Í dag er tækifæri!

Góðir landsmenn! Hér stöndum við  af því við getum ekki annað.  En það má sjá það á öllu að sólin stendur með okkur. Í dag er tækifæri!  Frá því efnahagsfellibylurinn skall á okkur í haust hefur íslenskur almenningur sent mjög skýr skilaboð til ráðamanna og samfélagsins alls. Þau eru einföld: ,,NÚ ER NÓG KOMIÐ!” 
Við létum í okkur heyra – hér voru barðar bumbur, pottar og pönnur , hér var sungið, hér voru kveiktir eldar. Við byrjuðum rólega – sögðum hug okkar. Hrópuðum á torgum um óréttlæti, misskiptingu, valdníðslu, stjórnleysi í peningamálum, við kölluðum á breytingar en stjórnarherrarnir og frúrnar skelltu við skollaeyrum og ætluðu að leika sama gamla leikinn– að bíða óveðrið af sér og treysta því að við yrðum þæg og góð.  Eins og alltaf! Að við mundum einfaldlega snúa heim með skottið á milli lappanna eins og venjulega og bíða þess að þeim þóknaðist að koma með sínar lausnir gegn vandanum. 

En í þetta skiptið varð þeim ekki kápan úr því klæðinu. Okkur tókst hið óvænta – okkur tókst að standa saman. Við létum ekki segja okkur að þegja. Við þorðum loksins eftir margra ára skoðanakúgun og þöggun í þessu landi að koma fram á opinberum vettvangi og tjá okkur. Við þorðum að hafa skoðanir og það sem er mest um vert, við fengum kjark til að tjá skoðanir okkar í ræðu og riti.  Jafnvel þótt vitað væri fyrirfram að þær yrðu óvinsælar - þá létum við samt í okkur heyra. Réttlætiskennd fólks í þessu landi var misboðið. Það sáu allir hvað blasti við.  Þeir sem höfðu aðrar skoðanir en þær sem voru valdhöfunum þóknanlegar var haldið úti í kuldanum samkvæmt venju. En nú hefur átt sér stað söguleg kúvending.  Það má hafa skoðun! Við höfum óskorað leyfi til þess og það leyfi rennur ekki út og það leyfi þarf ekki að endurnýja!




Grímurnar falla núna hver af annarri og réttu andlitin koma í ljós. Hulunni er svipt af hverjum fjármálaskandalnum á fætur öðrum, a.m.k. eitt spillingarmál á viku er afhjúpað og hvert misferlið rekur annað. Þetta virðist engan enda ætla að taka.
Þetta er eins og að moka flór. Við erum rétt að komast niður úr efsta laginu og undir kraumar og bullar illa lyktandi eðjan. Það gengur ekki lengur að sturta óþverranum í þróna. Hún er löngu orðin yfirfull. Það verður að halda áfram alla leið niður úr og stinga út – allt heila klabbið!

Í dag er tækifæri! Okkur tókst með samstöðu, mikilli þrautseigju – ótrúlegri elju og Fítonskrafti að koma stjórn Geirs Haarde frá völdum. Stjórn fjármálaeftirlitsins hefur þurft að víkja og sjálfur höfuðpaurinn á Svörtuloftum  sem hefur haldið um þræðina svo alltof, alltof, lengi hefur orðið að leggja niður skottið.  Bubbi kóngur neyddist til að taka ofan kórónuna, standa upp úr hásætinu – og stíga niður af stallinum. Öllu þessu hefur okkur tekist að koma til leiðar. Með því að mæta hér – láta raddir okkar heyrast og senda valdhöfum þau skilaboð að við séum ekki fífl!  Íslenskur almenningur ætlar ekki að láta bjóða sér hvað sem er! Það hefur hann sýnt og sannað.  

