Hvað er að gerast á Íslandi?


Kæru landar. Nú er heilt ár liðið frá því Hrunadansinn hófst og hann stendur enn.  Gamla stjórnin hrökklaðist frá völdum og við fengum nýja en hvað hefur breyst?

Harla lítið. Mestur tíminn hefur farið í endalausar umræður um Icesave en í veigamiklum atriðum hefur lítið breyst. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn heldur þjóðinni ennþá í efnahagslegri gíslingu, bankarnir eru ennþá að ljúga að fólki og stjórnvöld sýna endalausa þjónkun við fjármagnseigendur og gömlu nýlenduherrana úti í Evrópu.

Fjölmiðlum er vart treystandi til að vera með hlutlausan og gagnrýninn fréttaflutning heldur mallar áfram eins og heilaþvottavél ríkisstjórnarinnar sem virðist algjörlega vanhæf í að gera nokkuð annað en skera niður þjónustu við almenning og að hækka skatta hvar sem því verður fyrir komið.

Skuldir

Það er útlit fyrir að tugir fjölskyldna verði bornar út á Guð og gaddinn og enginn hreyfir andmælum. Skuldastaða heimilanna er ekki leiðrétt nema að að mjög takmörkuðu leyti sem gagnast hinum verst settu ekki neitt þar sem höfuðstóll lána haggast ekki og verðtryggingarskrímslinu er haldið á lífi með því að halda áfram að næra fjármagnseigendur og að sögn að standa vörð um lífeyrissjóðina.

Skuldir þjóðarbúsins eru ekki ræddar. Sala á auðlindum landsins er ekki rædd. Braskið á skilanefndum gömlu bankanna er ekki rætt. Kvótabraskið er ekki rætt. Orkumálin eru ekki rædd. Hvers vegna er þetta svona? Af því að það ríkir núna sams konar þöggun í samfélaginu eins og ríkti fyrir hrunið.

Kerfisbreytingar

Kerfið okkar er að naga sjálft sig að innan og það þarf að hrynja sjálft til grunna til þess að hægt sé að byggja hér upp aftur. En þau þarna á þinginu og í ríkisstjórninni hagræða sannleikanum eftir eigin geðþótta eða geðþótta landstjóra AGS sem einhverjir virðast álíta að sé vinur okkar.

Íslendingar verða að fara að átta sig á því að það eru síðustu forvöð fyrir þá að standa uppréttir sem sjálfstæð þjóð. Við verðum að endurheimta Ísland. Gamla Ísland er horfið en Nýja Ísland getur orðið mun betra ef við aðeins höfum kjark til að breyta því sem við getum breytt.

Við þurfum að umbylta stjórnkerfinu. Það er gengið sér til húðar. Nú er ekki í tísku að ræða um stjórnlagaþing af því öllum finnst efnahagsmálin skipta mestu núna. Vissulega skipta þau miklu máli en á meðan efnahagsmál snúast um hagsmunagæslu þá er ekki von að vel fari.

Við eigum von ef við förum í allsherjar uppskurð á öllu saman. Lýðræðisumbætur verða að eiga sér stað og þær verða ekki nema við þorum að henda þeim gatslitnu skóm sem við höfum gengið á veginn til glötunnar og fara í nýja. Það er ekki hægt að sóla þessa endalaust.

Hugmyndir

Hér þarf stórar hugmyndir og þær þurfa ekkert endilega að vera nýjar af nálinni. Þær hafa komið fram áður.

Í fyrsta lagi þarf að koma á breyttu skipulagi um það hvernig valið er inn á þjóðþing Íslendinga. Skipulagi sem miðar að því að endurspegla raunverulegan vilja kjósenda.

Í öðru lagi væri skynsamlegt að leggja embætti forseta Íslands niður í núverandi mynd og taka upp þann hátt að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu – hugsanlega í tveimur umferðum til að knýja fram örugg úrslit og tryggja þannig að meirihuti þjóðarinnar sá bak við forsætisráðherrann.

Ríkisstjórn landsins ætti að vera skipuð af fagfólki og ráðherrar ættu ekki að sitja á þingi.

Landið yrði eitt kjördæmi – einn maður – eitt atkvæði.

Með þessu móti væri hægt að tryggja þingræði og þjóðþingið mundi hætta að vera afgreiðslustofnun fyrir ríkissjórnina. Þess í stað yrði ríkisstjórnin framkvæmdastjórn þingsins.

Persónukjör ætti að geta gengið þvert á stjórnmálaflokka og hvetja ætti til þjóðaratkvæðagreiðslna um sérstök mál ef alvarlegar deilur eru uppi sem varða þjóðarhag og/ eða þjóðaröryggi.

Djúpar rætur

Rót vandans á Íslandi er nefnilega stjórnkerfið sjálft sem hefur búið sér til sitt eigið innra eftirlitskerfi og svo þegar allt fer í bál og brand þá fer kerfið að rannsaka sjálft sig og allir vita hvers konar spillingu það býður upp á.

Það er hugsanlegt að íslensk þjóðarsál sé orðin svo samdauna spillingu og fyrirgreiðslupólitík að hún hreinlega hefur ekki kjark til að sleppa tökunum af gömlu hugsuninni um mann sem þekkir mann sem þekkir mann.

Hvað viljum við?

Vinstri og hægri, frjálshyggja, félagshyggja, kapítalismi, kommúnismi eru hugtök sem eru hætt að hafa merkingu fyrir almenningi. Almenningur skilur það einfalda sem að honum snýr og skiptir máli í hans augum. Er hægt að lifa mannsæmandi lífi í landinu? Fá þegnarnir notið ávaxtanna af erfiði sínu? Eru börnin þeirra örugg? Fá allir jafna þjónustu þegar kemur að velferð hins almenna borgara? Hvernig viljum við eiginlega hafa þetta í framtíðinni?  

Ég og mín kynslóð sem hefur stritað hér í þrjátíu ár, við sem höfum alltaf greitt okkar skatta og af okkar lánum samviskusamlega erum nú orðin aðeins eldri og hugsanlegt að við þurfum að fara að nýta okkur t.a.m. heilbrigðisþjónustu af þeirri einföldu ástæðu að sumt af því sem áður var sjálfsagt að væri í lagi er farið að slitna og annað að bila. Hvað gerist þá?

Skyndilega stöndum við frammi fyrir því að við höfum ekki efni á því að verða veik.

Varasjóðir sem við komum okkur upp, a.m.k. sum hver sem sýndu ráðdeild, eru uppurnir vegna hins sérstaka íslenska bankasvindls. Svindl aldarinnar mætti kalla það.  Við horfum fram á það að hugsanlega munum við þurfa að lepja dauðann úr skel þegar líður á ævikvöldið.

Séreignasparnaðurinn farinn. Húsið farið. Fyrirtækið sem við störfuðum hjá er farið á hausinn. Landið er farið á hausinn. Ráðamennirnir áttu ekki annars úrkosta en að selja það brunaútsölu í hendurnar á óprúttnum bröskurum sem skeyta því engu hvort fjallkonan fríð hefur tapað virðingu sinni eður ei. Þeim er alveg sama svo fremi að þeir græði.

Nýja hugsun

Nei – það er kominn tími til að hugsa þetta allt upp á nýtt. Þegar öllu er á botninn hvolft þá dettur engum manni í hug að láta sauma sérstaka vasa á líkklæðin til þess eins að taka seðlabúntin með sér í gröfina. Það eru ávallt hin andlegu verðmæti sem skipta máli þegar upp er staðið.

Við þurfum að gefa hagfræðingunum og lögfræðingunum smá frí. Nú þurfum við að hlusta á heimspekingana, félagsvísindafólkið, hugmyndasmiðina, listamennina, hugvitsfólkið og aðra sem hafa eiginleika til að sjá heildarmyndina fyrir sér.

Fólk sem getur sest niður og búið til nýtt módel af íslensku samfélagi. Þekkingin er til staðar. Skapandi hugsun er til staðar og fólkið er allt í kringum okkur. Við þurfum bara að gefa því tækifæri til að móta nýjar hugmyndir. Við þurfum nýja framtíðarsýn sem byggir á nýrri hugsýn sem hefur hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi en ekki sérhagsmuni.  Það þarf að tryggja það að allir fái jöfn tækifæri.

Afleiðingar kreppunnar

Ástandið núna býður hættunni heim. Glæpum fjölgar. Fíkniefnaneysla eykst. Heimilisofbeldi færist í aukana. Félagsleg vandamál hrannast upp. Það ríkir upplausn ef menn skyldu ekki vera búnir að átta sig á því.

Hvers vegna er t.d. ekki búð að leysa þessi fangelsismál á Íslandi? Það bíða 150 manns eftir því að afplána fangelsisdóma. Það er ekki enn búið að finna húsnæði undir þetta fólk.

