokkur sem verður inni á alþingi næstu misseri mun þurfa að leggja miklu meira á sig en hinir til að sanna tilverurétt sinn.
Þess vegna hvet ég þingmenn okkar og alla í Borgarahreyfingunni til að láta að sér kveða þegar alþingi hefur störf. Vinnum að okkar málum, notum hvert tækifæri til að stíga í pontu til að tjá okkur.
Gerum okkur sýnileg og látum kjósendur okkar finna að okkur sé alvara þegar við segjumst líta á okkur sem fólk í þjónustu almennings.
Baráttukveðjur og þakkir fyrir skemmtilegustu kosningabaráttu og kosninganótt sem ég hef upplifað.
Valgeir Skagfjörð, borgari.
Hvet til þess að verðtrygging verði afnumin sem allra fyrst.
Athugasemdir
Ég vil trúa því að ég hafi ekki áður ráðstafað mínu atkvæði betur en nú og sú ávöxtun sem það komi til með að skila verði betri og gæfuríkari fyrir þjóðina en "loftbólukastalar" síðustu ára hafa gefið af sér.
Nú er bara að fylgja þessu eftir og gleyma ekki "tilgangi ferðarinnar"
Afnemum "loftbóluseðlaprentun" í formi verðtryggingar.
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 18:33
Innilega til hamingju segi ég bara og takk fyrir að mæta til mín í viðtal á ÍNN um daginn.
Mér finnst þessi árangur ykkar hreint ótrúlegur og bara svo frábært að þetta sé hægt.
Nú er ég reyndar með stærstu áhyggjurnar vegna mögulegs samstarfs Samfylkingar og VG. Verði VG með eitthvert vesen vegna aðildarviðræðna vildi ég óska að Samfylkingin hunsaði þá með öllu og tækju upp samstarf við Framsókn og Borgarahreyfinguna.
Það yrði frábært ef þið kæmust í stjórn en í viðræður við ESB þarf að fara strax ef við eigum að eiga líf hér næstu árin.
Kolbrún Baldursdóttir, 27.4.2009 kl. 19:08
Ég óska ykkur til hamingju með þennan sigur Valgeir. Varst þú ekki sjálfur inni um tíma?
Hilmar Gunnlaugsson, 27.4.2009 kl. 20:50
Óska þér og hreyfingunni til hamingju með árangurinn
Þetta er spurning um að vera á réttum stað á réttum tíma Valgeir, og vissulega með réttu áherslurnar.
Vona að krafa búsáhaldabyltingarinnar muni ekki dofna við þingsetuna.
hilmar jónsson, 28.4.2009 kl. 00:27
Saklaust blogg getur undið uppá sig. Ég er stolt af því að tilheyra Borgarahreyfingunni, kosningavakan var skemmtileg. Það var frábært að hitta ykkur öll loksins. Áfram Borgarahreyfing.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.4.2009 kl. 00:32
Hólmdís Hjartardóttir, 28.4.2009 kl. 12:55
Getur nokkuð verið að þetta góða gengi komi til af því að fólk þekkir ykkur ekki?
Yngvi Högnason, 28.4.2009 kl. 14:07
Hamingjuóskir til þín Valgeir og félaga þinna í Borgarahreyfingunni. Ég tek undir með einhverjum að það er gott að hægt sé að koma hreyfingu sem þessari á þing. Þó ég hafi ekki stutt Borgarahreyfinguna í kosningunum þá voru áherslumál hreyfingarinnar nánast þau sömu og Framsóknarflokksins, sem er auðvitað að grípa til aðgerða strax til bjargar heimilum og atvinnulífi þessa lands og ég óska ykkur alls hins besta í þeirri baráttu sem framundan er. Verst þykir mér að Vinstriflokkarnir hafi fengið hreinan meirilhluta því ég óttast mjög að þeir hafi ekki kjark til nauðsynlegra aðgerða og Hengibrúin sem á byggja hangi ekki í neinu. Gangi ykkur vel í báráttunni ...
Magnús Guðjónsson, 28.4.2009 kl. 16:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.