Nú er svo komið að búið er að mynda starfsstjórn fram að kosningum og leiðtogi hennar er vönduð kona sem nýtur trausts. Á því leikur ekki nokkur vafi.  Enginn stjórnmálamaður í dag nýtur jafn mikils trausts. Það ber að hafa hugfast og það ber að virða. 
Hvernig væri þá að leyfa henni að vinna?  Það er til lítils að koma á starfsstjórn ef hún fær ekki að starfa í friði – og vinna að því að koma á þó ekki væri nema vísi að umbótum svo hægt sé að gera sér vonir um áframhaldandi hreingerningu og uppbyggingu að loknum kosningum í vor.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið við völd í átján ár svo er það til of mikils mælst að starfsstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fá frið til að vinna þessar fáu vikur sem eftir eru fram að kosningum? Það sýnir sig svo ekki verður um villst að stjórn hennar er að störfum.  Því var ekki að heilsa hjá þeim vélarvana ryðkláfi sem síðasta ríkisstjórn sýndi sig vera.
Í dag er tækifæri! Laskaður Sjálfstæðisflokkur ólmast  inni á þinginu -  reynir að tefja og skemma sem mest hann getur og Framsóknarflokkurinn sem ætlaði að verja stjórnina hyggur nú á að koma sér þægilega fyrir á þeim stað þar sem hann kann best við sig – í oddastöðu milli fylkinga.
Á þjóðin virkilega enn eina ferðina að eiga allt sitt undir því hvorum megin hryggjar Framsóknarmönnum þóknast að liggja? 
Þeir vilja eigna sér hugmyndina um stjórnalagaþing – það er enginn höfundarréttur á hugmyndinni um stjórnlagaþing og það gerir þjóðinni ekkert gagn að stjórnmálaflokkar séu að togast á um það hverjir hafi átt hugmyndina eða hver hafi fengið hana fyrst.  Það er ekkert nýtt undir sólinni.  Hugmyndin er ævagömul og það að dusta rykið af henni núna er fyrst og síðast vegna þess að fólkið í landinu hefur verið að kalla á breytingar. 
Hér varð bylting ef einhver skyldi vera búinn að gleyma því!

Það verður að skera upp herör gegn samtryggingarkerfi stjórnmálaflokkanna. Burt með geðþóttaræði ráðherra. Það verður að uppræta spillingu hvar sem hún finnst. Það þarf að opna stjórnkerfið og skilgreina hugtökin lýðræði og lýðveldi upp á nýtt. Við viljum  ekki gamla kerfið aftur. Það er gatslitið og úrelt svo ekki sé meira sagt.

Góðir fundarmenn – svona tækifæri gefast ekki á hverjum degi. Það er ekki á hverjum degi sem venjulegum almenningi í þessu landi tekst að knésetja ríkjandi valdhafa.
Tækifærið er núna - og ef við grípum það ekki  - þá gæti orðið bið á því að alvöru breytingar líti dagsins ljós.

Við höfum verið þátttakendur og áhorfendur í leikhúsi fáránleikans undanfarið -  en nú er tækifæri til að skrifa nýtt handrit. Nú er hægt að kalla nýjar persónur til leiks.  Nú er hægt að skapa nýja rás viðburða og hefja endurreisn í leik þar sem allt getur gerst. Hvað sem er getur gerst. Allt er mögulegt. Vilji og löngun er allt sem þarf. 

Við erum að upplifa óvenjulega tíma, óvenjulega atburði og það einfaldlega kallar á óvenjulegar hugmyndir og hver veit nema þær ali af sér óvenjulegar lausnir fyrir óvenjulega þjóð!

Á undanförnum vikum hefur okkur verið tíðrætt um það hverjir beri ábyrgð á efnahagshruninu og í eftirleiknum hafa þeir sem ættu að axla ábyrgð eins og heiðarlegir þjóðfélagsþegnar gert sitt ýtrasta til að firra sig þeirri sömu ábyrgð og farið á handahlaupum í fjölmiðla til að þvo hendur sínar frammi fyrir almenningi sem er ýmist agndofa af hneykslun eða hrifningu eftir því hvar sannfæring þeirra liggur -  ellegar láta sér fátt um finnast. Þessi vítissóda-grænsápu-naglabursta-handþvottur kristallaðist í Kastljóssviðtali við  fráfarandi formann stjórnar seðlabankans nýverið og í kjölfarið var eins og þjóðin hefði skipst í tvær fylkingar – með eða á móti Davíð. Við erum að tala um að stór hluti heillar þjóðar er meðvirkur í ást/haturs-sambandi við Davíð Oddsson.


Við verðum að komast upp úr þessu hjólfari og fara nú að vinna okkur út úr þeim vanda sem blasir við okkur.  Tími Davíðs er liðinn, gott fólk!