Norður í Húnavatnssýslu er t.a.m.a bygging sem heitir Húnavallaskóli sem gæti hýst þessa aðstöðu. Það þarf bara nýja lása á hurðirnar og þarna væri hægt að koma upp alvöru fangelsi þar sem raunveruleg betrun færi fram ef vel væri að málum staðið. Víða annars staðar á landinu eru vannýttar byggingar.

Í upplausnarástandinu  hættir fólk að borga af lánunum sínum af því það breytir engu. Það er bara verið að moka í botnlausa hít. Því meira sem mokað er í hana því stærri verður hún. Á endanum gefst fólk upp og fer. Þetta sáum við fyrir í aðdraganda síðustu kosninga en menn skelltu við skollaeyrum

Ábyrgð okkar

Hvað ætlum við að gera? Ég er ekki að tala um stjórnvöld. Hvað ætlar almenningur í landinu að gera? Það er einsýnt að það virðist alveg saman hvað fólk kýs yfir sig. Það fer bara allt í sama farið aftur.

Hægri stjórn fer frá af því hún setti allt á hausinn. Vinstri stjórn kemur og sópar upp skítinn, en af því hann er svo mikill þá verður þjóðin að borga og þá verður stjórnin ofsalega óvinsæl og ekki líður löngu þar til önnur hægri stjórn kemst til valda. Hún einkavæðir það sem búið var að þjóðnýta og setur allt á hausinn aftur og svo koll af kolli.

Þetta hættir ekki fyrr en við losnum út úr þessum vítahring.

Að lokum

Þjóð mín – ekki sofa á verðinum. Nú þarftu að vaka og sjá til þess að tröllið á glugganum nái ekki að læsa krumlu sinni í börnin þín. Nú þarftu að gæta þess að verða ekki að mannakjötsúpu í pottinum hjá þeim sem eru að brugga vélráð á bakvið tjöldin. Vaknaðu þjóð mín. Opnaðu augun. Láttu ekki blekkjast af fagurgalanum. Þú skynjar raunveruleikann best sjálf. Taktu málin í þínar hendur. Láttu ekki hafa af þér það sem þér var fengið í arf. Til þess er hann alltof dýr.

Valgeir Skagfjörð, formaður Borgarahreyfingarinnar.

 

 

 

 

 

 

 

 


Að loknum landsfundi

Kæru vinir og samherjar.

 Nú er langþráðum landsfundi lokið og lýðræðisleg niðurstaða fengin varðandi ný lög og samþykktir. Stjórnarkjör hefur varið fram og niðurstaða stjórnar um verkaskiptingu var einróma sú að formaður skyldi verða Valgeir Skagfjörð, Heiða B. Heiðarsdóttir varaformaður og Sigurður Hr. Sigurðsson ritari. Aðrir voru Gunnar Sigurðsson, Guðmundur Andri Skúlason, Lilja Skaftadóttir og Ingfríður R. Skúladóttir. 

Lýðræðisleg kosning átti sér stað um tillögur að nýjum lögum en 35% landsfundarmanna vildu kjósa um hina tillöguna sem í boði var. Margt gott var í þeim tillögum sem ég hefði viljað sjá í nýju lögunum og þeir sem aðhylltust þær tillögur hefðu auðveldlega getað tekið þátt í vinnu landsfundar og komið með breytingartillögur í þá átt og þannig hefði verið hægt að sættast á það besta úr báðum tillögunum.

Hluti fundarmanna kaus þess í stað að yfirgefa fundinn og neitaði að taka þátt í stjórnarkjörinu. Þetta þótti mér afar miður og ég verð að segja að ekki er mjög stórmannlegt að rjúka burtu í fússi þegar í ljós kemur að hugmyndir manns lúta í lægra haldi í lýðræðislegum kosningum. 

Það var reiknað með þátttöku 100 manna á landsfundi og töldu flestir það harla gott. Mætingar á félagsfundi hafa verið með miklum ágætum. Nú til dags þætti það saga til næsta bæjar að 30 manns væru að mæta á fundi hálfs mánaðarlega hjá stjórnmálahreyfingu og það um miðjan sumarleyfistímann.

Staðreyndirnar tala sínu máli og málflutningur þingmanna og annarra sem vilja ekki lúta lýðræðislegri niðurstöðu landsfundar er eiginlega hálf barnalegur.

Menn rjúka upp til handa og fóta og tala um smölun og yfirtöku - orð sem alla jafna eru notuð í neikvæðri merkingu. Eina smölunin sem hefur farið fram er sú að félagsmenn almennt hafa verið hvattir til að taka þátt í landsfundinum. Enda í hæsta máta eðlilegt.

Það er líka í hæsta máta eðlilegt að fólk í lýðræðislegri hreyfingu bjóði sig fram til stjórnarsetu og setji mannkosti sína í dóm þeirra sem síðan kjósa. Þannig virkar lýðræði. Þess vegna skýtur það mjög skökku við að félagar okkar í hreyfingunni sem vilja berjast fyrir bættu lýðræði, gagnsærri stjórnsýslu og heiðarleika skuli bregðast svona neikvætt við.

Ég veit að það hefur mætt mikið á þingmönnum okkar við störf sín á alþingi. Já - það er annasamt starf að vera alþingismaður. Ekki síst á erfiðum tímum eins og við erum að upplifa núna. Þeir hafa í hvívetna staðið sig vel og innst í hjarta sínu trúa þeir því að þeir séu að vinna samkvæmt sinni sannfæringu. Það ber að virða. Ég virði það.

En þeir verða að sama skapi að virða það lýðræði sem þeir hyggjast betrumbæta. Landsfundur ályktaði, samþykkti og kaus nýja stjórn til starfa. Nú verða allir að leggja deilur og væringar til hliðar, sameinast  um að efla Borgarahreyfinguna og þær hugsjónir og stefnu sem hún stendur fyrir.

Við þurfum að komast upp á næsta plan þar sem þrenningin virkar: Grasrót -  Stjórn - Þingmenn.  

Tækifærið er núna og ég bið ykkur háttvirtir þingmenn og aðrir félagar í þessari hreyfingu að taka í útrétta sáttahönd. Berum klæði á vopnin og sameinumst um þau meginmarkmið sem við lögðum upp með í byrjun.

Það er afskaplega óvirðulegt að missa sig í hártogunum um merkingu orða.  

Ég veit ekki betur en VG heiti Vinstri hreyfingin grænt framboð. VG er þó skilgreindur sem hefðbundinn stjórnmálaflokkur.

Við heitum Borgarahreyfingin og margir líta á okkur sem stjórnmálaflokk. Við stofnuðum stjórnmálaflokk og buðum fram í öllum kjördæmum. En við höfum kosið að kalla okkur hreyfingu af því við viljum vera lifandi afl.

Við ætlum sannarlega að halda áfram að vera lifandi afl. Við ætlum að hreyfa við hlutunum. Við munum tryggja þingmönnum okkar öflugt bakland. Við munum mynda nefndir og ráð í málaflokkum sem varða stefnuskrá okkar.

Á næstu misserum munum við jafnvel sjá stefnuskrá okkar útfærða betur og við munum koma á skipulagi innan hreyfingarinnar til þess eins að efla hana og styrkja á alla lund.

Við munum ekki verða ,,miðstýrður stjórnmálaflokkur" það er af og frá.

Við verðum lifandi afl áfram. Ég sem formaður ætla að beita mér fyrir því sem ég trúi á hér eftir sem hingað til og ekkert mun breyta því.

Ég ætla að ástunda heiðarleika og gera mitt ýtrasta til að verða samferðafólki mínu að gagni.

Ég ætla ekki að tala illa um nokkurn mann og ég ætla ekki að ástunda baktjaldamakk.

Þessi stjórn hyggst starfa eftir nýjum samþykktum landsfundar og í engu hvika frá stefnu Borgarahreyfingarinnar.

Við munum starfa af fullum heilindum og við munum að mér heilum og lifandi ná Borgarhreyfingunni út úr þeirri krísu sem hún hefur verið í undanfarið.

Við ætlum ekki að kasta skít á bloggi eða munnhöggvast við aðra á opinberum vettvangi. 

Við ætlum að einbeita okkur að því að láta grasrótina vinna, vinna að því að koma á breytingum í hugsun og athöfnum í pólitík svo þjóðin fái í eitt skipti fyrir öll að sjá að hér er fólk sem vill lýðræðinu vel.

Kv. 

Valgeir Skagfjörð, formaður.

 

Ég þarf varla að minna á nauðsyn þess að afnema verðtryggingu. 

 


Ávarp borgara

Kæru borgarar. Við stöndum hér og getum ekki annað. Við sem viljum tilheyra Borgarahreyfingunni erum skyndilega orðin vegalaus og ráðvillt í þeim darraðardansi lélegra samskipta og samskiptaleysis félaga, stjórnarmanna og þingmanna hreyfingarinnar.

Fyrir kosningar var lagt af stað í nokkrum flýti með framboð sem hafði að markmiði að koma þjóðinni á þing í þeim tilgangi að koma einföldum stefnumálum í framkvæmd.

Stefnuskráin var kynnt og fékk strax hljómgrunn meðal kjósenda.  Borgarahreyfingin hugðist standa fyrir breytingum. Þessar breytingar áttu að miða að því að reisa nýtt lýðveldi upp úr öskustó hrunsins, leggja niður flokksræði, ráðherraræði og koma á fót virkara lýðræði. Færa valdið til fólksins, breyta stjórnskipan á Íslandi, rannsaka bankahrunið sem sakamál, semja um Icesave, færa vísitölu verðtryggingar aftur til janúar 2008, fara í aðildarviðræður við ESB og láta þjóðina síðan kjósa um samninginn. Fjölmargt annað var á stefnuskránni eins og t.d. að fækka þingmönnum, uppræta spillingu og innleiða pólitíska ábyrgð, svo fátt eitt sé nefnt.

Þegar kemur í ljós að Borgarahreyfingin fær fjóra þingmenn kjörna þá fer nú vindurinn heldur að blása úr annarri átt.

Borgarahreyfingin var alls ekki stofnuð með það fyrir augum að koma ákveðnum einstaklingum á þing heldur var meiningin að skapa brú fyrir þjóðina á þing og þeir sem settust á löggjafasamkunduna mundu koma stefnumálum hreyfingarinnar í framkvæmd.

Grasrótin átti síðan að tryggja þingmönnunum bakland og vinna ötullega að því að smíða frumvörp og vinna hugmyndir í anda Borgarahreyfingarinnar til að koma á þeim breytingum sem kjósendur voru að kalla eftir þegar þeir kusu hana.

Ekkert af þessu hefur gengið eftir. Stjórn og þinghópur hafa ekki getað unnið saman, þinghópurinn er klofinn og almennir félagar skiptast nú í fylkingar og upp er komin valdabarátta eins og við þekkjum hana úr öðrum hefðbundnum stjórnmálaflokkum.

Við ætluðum að koma fram með stjórnmálahreyfingu sem starfaði öðruvísi. Hreyfingu sem væri valkostur í andstöðu við fjórflokkinn. Aflið sem átti að færa valdið til fólksins er orðið að einstaklingum sem slást um að vera í kastljósi fjölmiðla, gefandi út yfirlýsingar um eitthvað sem varðar á engan hátt stefnumál Borgarahreyfingarinnar.

Við vorum tilneydd að stofna ,,stjórnmálaflokk” þegar við fórum í framboð því öðruvísi var því ekki fyrir komið eins og reglurnar eru á Íslandi. Við verðum því að horfast í augu við það þótt við viljum ekki kalla okkur ,,flokk” þá er hreyfingin í eðli sínu ekkert annað en stjórnmálaflokkur. Sem slík verður Borgarahreyfingin að vera lýðræðisleg á sama hátt og aðrir stjórnmálaflokkar og þá er ekki nema eðlilegt að upp komi sú staða að einhverjir vilji taka málin í sínar hendur og koma hreyfingunni aftur á þann stað sem hún var fyrir kosningar þó ekki væri nema til að ná aftur trúverðugleika og senda félögum sínum og kjósendum sínum skilaboð að Borgarahreyfingin sé lifandi stjórnmálaafl sem ætlar sér að breyta samfélaginu í átt til betra lýðræðis, réttlætis, bættra stjórnarhátta og gagnsæis og heiðarleika í íslenskri stjórnsýslu og alls staðar á Íslandi.

Ég minni á nauðsyn þess að leggja niður verðtryggingu.

 

Kv.

 

Valgeir Skagfjörð, borgari


Þjóðin á þing

Þjóðin á þing

Borgarahreyfingin var stofnuð af fólki með hugsjónir og væntingar um að koma á lýðræðislegum umbótum, réttlátara samfélagi með gagnsæjum vinnubrögðum og umfram allt, heiðarleika að leiðarljósi

Slagorðið “þjóðin á þing” er engin tilviljun. Það var valið vegna þess að vildum að þjóðin fengi rödd inni á Alþingi Íslendinga. Þinghópur hreyfingarinnar var hugsaður sem brú frá grasrótinni þangað inn.

Að okkar mati hefur það mistekist.
Þess í stað hafa hugsjónir, stefna og kraftur hreyfingarinnar týnst í deilum og óánægju á alla kanta.

Við sem undir þetta ritum erum stolt af Borgarahreyfingunni eins og hún var hugsuð. Í stað þess að gefast upp fyrir þeim mistökum sem gerð hafa verið langar okkur að leggja okkar að mörkum til að hreyfingin finni uppruna sinn á ný og að vegur hennar verði sem mestur.

Þess vegna ætlum við að bjóða fram krafta okkar til stjórnar Borgarahreyfingarinnar.


Við komum fram sem hópur og gerum okkur vonir um að fá stuðning sem slíkur.
Engu að síður bjóðum við okkur hvert og eitt fram til starfsins sem einstaklingar.

Sem hópur höfum við sett saman grunn að stefnu þeirri sem við munum fylgja í störfum okkar og hana má skoða í tengdri skrá.

 



Við munum kynna stefnuna nánar á næstu dögum og á landsfundi hreyfingarinnar.

Ásthildur Jónsdóttir, Bjarki Hilmarsson, Björg Sigurðardóttir, Guðmundur Andri Skúlason, Gunnar Gunnarsson, Gunnar Sigurðsson, Heiða B. Heiðarsdóttir, Ingifríður Ragna Skúladóttir, Jón Kr. Arnarson, Lilja Skaftadóttir Sigurður Hr. Sigurðsson og Valgeir Skagfjörð

 

http://gandri.wordpress.com/files/2009/09/skipulagframtidarsyn.ppt


Ekki lengur í stjórn Borgarahreyfinarinnar

Að að gefnu tilefni og til að fyrirbyggja misskilning þá birti ég hér bréf mitt til stjórnar Borgarahreyfingarinnar sem ég sendi í gærkvöldi frá mér.

Þess misskilnings hefur gætt að ég sé hættur í Borgarahreyfingunni. Það er ekki rétt. Ég hins vegar óskaði eftir því að vera leystur frá störfum í þessari stjórn. Bréfið fylgir hér með.

 Góðar kveðjur.
 

e.s. Svo legg ég auðvitað til að verðtrygging verði afnumin hið allra fyrsta.

 

                                                                        Kópavogi aðfararnótt 14. ágúst 2009 

Sælir kæru félagar.

Af persónulegum ástæðum þá er komið að leiðarlokum hjá mér í þessari stjórn.

Þegar ég hóf störf fyrir Borgarahreyfinguna var það eingöngu fyrir góðan málstað, fagrar hugsjónir og vonir um að reisa nýtt lýðveldi á Íslandi úr öskustó hrunsins.

Ég  öðlaðist trú á að hægt væri að stofna nýtt stjórnálaafl þar sem heiðarleiki, gagnsæi og lýðræði gætu setið í fyrirrúmi og þar sem eini hagsmunahópurinn sem þyrfti að verja væri almenningur í þessu landi.

Við náðum ótrúlegum árangri með samstilltu átaki fólks sem trúði á okkur og uppskárum fjögur þingsæti sem fimm manns hafa nú þegar fengið að verma.  Í dag sitja 4 þingmenn Borgarahreyfingarinnar á þjóðþingi Íslendinga.

Því miður þá eru vonbrigði mín mikil þegar kemur í ljós að þeir sem áttu að berjast fyrir því að koma stefnumálum og hugsjónum Borgarahreyfingarinnar í farveg á þinginu eru mun uppteknari af sjálfum sér en því að vinna að framgangi hreyfingarinnar sem heildar.

Hin ólýðræðislegu vinnubrögð hinna flokkanna hafa verið gagnrýnd harðlega en svo kemur í ljós að hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar Borgarahreyfingarinnar með sínar lýðræðisumbætur að leiðarljósi vilja ekkert af lýðræðinu vita þegar kemur að því að praktísera það í eigin flokki.

Allt í einu sé ég óheiðarleika, óheilindi, samskiptaörðugleika, baktal, slúður, ófrægingarherferð, skítkast og allt það vonda sem við vildum ekki gera en erum samt að gera,  en það góða sem við boðuðum fyrir kosningar á ekki upp á pallborðið núna.

,,Maður kemur ekki í manns stað - það höfum við þegar reynt" segja þingmenn í bréfi til stjórnar. Ég veit vel að ég heiti Valgeir Skagfjörð en ekki Þór Saari og þess vegna gat ég ekki orðið hann  þegar ég sat þarna inni í tvær vikur.

Ég starfaði þó af fullum heilindum í anda stefnuskrár Borgarahreyfingarinnar og tók þátt í öllum þeim nefndarstörfum sem krafist var af mér og tróð mér upp í pontu til að tjá skoðanir mínar sem samrýmdust fullkomlega því sem Borgarahreyfingin hugðist standa fyrir.

Það er sárt að yfirgefa þetta barn sem virðist andvana fætt en því miður virðist mér hreyfingin komin niður á slíkt plan að áhugi minn á að starfa frekar með henni hefur dofnað svo að mig langar ekki að vera þátttakandi.

Ég óska eftir því að vera leystur frá þessari stjórn.

Ég er með erindisbréf frá Landskjörstjórn um að ég sé varaþingmaður SV kjördæmis og ég mun að sjálfsögðu rækja þær skyldur sem því fylgir. Ekki svo að Þór Saari muni  óður og uppvægur leita eftir því að ég leysi hann af, en ef nauðsyn bæri til þá mundi ég að sjálfsögðu taka þingsæti eins og lög gera ráð fyrir.

Gott ef satt er að þessir einstaklingar sem kallast þingmenn skuli vera svona mikil guðsgjöf til Borgarahreyfingarinnar og þjóðarinnar.


Má vera að ég endurskoði afstöðu mína síðar ef sáttanefnd tekst að lægja öldurnar en á meðan allir virðast nærast á neikvæðum tilfinningum og hugsunum þá vil ég ekki taka þátt.

Gangi ykkur allt í haginn.

Ykkar félagi og samherji.

Valgeir Skagfjörð


Önnur vika á alþingi og ræðan mín um Icesave í dag.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090702T143115&horfa=1

 

Virðulegi forseti.

 

Það eru erfiðir tímar. Má vera ögurstund í íslenskum stjórnmálum. Ögurstund í sögu Íslands. Ögurstund. Hér er nú til umræðu samningur sem er ekki aðeins umdeildur heldur samningur sem inniber mögulega örlög þessarar þjóðar. 

Það hefur margoft komið fram í ræðu og riti að það er allri þjóðinni þvert um geð að samþykkja þennan nauðarsamning sem gömlu Nýlenduherrarnir úti í Evrópu hafa svínbeygt okkur til að undirrita. Það er líka á allra vitorði hérlendis sem erlendis að íslenska þjóðin hefur ekkert gert af sér sem réttlætir það að skrifað sé upp á bevis um að gera Íslendinga að þrælum í eigin landi. Það er ekkert sem réttlætir það að Íslendingar séu settir í nauðungarvinnu við að þrífa upp eftir gegndarlausa óráðsíu, ævintýramennsku og viðskiptadólgskap sem fáeinir bankamenn og bisnissmenn blindaðir af græðgi hafa komist upp með.

 

En það er víst ekkert annað í stöðunni en að leysa þennan vanda með samningum. Við verðum að standa við það sem við segjum. Við verðum að standa við þær alþjóðlegu samþykktir sem við sem þjóð erum aðilar að. 

 

En þjóðin skrifaði ekki upp á þessa ábyrgð í upphafi. Ef mig misminnir ekki þá sagði fyrrum iðnaðar og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn framsóknar og sjálfstæðisflokks á borgarafundi á Nasa orðrétt – með leyfi forseta: ,,Ég seldi bankana” – tilvitnun lýkur. Ég vek athygli á orðalaginu: Ég seldi bankana! 

 

Og bankarnir voru seldir og komust þar með í einkaeign. Þannig að það var banki í einkaeign sem fór á hausinn – en á bakvið stóð ríkisábyrgð. Ríkið ábyrgðist. Og þegar menn tala um ríkið þá vita flestir við hvað er átt. Það erum við. Almenningur í  þessu landi. Og nú skal ríkið ábyrgjast greiðslur af þeim lánum sem það neyðist nú til að taka. Og við borgum brúsann – eins og venjulega.

 

Það vissu allir málsmetandi menn og konur í hvað stefndi löngu fyrir hrun, en samt gekk maður undir manns hönd við að fegra ástandið og blekkja almenning og umheiminn með því  að allt væri í stakasta lagi. Og svo fór sem fór og þá sögu ætla ég ekki að rekja hér – hún er harmleikur sem aldrei má endurtaka sig.  

 

Og nú ber svo við að við stöndum helmingi verr að vígi en þegar lagt var af stað í einkavinavæðinguna á sínum tíma.  Skuldir ríkissjóðs stefna í að verða 3 þúsund milljarðar með vaxtagreiðslur upp á rúmlega 130 milljarðar á ári. Lítur ekki vel út. 

 

Ekki hjálpar okkur hin alþjóðlega kreppa sem víða er að gera vart við sig þessa daga. Og það merkilega er að við sáum öll sömu teikn á lofti áður en kreppan skall á okkur hérna og teiknin sem voru fyrir kreppuna 1930 og jafnvel blaðafyrirsagnir frá þeim tíma eru lygilega samhljóma þeim fyrirsögnum og upphrópunum sem við höfum lesið, séð og heyrt í fjölmiðlum síðustu misserin.

 

Höfum við þá ekkert lært? Nú hafa hvort tveggja kommúnisminn og nýfrjálshyggjan hrunið og við vitum að hið kapítaliska samfélag sem þróaðist frá iðnbyltingunni hefur í gegnum söguna ávallt leitt af sér hrun, kreppu, atvinnuleysi og att þjóðum að lokum út í styrjaldir.

Eins og ófrávíkjanlegt lögmál – eins og lögmálið meðal dýranna – þegar of margir koma að vatnsbólinu – þá þrengir að og þeir sem ekki komast að lindunum verða öfundsjúkir, fyllast réttlætiskennd og það sem þeir ekki fá – taka þeir með valdi ef ekki vill betur og hinir verjast með kjafti og klóm.  Og þá verður aftur hagvöxtur!

Miðar okkur ekkert áfram? 10 prósent jarðarbúa eiga 90 prósent af auði jarðar. Segir það kannski ekki alla söguna? Hvar er réttlætið?

 

Réttlæti er sjaldnast eitthvað sem hægt er að ganga að sem gefnu. Réttlætið hefur undarlega tilhneigingu til að standa ekki með þeim sem þurfa mest á því að halda. Hinn smái hefur alltaf þurft að berjast fyrir réttlætinu með sínu blóði, svita og tárum.

 

Frú forseti – það setur að mér hroll og það setur að mér beyg. Ég bauð mig fram til setu á hinu háa alþingi fyrir síðustu kosningar vegna þess að að mér blöskraði svo gjörsamlega hvernig komið var fyrir þjóðinni. Mér var öllum lokið yfir því misrétti og þeirri framkomu sem almenningi í þessu landi hefur verið sýndur á undanförnum árum. Mig langaði einfaldlega til að gera gagn. Mig langaði til geta orðið meðbræðum mínum að gagni, mig langaði til að geta orðið þjóðinni að gagni.  Það er hlutverk þjóðkjörinna fulltrúa. Að vinna þjóðinni gagn í umboði kjósenda sinna. Þannig lít ég á hlutverk mitt hér. Ég er bundinn af sannfæringu minni þegar ég tek upplýsta ákvörðun um mál sem snerta þjóðina en ekki flokknum. Hollusta mín og sannfæring er hjá mér gagnvart þjóðinni. Það er sá eiðstafur sem ég skrifaði undir þegar ég hóf störf hér í þinginu.  

 

Þessi samningur sem kenndur er við Icesave, innlánsreikninga Landsbankans í útlöndum sem söfnuðu gríðarlegum innstæðum á stuttum tíma – þessi samningur er nú á góðri leið með að kljúfa þjóðina og þingið í herðar niður og sýnist sitt hverjum um hvort við eigum að  láta möglunarlaust troða honum niður um kokið á okkur eða hvort við eigum að malda í móinn og freista þess að fá nýjan samning – hugsanlega eitthvað betri – þótt ekki væri nema að sýnt þyki að við getum með einhverju móti staðið við hann. 

 

Ég vil leyfa mér frú forseti að halda því fram að þessi samningur sé innihaldslega og frá lögfræðilegum sjónarhóli ekkert  ýkja frábrugðinn venjulegum samningum sem aðilar í viðskiptum gera sín á milli. Og það blandast engum hugur um það að hér er um samning að ræða þar sem hallar meira á annan aðilann en hinn og það kemur fyrir að þeir sem standa í slíkum samningum semji af sér. Það er mannlegt að gera slík mistök.  

 

En þessi samningur snýst ekki bara um þær fjárskuldbindingar sem hann tekur til – nei, hann er annað og meira. Hann er táknrænn. Hann er táknrænn í þeim skilningi að með samþykkt eða synjun mun eitthvað losna úr læðingi.  Sama hvernig fer. Vegna þess að hann snertir þá framtíð sem landstjórinn – alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur mótað handa Íslendingum.

 

Við erum föst í greip landstjórans og hann herðir að smátt og smátt þar til mátturinn þverr og þar með þrekið, baráttuviljinn, lífsþorstinn og við tekur slen og óminni sem gerir okkur sinnulaus og sljó.

Þegar þjóð er hneppt í ánauð þá glatar hún vilja sínum til að vinna verkin vel. Hún gerir það vegna þess að hún er pískuð áfram til þess ... hún verður – hún hefur ekki val.

 

Okkur hefur verið tjáð að það séu erfiðir tímar framundan. Það voru þá fréttir eða hitt þó heldur. Það á að hækka hér skatta á almenning og fyrirtæki, troða á öryrkjum og ellilífeyrisþegum -  svo heldur niðurskurðarhnífurinn áfram að saxa af þjóðarkökunni;  verður sennilega  kallað nauðsynlegur sparnaður í ríkisrekstrinum.

 

Heilbrigðisþjónustan versnar, menntakerfið laskast.

Þetta eru alþekktar aðferðir alþjóða gjaldeyrissjóðsins og það er slóðin eftir hann. Saga AGS er ekki áferðarfalleg. En stjórnin virðist ginnkeypt fyrir fagurgalanum og brosi landstjórans sem hefur það að atvinnu að selja okkur þær hugmyndir að þeir séu vinir okkar. Þeir brosa breitt og segja – nú er allt breytt.  Ísland er vestrænt velferðarríki það fær allt annars konar  meðferð. Samt er farið að koma fram við okkur eins og við séum þriðja heims ríki. Stærsta orkufyrirtæki landsins féll lánshæfismatið ,,ruslflokkur” í gær.

 

Hvað er að gerast í okkar góða landi? 

 

Virðulegi forseti – mögulegar skuldir ríkissjóðs  og þjóðárbúsins í heild stefna okkur hraðbyri í átt að gjaldþroti. Það er bara það sem gerist þegar skuldirnar verða of miklar til að hægt sé að greiða þær. Fyrirtækin stefna í gjaldþrot eitt af öðru. Heimilin stefna í gjaldþrot eitt af öðru. Hvernig dettur mönnum í hug að hægt sé að lækna allt með öllum þessum lántökum?

 

Er Ísland að vera eins og fíkill sem vill bara fá fixið sitt til að geta haldið áfram á sömu braut?  Að rétta fíklinum pening tryggir það að hann heldur neyslunni áfram. Eina von hans um bata er að gefast upp vegna þess að hann er andlega, líkamlega og fjárhagslega gjaldþrota. En í því er nefnilega sigurinn fólginn. Það er engin skömm að því að gefast upp í vanmættinum. Þar liggur fyrsta skrefið í átt að lausninni. Það er ekki sinni flótti frá vandamálinu. Gamalt enskt máltæki segir: ,,Sá sem flýr getur barist síðar”. 

Það ber stundum vott um góða hernaðarlist að í stað þess að flýja þá er gripið til þess sem kallað er skipulegt undanhald. Ég held að það gæti orðið farsæl lausn fyrir Ísland að fara í skipulegt gjaldþrota / undanhald . Það sér það hver maður að skuldirnar verða okkur ofviða.

 

Eins og ástandið er og miðað við framtíðarhorfur með AGS í landstjóraembættinu, þrælapískinn frá Bretum og Hollendingum yfir okkur og flestar þjóðir innan ESB, þar með talið frændur okkar á hinum Norðurlöndunum eru á því að það sé best að rétta okkur snæri til að lengja í hengingarólinni  og setja okkur þar með í svo yfirgengilegar skuldir að við munum engan veginn ráða við þær. 

 

Þá kemur ESB til bjargar og hver verður þá díllinn?

 

Verða þá þrjúþúsund milljarðarnir skiptimyntin í samningaviðræðum Íslands og ESB? Ætla þeir skera okkur niður úr snörunni í skiptum fyrir fjöllin, firnindin, fallvötnin, fiskinn í sjónum, réttindin til olíuborunar á Drekasvæðinu, nýtingu á siglingaleiðinni norður fyrir  o.s.frv.  Heldur einhver að þeir sem hafa stjórnað heimsveldum í aldanna rás og rekið nýlendur hinum megin á jarðarkúlunni séu að tjalda til einnar nætur?

 

Sögðu mér það álfarnir í Suðurey,

sögðu mér það dvergarnir í Norðurey,

sögðu mér það Gullinmura og Gleym’mér ei

og gleymdu því ei,

að hefnist þeim er svíkur sína huldumey –

honum verður erfiður dauðinn”  

 

Þannig orti Guðmundur Böðvarsson, skáldið frá Hvítársíðu. 

 

Já – ég veit að ég er ekki með neinar bjartsýnisspár hérna – en stundum þarf maður að standa sannleikanum reikningsskil og hann einn mun gera okkur frjáls.

 

Okkur hefur verið sagt að ef ekki verði gengið að afarkostum AGS og Allra hinna  þá verðum við Kúba norðursins eða jafnvel Norður Kórea - hvílík ógn og skelfing –  kannski er bara betra að vera Kúba norðursins og vera þó frjáls en að vera nýlenda og þurfa að éta úr lófa  lénsherranna í Evrópu.

 

Á meðan við erum frjáls þá eru enn líkur á því að við höldum auðlindunum í okkar eign og þá getum við hafið sókn í átt til sjálfbærni, nýtt þau tækifæri sem hér eru til staðar fyrir okkur sjálf. 

 

Sjálfsagt hugsa margir að við hljómum eins og dæmigerð stjórnarandstaða – erum á móti öllu en komum ekki með neitt í staðinn.

 

Það skal tekið fram við við í Borgarahreyfingunni erum ekki í liði með neinum. Við erum ekkert endilega stjórnarandstaða – við styðjum margt sem stjórnin gerir og margt gott hefur hún lagt til og við styðjum líka margt sem aðrir flokkar gera, en við stöndum fyrst og síðast sjálfum okkur reikningskil. Okkur og sannfæringu okkar.

 

Borgarahreyfingin hyggst nú á næstu dögum þegar Icsavemálið fer fyrir nefndir þingsins róa að því öllum árum að koma með að minnsta kosti grófar útlínur af plani B.

Við ætlum að leggja fram ítarlegar hugmyndir um það hvernig við komum okkur út úr þeim vanda sem við erum í, en til þess þurfum við að vera tilbúin til að hlusta á óvenjulegar hugmyndir, frumlegar lausnir,  því Ísland hefur aldrei nokkurn tíma staðið frammi fyrir svona aðstæðum áður. Aðstæðum sem væru hvaða þjóð sem er nánast ofviða ef erfiðleikarnir sem steðjuðu að væru í viðlíka hlutfalli við okkar. 

 

Það skal einnig tekið fram að Borgarahreyfingin er ekki á nokkurn hátt að leggja það til að við semjum ekki um skuldir okkar, en um leið viljum við að allt kapp verði lagt á að draga þá til ábyrgðar sem eiga sök á því hvernig fór – við viljum skerpa á rannsókninni og það má geta þess í framhjáhlaupi að það er til stofnun í Englandi sem heitir Serious Fraud Office sem tekur á stórum svika og glæpamálum.

Í fyrradag tilkynnti þessi stofnun að hún hefði fryst 100 milljónir bandaríkjadala á ýmsum bankareikningum sem tengdust auðmanni sem sakaður er um að hafa dregið að sér sem svarar 900 milljörðum króna.

Það liðu fimm klukkustundir frá því stofnunin fékk beiðni frá Bandarískum yfirvöldum þar til hún hafði fryst þá fjármuni sem vitað var að tengdust þessum manni.

 

Það eru liðnir átta mánuðir frá hruninu hér og engar eignir eða fjármunir hafa verið frystir.

 

Hvernig væri að hringja eitt símtal á Serious Fraud Office í Englandi?

Þeir hljóta að bregðast vel við því það mundi stórauka líkurnar á að Bretarnir fengju upp í skuldirnar.

 

Það er með hreinum ólíkindum hvað gunguhátturinn virðist mikill gagnvart þessari rannsókn.

 

Ríkisstjórnin skuldar þjóðinni það að láta rannsaka allt sem við kemur hruninu og rannsóknin þarf helst að fara fram fyrir opnum tjöldum.

 

Þeir sem komu okkur á kaldan klaka með ábyrgðarlausu framferði sínu eiga að borga reikninginn – ekki almenningur. Það verður að vera á hreinu.

 

Ef meiningin er að láta þetta lönd og leið – láta bara almenning blæða og vonast til að allt reddist þegar við förum inn í ESB þá eru menn á verulegum villigötum.

 

Þjóðin þarf sannleikann upp á borð. Sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann!

 

Icesave er bara byrjunin. Nú þurfa þingmenn að sýna kjark. Nú þurfa þingmenn að leggjast undir feld á eintal við samvisku sína og hafa dómgreind sjálfs sín að leiðbeinanda.

 Nöfn þeirra sem vilja selja landið og miðin munu verða meitluð í stein á meðan eitthvað lífsanda dregur í þessu landi.

 

Þennan samning verður að fella.

    

Hvað gerist ef alþingi fellir Icesave?

Það er athyglisverð úttekt frá Jóni G. Haukssyni á því hvað muni gerast felli alþingi Icesave samninginn.

Niðurstaða skýrslu frá sérfræðingi í Evrópurétti staðhæfir að málið beri að vinna hjá EB / EES og dómstólar eigi að skera úr um málið. Það mun nánar verða fjallað um það á borgarafundi um Icesave í Iðnó á mánudagskvöldið kemur kl. 20:00. 

Ég hvet alla til að koma á fundinn, lærða sem leika. Hér er svo úttekt Jóns G. til nánari glöggvunar og vonandi til að slá á þau áhrif sem hræðsluáróður stjórnarsinna hefur á mótun skoðana almennings. 

Það er nefnilega enginn að tala um að semja ekki það er bara verið að tala um að semja svo hægt verði að standa við ákvæði samningsins. Eða er hugmyndin kannski að láta taka samninginn til endurskoðunar þegar við erum komin inn í EB?  Ef  / og þegar.

 

Hvað gerist ef Alþingi fellir Icesave?

1. Lífið heldur áfram. Það verður ekki slökkt á Íslandi. Erlendir bankar munu halda áfram að sinna viðskiptum á milli landa og fá þóknanir fyrir. Útlendingar hætta ekki að kaupa fisk af okkur. Kaupa ál af okkur. Ferðast til Íslands. Selja okkur vörur á meðan við getum greitt fyrir þær með útflutningi okkar.

2. Ríkisstjórnin fellur. Þá það. Hún er ekki æðri Alþingi heldur framkvæmdavald Alþingis. Bretar og Hollendingar vita að það var Alþingis að samþykkja þetta. Í raun hefðu þeir getað átt von á því að svo stór skuldbinding færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í fyrirtækjum er það þannig að stjórnin (Alþingi) hefur lokaorðið. Forstjóri semur með þeim fyrirvara að stjórn fyrirtækisins samþykki samninginn.

3. Samið verður upp á nýtt í Icesave. Við segjum: Takið eignir Landsbankans og málið er dautt. Eða að greiðslubyrði þjóðarinnar megi aldrei fara upp fyrir ákveðið hlutfall. Við getum ekki gefið út og skrifað undir óútfylltan tékka.

4. Komandi kynslóðir verða fegnar. Við getum horft framan í börnin okkar og sagt: Við komum ykkur ekki á höfuðið.

5. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

segir ekki upp láninu við okkur. Heldur fólk að sjóðurinn muni þegar á reynir skella okkur á jörðina og ganga frá okkur í orðsins fyllstu merkingu? Það er þá sjóður og það er þá Evrópusamband.

6. Þrýst verður á erlend stjórnvöld innan frá. Við erum ekki að semja við mafíuna – þótt stundum mætti halda það. Á Norðurlöndunum og í Evrópu er lýðræði. Ekki einræði. Fólkið í þessum löndum stendur með okkur og skilur að íslenski almúginn getur ekki og á ekki að standa undir þessu.

7. Það er viðurkenning á því að einkabankarnir á Íslandi voru ekki ríkisbankar. Ef almúginn á Íslandi á að standa undir fjárglæfrum Landsbankans þá er það viðurkennt að einkabankar eru ekki til á Evrópska efnhagssvæðinu – þá eru allir bankar ríkisbankar. Það stóð hvergi í lögum um Evrópska efnahagssvæðið að Landsbankinn hafi verið ríkisbanki.

8. Þá fara þjóðir Evrópu að endurmeta innstæðutryggingakerfið. Íslendingar komu því á samkvæmt tilskipun Evrópuráðsins. Landsbankinn greidd ekki nægilega mikið inn í innstæðutryggingakerfið og það vissu Bretar og Hollendingar – og valdastofnanir innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það má spyrja: Brugðust ekki eftirlitsstofnanir Evrópska efnahagssvæðisins sem og Evrópusambandsins? Íslenska útrásin fór ekki framhjá neinum í Evrópu. Það vissu allir hvernig hún var fjármögnuð.

9. Bretar og Hollendingar munu gefa eftir og semja upp á nýtt. Fjármálaeftirlit beggja þessara þjóða höfðu áhyggjur af Icesave alveg frá byrjun. Fjármálaeftirlit Hollands hafði af því miklar áhyggjur hvað Landsbankinn steig hratt á bensíngjöfina í Icesave í Hollandi eftir að Bretar voru á nálum og löngu farnir yfir um yfir reikningunum og vildu koma þeim í öruggt skjól í Bretlandi.

10. Fínt. Fyrst Icesave Landsbankans gengur fyrst og fremst út á evrópskur reglur á Evrópska efnahagssvæðinu þá á löggan á svæðinu að vera evrópsk – ekki alíslensk.

11. Réttlætið nær fram að ganga. Við erum með byssuhlaupið í bakið á okkur. Heldur fólk virkilega að það verði hleypt af ef Alþingi segir nei. Auðvitað ekki. Sannið þið til; Bretar og Hollendingar verða tilbúnir til að semja upp á nýtt.

Björgólfur Thor. Ég vil svo vekja athygli á mögnuðu bréfi Björgólfs Thors til Illuga Jökulssonar þar sem Björgólfur segir: „Það er rétt hjá þér að Landsbankinn var ekki „þungamiðjan“ í mínum „bissness“. Og svo kemur setning ársins: „Ég var aldrei í bankaráði og líkt og aðrir hluthafar Landsbankans treysti ég stjórnendum bankans og bankaráðinu fyrir hlutafé okkar og þá um leið starfsemi bankans.“ Ja, hérna.

Og tökum við ekki örugglega öll undir með Björgólfi Thor?: „Það líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki um þetta Icesave klúður.“

Að lokum þettta: Það er ekki trúverðugt þegar heilli þjóð er stillt upp við vegg og henni sagt að þetta sé eini kosturinn í stöðunni. Sagan sýnir að það hefur verið gert við ýmsar þjóðir. Yfirleitt hefur sögnin að gleypa legið þar að baki.

Jón G. Hauksson
 
E.S. Birt með fyrirvara um leyfi frá Jóni G. Haukssyni. Sé hann mótfallinn þessari birtingu mun ég fjarlægja þessa bloggfærslu um leið og ég fæ skilaboð þess efnis. Það væri hins vegar afspyrnu gott að fá Jón G. Hauksson á borgarafundinn því margt af því sem hann hefur sagt í ræðu og riti frá því hrunið varð er afar skynsamlegt og ber manninum gott vitni. 
 
Valgeir Skagfjörð. 
 
Eftir sem áður þá óska ég eftir því að verðtrygging verði afnumin - hvernig svo sem við útfærum það. Hún er óréttlát. Ef hún á að vera inni þá óska ég eftir því að laun verði líka verðtryggð og þá getum við farið að tala saman aftur. Hinn kosturinn er auðvitað sá að taka hér um annan gjaldmiðil því krónan er löngu orðin farlama. Því miður sitjum við uppi með hana en hve lengi getum við ekki vitað með vissu.

 

 

 


Þingmaður í eina viku

Nú hef ég verið þingmaður í eina viku og verð þingmaður út næstu viku. Það er skemmst frá því að segja að höfuðið er orðið yfirfullt af upplýsingum og vinnsluminnið á harða snúningi við að skrá allt það sem fram fer umhverfis. Engin smá mál. Bandormurinn og Icesave. Borgarahreyfingin flutti líka sitt fyrsta frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur og var það sannarlega ánægjulegt að geta flutt jómfrúarræðuna í því augnamiði að tala fyrir því ágæta frumvarpi.

Ég á bágt með að ímynda mér að Steingrímur J. eigi sjö dagana sæla um þessar mundir. Enda lítur helst út fyrir að hann sofi lítið og borði þeim mun minna. Það kann ekki góðri lukku að stýra því eins og allir vita þá geta svefnleysi og næringarskortur haft alvarleg áhrif á dómgreind manna.

Ekki þar fyrir að frúnni í hvíta jakkanum sé eitthvað rórra jafnvel þótt henni hafi tekist að fá frammámenn þjóðarinnar að samningaborðinu til að undirrita sáttmála um að taka það rólega á meðan reynt er að finna lausnir við íslenska vandanum.

Íslenski vandinn á líklega eftir að verða kennsluefni í hagfæði, stjórnsýslufræðum og stjórnamálafræðum í háskólum í framtíðinni. The Icelandic Trauma. 

Það er alveg magnað að hugsa til þess sem hefur gerst og þess sem gerðist og þess sem við vitum að á eftir að gerast nema við finnum einhverja nýja lausn á íslenska vandanum. 

Það er grátlegt til þess að hugsa þegar maður skannar lauslega yfir það í huganum hvað hefur áunnist síðan hafist var handa um að hreinsa til eftir hrunið.

Í gær var samþykkt frumvarp ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum sem gengur í aðalatriðum út á það að hækka skatta og álögur á fólk og fyrirtæki. Næsta mál verður líklega að samþykkja Icesave samninginn sem Íslendingar munu ekki geta staðið við. Það er búið að negla okkur upp að vegg og í fljótu bragði engin útgönguleið sjáanleg.

Sjávarútvegurinn skuldsettur upp í topp og stærstu orkufyrirtækin að komast í þrot vegna erlendra skulda.  Skuldir íslensks almenning vegna húsnæðiskaupa og annarra fjárfestinga koma svo ofan á allt þetta.  Allar þessar skuldir eru síðan annað hvort verðtryggðar eða gjaldeyristryggðar svo það ætti að vera lýðum ljóst að dýpra verður vart sokkið. Skuldafenið umlykur okkur og við troðum marvaðann.

Hér erum við að horfa upp á landið okkar í sporum sjúklings sem liggur slasaður á skurðstofu með alvarlega áverka á öllum líkamanum en læknarnir (í þessu tilfelli þeir sem eiga að stjórna landinu) standa hringinn i kringum skurðarborðið og deila um það hvaða tvinna væri best að nota til að sauma saman sárin sem blæða. 

Ég veit að þetta hljómar alls ekki vel og þessi úttekt er afar bölsýn í sjálfri sér en mér er spurn hvort ekki sé tími til kominn að við viðurkennum vanmátt okkar og horfumst í augu við það að við erum að verða gjaldþrota og gerum ráðastafanir í samræmi við það.

Það er ekki öll nótt úti. Við eigum landið okkar ennþá og það er ríkt af auðlindum. Þær eru ekki að fara neitt (vona ég) svo við ættum að geta byggt okkur upp innan frá.

Við getum verið sjálfbær, framleitt mat,  grænmeti, tæki og tól til iðnaðar, við eigum orku og vatn og ef að fiskurinn í sjónum flýr ekki undan ströndinni þá getum við blessunarlega haldið áfram fiskveiðum. Þess utan búum við yfir mikilli þekkingu og hingað er hægt að moka túristum í tonnavís.

Margar hugmyndir eru á sveimi og margar hafa þegar komið til framkvæmda. Ég nefni bara sem dæmi detoxið hennar Jónínu Ben sem annar vart eftirspurn. Til hennar leitar fólk sem þjáist af vestrænum menningar og neyslusjúkdómum sem hægt er að vinna bót á í heilnæmu umhverfi í umsjá færustu sérfræðinga.

Eins nefni ég hugmyndina um að nýta vel tækjum búnar skurðstofur þar sem hægt væri að bjóða upp á aðgerðir hjá færustu læknum.

Nú er tími fyrir óvenjulegar lausnir á óvenjulegum tímum.  Úti í Evrópu eru Íslendingar að horfa heim og sjá möguleika Íslands í að markaðssetja sérstaka menningu okkar. 

Álfar, huldufólk, tröll og forynjur og ýmsir stórhuga menn hafa verið að vinna með gríðarlegar hugmyndir um Goðheima. Svo auðvitað allt hitt, víkingasetur, landnámssetur, draugasetur o.s.frv. Allar þessar hugmyndir eiga rætur að rekja til þess að fólk fær hugmyndir.

Eyjan Havaí hefur t.a.m. megnið af tekjum sínum af því að sýna ferðamönnum eldfjöll.  Á Íslandi er nóg af eldfjöllum og útlendingar eru mjög áhugasamir um slík náttúrufyrirbrigði. 

Það hringdi í mig maður um daginn sem hafði frétt af því að ég væri kominn á þing. Hann spurði mig einfaldlega þessarar spurningar: ,,Er ekki fleira verðmæti en peningar? Þurfa alltaf einhverjir peningaverkfræðingar að koma með lausnirnar handa okkur? Þeir eru ekki að skapa neitt, þeir eru ekki að framleiða neitt. Er ekki vatnið okkar miklu dýrmætara en peningar? Þurfa ekki Bretar og Hollendingar að drekka vatn? Hvað er með allt þetta ál sem við erum að framleiða? Hér renna tærar bergvatnsár til sjávar í þúsundum rúmmetra á degi hverjum. Getum við ekki búið til vatnstanka úr þessu áli sem við erum að búa til fyllt þá af vatni og siglt með það þangað sem þörfin er mest fyrir það? Svo geta menn tekið þessa tanka og brætt þá aftur og gert eitthvað annað úr þeim ...." og svona hélt þessi ágæti maður að ryðja út úr sér hugmyndunum sem hann vildi koma á framfæri. 

Hvað með að skoða svona hugmyndir? Núna vantar okkur nýjar hugmyndir, nýjar lausnir. Þær hagfræðilegu lausnir sem hingað til hefur verið gripið til hafa ekki virkað. Hér þarf innspýtingu og hér þarf að skapa og framleiða. 

Við þurfum kjark til að segja bless við AGS og kjark til að segja nei við Icesave og biðja Breta og Hollendinga um að setjast aftur að samningaborðinu. 

Við þurfum að ræða við þá hjá EB og kynna okkar málstað. Síðan þurfum við að skipta um gjaldmiðil og fara svo að framleiða og skapa. Tökum stefnuna á sjálfbært Ísland. 

 Hvað varðar gjaldmiðilsskipti þá nefni ég hugmynd sem enginn hefur þorað að nefna. 

Gætum við tekið upp sænska krónu og orðið síðan Svíum samferða inn í evruna þegar þeir taka hana upp hjá sér?  

Ég er að hugsa um að spyrja Svíana. 

 

Lifið heil. 

 

Valgeir Skagfjörð 

 

e.s. Í Svíþjóð er ekki verðtrygging svo þetta gæti líka verið leið til að losna við verðtrygginguna sem er nauðsynlegt fyrir okkur. 

 Sem dæmi um áhrif verðtryggingar þá er ég með verðtryggt íbúðalán hjá banka eins og margir aðrir Íslendingar. Frá áramótum er ég búinn að greiða samviskusamlega af láninu síðan um áramót um það bil sjöhundruðþúsund krónur en höfuðstóll lánsins hefur hækkað um fjórar milljónir. 

Það sér það hver heilvita maður að þetta er ekkert annað en rugl! 

Verðtrygginguna burt! 

 

 

 

 


Framboð til stjórnar Borgarahreyfingarinnar

 

Yfirlýsing

Góðir félagar - samherjar og aðrir.

Ég – Valgeir Skagfjörð, varaþingmaður Borgarahreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi lýsi yfir framboði mínu til stjórnar Borgarahreyfingarinnar sem kosin verður á auka- aðalfundi Borgarahreyfingarinnar n.k. laugardag kl. 13.00 að Borgartúni 3 í Reykjavík.

 Ávarp

 Ég lýsi mig reiðubúinn til að starfa í stjórn Borgarahreyfingarinnar og sinna hvaða því embætti sem mér verður falið af heiðarleika og trúmennsku. Það er trúa mín að innan hreyfingarinnar sé að finna gott, velþenkjandi og heiðarlegt fólk sem vill veg og vanda almennings sem mestan.

Að fortíð skal hyggja

Ég starfaði í annarri stjórnmálahreyfingu um margra ára skeið. Ég gegndi trúnaðarstörfum fyrir fyrir hana, var í framboði til bæjarstjórnar, tók þátt í prófkjöri og var svo gerður að kosningastjóra. Allt væri þetta varla í frásögur færandi nema hvað þessi reynsla mín af því að starfa sem kosningastjóri færði mér heim sanninn um að stjórnmál og heiðarleiki fara ekki alltaf saman.

Lengi má manninn reyna – hugsaði ég með mér þegar þessari kosningabaráttu lauk. Ég gekk til trúnaðarstarfa að loknum kosningum og varð vitni að vinnubrögðum í stjórnsýslu sem ekki eru beinlínis til mikillar fyrirmyndar.

Ég sagði mig frá þessum starfa á sínum tíma og hugsaði með mér að aldrei nokkurn tíma skyldi ég koma nærri pólitík framar.
 
Síðan liðu mörg ár og þegar hrunið átti sér stað í haust varð mér endanlega ljóst að pólitík á Íslandi væri ekki við bjargandi. Hér væru allar hugsjónir löngu foknar út í veður og vind og það sem einkenndi pólitíkina hér hjá okkur var fyrst og síðast valdabrölt – framapot, bitlingadílar, óheiðarleiki, sviksemi, fégræðgi, sérplægni, eigingirni og spilling hvar sem borið var niður.

Þessa framhaldssögu þekkjum við og höfum upplifað saman og hún heldur áfram því enginn endir virðist vera á spillingu og nýjum skandölum. Ein og ein frétt þess efnis að verið sé að rannsaka einstaka mál vekur raunar vonir um að þokist hænufet fram á við. 

Nýjar vonir

Það var þess vegna fagnaðarefni hjá mér þegar ég komst að því að við gætum hugsanlega breytt þessu. Að við gætum hugsanlega vakið þjóðina upp af dásvefni og hvatt hana til dáða með því að trúa á nýjar hugmyndir.

Hugmyndir um stofnun nýs lýðveldis á Íslandi þar sem grunnstoðir samfélagsins yrðu endurbyggðar, grunngildin yrðu endurmetin, stjórnskipan færð í átt til virkara lýðræðis og hugað að réttlæti til handa borgurum þessa lands.

Meira að segja hugmyndir Vilmundar heitins Gylfasonar um að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu (franska leiðin) fóru að eiga upp á pallborðið.

Einhverjir þorðu að vekja þessar hugmyndir til lífs. Ég sjálfur var orðinn úrkula vonar um að íslenskt stjórnmálalíf gæti nokkurn tíma lyft sér upp á hærra plan,  en eftir hrunið mikla fór að hilla undir nýja tíma.

Það varð að koma fram nýtt stjórnmálaafl þvert á vinstri og hægri stefnu. Stjórnmálaafl sem vildi taka afstöðu með almenningi í þessu landi. Borgurunum.


Ný stjórnmálahreyfing

Borgarahreyfingin var það nýja stjórnmálaafl sem spratt upp af þessum hugmyndum og ég hreifst með eins og margir aðrir og gekk svo langt að láta til leiðast að taka þátt í pólitík aftur á grundvelli þess að hugsjónir fengju nú einu sinni brautargengi í kosningum í stað misviturra gamalla lausna sem við höfum séð alltof mikið af í gegnum tíðina.

Kraftaverkið gerðist. Á mettíma tókst með samstilltu átaki fjölmargra einstaklinga með brennandi áhuga og fallega pólitíska hugsýn að fá kjósendur til að velja Borgarahreyfinguna - af  þeirri einföldu ástæðu að stefnumál hennar höfðuðu til þeirra og margir þeirra sem eru orðnir þreyttir á sömu flokkunum og sama fólkinu þar innanborðs höfðu nú loksins raunverulegan valkost.

Fjórir þingmenn inni á löggjafasamkundunni. Árangur sem var framar öllum vonum.

En hvað svo? 

Traust

2/3 hlutar þjóðarinnar vantreystir pólitíkusum. Jafnvel stærri hluti þjóðarinnar treystir ekki alþingi. Við höfum rætt það mikið í aðdraganda kosninganna hve traust er mikilvægt. Traust milli manna er á þrotum víðast hvar út um samfélagið. Þjóðin öll er orðin vænisjúk af allri spillingunni og lái henni hver sem vill.

En það verður samt að skapa traust.

Eitt af verkefnum Borgarahreyfingarinnar er að vinna að því inni á alþingi að skapa traust milli þjóðar og þings og traust milli manna. Byggja brú fyrir þjóðina inn á þing. Það þýðir ekki nema eitt. Allir, bæði  þingmenn og félagsmenn í Borgarahreyfingunni verða að geta treyst hverjir öðrum. Öðruvísi getum við ekki ætlast til þess að kjósendur treysti okkur.

Það er mín skoðum að kjósendur hafi merkt x við O vegna þess að þeir treysta Borgarahreyfingunni til góðra verka. Við verðum þess vegna að róa að því öllum árum að treysta hreyfinguna innbyrðis.

Við verðum að búa okkur skipulag og innri strúktur til að lýðræði,  gagnsæi og heiðarleiki geti orðið stór hluti af þeim grunngildum sem við kjósum að starfa eftir.

Það er ekki boðlegt að fara í flokkadrætti innanbúðar og endurtaka síðan með tilbrigðum sögu Frjálslynda flokksins. Við erum lögð upp í vegferð sem við sjáum ekki fyrir hvert muni leiða okkur en förum bara fetið áður en við hleypum á skeið.

Vegferðin

Við erum með ómálga barn í höndunum og það er á okkar ábyrgð að koma því til manns.

Það eru fleiri verkefni sem bíða okkar. Sveitastjórnarkosningar að ári og víst er að mörg sveitarfélög eru gegnsýrð af spillingu og Borgarahreyfingin gæti vel sett sín lóð á vogarskálarnar þar ef henni byði svo við að horfa.

Ég hef fulla trú á því að við getum verið samstiga og haldið í þessa vegferð saman og í sátt með okkar góðu stefnumið að leiðarljósi. 

Það verður auðvitað alltaf ágreiningur um eitt og annað,  en það er einmitt til marks um þroska félagasamtaka og fólks almennt hvernig það tekst á við ágreininginn og leysir hann.

 Lokaorð

Borgarahreyfingin þarf  að sýna það í verki að hún standi fyrir réttlæti, lýðræði, gagnsæi og heiðarleika. Það er undir okkur öllum komið. Ef mig misminnir ekki þá hugðumst við innleiða hugtakið pólitísk ábyrgð. 

Ég er talsmaður þess að taka hér upp siðferðilega og pólitíska ábyrgð – ekki bara í orði heldur líka á borði.

Ég óska eftir stuðningi ykkar kæru félagar á auka aðalfundinum.

Góðar stundir.

Valgeir Skagfjörð, borgari. 

 

e.s. Svo legg ég til að verðtrygging verði aflögð hið fyrsta.


Láta hendur standa fram úr ermum

Hvar eru nú hvatvísu áhlaupamennirnir? Hvar eru nú allir sem vettlingi geta valdið? Hvernig stendur á því að nú þegar kosningar eru afstaðnar þá ætla menn bara að setjast niður í rólegheitum og kjafta sig gegnum hlutina á meðan atvinnulífið er við það að lamast og heimilum landsmanna blæðir smám saman til ólífis?

Það er eins og það sé brýnast af öllu að snúa einum stjórnmálaflokki frá villu síns vegar í Evrópumálum í stað þess að senda út skýr skilaboð til þjóðarinnar um að nú muni allt verða sett í gang til að koma hjólum atvinnulífsins í gang og hrinda í framkvæmd neyðaraðgerðum fyrir heimilin. 

Hvar eru skilaboð þess efnis að lækka stýrivexti?  Hér eru allir tilbúnir að sveifla haka, rækta nýjan skóg, spúla dekkin, moka flórinn, sópa frá útidyrum til að takast á við þá nýju tíma sem framundan eru. 

Nei - þess í stað segjast stjórnarflokkarnir ætla að taka sér nægan tíma í viðræðurnar til að ná að lenda Evrópumálinu.

Þetta má ekki ganga svona mjög lengi. Sumarþing verður að taka til starfa sem fyrst svo hægt sé að fara að vinna. Lóan er komin,  að kenna okkur að vaka og vinna og nú þýðir bara ekkert að setja allan fókus á ESB það eru brýnni mál uppi á borðinu sem þarf að leysa. 

Það færi vel á því að Borgarahreyfingin, nýja aflið á alþingi setti fram þá tillögu að stytta sumarfrí þingmanna svo þeir geti farið í það strax að vinna með fólkinu að því að reisa landið við. 

Það er ekki boðlegt að láta þjóðina bíða eftir því að Jóhönnu og Steingrími J. þóknist náðarsamlegast að láta okkur vita af því að búið sé að finna lendingu í ESB málinu.  Þótt það mál sé ef til vill mikilvægt upp á framtíðaráform að gera en það verður að grípa til aðgerða hérna heima eigi síðar en STRAX! 

Þjóðin hefur þurft að sætta sig við yfirgengilega hrokafulla framkomu í tíð fráfarandi ríkisstjórnar og ég hélt satt að segja að nú væri loksins að hilla undir að við fengjum stjórn sem kæmi fram við almenning af virðingu, en ég sé ekki betur en að sami leikurinn sé að fara í gang. 

Sannleikurinn settur á bið. ESB gert að aðalatriði á meðan atvinnulífið og almenningur sekkur hægt og bítandi ofan í kviksyndið. Krónan verður áfram jafn eftirsótt og vígt vatn í helvíti. Fjármagnseigendum hlíft eins og kostur er. Skuldirnar hlaðast upp. Almenningur veit ekki sitt rjúkandi ráð og við sjáum stefna í örvæntingu fólks sem er að missa allt sitt og er tilbúið til að gera hvað sem er til að bjarga sér eða það hreinlega gefst upp. 

Nú verða þeir sem hafa lifað hér í vellystingum praktuglega árum og áratugum saman að taka þátt í þessu samfélagi okkar. Auðjöfrarnir sem léku sér með fjármagnið eins og spilapeninga verða að sjá sóma sinn í að hjálpa við endurreisnina og hætta að leika fórnarlömb. Allt upp á borð. Við fyrirgefum ef sýnd er iðrun og yfirbót. Nú er ekki tíminn til að leggjast í skotgrafir og benda á hina.

Aldrei var meiri þörf en núna fyrir að hætta í leiknum ,,ég hef rétt fyrir mér - þú hefur rangt fyrir þér".

Nú auglýsi ég eftir góðum hugmyndum.  Almenningur þarf að stofna hugmyndaráðuneyti og svo felum við þingi og ríkisstjórn að hrinda bestu hugmyndunum í framkvæmd. 

Þetta reddast ekki fyrir Evruna og ESB þetta mun reddast þrátt fyrir Evruna og ESB. Núna  verður að koma almenningi til bjargar. 

HRAÐAR HENDUR! ÞAÐ ER VERK AÐ VINNA! 

Valgeir Skagfjörð, borgari. 

 

e.s.  Verðtrygginguna burt. NÚNA! 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband