20.4.2009 | 15:24
Siðferðisleg reikningskil
Nú um stundir kemur berlega í ljós hverra hagsmuni Sjálfstæðisflokkur og Samfylking vilja verja. ,,Þangað leitar kötturinn sem honum er klórað," segir málsháttur. Það sama gildir um peninga.
Ekki eru öll kurl komin til grafar varðandi það hverjir moka fé í kosningasjóði S-flokkanna en það dylst engum að ef einhver klórar mér á bakinu þá finn ég mig ómeðvitað knúinn til að klóra einhverjum öðrum á bakinu í staðinn.
Þannig sjáum við glöggt að þessar kosningar snúast ekki um að þessir sömu flokkar ætli að verja almannahagsmuni eða hafi heill þjóðarinnar að leiðarljósi. Þessar kosningar snúast um völd. Ekki völd til að vinna að almannaheill heldur völd til að verja hagsmuni þeirra sem greitt hafa rausnarlega í kosningasjóðina. Þess utan hafa þeir flokkar sem sitja á þingi leyfi sjálfs sín til að úthluta sjálfum sér 14 milljónum til að boða sín fagnaðarerindi.
Þannig er komið í veg fyrir að ný framboð geti kynnt sig eða a.m.k. er þeim það nánast ókleift í ljósi þessara aðstæðna.
Borgarahreyfingunni hefur tekist þrátt fyrir erfiðar aðstæður að ná upp í 5% fylgi á landsvísu án þess að hafa til þess nokkurn fjárhagsstuðning að heitið geti. Allir sem að framboðinu standa eru fullir af eldmóði, ástríðu og ást á landinu og gefa þess vegna vinnu sína með glöðu geði. Allt til þess að Borgarahreyfingin geti átt sinn fulltrúa á löggjafaþinginu. Til að rödd fólksins heyrist. Það er gríðarlega mikilvægt.
Fylgi okkar getur ekki gert neitt annað en að vaxa. Jafnt og þétt.
Við höfum fengið byr í seglin og þeir sem eru óákveðnir snúast á sveif með okkur enda erum við trúverðug og höfum göfugan málstað að verja. Borgarahreyfingin mun einungis taka afstöðu með einum hagsmunahópi - íslensku þjóðinni.
Hér varð efnahagshrun ef einhver skyldi vera búinn að gleyma því. Á undan efnahagshruninu varð siðferðishrun. Stjórnmálamenn gerðu sig seka um að missa sjónar á því sem skiptir raunverulegu máli og létu ginnast af glópagulli auðjöfra sem vildu selja landið.
Nú standa þeir eftir, grímulausir með allt niður um sig en það hvarflar ekki að þeim að gera siðferðileg reikningskíl til að kjósendur geti vitað hvað raunverulega fyrir þeim vakir að loknum kosningum.
Ég ákalla íslenska stjórnmálamenn og krefst þess að þeir geri hreint fyrir sínum dyrum. Það er lágmarkskrafa okkar sem ætlum í lýðræðislegum kosningum að fela fólki völd til að stýra landinu okkar að það sýni okkur svo ekki verði neinum vafa undirorpið að þeir séu heiðarlegir, hafi ekki hagsmuni annarra en þjóðarinnar að leiðarljósi og geti án þess að bera kinnroða sagt að þeir hyggist hafa dómgreind sjálfs sín að leiðbeinanda og láta eigin sannfæringu og siðferðiskennd ráða för þegar þeir greiða fyrir málum á löggjafaþingi lýðveldisins.
Frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar hafa engin hagsmunatengsl inn í viðskiptalífið, kunningjabandalög kaupahéðna eða valdaklíkur aðrar.
Þeir hafa hafa sýnt að þeir eru venjulegir borgarar sem vilja ganga milli bols og höfuðs á þeirri spillingu sem grasserað hefur hér á landi undanfarin ár.
Frambjóðendur hafa látið birta á vefsíðunni xo.is allar upplýsingar um laun, stjórnarsetu í félögum eða fyrirtækjum til að allt sé uppi á borðinu. Við tölum ekki um gagnsæi - við sýnum gagnsæið í verki.
Borgarahreyfingin er eina framboðið sem boðar í stefnu sinni að þingseta skuli takmarkast við tvö kjörtímabil.
Fjórar góðar ástæður:
Til að koma í veg fyrir spillingu.
Til að auka fjölbreytt mannval á löggjafaþingi íslenska lýðveldisins.
Til að tryggja lýðræðið.
Siðferðisleg reikningskil - STRAX!
Valgeir Skagfjörð, borgari
Minni að síðustu á nauðsyn þess að afnema verðtryggingu. Strax!
Athugasemdir
Verðtryggð lán eru hagstæð skuldurum í verðhjöðnun!
Til hamingju, góðir Íslendingar. Mættu allir stjórnmálamenn og frambjóðendur hvar í flokki sem þeir telja sig fyllast sama heiðarlega eldmóði og hér er talað um; Alllir haldi sig við það og gleymi því ekki að þeir eru að bjóða sig fram til að vinna fyrir íslensku þjóðina í heild og með hennar heildarhagsmuni í huga fyrst og fremst en ekki þrönga sérhagsmuni í öndvegi. Auðvitað greinir menn svo á um leiðir að því marki.
Varðandi athugasemdina um verðtryggingu lána sem pistill þinn endar á, hvað ertu að meina?
1) Að við nýjar lántökur héðan í frá sé boðið upp á lán án verðtryggingar, eða
2) Að endursamið verði um gömul verðtryggð lán, sem enn eru virk, með því að fjarlægja vísitölutenginguna, eða
3) eitthvað annað fyrirkomulag? Hvaða þá?
Um fyrirkomulag nr. 2 er það að segja að ef um það myndi semjast milli aðila, skuldara og lánveitanda, þá væri óskynsamlegt að gera slíka breytingu einmitt núna þegar verðhjöðnun er hafin og væntanlega framundan. Við þær kringumstæður lækkar jú höfuðstóll gömlu verðtryggðu lánanna vegna vísitölutengingarinnar í stað þess að hækka eins og verið hefur nær óstlitið hingað til. Það er því í ástandi verðhjöðnunar hagstætt að skulda verðtryggð lán og ekki æskilegt að taka þá vísitölutenginu þeirra úr sambandi!
Kristinn Snævar Jónsson, 21.4.2009 kl. 10:12
Aðalatriðið er að afnema verðtryggingu á ÖLLUM nýjum samnýngum sem varða lánskjör og leigu.
Gerðir samningar um verðtryggingu verða að gilda svo fremi báðir aðilar telji sér hag af því. Ef annar aðlinn vill segja upp gerðum samningum verður að vera til leið um það og sértakir samningar að fara fram hvernig því sé hægt að breyta.
Þegar hrun tvö kemur í boði aðgerðarleysisaflanna þá mun verðbólgan aftur fara af stað og verðtryggð lán spóla upp höfuðstólinn sem aldrei fyrr. Að benda á afar tímabundna hjöðnun er mikið plat. Til að ná niður höfuðstólnum af einhverju viti þarf hjöðnunin að verða gríðarleg og vel undir núllinu.
Verðtryggingin einsog hún hefur verið framkvæmd er einhliða eignaupptaka nema sett verði skýr efri mörk. Þessi efri mörk hefur alltaf vantað og því hafa eigendur skuldanna gefið fullkominn skít í hvort hér sé meiri eða minni verðbólga svo lengi sem menn geti yfirleitt borgað vextina.
Nú er mál að linni. Auðvitað er þetta rýtingurinn í bak krónunnar og so be it!
Gísli Ingvarsson, 21.4.2009 kl. 11:34
Hvernig stendur á að spilltir og stjórnmálamenn halda framboðum sínum til streitu? Gera þeir sér ekki grein fyrir því að seinna hrunið er óumflýjanlegt. Eru þeir virkilega svo skammsýnir að halda að þeir geti viðhaldið núverandi kerfi. Er þeim ekki ljóst að í haust þegar kreppan verður skollin á að fullum þunga, mun almenningur ekki lengur sætta sig við spillinguna og krefjast þess að þeir víki. Halda þeir enn í vonina um hið ómögulega, að geta komið í veg fyrir kreppuna.
Er örvæntingin svo mikil að rökhugsun er fokin út í veður og vind.
Eða eru þeir algerlega siðblindir?
Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 10:08
Sú spilling sem þegar hefur verið afhjúpuð, er algerlega á ábyrgð þeirra kjósenda sem setja Xið sitt við hana.
Það er öllum frjálst að bjóða sig fram. Við þurfum hins vegar að axla þá ábyrgð að velja rétt í kjörklefanum. Þeir sem kjósa spillinguna vísvitandi, hljóta á sama augnabliki að leggja blessun sína yfir hana.
Vandamálið er hinsvegar spillingin sem kemur í ljós eftir kosningar og sú sem aldrei kemst upp. Þess vegna þarf að stokka allt heila draslið upp. Þá er ég ekki að tala um endurnýjun á þingi, heldur endurnýjun stjórnkerfisins í heild.
Aðalheiður Ámundadóttir, 23.4.2009 kl. 16:10
Það hillir undir að Borgarahreyfingin fari inn á þing með 4 manna flokka eða stærri. Þá verða brettar upp ermar og farið að vinna. Við afnemum bindisskyldu í þingsal og förum í appelsínugula samfestinga og förum að taka til.
Við tökum til óspilltra málanna. Það skal öllum vera ljós að við erum ekki til sölu. Við munum þjóna íslenskum almenningi.
XO á laugardag.
Valgeir Skagfjörð, 23.4.2009 kl. 20:18
Sæll Valgeir frambjóðandi !
Þú segir: "Við tökum til óspilltra málanna. Það skal öllum vera ljós að við erum ekki til sölu. Við munum þjóna íslenskum almenningi."
Þar sem ég mætti á hvern einasta fund á Austurvelli sl. haust/vetur til að mótmæla allri spillingunni sem hefur viðgengist í þessu landi í mörg ár og áratugi, sem sagt traustið er farið, algjörlega farið. Í stað þess að skila auðu (eins og síðast) og kvitta bara upp á allt saman þá ætla ég frekar að klára dæmið, Austurvölls-dæmið og útiloka Fjórflokkinn, stjórnmálastéttina með öllu. Og ekki eigum við neinn Vilmund Gylfason í dag sem þá barðist alla tíð gegn allri spillingu, sem hét í þá daga fyrirgreiðslupólitík.NB það að hlusta á hann var það sem kveikti áhuga minn á stjórnmálum, þá á ca. fermingaraldri.
Ég verð að treysta þessum orðum þínum og hef svo sem enga ástæðu til annars, ekki hafið þið setið á þingi - það er engu að tapa.
Gangi ykkur vel ! - XO !
Heiður (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 00:48
Tja, ef marka má Jón G. Jónsson, og fyrir það hann Sigmund Davíð, er skv. endurskoðuðu mati á eignum bankanna, u.þ.b. 75% lána til fyrirtækja hérlendis, þ.s. kallað er á fræðimáli 'junk' eða verðlaus.
Mjög alvarleg staða. Alveg sammála því, að líkur seinna hruns séu yfirgnæfandi.
Það sem ég hef áhyggjur af, er ef popúlískar hreyfingar, með vel meintar, en ílla ígrundaðar áherslur, komast til áhrifa. Saga Evrópu, sýnir, að hætta er á tímum fjöldaatvinnuleysis, að los komi á samfélagið, og á því, að fólk sem vill notfæra sér ástandið, komist til valda, með því að notfæra sér örvæntingu fjöldans, sem við slíkar aðstæður, getur hagað sér eins og drukkandi maður er tegir sig eftir hvaða strái sem er.
Það hljómar næstum, eins og suma hlakki til þess, að þetta ástand hugsanlega skapist?
Munið; byltingar éta gjarnan börnin sín. Hafa gjarnan gert það.
Okkar lýðræðisfyrirkomulag, er almennt séð, ekki slæmt. Vandinn við það, er fyrst og fremst ófullkomleiki mannskepnunnar sjálfrar. Leiðin til að bregðast við þeim ófullkomleika, er aðhald. Svo einfalt er það.
Allt og sumt sem þarf, eru bætt og nákvæmari viðmið, um t.d. greiðslur, fríðindi - sem sagt, hvað má og ekki má.
Síðan, aukið lýðræðislegt aðhald, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðslu fyrirkomulag, sbr. Sviss. Það virðist í dag, stuðningur, til þess að koma því á.
Ég treysti því, að Borgarahreyfinging, muni vinna með okkur Framsóknarmönnum, nánar tiltekið þeim Framsóknarflokki sem risinn er upp að nýju sem endurskapaður Fönix, í því að koma þessum lýðræðisumbótum á.
Annars, til hamingju með kjörið, til nýbakaðra þingmanna hreyfingarinnar.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 27.4.2009 kl. 02:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.