Í dag er tækifæri! Við búum við alltof háa vexti. Við búum við alltof hátt vöruverð. Við búum við óréttláta verðtryggingu. Við greiðum háa skatta og til að bæta gráu ofan á svart þá höfum við samþykkt að taka á okkur launalækkanir í fyrsta sinn í langri sögu verkalýðsbaráttu á Íslandi. 

En þrátt fyrir allt – þá stöndum við hér enn. Tilbúin að takast á við vandann.  Við erum jafnvel tilbúin að samþykkja að greiða niður  stjarnfræðilegar skuldir sem við á engan hátt höfum stofnað til. 
Hér hefur orðið brestur. Hér hefur orðið trúnaðarbrestur milli almennings og alþingis.

Nú er svo komið að undirstaða mannlegra samskipta er brostin. Traust milli manna er brostið. Það hættulegasta sem getur komið fyrir litla þjóð er þegar þegnarnir hætta að treysta hverjir öðrum. Við erum farin að tortryggja allt og alla.  Lái okkur hver sem vill.

Af hverju ættum við að treysta stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum sem svíkja okkur ítrekað? Af hverju ættum við að treysta auðmönnum sem hafa farið fram eins og þursar um grundir og skilið eftir sig sviðna jörð? Af hverju ættum við að treysta nokkrum yfir höfuð?  Hverjum getum við eiginlega treyst?  Það er von að maður spyrji.

Þegar traustið er farið þá þarf að byggja upp traust að nýju. Þeir sem urðu rúnir trausti bæði í aðdraganda bankahrunsins og eftir það verða að vinna sér inn traust að nýju.  Þeir verða að sýna þjóðinni að þeir séu traustsins verðir. 

Eitt af því sem gæti skapað traust á stjórnmálamönnum aftur er að þeir fari að viðurkenna mistökin og segi einfaldlega – fyrirgefið það var vitlaust gefið.  Nýtt spil. Gefum upp á nýtt.  Þeim sem iðrast verður fyrirgefið – það er eins satt og ég stend hér.

Við kennum börnunum okkar að það sé engin goðgá að gera mistök. Það er bara mannlegt að gera mistök. Mistök eru hvorki tæknileg, meðvituð eða ómeðvituð. Mistök eru bara mistök – ekkert annað og það geta allir gert mistök og allir gera mistök. Hvað er þá málið? Hvað er svona erfitt?

Stjórnmál – stjórnsýslulög, leikreglur samfélagsins eru mannanna verk. Enginn maður er fullkominn  að mínu viti og því eru mannanna verk jafn ófullkomin og mennirnir sjálfir. 
En við kennum börnum okkar að það sé hreinsandi fyrir sálina að viðurkenna mistök sín, biðjast fyrirgefningar og bæta ráð sitt. Það er leiðin til þroska. Það breytist ekkert þótt við hættum að vera börn.
Hvaða skilaboð er verið að senda út í samfélagið þegar þeir sem stjórna og ráða telja sig yfir það hafna að viðurkenna mistök sín. Segjast ekki gera mistök. Og hvað? Eru þeir þá fullkomnir?  

Í dag er tækifæri. Meira að segja sögulegt tækifæri svo maður taki nú hátíðlega til orða.  Nú þurfum við að vaka og vinna. Verkefnin eru mörg og margvísleg en fyrst verðum við í sameiningu að sjá til þess að komið verði á stjórnlagaþingi sem allra fyrst.
Fara í gagngera endurskoðun á stjórnarskránni og endurreisa lýðræði í þessu landi. Nýtt lýðveldi? Hvernig hljómar það?
Ég ætla að leyfa mér þann ókeypis munað að vera bjartsýnn - af því annað er tilgangslaust.  Nú verðum við að koma auga á tækifærin í erfiðleikunum.
Við eigum hér gott og gjöfult land og hér eiga allir að geta lifað mannsæmandi lífi. Við eigum mikinn auð í jörðu, fallvötnum,  í sjónum umhverfis landið, í kynngimagnaðri náttúrunni,  í fólkinu sem hér lifir og býr yfir svo miklu hyggjuviti, þekkingu, svo uppfullt af hugmyndum, skapandi fólk með jákvæð viðhorf  til lífsins og tilverunnar, sem er í einlægni  tilbúið að takast á við vandann þrátt fyrir allt sem á okkur hefur dunið. 

Við höfum orðið fyrir áfalli!  Öll þjóðin er undirlögð af áfallastreitu í einni eða annarri mynd. Við þurfum að veita hvert öðru áfallahjálp, það er besta meðalið sem við höfum. 

Kæru vinir – oft var þörf, en nú er brýn nauðsyn á því að áratugur mannsandans gangi  í garð og við skulum greiða mannsandanum leið með því að berjast áfram fyrir stjórnlagaþingi og skapa okkur þannig vettvang til að tala saman, innleiða nýjar hugmyndir, nýja stjórnskipan, nýja hugsun, nýtt Ísland. Nýtt lýðveldi! 

Að lokum vil ég leggja það til að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin.  Góðar stundir!  

Valgeir Skagfjörð ( Á útifundi á Austurvelli 28. Feb. 2009 ) 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Takk fyrir þetta Valgeir. Góð og þörf orð.

hilmar jónsson, 28.2.2009 kl. 17:39

2 identicon

Góð tala Valgeir og hárrétt greining að ef kjósendur tryggja það ekki í kosningunum í vor að unnt sé að mynda hér ríkisstjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verður allt í sama farinu áfram.

Reinhard Reynisson (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 17:55

3 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Fjandi gott!

Þórður Björn Sigurðsson, 28.2.2009 kl. 18:17

4 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Takk fyrir kröftuga ræðu Valgeir... og ekki síður fyrir stuðninginn ;)

Heiða B. Heiðars, 28.2.2009 kl. 19:35

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir kröftuga ræðu!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.2.2009 kl. 21:18

6 identicon

Takk fyrir mig. Mjög margir góðir punktar.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 21:23

7 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Frábært, vild'ég hefði komist suður, - og á Austurvöll í dag!

Takk fyrir frábæra pistla og innblásturinn sem þeir veita!

Aðalheiður Ámundadóttir, 28.2.2009 kl. 21:54

8 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Frábær ræða hjá þér. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.3.2009 kl. 00:03

9 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Þökk fyrir mjög góða ræðu í dag.  Við þurfum að sameinast um bætt samfélag.

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 1.3.2009 kl. 01:08

10 Smámynd: Ingvar

Það verður aldrei hróflað við verðtryggingu á meðan Jóhanna er við völd. ASÍ mafían stjórnar henni í einu og öllu. Hennar hellsti ráðgaji er Gylfi forseti ASÍ. Gylfi lítur á lífeyrissjóðina sem eig verkalýshreyfingannar en ekki eign þjóðarinnar.

Ingvar

Ingvar, 1.3.2009 kl. 01:20

11 Smámynd: Kjartan Björgvinsson

Ég hef sjaldan verið jafn sammála nokkrum manni, snúm bökum saman og snúum neikvæðninni í jákvæðni, svartsýni í bjartsýni og byggjum nýtt Ísland með framtíð fyrir alla.

Með þökk

Kjartan Björgvinsson

Kjartan Björgvinsson, 1.3.2009 kl. 02:34

12 identicon

Takk fyrir goða ræðu og goðan innblastur i dag.

Kolla (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 03:06

13 Smámynd: Guðrún Indriðadóttir

frábært hjá þér, nú þurfum við að spýta í lófana og halda þeim við efnið og ekki gefast upp

Guðrún Indriðadóttir, 1.3.2009 kl. 14:08

14 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gott að sjá þig hjá Agli og ég er algerlega sama sinnis og þú að endurnýjun og upplýsingaflæði er ekkert í þessum aðdraganda kosninga. Eða eins og Obama orðaði það: You can put lipstick on a pig, but it's still a pig.

Það er eitt sem ég vil vekja athygli þína á, en það er vanvirða fjölmiðla og flokka við almenning í túlkun skoðanakannana, sem gefa þá fölsku mynd að stuðningur sé talsverður við gömlu stjórnarflokkana. Það er einföld skýring á því. Sá helmingur sem ekki tekur afstöðu til neinna flokka í skoðanakönnunum, er ekki talinn með. Teknar eru prósentutölur af helmingi úrtaksins eða minna og það presenterað sem niðurstaða. Þetta er hrópleg fölsun. Skrifaði um þetta HÉR á mínu bloggi, en mér virðist þessi augljósa staðreynd hafa farið framhjá flestum. Meira að segja Egill datt í þessa gildru.

Varðandi þá stjórnmálamenn, sem Davíð íaði að að væru flæktir í sukkið og hvers vegna það er ekki uppí á borði eins og svo fjálglega var lofað. Líttu á þá sem undanfarið hafa fallið frá framboði eða þáttöku í kosningum. Þar er hluti, en fleiri eru þar vafalaust, sem telja sig sleppa. Nú ættu menn að þurfa að sýna skírteini um hreinan skjöld áður en við gefum þeim traust okkar. Það ætti að vera sjálfsögð frumkrafa.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.3.2009 kl. 01:19

15 Smámynd:  (netauga)

Takk fyrir þetta Valgeir, veistu ég held að að orð þín séu eins og töluð frá hjarta hins almenna manns. Baráttunni er hvergi nærri lokið og nú ríður á að missa ekki úthaldið eins og því miður hefur alltof oft gerst. En ég vil taka undir með þér að hafa bjartsýnina að leiðarljósi, hún skipir miklu máli í öllum þrengingum. 

Áfram Ísland !

(netauga), 2.3.2009 kl. 10:21

16 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk.

Arinbjörn Kúld, 2.3.2009 kl. 15:35

17 Smámynd: Gerður Pálma

Flott ræða Valgeir,

En mér sýnist að í kosningunum framundan sé ekki kappsmál NEINS framboðs að koma okkur uppúr hjólfarinu til þess að ná spyrnu og renna áfram.  Sumir hafa áhuga á að skoða endurskoðun stjórnlaga, en ekki er minnst (svo ég hafi séð) nýja stjórnarskrá. 

Það er lítil umræða um að jarðvegurinn sem græðgisveiran þróaðist svo hratt og vel í var tilbúin, einn sá frjóasti í heimi, eftir margra ára ræktun og undirbúning.  Þetta ræktunaraðferðin var klíkustarfsemi og áburðurinn voru einkahlunnindi og hrokadrykkir.  

Ef við eigum að geta búist við einhverjum farsælum breytingum verða að vera róttækar breytingar á sjálfum jarðveginum, heiðarleiki og gagnkvæm virðing verður að verða farastjóri framtíðarinnar.  

Hroki og oflát verður að víkja, annars festumst við endanlega í þessum hjólförum og færri og færri (eldri og eldri) verða til þess að ýta okkur upp úr.

Förum í útgerð, gerum út á fólk sem er að gera frábæra hluti, fjöldinn allur í gangi sem almenningur veit ekki um,  en þetta fólk  hefur ekki fengið samvinnu (þoli ekki orðið ´hjálp´) við ófrjóa ríkisstjórn, því hún skilur ekki hugmyndir sem ekki enn hafa verið framkvæmdar, og eru á mannamáli kallaðar tækifæri.

Förum í virkjunarframkvæmdir, virkjum frjóa hugsun, virkjum og byggjum upp vinjar í landinu sem gleðja okkur og gleðja ferðamanninn.

Virkjum félagsskap hvers annars, eyðum minna, njótum meira. 

Ísland er ofneysluþjóðfélag, vægt til orða tekið, en á einhvern hátt ótrúlega ok með minna. Hamingjan kemur ekki í innkaupakörfu.  Gerum okkur Naglasúpu takmark í takmarkadan tíma í einu, hafa skal það sem hendi er næst og hugsa ekki um það sem ekki fæst... Við höfum allt til alls, þeir sem hafa það ekki, eiga stuðning okkar hinna vísan, eða hvað?  Nú reynir á hver við erum og hvernig við reynumst hvert öðru.

Verjum heimilin, við getum það, finnum lagalega leið til þess, (var búin að sjá tillögu þess sem ég þarf að finna aftur) Ómanneskjuleg afleiðing ´löglegra´ aðgerða getur ekki haldið velli til lengdar - Davíð neitaði uppsögn, við neitum að láta húsnæði okkar.  

Gerður Pálma, 3.3.2009 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband