Leyfum fólkinu að ráða

 Jæja góðir landsmenn, senn er mér öllum lokið.

Nú hafa farið fram svokallaðir borgarafundir í nokkrum kjördæmum í beinni útsendingu sjónvarps allra landsmanna. Öll umræðan snýst um einhver aukaatriði og  stjórnmálamenn fara í gömlu skotgrafirnar. Sama gamla karpið sem við erum búin að hlusta á síðan a.m.k. ég man eftir mér og er ég nú eldri en tvævetur.

Stjórnmálamenn virðast haldnir þeirri blekkingu að þeir geti bara boðið upp á allar sömu gömlu lausnirnar og áður. Menn forðast eins og heitan eldinn að ræða stærstu málin. 

Hvar er ástríðan og eldmóðurinn? Hvar er sannfæringin, hugsjónirnar og vonin um betra og réttlátara samfélag í framtíðinni. Hvar er hin mikla pólitíska sýn til næstu ára. Hvert ætla stjórnmálamenn að leiða þjóðina? Viljum við í alvörunni láta leiða okkur eins og lömb til slátrunar?

Við höfum val um það hvort við viljum vera eins og fé í réttum eða hvort við erum sjálfstætt hugsandi einstaklingar með réttlætiskennd og heilbrigt gildismat. Við þurfum nauðsynlega að opna augun og sjá það sem er að gerast. 

Um hvað snúast eiginlega þessar kosningar? Hér varð efnahagslegt og siðferðislegt hrun á meðan tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsins voru á vaktinni. Krafa almennings var að koma vanhæfri ríkisstjórn frá völdum og fá að kjósa upp á nýtt til þess að knýja fram breytingar á því kerfi sem hrundi. 

Lýðræðið sem við höfum hingað til talið okkur hafa hér uppi á ísa köldu landi var fótum troðið. Hér hafa sjálfhverfir stjórnmálaflokkar þóst vera að iðka lýðræðisleg vinnubrögð við stjórn þessa lands en sannleikurinn er sá að við lentum á villigötum vegna spillingar sem hefur grafið um sig innan kerfisins  og skapað það sem er stundum nefnt flokksræði og jafnvel ráðherraræði. Við höfum ekki kunnað með lýðræði að fara og sumir stjórnmálaflokkar hafa beinlínis sent þau skilaboð til almennings að valdinu sé best borgið í þeirra höndum og aðeins fáir útvaldir af Guði og Flokknum séu yfirleitt færir um að stýra landinu. 

Lýðræðið er svo makalaust að nýjum framboðum sem telja sig hafa gott fram að færa og vilja breyta samfélaginu til betri vegar, uppræta spillingu og setja nýjar leikreglur sem miða að því að spilling geti ekki þrifist eins og til að mynda með því að setja því takmörk hve lengi menn geta setið á þingi, er nánast gert ókleift að kynna sig fyrir þjóðinni. En flokkarnir sem eru fyrir á þingi geta úthlutað sér milljónum af skattfé almennings til að standa í kosningabaráttu. Réttlæti?

Lýðræðið er svo stórbrotið að framkvæmdavaldið skipar dómsvaldið eftir flokkslínum og löggjafinn hefur hvorki vilja né döngun í sér til að veita nauðsynlegt aðhald.

Almenningur sem vill hafa eitthvað að segja um einstök mál fær ekki að kjósa um þau sérstaklega en er náðarsamlegast boðið upp á það á fjögurra ára fresti að kjósa flokkslista sem flokkarnir eftir sínu kerfi hafa raðað upp - hvort sem það kallast prófkjör eða uppstillingar. Þá gildir að hafa réttu samböndin, besta tengslanetið og böns af monní. Þannig geta flokksmenn tryggt sér sæti á þingi. Svona er nú lýðræðið. Við höfum engin bein áhrif á það hverjir setjast inn á þing. 

Það var gefinn ádráttur um að innleiða persónukjör en ekkert varð úr því. 

Það átti að koma á stjórnlagaþingi til að koma á breytingum á stjórnskipan - en ekkert varð af því. 

Það átti að ganga frá auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar en sjálfstæðismenn stóðu gegn því. 

Það átti að slá skjaldborg um heimilin en þeir ákváðu að velta skuldum fjárglæframanna á almenning og boðuðu síðan launalækkanir, skattahækkanir og niðurskurð á þjónustu í menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi. 

Enn fáum við ekkert að vita hvað er á bak við þá skilmála sem stjórnin undirgekkst hjá AGS. 

Enn ríkir leynd yfir orkuverðinu til Alcoa Rio Tinto og Century aluminium. 

Enn ríkir leynd yfir því sem var og er að gerast inni í bönkunum og hjá skilanefndum. 

Enn ríkir leynd yfir því hve miklar skuldir þjóðarbúsins eru í raun og veru. 

Enn bólar ekkert á því að einhver sé dreginn til ábyrgðar á stærsta bankaráni sögunnar. 

ENN BÓLAR EKKERT Á SANNLEIKANUM! 

Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er byggð á plaggi sem danskur kóngur lét okkur í té fyrir meira en einni öld og þegar sú krafa rís sem hæst að það gæti verið sniðugt að endurskoða hana þá brjótast menn sem hafa hagsmuna að gæta um á hæl og hnakka til að ekki verði sett ákvæði svo ekki verði nokkrum vafa undirorpið að auðlindir landsins skuli vera sameign þjóðarinnar.  Þeir vilja hafa opinn möguleikann á því að selja þær ef svo ber undir. Það var lýsandi dæmi að leita eftir áliti útlendra álfyrirtækja á orðalagi auðlindaákvæðisins. Halló!

Sjáið þið ekki góðir landsmenn að við erum að missa landið úr höndunum á okkur. Fyrst var fjármunum rænt af okkur, síðan er erlendum skuldum steypt yfir okkur sem nema stjarnfræðilegum upphæðum og nú er keppst við að halda því leyndu fyrir okkur að  þjóðin sé í raun gjaldþrota. 

Undarleg er þöggunin varðandi það sem fram kom í ræðu og riti hjá Michael Hudson og John Perkins. En það er kannski með ummæli þeirra eins og ummæli danska bankamannsins sem sagði að hér væri eitthvað að í bankakerfinu að þá kunnu Danir bara ekki að reka banka. Slíkur er hrokinn og óttinn við að segja þjóðinni satt. 

Við létum ræna okkur um hábjartan dag og í kjölfarið var okkur sagt að þegja, vera þæg og góð og bíða bara þolinmóð eftir að lausnir fyndust. Ekkert gerðist og stjórnin hrökklaðist frá. Söguna og ferlið þekkjum við.

Við fengum kosningarnar sem við kröfðumst en mér sýnist allt benda til þess að við ætlum að kjósa sama liðið yfir okkur aftur. Sama liðið sem var á vaktinni þegar allt hrundi.

Stærsti hluti landsmanna segist ekki treysta stjórnmálamönnum. Stærsti hluti landsmanna segist ekki treysta bönkum og fjármálastofnunum. Hvað ætlum við að gera þegar traustið er farið?  

Kosningarnar núna áttu að snúast um breytt viðhorf, nýjar hugmyndir, nýtt lýðveldi, nýtt Ísland. En hvað er það sem blasir við? Stjórnin tekur afstöðu með fjármagnseigendum og ætlar að velta skuldum yfir á almenning.

Almenningur skrifaði ekki upp á þá víxla sem fjárglæframennirnir lögðu fram sem tryggingu þegar þeir fóru í víking og rændu sparifé af fólki í útlöndum. Ég fyrir mitt leyti skrifaði ekki upp á þessi lán. Ég skrifaði upp á mín eigin lán sem ég sé vart fram á að geta staðið í  skilum með ef svo heldur fram sem horfir. 

Ég hafði miklar efasemdir um einkavinavæðingu tveggja stærstu bankana á sínum tíma en þeir voru seldir á slikk og tvær klíkur skiptu þeim á milli sín. Gott og vel. Þá lít ég svo á að bankinn sé á ábyrgð eigenda sinna og ef þeir klúðra málum - af hverju á ég þá að koma þeim til bjargar? Af hverju á ríkið að hlaupa til og bjarga.  Hver var þá tilgangurinn með einkavæðingunni?  

Ég get þá bara tekið að mér að reka eitt stykki ríkisfyrirtæki, sogið út úr því allt sem ég get þangað til það rúllar á hausinn af því ég veit að ríkið mun hvort sem er koma og bjarga mér. 

Hver borgar partíið? Það er nefnilega alltaf blessaður sauðsvartur almúginn sem má gjöra svo vel að borga. 

Svo bjargar ríkið bönkunum en almenningur má éta það sem úti frýs!

Þetta er dáfalleg sýn sem ég er að draga upp hérna. En við eigum von. Við eigum von í fólkinu sem lifir hér og nú verður að leyfa fólkinu að ráða. Við verðum að innleiða betra lýðræði. Við verðum að búa til lífvænlegt umhverfi fyrir góðar hugmyndir að dafna, ýta peningum af stað, láta þá flæða, til þess eru þeir. Peningar eiga að flæða og ef þeir fá að gera það í heilbrigðu vaxtaumhverfi, þá fer fólkið af stað sjálft.

Lífeyrissjóðirnir eiga líka fullt af peningum. Af hverju geta þeir ekki komið inn og fjárfest í góðum verkefnum? Ég vil miklu frekar taka lán hjá þeim heldur en alþjóða gjaldeyrissjóðnum. 

Af hverju í veröldinni setjum við ekki peninga og kraft í að búa til verðmæti innanlands til að þurfa ekki að  flytja svo mikið inn?

Af hverju í veröldinni setjum við ekki út sprota um allan heim til að laða hingað fólk. Allan ársins hring.

Ísland hefur mikla sérstöðu. Hér eru eldfjöll, jöklar, ævintýraheimur hvert sem litið er. Við eigum álfa og tröll, huldufólk í klettum, furðuverður í hellum, í vötnum. Við getum framleitt heimsins besta og hollasta grænmeti og aðrar matvörur. Við eigum sterkan hreindýrastofn, sögu um landnám, drauga, harðindi, hugmyndaheim sem fólki úti í heimi þykir áhugaverður.

Við verðum að átta okkur á því að Ísland, þessi dásamlegi klettur hér norður í dumbshafi er fjársjóðskista. Það er bara spurning um að koma auga á það. Hætta að leita að stórum patent lausnum. Það er ekki lausn fyrir okkur að láta landið lenda í höndum erlendra stórfyrirtækja og fjármálafursta sem eiga að hafa vit fyrir okkur. Við getum haft vit fyrir okkur sjálf og haldið saman í dásamlegt ævintýraferðalag í átt að sjálfbærni með skapandi hugsun, virkjun hugmynda og mannauðs. Leggjum peninga í smærri fyrirtæki sem eru að gera eitthvað óvenjulegt. Eitthvað sem bætir heiminn. Eitthvað sem gerir umhverfinu gott. Við sitjum á tækifærum og nú verður að taka hausinn upp úr þessari litlu holu og fara líta í kringum sig.

Ef skapandi hugsun nær að fanga þann fjársjóð sem við stöndum á hérna þá hef ég ekki svo ýkja miklar áhyggjur af framtíðinni.  Og nú hef ég, takið eftir, ekki nefnt virkjanir og álver en við eigum fullt af virkjunarmöguleikum þótt við séum ekki endilega að framleiða ál. Því það er dýrt og mengandi og skilar takmörkuðu í þjóðarbúið. 

Hvernig væri ef bændur, fiskvinnslan, ylrækt og aðrir stórir orkunotendur fengju nú orkuna á sambærilegu verði og álrisarnir úti í heimi? 

Hvernig væri að leyfa krókabátum að sækja fisk út á firði sem eru kraumandi af fiski? Skrá aflann og fullvinna í heimabyggð og koma til neytenda hvort heldur sem væri hér innanlands eða í skiptum fyrir eitthvað annað í útlöndum? 

Hvernig væri að  hjálpa hugmyndaríku fólki að láta drauma sína rætast? 

Hvernig væri að hætta þessu karpi um það hvaða flokkur sé best til þess fallinn að stýra þjóðarskútunni og taka höndum saman um að reisa landið við?  Gerum endurreisnina að sameiginlegu verkefni okkar allra.

Verkefni stjórnmálamanna á að vera að þjóna almenningi. Eitt verkefnið er að skapa hér aðstæður til þess að almenningur geti látið til sína taka. Þannig verða til fyrirtæki og störf. Síðan setjum við leikreglur sem miða að réttlæti og lýðræði fyrir alla. Þannig vinnum við okkur út úr krísunni.

En fyrst og síðast. Breytt viðhorf. Breytt hugsun og breytt gildismat.

Göngum hönd í hönd í áttina að betra Íslandi saman. Ekki vera eins og fé í réttum og láta einhverja sem kalla sig leiðtoga teyma okkur eitthvert út í óvissuna.  

Áfram Ísland! 

XO fyrir Borgarahreyfinguna

Valgeir Skagfjörð, borgari. 

 Að síðustu legg ég til að verðtrygging verði afnumin. Strax!

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þú ert án efa einn besti penninn hérna á blogginu.  Takk fyrir þessa hvatningarræðu.  X-O  Þjóðin á þing. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.4.2009 kl. 02:28

2 identicon

Sæll Valgeir

Þú færð amk mitt atkvæði og minna. Góð barátta.

Kv.

Sveinbjörn

Sveinbjörn (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 04:05

3 identicon

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 07:23

4 identicon

Einstaklega vel skrifuð grein. Réttlætið sigrar að lokum!

Jóhann (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 11:39

5 identicon

Þú kemur einsog stormsveipur inní pólitík,hafðu þökk fyrir.

Númi (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 12:11

6 identicon

Listavel skrifað með óhemjuinnihaldi.Ég er þér hjartanlega sammála en er hræddur um að réttlætið sigri ekki bili á Islandi.Meyglan er sem sveppur búin að grafa sig djúpt í allt systemið og því miður er einungis búið að krafsa af yfirborðinu.Óska þér alls hins besta og þess sem þú stendur fyrir.

Jóhann Kristján Valdórsson (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 12:30

7 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Ágætis pistill þó ég sé ósammála þér að talsmenn gömlu flokkana hafi ekki komið með neinar lausnir. Nú verður gaman að fylgjast með gengi Borgarahreyfingarinnar í næstu kosningum. Ég styð ykkur að nokkru leyti þó ég kjósi ykkur ekki en það yrði sigur fyrir lýðræðið að fá inn nýjan flokk og nýtt fólk á þing

Hilmar Gunnlaugsson, 17.4.2009 kl. 20:56

8 Smámynd: Bogi Jónsson

Góð, hreinskilin og sönn grein hjá þér.

ég vil ekki trúa öðru en nýu framboðin fái sína málsvara á þing.

þó ljótt er frá því að segja, þá virðist landinn ekki enn vera búin að líða nóg vegna gömlu flokkafeluleikjahagsmunagæsluna, til þess að vera tilbúin í breytingar.

en það kemur, ef ekki 25 apríl þá fljótlega upp úr því 

Bogi Jónsson, 17.4.2009 kl. 22:44

9 identicon

Takk fyrir frábær skrif.

þetta er það sem við landsmenn þurfum að heyra,hlusta á og lesa.

Upp fyrir Borgarahreyfingunni.

Lýðræði í lýðræðisríki

Bestu kosninga kveðjur Voodi

voddi (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 00:09

10 identicon

Góður..... eins og alltaf.

 Sigurður Þ.

Sigurður Þórðarson (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 09:46

11 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Þetta verður svipað og í Oíusamráðinu hér um árið - engin mun bera ábyrgð

Halldór Sigurðsson, 19.4.2009 kl. 14:48

12 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Baráttukveðjur Valgeir! Ég vona svo sannarlega að borgarahreyfingunni takist að fá fólk á þing

Anna Karlsdóttir, 19.4.2009 kl. 23:30

13 Smámynd: Sigrún Óskars

innlitskvitt - sumarkveðja

Sigrún Óskars, 23.4.2009 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband